Sigga

Við og gyðjurnar
Ég hitti Siggu vinkonu mína í Aþenu. Sigga er engin venjuleg kona – að vera með henni er samfelld gleði og hlátur. Sigga dregur mig inn í óvænt ævintýri – ég veit ekki alveg hvernig hún fer að því, - en dagarnir fá nýjan lit og stanslaust fjör. Hún hefur sérstakan radar á skemmtilegheit. Hún heillar alla í kringum sig ekki síst karlmenn. Hvernig má það vera að við erum allt í einu sestar inn á gafl hjá pelsakaupmanni í Aþenu að drekka ouzo og tala við hann um Ísland og alla frægu og fínu vinina hans þaðan og annars staðar að. Hann ætlaði að reyna að selja okkur leðurkápur, en Sigga hefur lag á að breyta þessu í kósí heimsókn til manns sem við þekkjum ekki neitt. Við förum út kápulausar, en kátar af drykknum. Hún dröslar mér upp á Akrópólis og telur ekki eftir sér að pústa meðan mæðuveika rollan hún vinkona hennar reynir að ná andanum. Hvers vegna völdum við heitasta daginn í þetta príl? Sigga hlær að því, en þegar upp er komið er dýrðin himnesk. Það stendur: “Bannað að snerta!” á skilti við Meyjahofinu, og Sigga strýkur höndinni samstundis í handaför Sókratesar: “...maður verður að finna...” segir hún og flissar þegar grísk lögga skammar hana eins og hvern annan stelpukjána. Við skoðum, tökum myndir, förum á safnið og hugleiðum tímann og menninguna. Við tökum myndir af okkur með gyðjunum sem halda uppi svalaþakinu á Erekþíon hofinu, - óskaplega eru þær fallegar og merkilega óbugaðar þrátt fyrir að hafa haldið uppi hálfu öðru tonni af grjóti á höfðum sér í næstum tvö þúsund og fimmhundruð ár.

Við Sigga erum heppnar að búa í miðju Plaka hverfinu – allt innan seilingar. Eigum þó í mesta basli með grísku leigubílstjórana sem ýmist vilja heimta 15 evrur eða aðeins þiggja 2,50 fyrir að skutla okkur heim eftir langt labb um Plaka, Monastiraki, Psiri og Keramikos. Sigga er búin að heilla lobbýistann á hótelinu, - hann vill bjóða henni í kvölddrykk og játar henni ást sína með því að segja að hún sé frábær vegna þess að hvað hún sé skrýtin. Drykkurinn bíður. Við skellum okkur á tónleika hjá endurfæddum Buena Vista Social Club, og Sigga tekur ekki annað í mál, en að standa fremst við sviðið, svo hægt sé að fá tónlistina í æð, - það gerum við. Þvílíkt fjör... ég verð að læra að dansa salsa... Töffarinn á sviðinu er gamli gítarleikarinn, - missir ekki kúlið eina einustu sekúndu, og setur upp nautnalegan einbeitingarsvip í sólóunum sínum. Djö...hvað hann er flottur....og samt eitthvert angurvært og kunnuglegt alíslenskt smalapiltsyfirbragð á honum.

Fyrr en varir erum við lagðar af stað heim til Naxos, - fimm og hálfur tími á ferjunni og nógur tími til að hlakka til að sýna Siggu dýrðina mína þar. Svolítill lúr á þilfarinu, sólin er heit og hafið.... það er fallegt.

 

Beggaki


Ouzodrykkja hjá feldskeranum í Aþenu
Sigga við Meyjahofið

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

frábær ævintýr hjá ykkur siggu, og lenda mitt í göldrum islenska smaladrengsin hefur verið sérlega skemmtilegt að upplifa,og gefið ykkur macik ferðarlag á sjóin með manninum þöggla. Gaman að sjá hvað dvölin hjá ykkur er skemmtileg,og morgunverðurinm bleiki alveg í réttum anda ykkar vinkvennana.
Skrifuð skemmtilega og mjög gaman að lesa

Hrafnhildur (IP-tala skráð) 29.5.2006 kl. 01:54

2 identicon

Hæ Begga sæta.

Sigga er komin heim og í skýjunum. Hún hefur greinilega haft gott af dvölinni því hún geislar af gleði og fjöri. Þú hefur líka svo góð áhrif á okkur hin. Ástarkveðja - Stefanía

Stefanía (IP-tala skráð) 1.6.2006 kl. 11:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband