Leita í fréttum mbl.is

Stríðsógn

"Nú er komið á daginn að stuðningur Bandaríkjamanna við herforingjana í Chile var hrein hneisa og sá sem þeir komu til valda, liðsforinginn Augusto Pinochet, hreint og klárt ótæti með hundruð mannslífa á samviskunni."

Í dag er 11. september. Ég er satt að segja búin að kvíða þessum degi í heilt ár. Hver gerir það svosem ekki við tilhugsunina um þann hrylling sem við upplifðum fyrir réttu ári? En ég kveið ekki bara þessum degi, heldur öllu framhaldinu, og þeim átökum sem strax mátti búast við í kjölfarið. Þau létu ekki á sér standa. Innrás í Afganistan, hatrammara stríð milli Ísraelsmanna og Palestínumanna en nokkru sinni fyrr, og nú yfirvofandi innrás Bandaríkjamanna í Írak.

11. september var ráðist á vinaþjóð okkar, sem var fljót að benda á að árás á hana væri líka árás á okkur. Það var líka rétt. Árás á Bandaríkin var árás á alla þá sem enn binda vonir við að þessi vesæli heimur okkar geti skánað og að miskunnarlaus dráp á saklausu fólki séu óþolandi og óréttlætanleg.

En ég er ekki svo gleymin að muna ekki hverjir töldu sig til bestu vina Íraka fyrir fáeinum árum, þegar óvinirnir voru aðrir. Þá sáu Bandaríkjamenn fulla ástæðu til að stofna til vinskapar við Saddam Hussein og skaffa honum þau vopn sem hann þurfti til að verjast Írönum. Því stríði lauk og valdajafnvægið breyttist. Saddam Hussein var ekki lengur vinur, heldur hugsanlegur óvinur. Eftir stendur að Bandaríkjamenn stóðu sannarlega ekki öðrum þjóðum að baki í því að skaffa Saddam Hussein vopn þegar það hentaði.

Fyrir örfáum dögum fullyrti fyrrverandi vopnaeftirlitsmaður Sameinuðu þjóðanna í Írak og fyrrverandi landgönguliði í bandaríska hernum á CNN-fréttastöðinni, að ekkert benti til þess að Írakar hefðu búið til eða væru í þann veginn að búa til gereyðingarvopn. Vel má vera að það sé tómt plat, en það má líka vel vera að það sé satt. Það get ég ekki vitað. En Bandaríkjaforseti heldur þó áfram að hamra á þeirri stríðsógn sem af Írak stafar. Það er nauðsynlegt að ráðast á Írak og koma Saddam Hussein frá völdum. Það dettur varla nokkurri manneskju í hug að Bandaríkjunum geti stafað hernaðarógn af Írak. En með innrás í Írak myndu Bandaríkjamenn eingöngu sanna fyrir umheiminum einu sinni sem oftar, - að sú þjóð sem öðrum stafar mest stríðsógn af eru einmitt Bandaríkjamenn. Þeir hafa verið öðrum örlátari á fé; - og vopn, þegar þeir hafa talið hagsmunum sínum ógnað, og sitja uppi með óleysanlega hnúta fyrir vikið, eins og deilurnar milli Palestínumanna og Ísraela, sem þeir hafa stutt með ráðum og dáð gegnum tíðina. Með því hafa þeir uppskorið hatur og fordæmingu meðal araba, hatur sem maður sannast sagna óttast að geti enn og aftur brotist út í skelfingum á borð við árásirnar á Bandaríkin í fyrra. Hvað myndi innrás í Írak þýða? Það er ljóst að stuðningur við fyrirætlanir Bandaríkjamanna er vægast sagt dræmur meðal þeirra þjóða sem þeir hafa leitað til, þótt eitthvað hafi hann aukist síðustu daga. Þjóðir heims eru augljóslega ekki á því að brýnasta verkefni á jörð sé að koma Saddam Hussein frá, enda hafa þeim ekki verið sýndar sannanir fyrir því að af honum stafi sú ógn sem Bandaríkjamenn vilja vera láta. Og hvað svo? Hvers konar stjórnarfari á að koma á í Írak og ætla Bandaríkjamenn að taka að sér að byggja landið upp eftir langvarandi örbirgð þjóðarinnar í kjölfar viðskiptabanns? Síst myndi ég sakna Saddams Husseins. Hann er óþverrapési sem hefur ekki hikað við að beita vopnum gegn eigin þjóð. En það yrði hreint glapræði með ófyrirsjáanlegum ófriði í heiminum ætluðu Bandaríkjamenn sér að koma honum frá á eigin spýtur. Innrás í Írak yrði ávísun á enn meira hatur í garð Bandaríkjamanna og hryðjuverk sem fyrst og fremst myndu bitna á saklausu fólki. Og hryðjuverkastríð er ófyrirsjáanlegt, og langt í frá það sama og "venjulegt" stríð, og varnir í slíku stríði bæði veikar og vonlitlar. Hættan er auðvitað sú að hryðjuverk myndu fyrst og fremst bitna á Bandaríkjamönnum. Þótt tekist hafi að koma ógnarstjórn talibana í Afganistan frá völdum er stríðsrekstri þar í landi hreint ekki lokið, og ekki útséð um að innrás í landið hafi verið "farsæl". Osama bin Laden gengur enn laus, og gæti vel verið að skipuleggja sitt næsta stríð. Það er heldur ekkert sem bendir til þess að Bandaríkjamenn og stuðningsmenn þeirra í innrásinni hafi uppskorið einhverja sérstaka velvild íbúa í Afganistan fyrir vikið, síður en svo. Það er ótalmargt sem mælir gegn innrás í Írak, ekki síst heill bandarísku þjóðarinnar sjálfrar og orðspor ráðamanna hennar á alþjóðlegum vettvangi. Sú bandaríska þjóð, sem allur heimurinn sýndi samúð og samkennd fyrir ári, þegar hún gekk í gegnum mikla sorg, þarf að vakna af þyrnirósarsvefninum og spyrja hvað hún vill og velta því fyrir sér hvort stöðugar íhlutanir í málefni annarra þjóða séu henni virkilega til heilla.

Í dag er 11. september. Þennan dag fyrir 29 árum studdu Bandaríkjamenn vopnað valdarán í Chile og steyptu lýðræðislega kjörnum forseta landsins, Salvador Allende, af stóli. Nú er komið á daginn að stuðningur Bandaríkjamanna við herforingjastjórnina í Chile var hrein hneisa og sá sem þeir komu til valda, liðsforinginn Augusto Pinochet, hreint og klárt ótæti með hundruð mannslífa á samviskunni.

Ekkert réttlætir stríð og dráp á saklausu fólki, hvort sem það er í Afganistan, Írak, Palestínu, Ísrael, Chile, - eða Bandaríkjunum. Það er hins vegar orðið löngu tímabært að þeir sem valdið hafa og burði til að beita því með vopnum ígrundi afleiðingarnar vandlega áður en lagt er af stað, og gleymi ekki að sök bítur sekan.

Eftir Bergþóru Jónsdóttur begga@mbl.is

Viðhorf, birt í Morgunblaðinu 11. september, 2002.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Bergþóra Jónsdóttir
Bergþóra Jónsdóttir

Spurt er:

Á að aðskilja ríki og kirkju?
Er flokkakerfið úrelt?

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.3.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 10
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 7
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband