Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2007

Slava

Sit og hlusta á Söngva og dansa dauðans eftir Mússorgskíj, með Galínu og Slava við píanóið. Þar var hann ekki síður snillingur en á sellóið.  Mstislav Rostropovitsj var gegnheill listmaður sem gerði heiminn betri.

Einkennilegt að í frétt Reuters á mbl.is, af útför listamannsins skyldi nafn konu hans, Galínu Vishnévskaju ekki nefnt á nafn, hvað þá að hún væri sömuleiðis einn af mestu listamönnum okkar tíma.  Einkennilegt.

Ævisaga Galínu er skyldulesning.  Hún heitir einfaldlega Galína og kom út í íslenskri þýðingu á níunda áratugnum.  Þar segir hún frá stórbrotinni ævi, hvernig hún þraukaði umsátrið um Leningrad með ömmu sinni, nær hungurmorða; frá Stalín og öðrum stjórnmálamönnum sem ýmist elskuðu hana eða hötuðu; frá ástinni á Slava; frá Prokoffijev, Sjostakovitsj og Solzhenitzyn; flóttanum frá Rússlandi og svo mörgu öðru.

Fáar ævisögur ef nokkur, hafa hrifið mig líkt og þessi.     


mbl.is Rostropovítsj látinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hópsálir og hugsjónir

Er þetta pólitíska fyrirkomulag okkar að vera með þessa hundleiðinlegu stjórnmálaflokka ekki löngu úrelt? 

Er eitthvað spennandi í þessu?  Eitthvað virkilega krassandi, sem talar til mín?

Jú, kannski sumt sums staðar, en ekkert nógu bitastætt til þess að mér finnist það þess virði að hengja mig í gálgann.

Semsagt:  Nei

Flokkur með eina skoðun, allir saman nú, einn tveir þrír - hópsál - æ það er svo þreytt.

Svo hefur maður alltaf á tilfinningunni að þeir sem djöflast mest innan flokkanna séu fyrst og fremst að baða egóið, langi í völd, og að koma sjálfum sér áfram.

Og að því sögðu, af hverju er alltaf þessi rosalega skítalykt af öllu sem snertir Framsóknarflokkinn? Af hverju liggur hann alltaf undur grun um eitthvert óþolandi valdabrask?  Og hvað með Pál Magnússon í Landsvirkjun?  Það hljómar eins og hvert annað strákagrín.  Er þessi maður einhver sérfræðingur í orku- og virkjanamálum?  Varla, þótt hann kunni að hafa lesið sig til um eitthvað í einhverjum ráðuneytisskýrslum.

Og hvað er Árni Johnsen að gera í pólitík?  Það er nú ekki einu sinni hægt að kalla það strákagrín - maður verður bara dapur við tilhugsunina um að hann komist í valdastöðu aftur.

Hvers vegna í ósköpunum er verið að gera kostnaðarsama samninga um varnir landsins á friðartímum?  Væri ekki nær að gera samninga um varnir landsins á striðstímum?   

Ég vil sjá þetta breytast - í grundvallaratriðum.

Ég er hundleið á þessu liði sem hefur engan eld í hjarta og hefur aldrei haft - eða hefur leyft honum að slokkna í baráttunni um völdin.  Það eru engir ástríðupólitíkusar til lengur.  Jú kannski, en þeir eru fáir, allt of fáir.

Ég vil fá að velja mér fólk sem ég treysti til að ráða ráðum mínum, ekki flokka.

Ég vil sjá ráðamenn sem ég veit að eru það af löngun sinni til umbóta, en ekki til að pota sjálfum sér áfram á nákvæmlega engum verðleikum. Skipta svo um flokka þegar þeir rekast á veggi.  Zero Verðleikar, kosningaslagorðið í ár.

Hvar er fólkið sem talar á mannamáli og af einhverri sannfæringu um þau gildi sem sem mér finnst skipta máli?

Eða er ég einhvers konar eintrjáningur hér á þessu landi?

Ég styð að sjálfsögðu framfarir á öllum sviðum, en af hverju talar enginn um nægjusemi?

Mér finnst allsherjargræðgi á öllum sviðum samfélagsins stærra vandamál en flest annað. Græðgin birtist reyndar í öllum okkar stærstu vandamálum.  Af hverju talar enginn um græðgina?

Hvaða endalausa bull er þetta um mjúkar eða harðar lendingar í efnahagskerfinu? Við hvaða fólk eru stjórnmálamenn að tala?

Af hverju tala svo fáir um umburðarlyndi, mannúð og kærleika?  Eða er kannski til nóg af því til hér?

Er ég eina manneskjan sem finnst þetta pólitíska þras fyrir kosningar algjörlega óþolandi? Tek það fram að ég tel mig rammpólitíska, og legg mig fram um að hlusta á þetta fólk, þótt það sé mér nánast óbærilegt.

Ómar Ragnarsson talaði gegn norskum heræfingum á Íslandi í Kastljósi í kvöld, hann fær prik fyrir það, og hann hefur sýnt að hann hefur kjark til að standa með sjálfum sér og skoðunum sínum.

Katrín Fjeldsted hefur alltaf verið í mínum huga rödd mannúðar og skynsemi og hún hefur sannarlega eld í hjarta og þorir að standa og falla með hugsjónum sínum.  Hún setur þær ofar eiginhagsmunum í flokknum sínum. Ég myndi kjósa hana til allra góðra verka. 

Pétur Tyrfingsson talar fyrir umburðarlyndi og mannkærleik á blogginu sínu  Hann er ekki ókunnugur pólitík, og ég myndi kjósa hann.

Edda Kjartansdóttir kennari og vinkona mín er líka efni í heimsins besta ráðamann, því hún er eldklár, skynsöm og er búin að komast að því hvað það er sem er mikilvægt í lífinu.  Edda hefur verið í sveitarstjórnarpólitíkinni. Ég vil hana sem forsætisráðherra, - ef ekki bara drottningu Íslands.  Ef menntað einveldi væri hér, væri Edda eina manneskjan sem ég gæti hugsað mér í djobbið.

Kolbrún Halldórsdóttir færi líka í liðið mitt, því hún er baráttukona og fylgin sér, á sér hugsjónir og hefur eld í hjarta.

Guðrún Pétursdóttir varð illu heilli ekki forseti. Bölvað vesen það.  Úr því ég fékk ekki að kjósa hana á Bessastaði, myndi ég vilja hafa hana í mínu ráðaliði.  Hún er skörungur með ráð undir rifi hverju.

Jú, svei mér þá, ég held að mér myndi takast að fylla stjórnrráð Íslands af góðu fólki ef ég hefði eitthvað um það að segja.

Mér er nákvæmlega sama hvort þetta fólk kallast hægri eitthvað eða vinstri eitthvað í dag, mér finnst þær skilgreiningar algjörlega steinrunnar og ekki í takt við tímann frekar en þjóðkirkjan.

Vel á minnst, - ég myndi setja Hörpu Njáls yfir þjóðkirkjuna.  Þar hefur hún starfað, auk þess sem hún er baráttukona fyrir réttindum samkynhneigðra.  Að sjálfsögðu yrði fátækt og örbirgð útrýmt í þessu landi með hana innanborðs.

Atkvæðið mitt er mér verðmætt.  En enn nálgast kosningar og mér dettur hreinlega ekkert betra í hug en prívatatkvæðið mitt - þetta auða, ef ekkert breytist.  Það er jú atkvæði líka.

Vildi nú samt óska þess að ég gæti nýtt það betur. 


Plön, plön, plön

Við erum búnar að ákveða að sunnudeginum ætlum við að eyða saman í Köben.  Fá okkur smörrebröd á Sorgenfri í hádeginu og horfa á flugeldana í Tívolí um kvöldið.  Þess á milli rölta um, fá okkur kaffi í Nýhöfn, labba strikið, kíkja í dýragarðinn og hafa það gott.  Ætlum svo að feta í fótspor Einars Ben. og Marilyn Monroe og sofa úr okkur þreytuna í Palace hótelinu við Ráðhústorgið.  Sennilega heilsum við líka upp á Margréti Þórhildi, því hún á afmæli þennan dag.

Gekk ég yfir sjó og land

Úlfhildur á LitlabeltisbrúnniAfrek dagsins var að ganga frá meginlandi Evrópu til dönsku eyjarinnar Fjóns.  Þetta gerðum við mæðgur í þeim tilgangi einum að fá okkur ís í bestu ísbúð Danmerkur.  Þetta var auðvitað heljarinnar labbitúr fyrir vinnudýr nýskriðið úr vetrardvala, en markmið ferðalagsins var auðvitað það göfugt að ekki kom til greina að gefast upp.  Það er ekkert smá gaman að vera aftur á flandri með krílinu sínu nýorðnu nítján ára, kjafta og borða ís.  Við erum góðar í því.

Hér er hún á brúnni og skólinn í Snoghøj í bakgrunni vinstra megin.


Á Jótlandi

Mikið er hún Danmörk dejlig. Ég er búin að komast að því hvað það er sem er rotið hér í ríki Margrétar Þórhildar. Það er gróðurinn frá í fyrra sem nú á í vök að verjast fyrir nýja lífinu sem vill upp - upp úr moldinni, upp úr iðrum gaiu, skríða upp trén, búa til laufþök, búa til knúppa, skrifa ilm í andrúmsloftið.  Fortíðin liggur hér út um allt úldin og rotin, lufsast um í vorgolunni í formi löngu dauðra laufblaða og gránaðs spreks.  Þetta var tvísýnt í gær, en ég held að nýja sumarið hafi náð vinningnum í dag.  Út um allt er ilmur af liljum og gardeníum, nýbrumuðum grátvíði og litlu hvítu blómunum á sumum trjánum hérna.  Þetta ER dejligt. 

Ég er ekki eins ánægð með fuglana hérna. Sumir eru jú prýðilegustu söngfuglar, sérstaklega finkan sem er eins og dvergvaxin maríuerla í útliti og býr í trénu fyrir utan gluggann hennar dóttlu minnar.  En það eru þessir sem eru eins og bilaðar blokkflautur í óðs barns höndum, sem eru skelfilegir.  Einn þeirra býr í sama tré og maríuerlingurinn og kæfir hans fagra söng með skerandi þríund sem hann endurtekur í sífellu í hroðalegu offorsi.  Það getur ekki verið að Schubert hafi nokkurn tíma heyrt í þessum furðufugli eins og hann elskaði þetta tónbil.  Það hljóta að hafa verið einhverjr saxneskir fagurgalar og gullingaukar sem kveiktu á þríundum Schuberts.

Ég á Jótlandi

Ég er í gulum kastala, ekki langt frá Frederecia, sem er dejligt þorp.  Sennilega bær.  Fredericia stærir sig af því að þangað séu allir velkomnir og að svo hafi verið lengi.  Það er meir að segja greypt í stétt aðalgötunnar í bænum á ótal tungumálum að þar eigi allir sér skjól, hvernig sem þér séu.  En ekki var þeim þó hlýtt til Saxanna sem ætluðu að taka borgina einhvern tíma á sautjándu öld, og Svíanna, sem vildu þangað líka, og byggðu sér virki til að verjast.  Virkið í Fredericia stendur enn í allri sinni dýrð, þótt bærinn hafi reyndar vaxið langt út fyrir virkisveggina.

Það sem heillar mig við Fredericia er hversu menning þar virðist standa með miklum blóma.  Það fyrsta sem maður rekur augun í þegar komið er í miðbæinn, er stór bókabúð, með góðu úrvali af bókum, - og líka bókum á erlendum tungumálum.  Þar er líka hægt að kaupa íslenskar bókmenntir þýddar á dönsku.  Á ská handan götunnar er önnur ekki síður glæsileg bókabúð.  Þær voru báðar fullar af fólki í gær.  Í dag skoðaði ég hins vegar bókasafnið í Fredericia, og það kom borgarbarninu úr heimsborginni Reykjavík auðvitað á óvart að sjá að Fredereciubókasafnið er miklu stærra og flottara en söfnin heima.  Barnadeildin er heil hæð, og þangað koma listamenn til að leika sér með krökkunum og skemmta þeim.  Tónlistardeildin var rosalega flott, og ótrúlegt úrval af tónlist, sérstaklega í klassík, djassi, blús og etnískri tónlist.  Ég sá ekki mikið af poppi, en fann loks í kvikmyndatónlistarrekkanum, gamla góða lagið úr dönsku myndinni Tango frá 1933 - En dag er ikke levet uden kærlighed. Boj ó boj, hvað ég hef leitað mikið að þessu lagi og í langan tíma.  Á þessu safni í sveitaþorpi í Danmörku er meira úrval af blúsplötum óg klassík en í stærstu plötubúð montborgarinnar Reykjavík.  Það var gaman að skoða þetta safn.  Annars var nú erindi mitt þangað að hafa upp á upplýsingum um spinderiet sem Ólafur afi minn lærði iðn sína við á árunum fyrir 1930.  Ég fann svosem ekkert merkilegt, en þykist vita hvaða spinnerí það var sem hann hlýtur að hafa lært við.  Það var Bloch & Andresen Spinderiet sem var hér allt í öllu þá.  Annars er líka erftirtektarvert í Fredercia hvað það eru margir skólar þar - alls konar sérskólar. Ég þarf að kanna betur með ferðir hans afa míns hér.

 

 


Ég skora á ykkur að svara!

Hvað er svona háðskt í þessari grein?  Að einhverjum vitleysingi úti í Ameríku finnist það fyndið að skjóta frekar okkur í tætlur en þjóðina sem stjórnmálaforingjar hans eru nú að undirbúa stríð gegn?

Ég skora á ykkur öll að svara þessari dellu og krefja ritstjóra Daily Princetonian um afsökunarbeiðni.  Það er hægt að gera með því að smella í "Respond to this article" fyrir neðan greinina sjálfa.

Hér er mitt litla letter til ritstjórans:

Regarding 'Bomb Iceland instead of Iran' (Monday, April 9, 2007):

Dear edtior of DailyPrincetonian.com

Could you explain to us little targets up here on which merits Mr. Uwe E. Reinhardt was appointed a James Madison Professor at the Wilson School?

You should seriously consider an apology to the Icelandic people for publishing such rubbish.  Or better yet, consider sending mr. Reinhardt to Iceland, for at least here we have hospitals for the mentally disturbed.

No wonder why the world has mixed feelings for the US foreign policy.  When will you learn that war is NOT fun and games? I thought you might have after 9/11, but I seriously wonder when a professor of political economy at a respected university so bluntly displays his twisted an perverse views on the world.

Bergthora Jonsdottir
Reykjavik,
Iceland

 


mbl.is Nær að sprengja Ísland en Íran
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Höfundur

Bergþóra Jónsdóttir
Bergþóra Jónsdóttir

Spurt er:

Á að aðskilja ríki og kirkju?
Er flokkakerfið úrelt?

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.3.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 10
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 7
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband