Að temja grjót

Fordyri Apollóhofsins

Grjót, er efniviður þess listaverks sem hefur haft meiri áhrif á mig en mörg önnur. Samt er þetta ekki listaverk í eiginlegum skilningi, þetta er grjóthleðsla Hraunfólksins í Þingvallasveit. Björn Th. Björnsson skrifaði sögu þessa fólks, sem af ótrúlegrum dugnaði byggði sér bú í miðju Þingvallahrauni, fjarri alfaraleiðum. Það er góður göngutúr frá veginum við þjónustuskálann að þessum bæjarrústum eftir troðningum í úfnu hrauninu. En þegar á áfangastað er komið blasir hún við þessi einkennilega “menning” mitt í óhaminni náttúrunni. Það er erfitt að ímynda sér hvað til hefur þurft, að velja sér slíkt bæjarstæði, því hraun er jú hraun. Af natni og óhemju elju tíndi þetta fólk þó grjótið úr jarðveginum, stein fyrir stein, hnullung fyrir hnullung, og lagði í þennan myndarlega vegg umhverfis búið sitt. Um leið og grjótið var numið burt fékk gras og annar gróður svigrúm. Þessi blettur er þó ekki stór, en hefur þó dugað til að fóðra örfáar skepnur.

Frá öndverðu hefur manneskjan glímt við grjót, í þeim tilgangi að temja það að mennskunni, - menningunni.  Grjótið hefur veitt mannskepnunni skjól fyrir veðri og vindum, verið efniviður í verkfæri, og með grjóti kveikti mannskepnan eldinn.  Eftir öll þau ótöldu handtök sem manneskjan hefur beitt á grjótið þykjumst við hafa lært að hemja það býsna vel.

Suður í Grikklandi, á eynni Naxos, býr fólk við þann munað, ef hægt er að kalla það slíku nafni, að ganga dags daglega á grjóti sem sumum þætti “alveg brilliant” að hafa undir fótum sér hversdags. Þetta er granít, kórund, sem leynir á fallegum safírum, og marmari, steintegundir sem fólk borgar háar fjárhæðir fyrir til að prýða húsakynni sín með. Á Naxos er þetta grjót hins vegar óheflað og óbundið, því eyjan sjálf er af náttúrunnar hendi smíðuð úr þessu eðalgrjóti. Frá fornu fari hafa eyjaskeggjar nýtt sér þetta grjót, og á eynni skapaðist hefð fyrir vinnslu þess, - ekki síst á marmara. Það þarf ekki að taka það fram að þar hefur mannshöndin verið öflugasta verkfærið.

Elstu heimildir um þróað menningarsamfélag á Naxos eru frá fjórða árþúsundi fyrir Krist, og þessar heimildir felast einmitt í grjóti; verkfærum, munum og hýbýlarústum. Naxosbúar lærðu fljótt að meta fegurðina í grjótinu undir fótum sér, og við fornleifauppgröft á grafreitum frá þriðja árþúsundi fyrir Krist hafa fundist vatnskönnur úr marmara, og það sem eyjaskeggjum þykir enn meira til koma, - marmarastyttur. Þetta eru fígúrur, - menn, konur og skepnur, og þótt þær séu smáar í samanburði við risavaxin marmaraverk Grikkja sem síðar urðu til, eru þetta elstu marmaralistaverk sem þjóðin á, og það þykir nú ekki lítið merkilegt í landi sem á svo stórkostlega hefð í tamningu grjóts. Naxosbúar eiga merkar minjar úr grjóti frá öllum tímum sögu sinnar. Hróður steinsmiða á Naxos var mikill um allt Grikkland og jafnvel víðar, og þeir voru oft og einatt fengnir til að smíða verk á meginlandinu og á eyjunum. Og oftast lögðu þeir efniviðinn til sjálfir – komu með eðalgrjótið með sér, - marmarann, sem þeir kunnu svo vel á. Á sjöundu öld fyrir Krist var marmari og annað grjót orðin helsta útflutningsvara eyjarinnar. Steinsmiðirnir Byzes og sonur hans Georgos þóttu undraverðir völundar; - urðu fyrstir manna til að reisa stórhýsi úr hreinum marmara og til þeirra er rakin fyrsta framleiðsla sem vitað er um á marmaraflísum til húsagerðar.

Eftir því sem aldirnar liðu urðu listaverk steinsmiðanna á Naxos stærri og fjölbreyttari. Löngunin til að skapa eitthvað ómannlega stórt var mikil, og það voru guðirnir sem áttu að njóta heiðursins. Kúros, eru þau kölluð risavöxnu líkneskin sem gerð voru af guðum í mynd ungra manna. Enn liggja tvö slík á Naxos, hvorugt fullklárað, á þeim stöðum þar sem smíði þeirra fór fram. Í þorpinu Melanes inni í miðju landi liggur ungur Apolló, og í þorpinu Apollonas á norðurströndinni, kúrir sjálfur guð eyjarinnar, Dýonísos.

Naxosbúum þykir það sumum súrt að í dag skuli flest öndvegisverk steinsmiða þeirra, smíðuð úr grjóti frá Naxos, vera staðsett annars staðar en á eynni sjálfri. Aðrir horfa á þá staðreynd stoltir, og finnst mikið til koma. Merkustu fornminjar á eynni helgu, Delos, fæðingarstað sjálfs Apollós, eiga uppruna sinn og tilurð að rekja til Naxos. Stytta af guðinum Artemis er þar á meðal, gjöf frá efnakonu á Naxos og smíðuð 650 fyrir Krist. Styttan er nú vistuð á Þjóðminjasafninu í Aþenu. Önnur stytta, af Apolló er þar einnig, smíðuð 600 fyrir Krist. Risavaxin marmaraljónin sem rísa upp á framlappirnar og horfa opinmynnt á heiminn, tákn eyjarinnar, eiga sömuleiðis uppruna sinn á Naxos. Hýbýli frá 7. öld eru enn aðrar minjar þar smíðaðar úr marmara frá Naxos af smiðum þaðan. Á meginlandi Grikklands er minjar úr grjóti ættaðar frá Naxos víða að finna. Sfinxarnir á Apollóhofinu í Delfí eru þar á meðal, ótrúlega falleg listaverk sem sýna vel færni steinsmiðanna frá Naxos í að höggva jafnvel fíngerðasta flúr í grjót.

Merkasta verkið sem steinsmiðir á Naxos smíðuðu er þó vafalítið hof, sem hafist var handa við að smíða um 530 fyrir Krist, á hæð á litlum tanga þar sem höfuðstaður eyjarinnar í dag, Hora, eða Naxosbær, stendur. Hofhliðið vísar í áttina að Delos, eyju Apollós, og því telja flestir fræðimenn að hofið hafi verið helgað honum. Talið er að hofið hafi aldrei verið fullklárað, en það var stórt í sniðum og fordyrið eitt smíðað úr fjórum marmarablokkum, sem hver um sig var sex metrar að lengd og vóg tuttugu tonn. En saga hofsins er dapurleg. Á fimmtu öld, var það gert að kristinni kirkju og komst í niðurníðslu. Á þrettándu öld, þegar Feneyingar komust til valda á Hringeyjum og gerðu Naxos að höfuðvígi sínu, urðu straumhvörf í sögu hofsins. Foringi Feneyinganna, Marco Sanudo tók sér titilinn “hertogi af Naxos” og lét umsvifalaust reisa mikið borgvirki efst á hæðinni yfir byggðinni, þaðan sem útsýni til hafs var best. En efniviðinn í kastalann tók hann illu heilli úr hofi Apollós. Kastalavirkið reis hratt, og er í dag ein af örfáum heillegum miðaldabyggðum Grikklands. Vegna þess þykir það stórmerkilegt og er afar fallegt, með þröngum litlum götum sem liðast eins og gangar í völundarhúsi að torgi þar sem kirkja og skólar og fleiri falleg mannvirki standa, þar á meðal skólinn sem höfuðskáld Grikkja á síðari tímum, Nikos Kazantzakis, höfundur Grikkjans Zorbas, gekk í á unglingsárum.

En dýrðin var dýru verði keypt. Grjótið úr hofi Apollós var mulið niður í meðfærilegar einingar og lifir nú sem miðaldakastali, en á tanganum þar sem það reis, stendur ekkert annað eftir en húsgrunnurinn og svo risavaxið fordyrið, sem reyndist Feneyingunum of þungt og mikið til að þeim tækist að eyðileggja það. Fordyrið, eða hofhliðið er í dag auðkenni Naxos, þar sem það gnæfir einmana en tignarlegt og tilkomumikið og horfir til hafs á tanganum við hafnarmynni höfuðstaðarins.

Þegar ég horfi á þau menningarverðmæti sem orðið hafa til á Naxos úr þessum frumstæðasta efniviði, grjótinu, verður mér hugsað til hleðslunnar fallegu í Þingvallasveitinni. Það skiptir kannski ekki öllu máli hve grjótburður mannsins hefur tekið á sig stórbrotnar myndir og hvort landið heitir Ísland eða Grikkland. Sennilega er vart til það byggða ból þar sem manneskjan hefur ekki tekst á við grjótið í einhverri mynd. Sú hugsun sem uppúr stendur snýst um handtökin sem kynslóðirnar hafa lagt á sig við að skapa sér menningu með því einu að temja grjót. Þau hljóta að vera fleiri en stjörnurnar í alheiminum.

Bergþóra Jónsdóttir

Greinin birtist í Morgunblaðinu 1. maí 2006.


Feneyska borgvirkið, Kastró

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband