Leita í fréttum mbl.is

Kynveran Solla

Telpan er gerð að konu, og glatar þar með æsku sinni, og konan er gerð að glyðru og tapar þar með frelsi sínu til að vera sú kynvera sem hún sjálf kýs.



Umræða um kynferðislegt ofbeldi gegn börnum hefur verið talsverð að undanförnu. Auglýsingaherferð Blátt áfram og Ungmennafélags Íslands hefur vakið athygli og umtal, og síðasti Kompássþáttur á fréttastöðinni NFS hefur vakið fólk til umhugsunar.

Í auglýsingunum sjást krakkar lýsa skoðunum sínum á því hvað fullorðið fólk má ekki gera við þá. Þær eru nokkuð áhrifamiklar.

Í Kompási var hins vegar sett upp gildra á einkamálavef, þar sem þrettán ára stúlka kynnti sig og óskaði eftir kynnum við karlmenn. Það stóð heima, að tugir karlmanna settu sig í samband við stúlkuna, þótt ungur aldur hennar dyldist engum. Leikurinn var spunninn áfram og kom í ljós að fjórir karlmenn sem ákveðið var að halda sambandi við, fyrir hönd stúlkunnar, voru meir en fúsir að hitta hana til ástarfunda, þótt hún ítrekaði í samtölum sínum við þá, að hún væri aðeins þrettán ára.

Það þarf ekki að orðlengja þá sögu, svo sorgleg sem hún er.

Í þættinum kom fram að 17 prósent íslenskra barna, fimmta hver stúlka og tíundi hver drengur verða fyrir kynferðislegri misbeitingu fyrir 18 ára aldur. Ekki kom fram hvers vegna tvöfalt fleiri stúlkubörn lenda í slíkum háska, en það er rannsóknarefni út af fyrir sig. Aðeins þrjú prósent tilfella eru kærð til lögreglu, en ekki kom fram í þættinum hve margar kærur leiða til formlegrar ákæru dóms. Það er sorgleg staðreynd að þær eru allt of fáar.

Þau vöktu sérstaka athygli mína í Kompássþættinum, orð sem höfð voru eftir fyrrverandi yfirlækni á neyðarmóttöku vegna nauðgana. Hann sagði að hefðbundið siðgæði og gildi í uppeldi barna ættu undir högg að sækja gagnvart tísku sem væri mjög ágeng og nærgöngul og reyndi að breyta börnum í kynverur áður en þau verða fullþroska.

Þessi ummæli læknisins ríma fullkomlega við frábæra grein eftir Ágústu Johnson sem birtist hér í blaðinu 17. febrúar. Þar talar Ágústa um brenglaða staðalímynd stúlkna og kvenna, og segir hennar gæta allt niður í 7-8 ára aldur.

Ágústa segir: "Hið eftirsótta útlit ungra kvenna snýst ekki aðeins um það að verða ofurmjóar, heldur einnig um það að vera sem mest kynæsandi! Sýna allar línur, brjóstin hálfber, g-strengurinn upp úr, ber magi með gat í nafla o.s.frv." Hún sakar fyrirmyndirnar, þann litla hluta kvenna heims sem lifa og hrærast í heimi tískunnar, um að vera ekki aðeins vondar fyrirmyndir, heldur óraunhæfar. Ágústa spyr hvort foreldrar hafi brugðist í uppeldinu, og hvort almennur skortur sé á sjálfsvirðingu hjá ungum stúlkum í dag.

Ég held að hvort tveggja geti verið rétt, en myndi seint treysta mér til að draga ungar stúlkur einar til ábyrgðar á því sem kann að virðast skortur á sjálfsvirðingu. Meinið er að mínu mati dýpra og rótgrónara en svo.

Það er staðreynd, að í verslunum í Reykjavík, fást nærföt á litlar telpur sem líta út eins og nærföt fullorðinna kvenna. Ullarbolur, bómullarbolur utanyfir og vænar bómullarnærbuxur, eru ekki tíska dagsins í dag fyrir stúlkur, heldur haldlitlar hýjalínsdulur: g-strengur og uppstoppaður brjóstahaldari. Þannig lítur barnið auðvitað út eins og fulltíða kona - með barm þótt enginn vísir að barmi sé fyrir. Og merkilegt nokk, þetta virðist seljast. Eru það ömmur og afar sem kaupa slíkan klæðnað á barnabörnin - eða eru það foreldrar? Varla eru það börnin sjálf. Það er líka staðreynd að í verslunum hér hafa sést flíkur á telpur með áprentunum á borð við: prostitute in training og kiss my ass.

Slík klámvæðing gerir út á konulíkamann - gerir hann að markaðsvöru. Ekki bara með því að hann sé beinlínis sjálfur markaður fyrir milljarðabisness útlitsdýrkunarinnar sem Ágústa nefndi, heldur er hann sjálfur söluvara. Kynþokki er söluvara.

Telpan er gerð að konu, og glatar þar með æsku sinni, og konan er gerð að glyðru og tapar þar með frelsi sínu til að vera sú kynvera sem hún sjálf kýs. Það fallegasta, eðlilegasta og besta í samlífi fólks, kynlífið, er dregið niður í fúlan peningapytt og markaðsmykjuhaug. Og dapurlegt er að við erum að verða ónæm fyrir ósköpunum.

Það er ömurleg staðreynd að Ríkisútvarpið, í eigu okkar allra, og með þátttöku okkar allra, skuli enn ýta undir klámvæðinguna og styrkja hana í sessi, með því að velja árlega kynþokkafyllsta fólk landsins. Allir eru á framboðslistanum, hvort sem þeim líkar betur eða verr. Í fyrra varð fjaðrafok vegna þess að sú sem hlaut titilinn kynþokkafyllsta konan, kærði sig ekkert sérstaklega um að verða þessa tvíræða heiðurs aðnjótandi. Í verðlaun voru hjálpartæki ástarlífsins og fleira.

Enn var þessi keppni haldin á dögunum, og kom sjálfsagt engum á óvart að leikritið Silvía Nótt skyldi sigra. Ber það ekki merki um firrt veruleikaskyn okkar í ljósi þess að Ágústa Eva Erlendsdóttir skyldi svo hreppa fjórða sætið. Ef ekki þá er það örugglega til marks um algeran sofandahátt okkar og andvaraleysi - eða á ég kannski bara að kalla það okkar eigin samsekt, að Solla stirða - ímynd heilbrigðrar og góðrar telpu skyldi valin í áttunda sæti í þessu fáránlega vali, sem er útvarpinu til skammar. Hvaða brenglun er hér í gangi? Hafi það verið börn sem kusu Sollu kynþokkafyllstu konuna er það í sjálfu sér hryllingsfrétt. Hafi fullorðnir gert það, finnst mér þeir ekkert betri en karlarnir fjórir í Kompási.

Bergþóra Jónsdóttir (begga@mbl.is)

Viðhorf, birt í Morgunblaðinu 24. febrúar 2006.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Bergþóra Jónsdóttir
Bergþóra Jónsdóttir

Spurt er:

Á að aðskilja ríki og kirkju?
Er flokkakerfið úrelt?

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.3.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 10
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 7
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband