Föstudagur, 5. maí 2006
Mömmurnar mínar á Naxos
Ég spjalla við frú Manolas á hverjum degi. Þetta væri ekki frásögur færandi nema fyrir það, að við eigum ekkert tungumál sem við getum báðar notað. Hún talar bara grísku og ekkert annað. Þessi húsmóðir á gistihúsinu mínu setur sig ekki úr lagi að ræða við mig landsins gagn og nauðsynjar, og af veikum mætti reyni ég að skilja. Það kom þó að því í gær, að ég skildi hana nokkurn veginn; - hún nefndi orð sem ég skildi - og ég áttaði mig á því að hún var að segja mér frá þeim löndum og borgum sem hún hefur komið til um dagana. Maður veit þó hvað París er og Germanía, og Helvetika hlýtur að vera Ungverjaland... (það er reyndar Sviss)... þetta eru orðin sem kveiktu á samtali gærdagsins. Ég held að henni hafi þótt París best, því hún talaði lengi um París og lék fyrir mig Eiffelturninn og sigurbogann og það sem ég held að hafi verið að fara í búð og kaupa kjól. Það virðist hafa verið mjög skemmtilegt - eins og ég veit sjálf. Fátt skemmtilegra en að kaupa sér kjól í París. Ég sagði henni á ensku að ég hefði líka komið bæði til Parísar og Helvetiku og reyndi, eins og hún að nota hendurnar til að útlista þetta nánar.
Maður gerir sér ekki alltaf grein fyrir því hvað tungumálið er nauðsynlegt tæki og hvað maður verður hjálparvana að missa það- en samt er það merkilegt hvað fólk finnur sér leiðir til að tjá sig, þrátt fyrir allt. Frú Manolas er glaðvær, og henni finnst gaman að tala við fólk, - og því ekki að reyna.... .... jú, ég hef alla vega mjög gaman þessum kómísku handapatssamræðum okkar.
Frú Manolas er á besta aldri - sennilega tæplega sjötug. En hún er ofurskutla, - með þykka ljósa lokka og klæðir sig í þröngar gallabuxur og boli. Hún er eins og Silvía Nótt - alltaf með tyggjó. Hún er töffari í sér og hlustar á rokk meðan hún gengur verka sinna á morgnana. Og þessi verk hennar eru ekkert smáræði. Hér dugar ekki hreinlæti tvisvar í viku, - því á hverjum morgni þrífur hún allt heila klabbið. Herbergin tólf eru tekin í gegn, sópuð og skúruð, hún býr alltaf um og skiptir á rúmunum tvisvar í viku og handklæðum jafnvel oftar. Hún opnar alla glugga, loftar út, tekur rúmteppin, hengir þau út á verönd og dustar þau og bankar. Hún þurrkar af og þvær glös, diska og hnífa ef hún hefur minnsta grun um að maður hafi andað á það. Hún þrífur baðherbergið daglega og fer út með ruslið. Þegar hún er búin að klára herbergin þrjú á minni hæð, tekur hún veröndina í gegn, tínir upp lauf, sópar og skúrar, og tekur púlsinn á gróðrinum sem þar er. Hún er hvíti stormsveipurinn holdi klæddur.
Og þegar frú Manolas hefur lokið dagsverkinu skyldi maður ætla að hún væri til í að hafa það náðugt. En þá er hún heima hjá sér eitthvað að bauka, og undir kvöldmatarleytið kemur hún aftur. Það er spurning hvort það verða ávextir sem hún kemur með færandi hendi, smákökur, eða meira rauðvín, eða hvort það verður dunkur fullur af dolmaðes, - þessum unaðslegu laufbögglum sem eru fylltir með krydduðum hrísgrjónum. Þrátt fyrir að vera dúndurskvísa, er hún líka þessi dæmigerða gríska mamma, sem vill allt fyrir alla gera og er alltaf að hugsa um að koma einhverju ofaní fólk. Hún er fín og ég kann vel við hana. Frá nóvember til apríl - þegar gistihúsið er lokað gerir hún það sem henni sýnist, og ég vildi gjarnan sjá hana í þeim ham líka. En henni finnst hótellífið skemmtilegt, og hún hefur þann hæfileika að geta látið sér þykja vænt um gestina sína. Það er ekki slæmt að eiga svona gistimóður að hér á Naxos.
Svo er það matmóðir mín, hún Katerína á Scirocco. Hún er á svipuðum aldri og frú Manolas. Hún var búin að lifa húsmóðurlífi alla sína tíð, þegar þau komu upp veitingastaðnum, einhvern tíma á níunda áratugnum. Aþena dóttir hennar sagði mér að mamma hennar hefði í raun eignast nýtt líf þegar hún fór að vinna á veitingahúsinu, á sextugsaldri. Þá hafi hún lifnað við, losnað úr viðjum heimilisins og að hún elski staðinn. Hún er snilldarkokkur, og gestirnir á Scirocco láta hana líka óspart heyra það. Hún kann smá í ensku og hefur gaman af að taka ofan svuntuna og koma fram og spjalla við fólk. Hún nýtur þess að vera stjarnan á staðnum meðan sá Stratos getur ekki unnið mikið. Hún er nú myndugleg þegar hún setur honum fyrir að rúlla hnífapörum inn í servíettur og raða á bakka, og hann gerir það brosandi. Nú er Katerína búin að fá sumarsveininn sinn, - og hann er sá eini sem MÁ snerta pottana hennar. Þetta er hann Hassan, 48 ára Egypti, sem er búinn að búa í Grikklandi í aldarfjórðung. Þau eru fín saman í eldhúsinu. Hassan kom hingað á sínum tíma til að hlaupa hið klassíska maraþon, frá Maraþon til Aþenu, en dagaði uppi í guðalandinu. Hann er enn að hlaupa og vill helst ræða við mig um Björk og Oum Kulthoum, sem hann veit að ég hef mikið dálæti á. Hann mokar í mig sögum af þessari stórkostlegustu söngdrottningu Araba fyrr og síðar, og rifjar upp hvernig það var þegar hún dó, árið 1975. Það voru allir svo miður sín - ekki síst stjórnvöld - og það liðu fjórir dagar, þar til fjölmiðlar treystu sér til að segja frá andláti hennar, svo mikill var óttinn við að Egyptar hreinlega bugðust f harmi. En þeir gerðu það nú samt, og tvær milljónir manna þyrptust að útförinni hennar og þjóðin var lömuð af sorg. Ein kona var þó sögð hafa tekið andláti dívunnar vel, - en það var eiginkona Sadats forseta, sem aldrei þoldi hvað Oum Kulthoum var ástæl og dáð; - hún var sólgyðjan holdi klædd, og fór víða sem menningarlegur sendiherra þjóðar sinnar og örugglega einn merkasti listamaður tuttugustu aldarinnar.
En aftur að Katerínu. Hún hlær eins og smástelpa þegar ég segist ætla að taka hana með mér heim og segir "maybe!"
Beggaki
Athugasemdir
Ég dáist af dugnaði frú Manolas. Gaman að lesa það sem þú skrifar. Kær kveðja, Jórunn Sigurbergsdóttir
Jórunn Sigurbergsdóttir , 5.5.2006 kl. 19:56
Elsku Begga
Mikið er gott að heyra af konunum sem hugsa svona móðurlega um þig á Naxos. Ég er reyndar orðin pínlulítið hrædd um að þig langi ekkert heim aftur.
En alltaf er nú gaman að rifja upp kjólakaupin í París - við vorum nú fallegar þegar við spásseruðum út úr kjólabúðinni á Champs Elyssé - þú í hvítum, ég í bláum og Hóbba í lillabláum kjól.
Bið að heilsa mömmunum, Hassan matsveini og öllum hinum.
Habbó
habbó (IP-tala skráð) 5.5.2006 kl. 21:16
Beggan mín. Ég lifi mig alveg inn í handapatið og það er ekki spurning að þið vinkonurnar skiljið hvor aðra. Hefði gaman af að sjá frú Manolas leika sigurbogann og Eiffelturninn en þú verður þá sjálf að leika atriðið f.mig þegar þú kemur heim. Ekki nema frú Manolas geri það bara sjálf ef þú tekur hana með til IS??! Ást - Ólöf
Ólöf Jónsdóttir (IP-tala skráð) 7.5.2006 kl. 09:55
Hæ Begga og takk fyrir að deila upplifun þinni á blogginu. Getur ekki verið að Helvetica, sé Sviss? Mig minnir það.
Njóttu þín sem allra best í kærkomnu fríi.
Kveðja, Helga Kristín
Helga Kristín (IP-tala skráð) 7.5.2006 kl. 13:12
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.