Bráðum og seinna

Bjór með Garry Walkey

Skrýtinn dagur í dag - síðasti heili dagurinn minn á Naxos.  Í fyrramálið kveð ég og fer til Krítar.  Við Úlfhildur sátum með skrýtna Bretanum Garry á Scirocco í dag, - því hann bauð okkur upp á drykk.  Það kjaftaði á honum hver tuska eins og venjulega, og hann vandaði um fyrir Úlfhildi og lagði henni lífsreglurnar, áður en hún hleypir heimdraganum og skilur mömmu eftir eina heima á Íslandi í haust.  Garry er skemmtilegur náungi, vélaverkfræðingur og hugvitsspekúlant sem vann við það að fara í stór framleiðslufyrirtæki í Englandi, og fá fólk til að finna betri og hagkvæmari aðferðir við að vinna störf sín.  Hann tók til dæmis allt bakaríabatterí tjallans í gegn sem leiddi til stóraukinnar framleiðslu, og græddi sjálfur býsna vel á því, að því er hann sjálfur segir frá.  Eftir nokkur slík verkefni ákvað hann að leggja stresstöskunni og jakkafötunum, lét sér vaxa hár og hélt útí heim, til að láta gamla drauma um að skoða hana verslu rætast.  Nú tekur hann bara að sér þau vinnuverkefni sem honum þóknast - kannski eitt á ári, og mætir þá bara hárprúður og á gallabuxunum - þarf ekkert að pjattast lengur, og það finnst honum gott.  Hann dagaði uppi hér á Naxos, eftir langt ferðalag um Evrópu, og hér finnst honum gott að vera.  Hann dundar sér við það hér að lesa, hugsa, tala við fólk og fara í gönguferðir.  Ég er ekki hissa á Garry - Naxos er staður fyrir fólk sem þarf tíma og vill tíma - fólk sem þarf að prófa að lifa áreitislaust.  Síðar í sumar ætlar hann um Tyrkland, Líbanon og Sýrlands, og þaðan til Indlands, því það er búið að panta hann þangað til að kenna Indverjum að baka brauð á skilvirkan hátt.

Það er margt fólk af þessu tagi hér, - bæði karlar og konur, sem hafa fundið á Naxos sína Paradís, og skilið annað amstur eftir heima hjá sér til þess að láta draumana rætast.  Ítalska skutlan hún Susanna er þannig - hún kom hingað fyrir sjö árum, og sá að til þess að hún gæti ílenst hér væri ekki um annað að ræða en að opna ítalskan veitingastað.  Hjá Susönnu er aðeins opið á kvöldin, fjóra til fimm mánuði á ári, og það sem eftir er ársins, hefur hún það eins og henni hentar.  Hin hollenska Riet, kom hingað frá börnum og búi, og til að fleyta sér áfram fór hún að möndla með fasteignir og gengur býsna vel að koma grískum hjöllum að hruni komnum í hendurnar á norður Evrópsku efnafólki sem dreymir einmitt um að gera upp hús hér og eignast þar með sumarbústað á besta stað í Eyjahafinu.

Ég veit vel, að ég á eftir að koma til Naxos oft og mörgum sinnum.  Þrír mánuðir í Paradísarvist á þessari fallegu eyju, þar sem tíminn er ekki talinn í mínútum og klukkutímum, - heldur bráðum og seinna, - geta ekki annað en kveikt í manni að snúa aftur.  Sjórinn hér togar í mig, og mikið rosalega gæti ég vel hugsað mér að eiga hér svolítið bátskríli, svo ég gæti duggað mér um hafið.

Annars er búið að vera einkennilegt ástand hér, því moskítóflugurnar hafa verið í miklum ham síðustu daga, og ég - eins og reyndar fleiri - er eins og gatasigti eftir þær - öll út-bitin.  Moskítóspreyið kláraðist í búðinni uppá torgi, - en apótekarinn á torginu reddaði því með því að panta aukaskammt frá Aþenu í einum hvelli.  Fólk gengur um ýmist með úðabrúsana til að verjast biti, - eða með stifti sem maður ber á bágtið þegar búið er að bíta mann.  Hitinn hér er líka búinn að vera nánast óbærilegur í nýrri sunnanvindshrinu - og fór mest í 45 stig fyrir nokkrum dögum.

Þá er nú gott að hafa sjóinn, sem manni finnst auðvitað ískaldur og svalandi, þótt hann sé 24 stiga heitur.  Við Systa vinkona sigldum með grislingana á skútu til Schinoussa, sem er lítil eyja sunnan við Naxos.  Mér þótti það algjörlega meiriháttar - sat í stafni, naut þess að finna öldugangstaktinn í kroppnum, fá smá pus yfir mig og láta sólina svo steikja mig.  Það kostaði mig reyndar sjóriðu í sólarhring á eftir - en það var bara gaman að vera eins og sauðdrukkin algjörlega fyrirhafnar- og eftirkastalaust.  

Lífið heldur áfram á Naxos, - en hvernig verður Krít?  Krítikos sem skrifar krítík, kemst ekki hjá því að heimsækja Krít, - stefnan verður tekin beinustu leið á Knossos til að skoða einar elstu menningarminnjar Evrópu.

Beggaki


Á öðru kaffihúsinu af tveimur á Schinoussa
Úlfhildur við stjórnvölinn á skútunni Önnubellu

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband