Leita í fréttum mbl.is

Kirkja og kynhneigð

Kirkjan ætti að vera þakklát fyrir að enn skuli vera til fólk sem telur það skipta máli fyrir sig að persónulegir sáttmálar þess í millum skuli helgaðir trúnni.

Í mínum huga er trú eitthvað sem hver og ein manne sk ja á við sitt eigið sjálf. Trú er persónuleg afstaða einstaklingsins til lífsins, heimspeki, siða, hugmynda um tilveruna og hlutverk manneskjunnar í henni. Trú byggist á vilja manneskjunnar til að gangast undir ákveðna hugmynd sem henni er að skapi og samrýmist viðhorfum hennar til lífsins. Í hugtakinu trúfrelsi felst það að hver og einn eigi rétt á því að fylgja þeirri trú sem hann aðhyllist - eða ekki. Manneskjan hlýtur því að eiga jafnan rétt til þess að vera trúlaus, telji hún sig ekki hafa þörfina fyrir að aðhyllast ákveðinn sið.

En mannfólkið er misjafnt - sem betur fer. Við erum ekki öll eins, og sumir lofa einmitt guð sinn fyrir fjölbreytileika sköpunarverksins. En burtséð frá hugmyndum okkar um sköpunarverkið og höfund þess, er staðreyndin sú að við erum mismunandi í öllu tilliti - líkamlega, andlega, félagslega, hugmyndalega, útlitslega, hvort sem það er "af völdum sköpunarverksins" eða af öðrum ástæðum. Vilji er til þess í samfélaginu að sú grundvallarhugmynd sé virt að allir einstaklingar séu jafnréttháir án tillits þess sem greinir þá að. Sumir eru trúaðir, sumir eru samkynhneigðir, sumir hvort tveggja. Trúfrelsi tryggir að sá trúaði hafi rétt á því að rækta sína trú skv. 63. grein stjórnarskrárinnar, og 65. grein stjórnarskrárinnar á að tryggja að þeim gagnkynhneigða sé ekki mismunað á grundvelli kynhneigðar sinnar. Á milli þessara tveggja greina stjórnarskrárinnar er 64. greinin, sem kveður á um að enginn megi missa af borgaralegum og þjóðlegum réttindum fyrir sakir trúarbragða sinna.

Þessi klausa hlýtur að vera meingölluð, því samkvæmt öðru, ætti að vera tekið fram, að enginn megi missa af borgaralegum og þjóðlegum réttindum - ekki bara fyrir sakir trúarbragða sinna, heldur einnig: "...án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti," eins og það er orðað í mannréttindagreininni, þeirri 65. Ef 65. greinin er gild, ætti 64. greinin að fela í sér að engir mættu missa af borgaralegum og þjóðlegum réttindum.

Það efast enginn um að það séu bæði borgaraleg og þjóðleg réttindi hvers og eins að ganga í hjónaband - án tillits til trúarbragða. En hvers vegna eru það ekki réttindi hvers og eins að ganga í hjónaband - "...án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti?" Það þarf að afnema öll tvímæli um þetta.

Þjóðkirkjan er ekki tilbúin til þess að gefa samkynhneigða saman í hjónaband. Þar er kirkjuleg hjónavígsla samkynhneigðra ekki á dagskrá að svo stöddu. Hvað með kirkjulega hjónavígslu tvíkynhneigðra - sem gætu verið af báðum kynjum?

Meðan kristna evangelísk-lútherska kirkjan er þjóðkirkja er vissulega spurning hvort það séu ekki stjórnarskrárbrot að neita að gefa fólk saman á grundvelli kynhneigðar. Þjóðkirkja hlýtur að þurfa að lúta stjórnarskrá þjóðarinnar. Í deilunni um réttindi samkynhneigðra er hjónabandið og "eðli" þess orðið að kjarna umræðunnar.

Steinunn Jóhannesdóttir lýsir þeim áhyggjum í grein sinni hér í blaðinu fyrir skömmu að fyrirhuguð aukin réttindi til handa samkynhneigðum - að fá að ganga í hjónaband að kristnum sið - jafngildi kröfu um að hjónabandið sem hinn forni sáttmáli karls og konu um fjölgun mannkyns verði lagður niður, og vonar að það sé ekki markmið breytinganna. Auðvitað er það ekki markmið breytinganna. Markmið þeirra virðist í raun snúast um það hvort þjóðkirkjunni líðist að virða ekki stjórnarskrárvarinn rétt samkynhneigðra til trúar. Samkynhneigðir eiga sín börn eins og aðrir - og það gera líka einstæðir foreldrar, án þess að þjóðkirkjan amist við. Hugmyndir Steinunnar um hjónaband manns og konu á trúarlegum stalli hljóma ótrúlega forneskjulegar í þeim raunveruleika sem fólk býr við í dag. Ástin lifir, og þar með löngun fólks til að deila lífi sínu með annarri manneskju - eða manneskjum; og hugsanlega að geta afkvæmi. Að kirkjan í nafni trúarinnar ætli sér einhvern eignarrétt á heitum og sáttmálum milli einstaklinga, er öfugsnúið í samfélagi þar sem hjónaband manns og konu hefur ekki lengur neinn sérstakan sess umfram annars konar sambönd og ekki sambönd, sambúð og samvistir. Kirkjan ætti hins vegar að vera þakklát fyrir að enn skuli vera til fólk sem telur það skipta máli fyrir sig, að persónulegir sáttmálar þess í millum skuli helgaðir trúnni.

Flestir samkynhneigðir hafa til þessa verið skírðir til kristinnar trúar - þrátt fyrir samkynhneigð, svo sem skiljanlegt er - og fermdir, og verða jarðsungnir frá kirkjum til eilífs lífs ?? þrátt fyrir samkynhneigð sína. Hvers vegna þá bara hjónabandið? Auðvitað læðist að manni sá grunur að það sé vegna þess kirkjan sjái einhvern "kynferðislegan óhugnað" í ástum samkynhneigðra einstaklinga - eitthvert "óeðli" andspænis göfugu og upphöfnu "eðli hjónabandsins".

Eðlilegast væri auðvitað að skilja að ríki og kirkju, og þar með væri búið að aftengja þessa umræðu í eitt skipti fyrir öll. Umræðan í dag finnst mér knýja á um að svo verði sem fyrst. Kirkjan yrði þá starfrækt eins og hver annar félagsskapur sem fólk gæti sótt í eða hafnað að vild. Kirkjan hefði þá líka fullan rétt á því að vera jafníhaldssöm og forpokuð og hún sjálf kýs.

Bergþóra Jónsdóttir, begga@mbl.is

Viðhorf, birt í Morgunblaðinu 27. janúar 2006.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Bergþóra Jónsdóttir
Bergþóra Jónsdóttir

Spurt er:

Á að aðskilja ríki og kirkju?
Er flokkakerfið úrelt?

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 36
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 34
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband