Sveitasæla

Moutsuna

Síðustu dagar hafa farið í að skoða Naxos í krók og kring, burra milli þorpa, skoða strendurnar, fara upp í fjöll, finna leynivíkur, sötra heimatilbúið vín á litlum fallegum þorpskrám...  Lífið er gott á Naxos.  Þessi yndislega eyja hefur þann kost, að þótt ferðamennska sé nokkur í kringum Naxosbæ, og strendurnar þar í kring, - þá eru sveitin og aðrir staðir eyjarinnr svo blessunarlega lausir við fólk eins og mig. 

Fjöllin hér er nokkuð myndarleg, það hæsta rúmir þúsund metrar, og heitir auðvitað Seifsfjall.  Fjalllendið gengur eftir eynni endilangri frá suðri til norðurs.  Þorpin uppi í fjöllunum eru mörg ofboðslega sjarmerandi, eins og Apíranþos, sem ég hef sagt ykkur frá. Við austurströndina á ég uppáhaldsþorp, sem ég er búin að koma í tvisvar síðustu daga.  Það heitir Moutsouna, og þar er yndisleg taverna á torgi við pínulítinn bryggjusporð.  Fyrir utan lulla nokkrar jullur, og einn stærri bátur.  Ein af jullunum er leigubíll staðarins.  Í stærri bátnum standa nokkrir menn og eru að dedúa við netin sín og spjalla og hafa það gott.  Á þessu litla torgi er veitingastaður þorpsins - ef þessi staður nær þá þeirri stærð að geta kallast þorp.  Þetta eru örfá hús.  Þarna er ekkert um að vera, - gömul svartklædd kona með skuplu situr við húsvegginn, og maðurinn sem sér um myndarlegt útigrillið atast í selpunni sem þjónar til borðs og eldar.  Þarna eru nánast engir gestir nema ég og ferðafélagi minn, og tíminn,  sekúndur, mínútur, klukkustundir eru ekki til á þessum stað.   Hér er eilífðin í augnablikinu. 

Hvað eru til margar sétteringar af bláu?  Ég gæti hæglega eytt dögum mínum hér í það að reyna að komast að því, en það er nóg fyrir mig að vita að þær eru margar, og hver annarri fallegri.  Hafið er komið í sálina á mér, líka himinbláminn, og muskubláminn á eyjunum í fjarlægð.  Sólsetrið er fjólublátt og sólin er knallrauð þegar hún kyssir eyjarnar í fjarlægð kveðjukossinn, áður en hún dembir sér í djúpin.

Karl í sveitinni vildi endilega kenna okkur nöfnin á litunum á blómunum sínum.  Það voru gerberur og hortensíur, bleikar, rauðar og hvítar.  Ég man ekki grískuna stundinni lengur, en eftir stendur myndin af rosknum manni að duddast í garðinum sínum við ilmandi gróðurinn og aldraðri mömmu hans, - svartklæddri, tinandi gyðju með bros í augunum.  Villigróðurinn á engjum og við vegina er líka fallegur, gul þykkni af grískri írisafræknu, rauður valmúi, gulir sólfíflar og hvít blóm sem ég þekki ekki.  Æ hvað var nú orðið yfir hvítt?

Hátt uppi í fjöllum rekumst við á tvo báta - hvernig komust þeir þangað - og hvers vegna eru þeir þar?  Landróðrabátar, segi ég og þykist vera fyndin.  Margt furðulegt hér.  Það er hálfur annar handleggur að bera skip upp í fjöll, en það er þó ekkert á móti hleðslunum sem teygja sig frá dýpstu dalverpum upp á fjallstinda.  Til hvers þurfti allar þessar girðingar?  Þetta er út um allt - hleðsla eftir hleðslu, - bæði garðar, en líka hleðslur undir stallana í hlíðunum þar sem Naxosgullið, ólífur, vínber og sítrónur vaxa.  Kílómetrar af hleðslum.  

Vegirnir eru mjóir og kræklóttir.  Tvö svín halda til í þessari beygju, en lulla sér útaf veginum þegar bílar nálgast.  Gamlir menn teyma asnana sína sem bera mjólkurbrúsa - eða kannski vínbrúsa, gamlar konur arka milli þorpa - hér eru allir á faraldsfæti og engan munar um að ganga eftir þjóðveginum milli staða.  Jú, ein þeirra, -  í brúnni kápu, húkkar far með okkur til Apíranþos - sjálfsagt.  Síðdegis koma svo geitasmalarnir í vegarkantinn, sólþurrkaðir aldurhnignir höfðingjar sem ramba með prikið sitt á eftir geitunum.  Geiturnar eru tónsmiðir sveitarinnar þar sem þær trítla milli þúfnanna með bjöllur um hálsinn.  Er eitthvað betra en að vakna við þessa tónlist, og værðarlegt jarmið; - hafið niðar bakraddir með mjúku öldugjálfri. Grískur ostur, ólífur og hunang í morgunverð. Sveitin er sæla.

Ég er hætt að telja kirkjur, - þær eru hreinlega of margar á þessari litlu eyju.  Meir en 500.  Gömlu konurnar signa sig í bak og fyrir í hvert sinn sem kirkju ber fyrir augu þeirra - það er ærið verk.

Ég er líka hætt að undrast allan þennan marmara.  Hann er út um allt.  Við finnum staðinn þar sem kúros kúrir í marmaralaut, - voldug stytta af Díonýsosi, sem af einhverjum ástæðum var hætt við að smíða fyrir nokkur þúsund árum.  Þarna liggur hann enn, teinréttur, á bakinu, og fer varla á neitt flakk úr þessu.  Þetta er enginn ferðamannastaður, - engar merkingar, - ómerkileg píla og eitthvað krabb á skilti.  Þessi árþúsunda gamla höggmynd gerir mann pínkulítinn og enn tikkar eilífðin í augnablikinu.

Beggaki


Leyniströnd
Leynivík fyrir tvo
Kúros

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hæ elsku Begga
takk f. skemmtileg skrif...þú verður eiginlega að taka kortið þér í hönd og leiða okkur lesendur um staði sem þú hefur heimsótt og hvort þú farir austur/vestur/norður/suður. Þú rekur nú reyndar leið þína á austurströndina í þessari grein, en fyrir hálfblinda tekur smá tíma að leita á kortinu.

Hvað setur frúin marga bita af fetaosti í salatið? Ég man að ég lærði að meta fetaost og ólívur m.öllum mat á Grikklandi. Það var svo til sama hvað rétturinn hét, alltaf kom diskurinn smekkfullur af ólífum og feta - en sem betur fer kunni ég því VEL. Gaman að þú minnist á alla BLÁU litina - yndislegt!
ást
Ólsa

lolo (IP-tala skráð) 15.5.2006 kl. 02:00

2 identicon

Ólöf, frú Katerina leggur heila stóra sneið handarþykka ofan á salatið, og hellir síðann kryddi og ólífuolíu yfir.

Begga (IP-tala skráð) 4.6.2006 kl. 09:44

3 identicon

Akkúrat sem mig grunaði. Enda er hún að gera ostinn sjálf. Njóttu dvalarinnar!
lóló

Ólöf Jónsdóttir (IP-tala skráð) 5.6.2006 kl. 00:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband