Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Frændi minn

Drengurinn fíni

Það var ekki löng bið eftir því að litla krílið hennar Siggu systur kæmi í heiminn.  Þetta gerðist hratt og örugglega og stór og pattaralegur snáði heilsaði foreldrum sínum fyrir miðnætti 18. apríl.   Ég samgleðst henni systur minni svo innilega, og nú finnst mér erfitt að vera ekki heima.  Kannski að ég sé bara búin að þrá þetta barn hennar meira en hún sjálf.  Varla - en víst er að það verður baðað í ást og umhyggju alla sína daga, og faðirinn, minn elskulegi mágur, Þórir Bragason, er efni í súperpabba.  Nú bíð ég bara eftir mynd af kútnum, - býst fastlega við því að hann sé nauðalíkur mér.

Begga


Síðasta rigningin

Í kirkjugarðinum

Það stóð í stjörnuspánni minni í morgun, að sama hversu laglaus ég væri, þá ætti ég að prófa hvernig það er að syngja hástöfum.  Sleppa öllum hömlum og bara syngja; - helst úti.  Það vildi svo til, að þetta var einmitt á dagskránni í dag.  Í dag 15. apríl er öld liðin frá fæðingu ömmu minnar og alnöfnu, og ég vildi gera það sem ég geri þegar ég er heima, - fara í kirkjugarðinn og syngja.  Ég rölti mér út í kirkjugarðinn, sem er bak við kirkjuna hér við litla torgið mitt.  Þessi kirkjugarður er óvenjulegur fyrir Íslending, - hér er hver einasta gröf steypt í marmara.  Þetta er eins og marmaraskógur hlaðinn blómum.  Ég fann á endanum leiði konu sem hafði fæðst 1906, hún hét Eleni, og fyrir hana söng ég Allt eins og blómstrið eina.  Þá kom ömmusyrpan, Máría ljáðu mér möttul þinn, Smávinir fagrir og Heyr himnasmiður.  Ég lét þetta duga, og vona að þær amma og Eleni hafi það gott í himnavistinni og bið Eleni forláts á því að ég hafi ekki kunnað neitt grískt.  Ég kann nú reyndar lagið um stjörnurnar, - fer kannski síðdegis og raula það ef textinn rifjast upp fyrir mér.

Í gær rigndi í fyrsta sinn eftir komu mína hingað, og vinkona mín á Scirocco fullyrti að það væri síðasta regn fyrir sumar.  Undarlegt að geta fullyrt svoleiðis, - en hún var viss - um þetta leyti hættir að rigna, og byrjar ekki aftur að rigna fyrr en í október, segir hún, og ég ætla að trúa því þar til annað kemur í ljós.  Það hefur verið næðingur síðustu daga, fyrir utan einn dag um daginn, þegar ég vaknaði við það að brast á með logni.  Samt er hlýtt, og stundum talsvert heitt.  Þetta eru góðir dagar.  Ég get ekki nógsamlega prísað það hvað ég var heppin að velja mér akkúrat þennan gististað.  Hótel Agios Georgios, eða St. George, er á langsamlega besta stað í bænum, - á ströndinni, þetta stutta spottakorn frá torginu, og örlítinn spöl frá höfninni.  Ég finn að á hafnarsvæðinu er meira gert út á ferðamennskuna, og kaffihúsin þar eru dýrari en hér uppá torginu mínu.  Hér er heimafólkið, og það gerir torgið svo sjarmerandi. 

Hér á netkaffinu er líka gott að sitja, og eigandinn, sem segist ekkert kunna á tölvur, enda sé hann bara fiskimaður, er vænn og skemmtilegur.  Hann segist vera heilli kynslóð eldri en ég, - af Bob Dylan kynslóðinni, fæddur '52, og ég hlæ innra með mér að því.  Þótt hann sé orðinn hvíthærður, er nú ekki langt í það að ég verði það sjálf, - ef ég er ekki bara orðin það.  Og ef hann bara vissi um ást mína á Dylan og Donovan og öllum þeim. Eftir nokkra daga hætti hann að rukka fullt verð fyrir tölvuafnotin, og ég fór að fá vænan afslátt.  Svo kom að því að hann sagði að ég mætti sitja hér frítt, - honum fyndist ómögulegt að láta síbrosandi Íslending, sem kominn er af fiskimönnum, vera að borga sér.  Mér fannst það ótækt, og á endanum gerðum við díl um að ég myndi sitja yfir ánum og passa staðinn ef hann þyrfti að skreppa frá á meðan ég væri hér og enginn annar starfsmaður tiltækur.  Þetta eru ekki slæm kjör, því hingað kemur skemmtilegt fólk.  Það er þannig á þessu netkaffi, að þótt hér séu tölvur í röðum og allt eins og vera ber á slíkum stað, - þá er fólk ekkert of upptekið af því að vinna á þær.  Fólk kíkir hingað inn til að spjalla - og þá gleymist tölvan á meðan.  Einn af fastakúnnunum hér er Panos.  Hann er silfursmiður - býr til skart úr silfri og steinum.  Á veturna smíðar hann hringa og skart í gríð og erg, og á sumrin opnar hann litlu búðina sína og selur ferðamönnum.   Þannig er líf margra hér.  Veturinn er notaður til að undirbúa sumarið.   En Panos festi strax auga á hringnum mínum sem Halla Boga smíðaði, og vildi fá að skoða.  Það var auðsótt.  Ég sagði honum að hringurinn hefði verið smíðaður sérstaklega fyrir mig, og honum fannst hann fallegur.  Hann bauð mér að koma í búðina sína, og næsta dag fór ég þangað að skoða.  Eins og allir hér er hann forvitinn um Ísland og hvað rekur Íslending í að takast á hendur ferðalag til að setjast upp á eynni Naxos.

Það er auðvelt að kynnst fólki hér - samræðulistin er ennþá í hávegum höfð, og góð tilfinning að labba heim á kvöldin og fá vink og "kalinichta Begga" úr ýmsum áttum á leiðinni.

Beggaki


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband