Sunnudagur, 28. maí 2006
Veiðiferð með Takis
14. kafli
Sendingar og Fylgjur
Ég trúi því blygðunarlaust, að heima á Íslandi sitji einhversstaðar smaladrengur í álfakastala og hafi komist yfir þau ráð að geta galdrað og sent mér ýmislegt skemmtilegt hingað yfir höf og lönd. Ég hef sannreynt þetta.
Við Sigga vorum í spássistúr meðfram höfninni, og vorum að dást að því hvað sjórinn væri hreinn og tær, - jafnvel inn í miðri höfn. Við vorum í einhverju ævintýrastuði, og köstuðum kveðju á gamlan fiskimann á rauðum bát, sem bar það skemmtilega nafn, Agios Nikolaus, sem útleggst Heilagur Nikulás, eða Sankti Kláus, eða bara Jólasveinninn. Við gengum lengra út á hafnargarðinn, og staðnæmdumst við annan bát, sem bar nafn guðsins fallega, Adonis. Ég er nokkuð viss um að smaladrengurinn íslenski sé Adonis í álögum, því um leið og við settumst niður við guðsbátinn gerðist eitthvað kraftar losnuðu úr læðingi. Ævintýrið var á leiðinni. Við gengum til baka, og þegar við komum aftur að þeim gamla á Jólasveininum settumst við á steinbekk og ætluðum að fylgjast aðeins með honum bauka við netin sín. Come with me?, sagði sá gamli, og Sigga sagði Já, áður en þeim gamla tókst að ljúka við setninguna. Sippohoj, og við um borð. Við vissum ekki baun hvað í vændum væri, en landfestarnar voru leystar, og við tók hafið í allri sinni dýrð. Hann sagðist heita Takis, en var þögull. Við settumst við stafnið og nutum veltingsins þegar báturinn skreið inn í öldurnar utan við brimbrjótinn sem hlaðinn er úr skjannahvítum marmaradröngum. Við vissum ekkert hvorki hvert við færum, eða hvenær við kæmum til baka. Þetta var æfing í því að lifa augnablikið til fullnustu. Jólasveinninn staðnæmdist við litla jullu sem lá í akkeri og Takis batt bátinn við julluna. Hann skolaði dekkið vel og vandlega með sjó, sem hann hífði inn í málningarfötu, og sótti teppi inn í stýrishúsið og breiddi það undir bossana á okkur þar sem við sátum. Þá hófst sú yndislegasta og hlýlegasta veisla sem mér hefur verið boðið uppá í langan tíma. Mér datt í hug Gísli á Uppsölum þegar Takis bar út á dekkið þrjú glös og drykk í tveggja lítra kókflösku. Eitt glasið var vissulega glas, það næsta afklippt plastflaska, en það þriðja einhvers konar gjörningur með fyrrverandi drykkjum sem höfðu storknað uppí miðju glasi. Ekki oft svo gestkvæmt um borð í Jólasveininum. Kannski sá Takis mig fölna, en alltént tók hann glösin og þvoði þau vel í söltum sjónum með grútskítugum vinnuhöndunum sínum. Mmm... þetta var betra. Í flöskunni var retsina vín sem hann sagði pabba sinn brugga. Hver svo sem sá aldni maður er, þá má hann eiga það að hann er fjári góður bruggari. Þarnæst komu þrjú epli, öll nýþvegin með sömu aðferð sjósölt epli eru gómsæt. Næsti réttur voru harðsoðin egg, og þessi sjentilmaður tók skurnina af þeim fyrir okkur, og pillaði hverja örðu af eins vel og nákvæmlega og hann gat. Þriðji réttur var agúrka sem var flysjuð og skorin af sömu alúð ofan í okkur. Við sátum og þöguðm og gæddum okkur veisluföngunum, og augnablikið var fullkomnað. Undirspilið voru grískir ástarsöngvar úr litla lúna ferðatækinu hans, sem þurfti að banka í af og til, til að hressa upp á sándið.
Við spjöllum og ég býð Takis sígó. Þetta er klár karl enginn vafi. Hann þekkir veröldina í kringum sig, - ekki bara sjóinn sinn og fiskinn og Naxos þar sem hann hefur búið alla tíð fyrir utan árið sem hann var í stýrimannaskóla á Ítalíu, - hann þekkir líka heiminn utan þess hrings. Hann veit um Ísland, og veit að þar eru fiskimenn margir og eiga stóra báta og skip. Hann veit líka að fiskurinn þeirra er góður. Ég fæ prik fyrir að vera komin af sjómönnum, en Takis hefur alla tíð verið til sjós. Ég spyr hann hvar hann hafi lært ensku, og hann segist bara eiga svo marga vini sem þurfi að tala ensku við. Við Sigga höldum áfram að sötra á sjö ára gömlu retsina víninu, en Takis fer að undirbúa að leggja netin. Hann vippar sér yfir í julluna, losar hana, og rær að baujunni sinni. Gula netið rúllar í sjóinn og haugurinn í jullunni vindur ofan af sér meðan hann rær að hinni baujunni. Þetta er dásamlegt, yndislegt, stórkostlegt, einstakt mölum við Sigga hvor í kapp við aðra þvílík stund. Takis kemur aftur um borð, sest niður og fer að staga í annað net, við sitjum og njótum augnabliksins. Sólin er farin að lækka á lofti, og Takis er með eitthvað á prjónunum. Hann rogast með teppin aftur í skut og breiðir þau á dekkið, hóar í okkur og segir okkur að setjast þeim megin í skjól fyrir golunni sem verður æ svalari. Við sitjum, kjöftum, sötrum vín og lífið er hér. Þetta augnablik er lífið. Takis hefur aldrei átt konu og á engin börn. Tómt vesen, segir hann og bætir því við að svoleiðis fólk verði þrælar klukkunnar og alls konar erinda og anna. Frelsið er á sjónum, en honum finnst samt gott að kíkja á pabba og mömmu af og til og fá almennilegan mat. En svo töltir hann aftur niður á bryggju og út í bát, - þar er best að sofa.
Takis býður okkur að koma á veitingahús sem á að opna næsta dag, og smakka fiskinn sem við vorum að leggja fyrir. Hann rær með okkur aðra í einu í land á jullunni, - við viljum róa með hann og gerum það duglegar stelpur. Við kveðjum Takis fullar þakklætis. Fjögurra tíma veiðitúr er á enda. Sendingin sem Adonis bar okkur frá smalanum heima var að fá að njótas þessa stóra og magnaða augnabliks, og fylgjan var Takis, og báturinn hans, Heilagur Nikulás.
Við mætum á tilsettum tíma næsta dag og Takis hrópar "Sigga, Sigga" utan úr bátnum sínum, en allt í óefni, því rafmagnsbilun olli því að ekki er hægt að opna veitingahúsið á réttum tíma. Takis vill fara í land og kaupa pizzu handa okkur en við tökum það ekki í mál. Þiggjum hins vegar glas af guðaveigunum og kveðjum þennan gríska sjóara sem okkur þykir báðum vænt um.
Beggaki
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.