Nostalgía á Naxos

Frá göngutúr okkar Úlfhildar í Kastró
Ég finn að nú er heimferðarnostalgían smám saman að síga á mig. Ég er búin að vera hér í vel á þriðja mánuð, og ekki nema tæpar þrjár vikur þar til ég fer heim. Mér finnst tíminn afstæður – ég er búin að vera hér lengi og samt í svo stuttan tíma. Ég á eftir að gera margt. Enn er ég ekki búin að fara til Mykonos og Delos, en ferðin á Koufounissi og Ios eru í augsýn, eftir helgi. Við getum vonandi lokið dvölinni hér með því að heimsækja Krít – þar þarf ég að heimsækja Yannis, gamlan skólabróður frá Ameríku, sem ég hef ekki séð í rúm tuttugu ár. Ég þarf að halda vel á spöðunum eigi þetta allt að ganga upp. Á miðvikudaginn kemur Systa vinkona mín í heimsókn með grislingana sína, Höllu og Guðmund.

Það verður erfitt að kveðja Naxos, en samt svo gott að eiga þessa ferð í hjarta mínu þegar ég kem heim. Ég veit að hingað á ég eftir að koma aftur, og vonandi oft. Ég hef verið svo lánsöm að kynnast góðu fólki og eignast vini sem ég veit að ég á eftir að halda sambandi við.

Það besta er að hér hef ég haft tíma með sjálfri mér – tíma til að slaka á, tíma til að hugleiða og tíma til að koma ýmsu sem mig hefur langað að sinna í verk. Ég hef ekki bara verið að skrifa í blaðið mitt og blogga þetta af og til, - nú á ég vísi að einhverju sem eru eigin hugrenningar og skáldskapur, - komið í fast form og gæti kannski einhvern tíma orðið að einhverju. Ég hef gaman af því að skrifa, og það hefur sannarlega verið hvatning að vera á þessum yndislega stað og hafa allan tímann í veröldinni fyrir sjálfa mig. Það hefur líka verið frábært að lenda í alls konar ævintýrum hér – algjörlega óvænt, - bæði á sjó og landi... ég held að ævintýrin gerist einmitt þegar maður er búinn að losa sig við byrðar hversdagsins og mætir nýjum degi áhyggjulaus og væntingalaus en opinn fyrir líðandi stund.

Ég hef gaman af því að sjá hvað Úlfhildur hefur spjarað sig heima án mín.  Hún er sami ljúflingurinn - en komið meira bit í hana. Hún ratar orðið um allt og fer ein sinna ferða ef hún þarf þess með.  Fyrst spurði hún hvort hún ætti ekki örugglega að beygja hjá hvíta húsinu með bláu gluggunum.  Jú, það var rétt hjá henni..... en við hlógum auðvitað eins og asnar að orðunum slepptum, - hér eru öll hús með bláum gluggum og bláum dyrum.   Hún er búin að fá miklu fleiri nöfn en ég, - hún er ekki bara Úllaki, Úllamú og Úllakimú - heldur líka Small Begga, Daughter og Úllitza.  Hún skemmtir mömmu sinni með því að lesa upp úr grísku orðabókinni okkar. Hún komst að því að grískir hundar segja ga, en kettir njá, kjúklingar hér segja kókókó, hænur kakaka, en hanar kúkketíkú.  Í orðabókinni stóð að grískar kýr töluðu ensku, því þær segðu mu.

Hitinn er mikill þessa dagana og gott að kúra á ströndinni fyrir framan húsið okkar.  Algjört letilíf. En samt gerist ýmislegt - hugmyndir kvikna við það að spjalla saman, og við látum okkur dreyma um allt sem hægt er að gera í framtíðinni, og það er auðvitað mjög gaman á sama tíma og maður er að baða sig í núinu.   Þetta er gott líf.  Á kvöldin er svo stefnan tekin í bæinn - hitta fólk, horfa á fólk, borða, kjafta. Yndislegt að rölta svo heim í heitu kvöldi undir stjörnubjörtum himni.  Þetta er tóm sæla.

 

Beggaki


Sandkassastelpan komin í feitt
Marmaranáma í fjalli nærri Kinidaros
Sveitageitur á beit

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Njóttu síðustu daganna, Begga mín. Ekki hugsa um eyjuna okkar hér uppfrá alveg strax :) Nýttu tímann vel..., njóttu, teygaðu, vertu til, á allan hátt, og mundu að lífið er í dag, dagurinn í dag er í dag, ekki á morgun ! Gríptu augnablikin og smjattaðu á þeim, þau eru best :)
Það var yndislegt að heimsækja þig á eyjuna þína tæru.
Minningin um þá heimsókn er komin í gimsteinasafnið mitt.
S


Sigga (IP-tala skráð) 16.6.2006 kl. 00:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband