Laugardagur, 1. júlí 2006
Mörg þúsund augum myndi ég horfa á þig
En Misrilou á sér fortíð - ekki bara í Grikklandi og í Ameríku, heldur líka í Tyrklandi og í Arabalöndunum, og Misrilou er nafnið á egypsku stúlkunni sem sungið er um í upprunalega textanum.
Lagið var fyrst skráð í Aþenu, söng grískra flóttamanna frá Smyrnu í Tyrklandi um 1920, og tilheyrir rebetkia tónlistarhefðinni, sem dafnaði meðal minna megandi Aþeninga í upphafi síðustu aldar.
Það vill svo til, að lagið rataði til Íslands í námsefni grunnskóla í tónmennt á áttunda áratugnum, með íslenskum texta, sem mig minnir að Hildigunnur Halldórsdóttir hafi þýtt. Og ef minnið svíkur ekki um of, þá er texti Hildigunnar eitthvað á þessa leið, og ég bið margfaldlega forláts ef þetta er ekki rétt munað:
Það eru ekki bara vinsældir lagsins hér á Naxos í sumar, sem eru tilefni þessara skrifa, heldur ekki síður þessi snotri íslenski texti. Þótt hann sé ekki bein þýðing á frumtextanum, þá á hann alveg einstaklega vel við lagið og grísku sumarnæturnar, þar sem stjörnuskinið er fallegra en ég hef nokkurs staðar séð. Í íslenska textanum má geta sér til að stjarnan sem sungið er um sé stúlkan Misrilou, og að sá sem syngi sé vonbiðill hennar sem óski sér þess að vera stjörnuhiminninn sem hún horfir á á kvöldin - stjörnuhiminn sem horfir til baka á hana með ótal stjörnuaugum sínum.
Ég hef átt því láni að fagna að hafa getað setið á grískri verönd frá því vor, og horft á þennan himin. Ég sagði að hann væri fallegur, og það er hann. Tæknin færir okkur ekki eintóman munað - hún kostar líka sitt. Það háttar þannig til á þessari grísku verönd, að á kvöldin er raflýsing nánast engin í næsta nágrenni, og því ekkert sem truflar. Það er merkileg uppgötvun fyrir borgarbarn, sem þó hefur oft gert sér ferðir út í íslenskar sveitir til að horfa á stjörnur, að sjá ómengaða stjörnudýrð í öllu sínu veldi. Það er líka uppgötvun að komast að raun um að stjörnuhröp eru síður en svo fágæt, hafi maður þolinmæði og lyst til að horfa. Getur verið að maður sjái fleiri stjörnur í Grikklandi en heima á Íslandi? Það veit ég ekki. Það er djúpt á skólalærdómnum - hvar var nú aftur Kassiopeia - og Betelgás, er hún ekki í Óríon? Það er þó víst að það sem hangir í þakskegginu mínu snemmnætur um þessar mundir er Stóri Björn - eins og lúinn skaftpottur - ekki erfitt að þekkja hann. Forn-Grikkirnir sáu hvorki bjarndýr né skaftpott í þessu stjörnumerki, heldur var ferhyrningurinn tré, og skæru stjörnurnar þrjár í skaftinu voru eplin á trénu. Og enn fyrr var Stóri Björn lifandi - sem gyðjan Kallistó - sú fegursta, eins og nafn hennar þýðir. Seifur varð ástfanginn af henni og tókst að véla hana til ásta, þrátt fyrir að Kallistó hafi strengt þess heit að lifa í meydómi alla sína ævi. Þegar Hera kona Seifs fregnaði af þessu ástarsambandi, breytti hún Kallistó í bjarndýr. Í því gervi var hún þegar sonur hennar og Seifs, Arkas, var nærri búinn að drepa hana á bjarndýraveiðum. Seifur gat naumlega komið í veg fyrir það óhapp, en sá þann kost vænstan að senda þau bæði upp á himin, Kallistó sem Stóra Björn, en Arkas sem Litla Björn, og þar með var heimilisfriðnum í koti þeirra Heru líka reddað um sinn.
Skaftpottur, eplatré eða bangsi - það er ekki svo nojið - því í stjörnunum má hreinlega sjá það sem maður vill sjá, og það er það sem mannfólkið hefur gert frá öndverðu, og þess vegna verða sögurnar til og verða ef til vill að goðsögnum þegar fram í sækir. Það má þakka Grikkjum það sérstaklega - og svosem reyndar fleirum - að hafa gefið sér tíma til að góna upp í loft fyrr á öldum og að skapa sínar sögur.
Í öllu þessu stjörnuglápi í sumar, hefur líka rifjast upp fyrir mér að hafa heyrt dr. Þorstein Sæmundsson stjörnufræðing tala um að við séum að týna stjörnunum vegna ljósmengunar. Þar sem rafljós eru skær er erfitt að horfa á stjörnur, og í stórborgum er það nánast útilokað. Mikið óskaplega væri notalegt að vita af einhverjum stað - kannski bara á Hellisheiðinni, ef hún er ekki þegar orðin of björt, þar sem maður gæti lagt sig á bekk með kaffibrúsa og ullarteppi og notið þess að horfa á himininn. Stjörnubíóið er sko hreint ekki leiðinlegt.
Þessi grein birtist í Morgunblaðinu 28. júní 2006
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.