Saharavindurinn

Hvað er hægt að gera þegar Saharavindurinn næðir um Naxos?  Jú, það er hægt að fá sér að drekka, fara í sturtu, synda í sjónum, drekka meira og fara aftur inn í sturtu.  Er hægt að klæða sig? Nei, - því fötin límast strax við mann af rakamollunni.  Maður gerir það nú samt, því ekki getur maður hangið í rúminu allan daginn.  Úff hvað þetta er erfitt, - ég er alein, - Sigga farin, og ekki einu sinni hægt að striplast á veröndinni, því marmaragólfið er svo heitt, - og plaststólarnir - æ!  Ég rölti niðrí bæ til að kaupa mér miða í bátinn á morgun, sest inn á Rendez-Vous og fæ mér ískalt gos.  Eftir tíu skref til baka er mér orðið svo ómótt að ég á engan kost annan en að fleygja mér inn á norræna barinn Prime, - sem nú státar af íslensku flaggi - var áður bara með hin Norðurlöndin.  Panta mér Strawberry Daquiri - og enski strákurinn sem afgreiðir er svo dasaður að hann setur óvart helmingi meira romm í drykkinn en á að vera - - bætir við jarðarberjum og meira ískrapi, - og ég sit uppi með tvo Daquiri..... gott, gott, - ekki veitir af að svala þorstanum.  Kemst þrekuð uppá torg, sest inn á Scirocco og bið um það kaldasta sem til er.  Nú treysti ég mér ekki út aftur í bráð.  Hvað getur maður treint sér drykkinn lengi?  Ég hjálpa Strato gamla að rúlla hnífapörum inn í servíettur og kjafta við Hassan snillikokk um Oum Kulthoum og Nagib Mahfuz.  Robert kemur og hjálpar mér með texta við serbneskt lag - ég var búin að gleyma einni ljóðlínunni.  Það er ládautt, þrátt fyrir tilraunir til gáfulegra umræðna.  Sá eini sem hoppar um í trylltri lífshamingju er Ervis, albanski strákurinn sem er alltaf eins og stjörnuljós.  Hvað svo?  Ég ætti að drífa mig á ströndina - Plaka - get ekki farið í strætó, því hann er ekki loftkældur og örugglega fullur af fólki - ætti kannski að ná mér í vespu og verða mér þannig út um náttúrulega loftkælingu.  Nei, - ég nenni ekki einu sinni á ströndina, - er orðin alveg meir en nógu brún og ég get alveg eins farið í sjóinn heima við húsið mitt.  Enda hér á netkaffinu og þar er mér boðið upp á súkkulaðibakkelsi úr Rendez-Vous.  Nei takk, ómögulega, - það er ekki hægt að borða neitt í svona hita.  Tilhugsunin veldur mér klígju.  Bara drekka, drekka og drekka.

Frá því að Sigga fór, hef ég verið að gera mér dælt við heimafólkið.  Fór á þvæling með gestgjafa mínum, Dimitri sætalingi á Hotel Saint George.  Nú veit ég allar helstu kjaftasögur bæjarins - hvaða fjölskyldur eru vinir og hvaða fjölskyldur eru óvinir og hverjir hafa svikið hverja ýmist í tryggðum eða af hreinni illmennsku.  Veit núna af hverju Kostas á barnum við hliðina á Scirocco er alltaf að bjóða mér út, og af hverju hann skrökvaði því í mig að hann ætti staðinn, - sem hann á í raun ekki baun í.  Þetta er sko ekki einfalt mál.  Ég veit líka hverjir eru dílerar, hverjir eru rónar, og hverjir halda framhjá með hverjum.  Þetta eru gagnlegar upplýsingar á svona stað.  Allt fær aðeins annan svip, og ég ætla til dæmis aldrei að borða á Popi's Grill, því það er meiriháttar svikarasjoppa.  Erfðaprinsinn þar var kvæntur systur Dimitris, en dó svo bráðungur frá tveimur börnum - það þriðja þá á leiðinni.  Popi fjölskyldan afneitaði þá tengdadótturinni og barnabörnunum með það sama - og svoleiðis fólk er ekki hægt að púkka neitt upp á.  Ég veit núna að Takis, sem ég sagði ykkur frá, má aldrei kalla Takis.  Hann ber það virðulega nafn Kapitano, enda útskrifaður úr ítölskum skipstjóraskóla og sigldi stórum skipum árum saman áður en hann fór á Jólasveininn.  Amma hans Akkilesar var rænd í Aþenu og netkaffivinur minn, Þeofilis gefur öllum peninga sem biðja hann og Dimitri segir að engin kona vilji giftast slíkum manni.  Þá veit ég það. 

Og nú er búið að kveikja á gosbrunninum á torginu mínu.  Þetta eru svolitlar sprænur, lýstar upp á kvöldin, þar með er sumarið væntanlega komið á Naxos.  Kannski ég setjist við hann á leiðinni heim, í von um að vatnið sjái aumur á mér.  Á morgun verð ég á sjónum, og á sunnudaginn líka. Það verður nú meiri hamingjan. Ég tala nú ekki um að hitta dóttlu eftir tveggja mánaða aðskilnað.

Beggaki


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jórunn Sigurbergsdóttir

Prófaðu heitt piparmintuté Begga. Það lærði ég einusinni af araba sem vissi hvað hann söng. Bestu kveðjur Jórunn

Jórunn Sigurbergsdóttir , 2.6.2006 kl. 19:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband