Nostalgía í 16 fermetrum

Sjálfsmynd í spegli

Það er skrýtin tilfinning að lifa lífi sínu allt í einu á 16 fermetrum, þegar maður er vanur 100m2  í týpísku reykvísku fjölbýlishúsi. Mér líður eins og ég sé aftur orðin unglingur í herberginu mínu í H7. Hér er svo auðvelt að búa til stemmningu, rútta til og breyta, hengja upp myndir kveikja á kertum og reykelsi og hafa það verulega notalegt, og úr því að Dimitri segir að ég megi gera hér hvað sem ég vilji, þá hika ég ekkert við að haga mínu lífi hér á Agios Giorgos eins og mér sýnist.

Í gærkvöldi hafði ég ráðgert að fara á grískt danskvöld á stað hér rétt hjá, en fyrr um daginn hafði ég rambað á hannyrðaverslun, og stóðst ekki mátið þegar ég sá himneskt úrval af steinum og perlum, leðurreimum og öllu því sem þarf til að búa til skart. Þegar ég var komin heim úr þeim leiðangri, varð föndrið svo spennandi að gríski dansinn gleymdist. Þetta varð einhvern veginn alveg eins og í gamla daga þegar ég sat kvöld eftir kvöld að teikna, vantslita, sauma, vefa eða prjóna í herberginu mínu heima hjá pabba og mömmu – ég komst í djúp tengsl við gamalt sjálf. Og merkilegt – ég fann mig knúna til að slökkva á Bill Wyman og Junior Wells í græjunum mínum og kveikja á útvarpinu. Það skipti engu máli þótt þar væru einhverjir vellulegir grískir Loðmundar að kyrja eitthvað sem ég skildi ekkert í, - þegar maður situr og dútlar eitthvað í höndunum, þá hlustar maður bara á útvarp, - skiptir ekki máli hvaða útvarp.

Þetta var því frábært kvöld og afraksturinn allra fallegasta hálsfesti úr grískum stein- og messingperlum. Lagðist svo í fletið mitt og las meira í Grikklandsgaldri Sigurðar A. Magnússonar og vaknaði kófsveitt við drauma um funheitan grískan dans.

Beggaki


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Elsku Begga
En dásamlegt að heyra þetta allt saman. Breytirðu á hverjum degi í herberginu þínu eins og þú gerðir forðum Í H7?
Gott að heyra að þér líður vel og ég hlakka til að heyra meira um grískt danskvöld.
Bestu kveðjur frá Habbó

Habbó (IP-tala skráð) 11.4.2006 kl. 11:33

2 identicon

Elsku Begga mín!
En hvað ég skil þetta vel með perlurnar og leðurreimarnar.
Eins og talað út úr mínu hjarta og ég skil líka vel að þú unir þér þarna alveg upp á þitt eindæmi. Til hvers að hafa hugarflug ef maður má aldrei nota það? Njóttu lífsins til fullnustu. þín,
Magga tanta

Magga tanta (IP-tala skráð) 12.4.2006 kl. 00:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband