Fimmtudagur, 11. maí 2006
Harmur og gleði Ariödnu á Naxos
Það var meiriháttar kúvending þegar Richard Strauss samdi óperur sínar Rósariddarann og Ariadne á Naxos. Hann var þekktur að ögrandi og ómstríðum síðrómantískum stíl; franski kollegi hans, Saint-Saens hafði lýst því yfir að stíll hans leiddi tónlistina til glötunar og fleiri sögðu að hann myndi leiða sönglistina til glötunar með því að keyra mannsröddina á ystu brún þess mögulega. Hann var arftaki Wagners, tónmálið sterkt og dýnamískt, hljómsveitin stór og söngverk hans kröfðust kraftmikilla og voldugra söngradda. Þegar ein af fyrri óperum hans, Salóme, byggð á sögu Oscar Wilde, var frumsýnd í Metropolitanóperunni í New York 1906, voru viðbrögðin hörð og hætt við frekari sýningar verksins. Óperan þótti of nútímaleg og of erótísk fyrir amerískan smekk, og prímadonnan sem átti að dansa hinn fræga, munúðarfulla Sjöslæðudans, var hundfúl, og sagðist ekki taka þátt í slíku, - það misbyði siðferðiskennd hennar að dansa slíkan dans. Næsta stóra ópera, Elektra, byggð á gríska harmleiknum, sem frumsýnd var 1909 í Dresden olli enn meiri og heitari deilum og angist þeirra sem voru mótfallnir öllu nýju. En hún fékk líka afbragðsgóðar viðtökur hjá öðrum. Það virtist þarna gjá á milli skoðana; Strauss var ýmist lofaður eða dæmdur harkalega fyrir tónlist sína.
Svo komu Rósariddarinn og Ariadne, og sjálfur sagði Strauss að þær væru viðleitni til að nálgast Mozart. Hljómanotkun varð mýkri og ómstríður mildari, allt féll í ljúfa löð, en Strauss fann sér engu að síður leiðir til að fara ótroðnar slóðir.
Í Ariadne á Naxos fór Richard Strauss þá djörfu leið að tefla saman tveimur sögum, hvorri úr sinni áttinni með því að búa til óperu í óperunni. Óperan segir frá óperusýningu, þar sem tvö verk eru sýnd samtímis. Annars vegar er viðfangsefnið grísk goðafræði, sem alla tíð hafði verið vinsæl meðal óperusmiða; - sagt frá Ariadne, frjósemisgyðju frá Krít og hörmum hennar og örlögum á eynni Naxos, en hinsvegar klassískur ítalskur gleðileikur, commedia dell'arte, með tilvísunum í gamalt verk eftir Molière.
Í grísku goðafræðinni er Ariadne sögð dóttir kóngsins á Krít, Mínosar og drottningar hans, Pasífu. Mínos hafði herjað á Aþeninga, en þeir myrt son hans í þeim bardaga. Mínos vildi hefndir, - og krafðist þess að í sjö ár sköffuðu Aþeningar sveina og meyjar til að reyna að vinna á Mínótárnum hræðilega sem öllum stafaði ógn af og bjó í miklu völundarhúsi. Mínos leit á þetta sem hverja aðra mannsfórn. En Aþeningar sendu auðvitað sinn besta mann, Þeseif, og þegar hann kom til Krítar brá svo við að prinsessan Ariadne varð heltekin af ást, og til að bjarga Þeseifi frá þeim örlögum að lenda í kjafti Mínótársins, þá gaf hún honum töfrasverð, og garnhnykilinn sem hún var að spinna, svo Þeiseifur mætti rata aftur út úr völundarhúsinu. Allt gekk þetta eftir og Þeseifur tók Ariadne með sér til Aþenu þar sem haldið skyldi brúðkaup þeirra. En skipið var ekki komið lengra en til Naxos þegar Þeseifi hætti að lítast á ráðahaginn, og þar skildi hann Krítartróðuna eftir, dáleiddi hana til svefns á kletti nokkrum, og þar svaf hún ár og daga.
Grískum sögum ber ekki saman um örlög Ariadne eftir að hún lagðist til svefns á klettinum á Naxos. Hómer segir einfaldlega að Þeseifur hafi ekki haft neina gleði af þessari konu, en aðrar sögur herma að hann hafi komist að því fyrir atbeina Artemis, að Ariadne hafi þá þegar verið gift Dínoýsosi, frjósemis- og ástarguði á Naxos. Um það eru þó engin sammæli. Hesiod segir að eftir að Þeseifur hafi skilið Ariödnu eftir, hafi Dínoýsos einfaldlega fundið gyðjuna sofandi, orðið ástfanginn af henni, vakið hana og kvænst henni með það sama. Þá er líka sagt að hún hafi verið Díonýsosi trú, en hengt sig af harmi, þegar hún uppgötvaði að þrátt fyrir svik og pretti elskaði hún bara Þeseif. En af því að í sögunum er ýmislegt hægt, þá segir líka af ferðum Díonýsosar yfir Akkeronsfljót til Hadesarheima, til að sækja sína látnu ást, Ariadne. Eftir þá frægðarför settust þau að meðal vina sinna, guðanna á Ólympsfjalli.
Hvað er ákjósanlegra fyrir óperusmið en saga, sem er opin í alla enda, saga sem er sorgleg og kómísk í senn og snertir vítt litróf mannlegra kennda? Richard Strauss sá kostina í sögu Ariadne. Þegar ópera hans hefst sjáum við baksviðs í leikhúsi í höll feneysks hefðarmanns, þar sem annars vegar er verið að æfa nýja óperu um Ariadne Strauss smíðar meir að segja hlutverk tónskálds, og hins vegar ítalska gleiðileikinn, með þau Harlekín og Zerbínettu í aðalhlutverkum. Leikstjórinn kemur inn og segir að svo sé komið, að sýningunum verði báðum að verða lokið fyrir kl. 21, og því sé ekki um annað að ræða en að leika bæði verkin samtímis Tónskáldið í verki Strauss, segir Zerbínettu að Ariadne vilji umfram allt vera í harmi sínum hún vilji deyja af ást, og hefur miklar áhyggjur af því að trúðslæti gamanleikaranna eigi eftir að skemma fyrir honum nýju ópruna um Ariödnu. Þegar sýning óperunnar hefst í óperunni, er Ariadne sofandi á klettinum sínum á Naxos, - malar eitthvað uppúr svefni, en tekur ekkert eftir gleðinni í gamaleikurunum fjórum hinum megin á sviðinu sem með öllum ráðum vilja reyna að porra svefnpurkuna upp og koma einhverju lífi í hana. Zerbínetta tekur af skarið og segir hreint út við Ariödnu að eina ráðið við ástarsorg sé að finna sér nýjan karl, og að það skuli hún reyna að gera. Bakkus, öðru nafni Díonýsos kemur auðvitað aðvífandi, - Zerbínetta leyfir Ariödnu að halda að þar sé langþráður dauðinn loks kominn að faðma hana, - en ást guðs víns og ásta er heit, og á endanum finnur Ariadne hamingjuna í örmum hans.
Richard Strauss lifði mjög hversdagslegu lífi og ekki vitað til þess að hann hafi upplifað sjálfur mikilsháttar angist. Það sem var honum kannski erfiðast var að standa í skugga ofurmennisins Wagners. Honum var það líka raun síðarmeir að sjá nasista komast til valda í Þýskalandi, en þeir áttu eftir að leggja Strauss og tónsmíðum hans ýmsar skorður.
Þar sem sorgin og gleðin, erfiðleikar og hamingja, fallast í faðma, er sátt. Ef til vill var óperan um Ariödnu á Naxos viðleitni tónskáldsins til að sætta þá sem grimmast létu eftir frumflutning fyrri verka. Ef til vill var það leið til að kasta af sér byrðinni sem fólst í arfleifð Wagners og finna persónulegri stíl lausan við þrúgandi samanburð við ofurmennið í Bayreuth. Hvað sem þeim vangaveltum líður er óperan Ariadne á Naxos meistaraverk, þar sem tónskáldið spinnur í ævintýri grískrar goðafræði með sínum eigin persónulegu aðferðum á frumlegan og og afar skemmtilegan máta.
Bergþóra Jónsdóttir
Þessi grein birtist í Morgunblaðinu 11. maí 2006
Athugasemdir
Takk Begga mín fyrir þessa góðu grein sem opnaði mér sýn.
Ástar- og saknaðarkveðjur frá okkur þremur,
Sigga, Þórir og Jón Bragi
Sigríður Jónsdóttir (IP-tala skráð) 12.5.2006 kl. 18:36
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.