Leita í fréttum mbl.is

Áhrifamáttur tónlistarinnar

Það má auðveldlega færa rök fyrir því að það sem er í almenningseign megi ekki færa til "einkaeignar" á þann hátt sem Kringlan hefur "eignað sér" Armstrong-lagið góða.


Það er mér hrein og sönn raun að þurfa að fara í Kringluna eða aðra slíka amerískættaða molla hvar sem þeir eru. Tilhugsunin ein vekur með mér vanlíðan. Hávaðinn og niðurinn í mannhafinu pirrar mig, tónlistin í bakgrunninum er óþolandi og áreitið á augun er skerandi. Þegar við bætist glymjandin þegar allt þetta bergmálar í víðáttu glers og steinsteypu er það vanlíðan í veldi x.

En nú er Kringlan búin að koma sér svo haganlega fyrir í hugskoti mínu að mér forspurðri að ég er með stöðuga verki. Það sem veldur er eitt lítið lag. Árum saman hef ég hlustað á Louis Armstrong mér til mikillar gleði og yndis og eitt af uppáhaldslögum mínum með honum heitir A Kiss To Build a Dream On. Kannist þið við það?

Give me a kiss

To build a dream on

And my imagination

Will thrive upon that kiss

Þetta ljúfa lag eftir Kalmer og Rudy við texta Oscars Hammersteins er steinhætt að láta vel í eyrum, það hefur misst yndisleik sinn; því hefur verið stolið frá mér. Hvers á ég að gjalda að þurfa að hugsa um Kringluna í hvert skipti sem ég heyri þetta lag? Skilyrðing sú sem auglýsingastofa og ímyndafræðingar Kringlunnar hafa sennilega ætlað sér að skapa hefur svei mér heppnast þótt formerkin í mínu tilfelli séu varla á þann veg sem vonast var til.

Ótal dæmi er hægt að rekja um svipaða misnotkun á tónlist í auglýsingum. Sígaunastúlkur Verdis og dömubindin og valkyrjur Wagners og klósetthreinsilögurinn voru gróf dæmi sem seint gleymast.

Auglýsendum er vandi á höndum þegar þeir velja tónlist við auglýsingar. Skiljanlega vilja þeir tengja vöru sína við þekkt og grípandi stef, en málið er ekki svo einfalt. Ég kýs að líta á tónlist og öll önnur listaverk sem öðlast hafa almannahylli um allan heim sem sameiginleg verðmæti þjóða heims. Um þau ættu að gilda sömu reglur og um verndaðar náttúrminjar og annað það sem mannkynið telur sameiginlegan arf og menningartákn. Hverjum dytti í hug að hengja kókauglýsingu í Ásbyrgi eða Almannagjá? Varla nokkrum. Þó eru ótal dæmi um að fyrirtæki noti slíka staði í myndefni auglýsinga á óbeinan hátt í svokölluðum ímyndarauglýsingum.

En hver er réttur hvers? Fyrirtæki geta auðvitað keypt sér leyfi til að nota listaverk og menningarminjar í auglýsingar sína. Hvað listaverk varðar, þá gilda um þau ströng lög bæði um höfundarrétt og afnotarétt, og oft grunar mann að ekki sé alls kostar farið eftir þeim þegar um notkun þeirra í auglýsingaskyni er að ræða. En þó svo að öllum reglum sé fylgt, og öll leyfi fengin fyrir slíkri notkun, má um það deila hvort slíkt ætti að leyfast yfir höfuð. Hugtakið public domain, er gjarnan notað um það sem hefur öðlast þann sess að vera almenningseign vegna almannahylli eða vegna þess að höfundarréttur er ekki til staðar. Það sem fellur undir hugtakið er venjulegast til frjálsra afnota fyrir hvern og einn. Með tímanum, þegar höfundarréttur fyrnist, geta listaverk fallið undir þessa skilgreiningu, og það gera til dæmis þjóðlög sem enginn veit hver samdi. Þótt allur almenningur eigi þá kost á því að njóta slíkra verka án þess að hafa áhyggjur af rétti höfundar, er ekki þar með sagt að fyrirtæki og stofnanir geti leyft sér það. Það má auðveldlega færa rök fyrir því að það sem er í almenningseign megi ekki færa til "einkaeignar" á þann hátt sem Kringlan hefur "eignað sér" Armstrong-lagið góða.

Almenn notkun og misnotkun á tónlist er nokkuð sem oftar ætti að gefa gaum. Ég nefndi sjónvarpsauglýsingu, og þá kannski rétt að halda sig við sama miðil. Það er athyglisvert að skoða hvernig tónlist er notuð í sjónvarpsþáttum, sérstaklega íslenskum sjónvarpsþáttum. Mig rámar í eina og eina íslenska heimildamynd þar sem tónlist hefur verið notuð á smekklegan og viðeigandi hátt. Þeir sem að þeim standa eiga lof skilið. En oftar en ekki er eins og dagskrárgerðarfólk hafi ekki nokkra hugmynd um til hvers það ætlar að nota tónlistina. Tónlistin er notuð sem uppfylling í þagnir og skraut við myndefni, og lítið hugsað um það hvernig hún gæti stutt mynd og texta og gefið þættinum heilsteyptara yfirbragð. Íslenskir dagskrárgerðarmenn eiga þó eina töfralausn í pokahorninu, en hvernig þeir fundu hana er mér hulin ráðgáta. Þetta eru Brandenborgarkonsertar Bachs! Hvers vegna eru þeir svona vinsæl bakgrunnstónlist í íslenska heimildaþætti? Þá gildir einu hvort verið er að tala um saltfiskvinnslu fyrr á tímum eða íslenskar bókmenntir. Hver er tengingin við Bach? Mér virðist hugsunin þarna að baki oft svipuð og hjá auglýsendum sem kjósa að tengja ímynd sína við fallegan og grípandi eyrnaorm. Tónlistin er notuð af því að hún er svo ansi þægileg, flestum finnst hún falleg, hún meiðir engan og svo má eflaust komast að því að barrokksveiflan hjá Bach gefi þættinum fágað og vandað yfirbragð. Klassískt.

Tónlistin segir oft meira en mörg orð, og það er vont þegar hún er misnotuð.

Þeir sem vilja nýta tónlist til opinberra nota á hvaða hátt sem er þurfa að átta sig á þessu og leiða hugann að orðunum til hvers og hvernig. Tónlistin þarf ekki að vera á stalli sem hin dýra list. Hana þarf þó að umgangast með virðingu og sanngirni og skilningi á því hver áhrifamáttur hennar getur verið.

Eftir Bergþóru Jónsdóttur begga@mbl.is

Viðhorf, birt í Morgunblaðinu 24. apríl 2002.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Bergþóra Jónsdóttir
Bergþóra Jónsdóttir

Spurt er:

Á að aðskilja ríki og kirkju?
Er flokkakerfið úrelt?

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.4.): 7
  • Sl. sólarhring: 7
  • Sl. viku: 21
  • Frá upphafi: 49484

Annað

  • Innlit í dag: 7
  • Innlit sl. viku: 21
  • Gestir í dag: 7
  • IP-tölur í dag: 7

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband