Katerina

Katerina og Nikos

Hér er mynd af minni elskulegu Katerinu, kokki á Scirocco.  Það er frumburðurinn, Nikos, sem heldur utan um mömmu sína, en hann er þjónn þar með bróður sínum, Mikhalis.  Ég sagði ykkur um daginn frá Hassan, Egyptanum, sem einn allra jarðarbúa fær að kippa í pottana hennar Katerínu.  Af einhverjum ástæðum vill hún hvorki sjá sýni sína, né dótturina Aþenu í eldhúsinu - hvað þá aðra.  En nú eru komnir tveir viðbótarmenn á Scirocco, Robert og Ervis, sem þjóna til borðs með bræðrunum Vinkonan er enn í uppvaskinu og ung stelpa með henni. Robert er Serbi, sem búinn er að búa hér lengi, en Ervis er Albani sem líka hefur kosið að kortleggja framtíð sína á Naxos.  Nú er nefninlega líf farið að færast í tuskurnar á Scirocco og nánast fullt út á götu á hverju kvöldi.   En staðurinn á sínar mublur, og ein af þeim er Beggaki.  Pabbi Stratos, klappar mér alltaf jafn vingjarnlega á bakið þegar ég kem, og talar við mig á grískunni sem ég skil ekki baun í.  En það er allt í lagi.  Hann er þarna, sötrar vínið sitt og fylgist með.  Chantal, maltversk-ástralska kærastan hans Mikhalis, er líka kommóða á Scirocco, og spjallar við alla eins og allir gera.  Tim, er ljósmyndari frá Ástralíu, sem lifir í eilífu sumri, - hér á sumrin og svo í neðra þegar sumarið hefst þar.  Hér er líka eldri Breti sem situr og les og sötrar bjór alla daga, og svo hún Riit, sem er hollensk kona - búin að búa lengi á Englandi, og hjálpar til á bílaleigunni sem fylgir netkaffinu.  Svo eru það Grikkirnir í röðum fastagesta, og þeir eru margir. Einn þeirra er Kostas sem rekur barinn við hliðina á Scirocco.  Hann kemur með tóman disk, stekkur inn í eldhús til Katerínu og biður hana að gefa sér eitthvað gott.  Og það gerir hún.  Stundum fer Kosta yfir og borðar þar meðan hann sinnir sínum kúnnum, eða hann sest niður og spjallar við fólkið.

En svo er það galdurinn hennar Katerinu.  Ég borða matinn hennar nánast daglega,  og hann er góður.  Samt færist beltið óðum nær innsta gati.  Katerina er ekkert að spara við fólk - það á að borða vel og allt er vel úti látið.  Hver réttur gæti dugað tveimur þess vegna, en flestir fá sér samt tvo rétti.  Hvernig er þetta hægt?

Katerína eldar hollan og góðan mat, - en annað skiptir líka máli. Hún elskar þennan stað.  Hún elskar gestina sína, og hún elskar að matreiða fyrir þá.  Hún er ekkert sérstaklega snögg að elda, en það er líka allt í lagi - því hér er tíminn algjört aukaatriði.  Hún leggur alla sína ást og alúð jafnvel í ómerkilegustu kartöflu.  Henni liggur ekki á.  Hún er í núinu að elda mat fyrir mig.  Og það skiptir ekki heldur máli hvort það eru lambakótelettur eða hrognasalat. Allt þarf sinn tíma, - það þarf að hræra rétt, snúa rétt, krydda rétt, og raða fallega á diskinn.  Hún sinnir hverju verki í eldhúsinu sínu, eins og það sé eina verkið sem hún þarf nokkurn tíma að leysa af hendi, - eina verkið sem skiptir máli í veröldinni, og hver diskur fer frá henni fram í sal, fullur af umhyggju, natni og ást, sem verður að hreinu hnossgæti á vörum manns.   Mér finnst þetta hrein list, - ekki endilega listin að matbúa, heldur listin að lifa augnablikið til fullnustu.  Þegar sljákkar í gestaflaumnum, tekur hún af sér svuntuna og kemur fram, sest niður og spjallar.  When daughter come?  How old? Like you?  Islandia cold now?  Og svo hnussar í henni yfir  Aþenu dóttur hennar sem er stungin af til  Aþenu að eyða peningum og slæpast.  Svo talar hún við Stratos, setur honum fyrir fleiri verkefni - fylla á sykurinn, vökva blómin, og þau brosa bæði og hann fer að kanna hvort vínið hans góða sé ekki örugglega í lagi. Synirnir sprella í kringum þau og gestina sína og fyrsta boðorðið er gleði.   

Það eru samfelldar ánægjustundir að sitja á Scirocco.  Við mótið er hlýtt, og þar snæðir maður hamingjuna inn að beini í réttunum hennar Katerinu.

Beggaki


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Begga, Begga, Begga ég hreinlega tárast yfir þessum fallegu lýsingum á matseld Katerinu.
Edda
http://www.blogg.is/ek

ek (IP-tala skráð) 12.5.2006 kl. 12:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband