Loðgrímur og Pornókrates

Grikkland er land Loðmundar og Loðinbarða. Já, elsku vinkonur, hér er hann einmitt kominn pistillinn sem þið hafið beðið eftir, pistillinn um grísku karlmennina. Grikkland er land Loðmundar og Loðinbarða og hér á Naxos eru þeir í mörgum útgáfum og ótal tilbrigðum. Grískir karlmenn eru undantekningarlítið fagurhærðir, með hnausþykka dökka liði. Þeir eru líka velfelstir fagureygðir. Þeir bláeygu, sem eru ekki margir, finna til sín fyrir að vera svona spes, en þeir brúneygðu eru margir sér mjög meðvitandi um að slík augu kunna einmitt að heilla norrænar skvísur. Flest þessara augna eru annað hvort innrömmuð í augnhár á við köngurlóarlappir, eða augabrúnir sem væri örugglega hægt að greiða niður eins og rúllugardínur. Það er þetta endalausa hár, sem gerir þessa menn öðru vísi en íslenska menn – fyrir utan kannski einn. Hárvöxturinn er semsagt þeirra aðalsmerki – við fyrstu sýn.

Sumir Grikkir nota þennan hárvöxt sem nokkurs konar tálbeitu, og virðast telja að það freisti kvenna sérstaklega. Þetta eru þeir sem hafa skyrtuermarnar nægilega vel upp brettar svo að loðnan á handleggjunum verði sýnileg, og fráhneppt að framan – ja bara eins langt og þeir telja nóg til að heilla – og því þykkari sem frumskógurinn er þeim mun færri tölur eru hnepptar. Þessir menn eru upp til hópa indælir og geðþekkir bara rétt eins og vinir mínir heima – það er bara líkamsgróðurinn sem er svona miklu betur úti látinn hér. Grískir karlmenn eru vingjarnlegir og sennilega hlýlegri en þeir íslensku. Þeir yrðu allir hátt skrifaðir í félagsskap Önnu Pálu, félagi snertiþurfalinga, - því hér eru menn ekki búnir að heilsa fyrr en þeir eru búnir að snerta líka – minnsta kosti að klappa manni aðeins á bakið eða strjúka vangann. Þessu er ég auðvitað ekki vön, en kann því bara prýðilega. Konur gera þetta ekki – en ég tek eftir að karlmenn gera þetta líka hver við annann – þeir klappa hverjir öðrum á bakið. En svo er það hárið, lokkanir, brúskarnir, lubbarnir, liðirnir, makkarnir og sveipirnir, - og motturnar. Drottinn minn dýri – grískar mottur eru rosalegar. Hnausþykkari yfirskegg getur varla að sjá nokkurs staðar annars staðar nema ef væri í Tyrklandi. Og hvað er með þessar mottur. Af hverju finnst mönnum ekki nóg um alla aðra líkamsloðnu, - því þurfa þeir að skreyta efri vörina líka með hárum?

En af því að grískir menn eru nú annars svo ósköp venjulegir þá minna þeir mig mjög á menn annars staðar í veröldinni – til dæmis íslenska menn. Hér eru þeir bara ögn loðnari. Ég sé jafnvel íslenska vini mína ljóslifandi í þeim – Loðmund og Loðinbarða, en líka Hárvar, Lokkólf, Mottfreð, Hárald, Brúsknús Loðdór, Liðfinn, Brúskuld, Lubbexander, Hárgeir, Feldmann, Makkapál og Loðgrím - - þeir verða jafnvel enn viðkunnanlegri með þessu íslenska tötsi.

Annars eru líka til frekar óviðkunnanlegir menn hér. Sérstök tegund eru þeir sem límast við mann, verða eins og skuggi manns, góna á mann inni á kaffihúsi, - eru svo allt í einu komnir nokkrum borðum nær og eru svo alveg óvart líka í bókabúðinni sem maður rambar í á leiðinni heim og koma svo alveg upp í flasið á manni á þarnæsta götuhorni. Hvernig fara þeir að þessu – og hvernig nenna þeir þessu? Einn þeirra sló um sig með þeirri óborganlegu pikköpplínu: Horses in Iceland walk very, very beautiful! Er ég fallin? Nei... og hvernig í andskotanum vissi hann að ég væri íslensk?

Fari maður í bæinn að kvöldi til um helgi birtast svo enn aðrar útgáfur af þeim fáu Grikkjum sem eru umdeilanlegir. Sexófílos og Sexófanes eru hér í nokkrum útgáfum og Hóras sömuleiðis – Hórasarnir eru reyndar þónokkrir. Og Pornókrates lifir hér góðu lífi með fráheppt niður á nafla, en kyrfilega gyrtur, svo að illgresið á bringunni hreinlega sullast út, - en er þó hamið af tvemur digrum gullkeðjum sem hann hengir um, jú eimitt, – loðinn hálsinn á sér.

Ég get svarið, að um daginn sá ég einn svo stórkostlega loðinn á ströndinni hér fyrir neðan, að ég ákvað að veiða hann upp á veröndina mína til nánari skoðunar. Það háttar þannig til að á milli hæða í húsinu utanverðu, er risavaxinn rósarunni sem skríður eftir öllum húsgaflinum. Það vildi svo illa til að Loðmundur flæktist og festist í þyrnunum og verður því sennilega að vera þar. Ég veit að mamma Manolas mun vökva hann vel í sumar.


Beggaki


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ja bitti nú!!!
Elsku Begga - eigum við kannski von á því að þú setjist að á Naxos með loðnum Sexófanesi?
Habbó

Habbó (IP-tala skráð) 29.4.2006 kl. 17:31

2 identicon

nei ég trúi því nú ekki. Þó lýsingarnar á þeim séu skemmtilegar hjá þér Begga mín, þá sérðu í gegnum þá sýnist mér...
En hver veit? Er það ekki alltaf þannig í helstu ástarsögum að elskendurnir hata hvort annað fyrst? Þannig kannski spurning Habbóar eigi því rétt á sér.
kveðja úr sólinni.
Edda

Edda (IP-tala skráð) 30.4.2006 kl. 13:46

3 identicon

Já bitti nú og hver veti hvað stelpan á Grikklandi er að dedúa með pornoklesa og hárfanesa. En eitt veit ég að nóg er af hörðu grjótinu ef þeir gerast of nærgöngulir og perraðir. En kannski á þessi eyja eftir að valda örlögum lífs Beggu svo enn sé vitnað í ástarsögurnar. kveðja úr slyddu, snjó og hagléli svona til skiptis á baráttudegi verkalýðsins.
Ástarkveðja,
Systa

bergljót guðmundsdóttier (IP-tala skráð) 2.5.2006 kl. 00:19

4 identicon

„Það er þetta endalausa hár, sem gerir þessa menn öðru vísi en íslenska menn – fyrir utan kannski einn.“

Elsku Nabba frænka - nú fýsir mig mjög að vita hver þessi eini á Íslandi er???? Annars eru karlkyns Þrándheimsbúar einmitt þekktir fyrir hormotturnar sínar sem eru af myndarlegri taginu, svona á norrænan mælikvarða a.m.k. Hvort þær standist þeim grísku snúning skal ósagt látið!

Hef gaman að fylgjast með blogginu þínu, það er löngu komið í favorites hjá mér og verður þar enn.

Knús, Begga

Begga Gúmm (IP-tala skráð) 2.5.2006 kl. 13:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband