Leita í fréttum mbl.is

Hið óvænta

Fæst okkar vilja lifa lífinu þannig að það líði hjá án þess að nokkuð markvert gerist, en vonum samt að x-faktorinn færi okkur bara happ, ekkert vesen.

Áramót eru tímamót - tímamót marka skil í tíma. Það er augnablikspása - þessu ári lýkur og næsta ár hefst. Skilin eru eins og svolítið hlé á tónleikum eilífðarinnar, þar sem maður getur velt því fyrir sér hvernig til hefur tekist fram að hléi og látið sig hlakka til þess sem koma skal - eða kviðið fyrir, eftir atvikum. Maður veit svona sirka hvernig prógrammið verður, og gerir ráð fyrir að allt gangi sinn vanagang að vanda; börnin, námið, vinnan, vinirnir, fríin; svo framarlega sem ekkert óvænt kemur upp á; x-faktorinn.

X-faktorinn - þetta óvænta - er í senn það sem skelfir okkur mest og það sem mesta gleði getur veitt. Í mínum huga snúast áramót svolítið um x-faktorinn; að maður leyfi sér að velta honum fyrir sér, eitt augnablik.

Fæst okkar vilja lifa lífinu þannig að það líði hjá án þess að nokkuð markvert gerist - en við vonum samt að x-faktorinn færi okkur bara happ, ekkert vesen. "Svo framarlega sem ekkert óvænt kemur upp á..." í þeim orðum felst vonin um að allt verði slétt og fellt, en um leið ótti við það sem gæti gerst. Og hræðilegir hlutir geta gerst - og gerast. Flestar manneskjur lenda í ýmiss konar hremmingum einhvern tíma á lífsleiðinni. Annarra manna hremmingar eru líka daglega uppi á borðum hjá okkur sjálfum - en okkur er í sjálfsvald sett hvort við lokum augunum fyrir þeim eða ekki. Sumir eru svo næmir að annarra manna hremmingar verða ósjálfrátt þeirra eigin. Við finnum til með meðbræðrum okkar - mismikið þó.

Vinkona mín hefur þann hátt á að vera með eins konar eftirmála í tölvupóstinum sínum. Eina litla setningu til að ígrunda - ef maður tekur eftir henni á annað borð. Ég veit ekkert hvar hún fann setninguna en hún er svona: "Láttu hvaðeina sem mætir þér vekja þér jákvæð og skapandi viðbrögð." Manni þætti það að líkindum viðeigandi að hafa þessa setningu eftir ef x-faktorinn kæmi til manns í formi happdrættisvinnings eða annars álíka happs. En hver yrði raunin ef x-faktorinn væri eitthvað sem virtist óbærilegur harmur? Er hægt að taka á lífsins óvæntu hremmingum með sama hugarfari?

Þegar maður spyr sig að því er maður í raun og veru að spyrja sig þeirrar grundvallarspurningar, hvort viðhorf manns til lífsins taki mið af jákvæðni eða neikvæðni. Það er erfitt að sannfærast um að dýpstu raunir verði nokkurn tíma yfirstíganlegar. Þó er það svo, þegar grannt er skoðað, að höfundur harmsins er gleðin og höfundur sorgarinnar er kærleikurinn. Ég ætlast ekki til að þetta hljómi sem mærðarlegt prestshjal úr stól. En er það ekki einmitt vegna jákvæðu kraftanna sem umlykja okkur sem við upplifum önnur öfl sem neikvæð? Og er þá ekki líka hugsanlegt að í erfiðleikunum, sem stundum sækja okkur heim, finnum við styrkinn og kjarkinn.

Ég held að við getum sjálf ráðið nokkru um það hvernig okkur tekst til í viðureigninni við x-faktorinn, þegar hann knýr dyra. Ég held að besta leiðin sé að láta jákvæðu lífssýnina ráða, njóta þess sem manni finnst gleðilegt í lífinu, lifa í sátt við þá manneskju sem maður er og gleyma því aldrei hvað kærleikurinn er öflugur í atlögunni við x-faktorinn. Hjá flestum okkar er það daglegt viðfangsefni að reyna að skána aðeins, stundum þó nógu erfitt til þess að maður fer að tuða eitthvað í eigin barm. Svo sér maður fólk takast á við svo risavaxin verkefni af svo mikilli reisn að manni fallast algjörlega hendur. Thelma Ásdísardóttir og Anna Pálína Árnadóttir finnst mér dæmi um slíkar hetjur. Með jákvæðu og skapandi hugarfari tókust þær á við x-faktor af illu gerðinni og fundu í honum uppsprettu innri friðar og kærleika sem þær miðluðu til okkar hinna.

John Lennon spurði: "So this is Christmas, and what have you done? Another year over, and a new one just begun." Ætlum við að láta annað ár líða hjá, án þess að gera nokkuð til að bæta sjálf okkur, bæta umhverfi okkar, bæta heiminn? Ég vona að sú kenning mín reynist rétt að með því að takast á við frýjunarorð Lennons verðum við um leið færari til þess að glíma við x-faktorinn, hvort sem hann færir okkur happ eða harma.

Ung stúlka efnir um þessar mundir til tónleika til að styðja fórnarlömb jarðskjálfta úti í heimi; krakkar á Egilsstöðum buðu nágrönnum sínum góðverk fyrr í vetur; maður í Breiðholti býður öldruðum ömmusystrum sínum í kaffi, kona í austurbænum knúsar krakkana sína, maður á Vitastíg hugsar hlýtt til frænku sinnar í Ameríku. Frábært. Samt snýst þetta ekkert endilega um að gera góðverk - þetta snýst fyrst og fremst um jákvæða hugarfarið. Fólk safnar kærleiksprikum með ýmsu móti og hver og einn verður að hafa sinn hátt á. Kærleiksprikin, stór og smá, eru besti viðlagasjóðurinn, og þar eru vextirnir háir. Ég hef trú á því að þokkalega innstæða í þeim sjóði komi sér ekki síður vel, ef x-faktorinn kemur í formi happs. Ég held að happið verði drýgra ef því er fagnað með jákvæðu og skapandi viðhorfi.

Kannski finnst einhverjum það asnalegt að reyna að tjasla eitthvað upp á sjálfa sig og heim sem er fullur af misindi. Og kannski finnst einhverjum jákvætt hugarfar til marks um skoðanaleysi og bitleysi. Dæmin í kringum okkur benda þó miklu frekar til þess að í jákvæðni og kærleika felist styrkur, kjarkur, og sá innri friður sem allir hljóta að þrá.

Bergþóra Jónsdóttir, begga@mbl.is

Viðhorf, birt í Morgunblaðinu 30. desember, 2005.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Bergþóra Jónsdóttir
Bergþóra Jónsdóttir

Spurt er:

Á að aðskilja ríki og kirkju?
Er flokkakerfið úrelt?

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.3.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 10
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 7
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband