Sunnudagur, 28. maí 2006
Kampavín og ferskjumarsipan
Sigga er afrekskona í íþróttum og margreyndur mótorhjólatöffari, og hún ætlar með mig í hjólatúr. Hún er þó svo lítillát að gera sér litla gula vespu að góðu, því ég er óreynd. Mikhalis á mótorhjólaleigunni Mikes Bikes býður mér alla aðra kosti en hjólið hefur miklar áhyggjur af því að ég fari bæði sjálfri mér og hjólinu að voða. Ég fer ekki að keyra neitt fjandans fjórhjól ég er enginn aumingi GET haldið jafnvægi og kann að stýra. Hverslags úrtölur eru þetta eiginlega? Guð minn almáttugur, heyri ég móður mína segja inn í mér, farðu nú varlega Begga mín, og ég lofa öllu fögru. Um síðir fæ ég hjólið, en ég geri það fyrir Mikhalis að renna lítinn prufutúr fram og aftur næstu götu. Ég er auðvitað öll í hnút og skíthrædd eftir allt þetta vantraust, en veit að þetta er ekkert mál. Ég klóra mig út úr prufutúrnum, og svo er það þjóðvegurinn. Stefnan er tekin á syðstu ströndina hér, Pyrgaki, og þangað brunum við. Við Agia Anna bilar hjólið hjá Siggu sprungið dekk, og við erum strand. Án þess að tvínóna er grískur byggingaverkamaður kominn til okkar og vill hjálpa. Við látum hann hringja í Mike og gefa honum nákvæma staðsetningu okkar. Nýtt hjól er komið á bílpalli eftir korter og við höldum áfram. Þessu gæti ég sko vel vanist.... drottinn minn dýri hvað það er gaman að bruna svona áfram með sjóðheitan vindinn í fangið og fegurðin í náttúrunni allt umhverfis okkur skjannahvítar strendur, skýlaus himinn og hafið bláa hafið. Við förum í gegnum sveitir og þorp þorpin eru verst, þar sem göturnar eru bæði snarbrattar og þröngar. Ég hef þetta af. Við erum komnar í einhverjar ófærur, sandöldur, og um það bil sem ég ætla að sigrast á einni slíkri, dett ég og fæ hjólið yfir mig. Austurrískir mótorhjólamenn koma aðvífandi og skipa mér að liggja án þess að hreyfa legg né lið, meðan þeir vippa hjólinu af mér. Sigga er komin líka. Hvað er þetta...það er ekkert að mér, segi ég hofmóðug, en það er auðvitað algjör spæling að hafa dottið á engri ferð. Jæja, við komum okkur út úr þessum ógöngum og upp á veg - - flugurnar smassast í andlitinu á mér þegar ég reyni á vespuna huh kemst ekki hraðar en 50, en það er nóg fyrir mig. Nú bilar hjólið mitt, - get ekki gefið inn, tómt vesen og Sigga komin langt á undan mér. Góðhjartaður Grikki á bíl, dregur hana uppi, og segir henni að vinkona hennar sé strand, og Sigga kemur til baka og bjargar málunum. Hún hjólar á mínu hjóli til baka og nær að losa bensínstífluna, en ég er á hennar. Þvílíkt lán að fara í sinn fyrsta hjólatúr með Siggu.
Það er ekki minna lán að hafa Siggu með sér í bíltúr. Dagurinn okkar á bíl hefði getað endað með ósköpum væri Sigga ekki sá snillingur sem hún er. Ég viðurkenni alveg að ég kom okkur í vandræðin með eintómum aulagangi. Við vorum búnar að fara eyjuna þvers og kruss, yfir fjöllin, skoða þorp og sveitir og komnar alla leið í nyrsta þorpið, Apollonos, þar sem við skoðuðum Kúros gamla, - marmarakarlinn sem liggur þar ókláraður frá því á sjöundu öld fyrir Krist. Ég bið Siggu að taka nú við akstrinum, og hún rekur augun strax í tóman bensíntank. Hmmm var ekki nóg eftir? Reyndar var Sigga búin að spyrja mig tvisvar um stöðuna á bensíninu.... allt í fína svaraði ég. En þarna vorum við sem sagt komnar í vandræði, og ekki um annað að ræða en að renna niður í þorpið Apollonas, og kaupa bensín. Next gas station, Filoti, segir glottandi vörubílstjóri. Boj ó boj, - Filoti er langt suður í miðju landi. Sigga tekur af skarið og brunar á bílnum upp fjöllin aftur. Á efsta punkti gefur Sigga í og tekur úr gír, - ljósið í mælaborðinu er stöðugt og nálin komin niður fyrir E. Þá er það sparaksturskeppnin, segir Sigga hróðug, og bíllinn fríhjólar niður hverja hlíðina af annarri. Guð minn góður hvað ég er fegin þegar Filoti er í augsýn, - þetta frjálsa fall hefur dugað okkur tæpa tíu kílómetra leið, og Sigga segir sposk um leið og hún rennir inn á bensínstöðina að Ómar Ragnarsson hefði örugglega orðið hrifinn af þessu. Það hlýtur bara vera alla vega er ég með stjörnur í augunum yfir þessari akstursfimi vinkonu minnar. Við rennum í paradísina mína í Moutsouna og sitjum þar dágóða stund, áður en við brunum í bæinn aftur.
Beggaki
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.