Stjörnubíó og regn

Hafgúan Úlfhildur

Í heil þrjú skipti hefur rignt á mig á Naxos.  Í apríl kom skúradagur, í maí kom einu sinni um fimmtán sekúndna hitaregnsdemba, og í dag eru skúrir með köflum.  Ég held að Íslendingarnir sem hingað eru komnir með Agli Helgasyni, eða jafnvel dóttir mín, nýkomin frá Íslandi hafi eitthvað með þetta regn að gera, en Naxosbúar trompa mig og segja að þetta sé Aþeningunum að kenna.  Þeir hafa flykkst hingað í dag og í gær, því nú er hvítasunna hér hjá okkur og þeir nota helgi með auka frídegi til að spóka sig á eyjunum. 

Annars er lífið á Naxos að færast í svolítið annað horf.  Hér er allt fullt af fólki - finnst mér, sem hef verið hér nánast ein með heimamönnum og örfáum sérvitringum, - en innfæddum finnst þetta ekki margt og segja að eyjan eigi eftir að fyllast í júlí og ágúst, - þetta sé bara vísirinn að því sem koma skal.  Kannski bara gott að verða farin heim þá.  En veðrið er eftir þessu, - hiti og sólskin uppá hvern dag, með undantekningunni í dag, - og fátt hægt að gera annað en að liggja í leti á ströndinni, busla í sjónum og hafa það eins náðugt og maður getur.  Í hitanum missi ég bæði matarlyst og löngun til að erfiða um of.  Þótt lagnakerfið á Naxos sé fremur frumstætt, þá er þó alltént nóg kalt vatn í sturtunni.

Við dóttla lifum því hóglífi þessa dagana.  Við tókum strætó niðrá Plakaströnd og undum okkur þar eitt eftirmiðdegi.  Plaka er stærsta ströndin hér og gífurlega falleg.  Þar er hefð fyrir því að fólk geti striplast að vild, en það kom okkur mæðgum á óvart að þeir sem sóluðu sig í fæðingargallanum voru helst fólk frá miðjum aldri og uppúr.  Börn og yngra fólk voru í sínum strandklæðnaði. 

Við erum líka búnar að fara í bíltúr um eyna. Þeofilis vinur minn á netkaffinu - sem líka er bílaleiga - lét okkur hafa lítinn suzuki jeppa - blæjujeppa - og á honum sportuðum við okkur eins og drottningar um alla eyju í allar áttir.   Við hófum ferðalagið í morgunkaffi hjá Aþenu vinkonu minni - systur Scirocco bræðranna, en frá henni hef ég sagt ykkur áður.  Aþena er búin að kaupa sér litla matvörubúð og kaffihús á syðstu ströndinni hér, Pyrgaki, sem ég held að sé sú alfallegasta hér.  Aþena var í gríð og erg að sinna iðnaðarmönnum, því það þurfti að taka allt í gegn áður en hægt verður að opna, þrífa og skrúbba, mála, múra og gera allt fínt.  Það er árátta hjá fólki hér að vera alltaf að taka allt í gegn, - og svo þegar það er búið, - að sópa.  Þetta eru jú afkomendur Esóps.  

Aþena var auðvitað mjög kát að fá svona langt að komna gesti, - þetta virkar sem órafjarlægð frá Naxosbæ, en er ekki nema um 25 kílómetrar.  Vegalengdirnar hér eru svo afstæðar, vegna þess að þótt sumir keyri glannalega, er hámarkshraðinn víða ekki nema 30-40 kílómetrar á klukkustund.  Það er líka ósköp gott að lulla sér hér milli staða í rólegheitum, því alls staðar er eitthvað að sjá. Við fórum að sjálfsögðu til Moutsouna og komum líka við í Apíranþos og skoðuðum marmaranámurnar við Kinidaros.  Það er merkilegt að sjá heilu fjöllin bútuð niður í meðfærilegar marmarablokkir og svo stirnir á snjóhvítt sárið í fjöllunum í sólskininu.

Sumarbláminn er fallegur og ótrúlega tær.  Það er hreint ekki leiðinlegt að liggja á ströndinni og velta sér ýmist á bak eða grúfu og fylgjast með því um leið hvernig hafið tekur lit af himninum og eyjarnar í fjarlægð taka lit af eyjabirtunni skæru.  Er hægt að fá nóg af þessum unaðssemdum augans?  Í sjónum sér til botns eins langt út og maður kemst - tærleikinn er fullkominn, og engin furða að strandirnar á Naxos séu metnar þær hreinustu í Miðjarðarhafinu.  Annað kvöld verður fullt tungl, og ég ætla ekki að missa af því.  Þá sest ég á veröndina og góni til himins - horfi á sjónarspilið er tungl og stjörnur slást um athyglina þegar þau leika sína skínandi nachtmusik á hafflötinn fyrir neðan.

En annað kvöld - fyrir stjörnubíóið, ætlum við dóttla fyrst upp í sveit með Agli og Sigurveigu og íslenska hópnum.  Það verður farið á sveitakrá, snæddur góður matur, hlustað á tónlist og dansað.  Það verður örugglega gaman, og hver veit nema ég rifji upp sporin í dansinum Zagoritikos í fimmskiptum takti - ef færi gefst.  Í dag hitti ég landa mína að ósk Egils og segi þeim eitthvað frá minni sýn á eyna eftir að hafa verið hér í tæpa þrjá mánuði.  Það verður létt verk og löðurmannlegt skulum við vona....  ég veit reyndar ekkert hvers konar fígúrur löðurmenni eru.....  segi bara svona.

Dóttla mín, hún Úlfhildur, er knúsuð í bak og fyrir hvar sem við komum og hún er sko löngu orðin Úllaki, - rétt eins og móðir hennar er ýmist Beggaki, Bergþóramú eða Beggakimú.  Grikkir eru einstaklega opnir og þeir eru hlýir inn að hjartarótum.  Og svei mér þá, hún er farin að svara fyrir sig á grísku.

Næstu dögum ætlum við að eyða í hóglífi - strandlegur, afslöppun og að njóta sumarsins.  Við ætlum líka í Naxosbíó, sem er útibíó, - það verður spennandi. Ég er farin að sjá fyrir endann á dvölinni hérna; - hlakka auðvitað til að koma heim í íslenska sumarið, en veit að Naxos á eftir að vera í hjarta mínu alla mína daga.  Við erum að spá í að fara til Krítar í lok júní og eyða síðustu dögum okkar á Grikklandi þar.

 

Beggaki

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mikið vildi ég vera hjá ykkur í hitanum. Það skiptir svo veðrið hér. Ég gæti alveg hugsað mér stöðugt ástand - þ.e. gott, hlýtt sumarveður samfleytt í 4 mánuði. Þá myndi maður e.t.v. nýta sér betur strandlengjuna sem blasir við út um gluggana mína - nokkurskonar "Plakosströnd". Hvernig liður nú Úlsí með að mamma hennar velti sér um á ströndinni í fæðingargallanum, á meðan hún sjálf klæðist flottu strandfötunum? Það kemur allavega í ljós við heimkomu ykkar hvor verður með bikinirönd á bossanum! Elska ykkur endalaust - njótið verunnar í hvaða "göllum" sem er. Ást Ó.

ó. (IP-tala skráð) 10.6.2006 kl. 10:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband