Þriðjudagur, 11. apríl 2006
Aldrei á sunnudögum
Ég er búin að verða mér út um alla helstu reisupésa eyjarinnar, strætóbók og fleira, en það er alveg ótrúlegt að upplýsingar um ferjuferðir milli eyja fást hvergi á prenti. Það er nefninlega þannig hér að meðan sumarið er ekki alveg komið, þá er þetta svolítið losaralegt, og fer helst eftir því hvað skipstjórum og ferjumönnum líst á að gera. Einu ferjurnar sem komnar eru á fastan rúnt er ferjan til Pireus og Krítarferjan. En ég ætla ekki strax í heimsókn til Yanna, og því verður Krít að bíða. Mig langar hins vegar að kíkja á Folegandros sem mér er sagt að sé yndisleg, og Sifnos er líka á bráðaplaninu.
Ég ætlaði hins vegar að eyða þessum sunnudegi í strandgöngu, suður með eynni, og reyna að komast til Agios Anna. En nú ber svo við að hér er hávaðabrim, og enn nýtt leikhús að horfa á það frá veröndinni minni. Ég ætla því að láta strandgönguna bíða og taka daginn rólega. Strætóferð inn á eyju er heldur ekki inni í myndinni í dag, því Dimitri segir að í þorpunum inni í landi, sofi allt á sunnudögum.
Það þurfti ekki meira til en þessa setningu "sofi allt á sunnudögum" - ég er búin að vera með á heilanum síðan lagið sem Melina Mercouri söng í myndinni um Börnin í Pireus Never on Sundays. Ég held að þessi lagarofi í hausnum á mér sé geðsjúkdómur. Það má enginn segja neitt þá dettur mér í hug lag um eitthvað tengt því. En hvað um það, dagurinn fer sjálfsagt í einhver rólegtheit, og fyrsta vers verður að kanna ástandið uppá torgi, og hvernig gengur að þrífa og gera huggulegt þar. Þar er líka besta netkaffið, og eigandi þess er besti vinur Dimitris. Í gær kom hann askvaðandi meðan ég var að spjalla við Úlfhildi, sagðist vera á leið út í búð, og hvort hann gæti fær mér eitthvað. Jú, mig langaði smá í kók, og fyrr en varði kom hann færandi hendi með kókdós og rör. "On the house", sagði vinurinn, "I want you to feel at home here". Þannig er stemmningin hérna, og mér finnst ég stálheppin að hafa álpast hingað á undan öðrum ferðamönnum, - hér eru allir vinalegir og hlýir við hjarðlausan sauð frá Íslandi.
En nú ætla ég að skvera mér í sturtu og búa mig undir að kanna hvernig sunnudagur á Naxos lítur út. Best að kveikja aftur á Junior Wells, - Messin with the Kid kemur mér í góða skapið, sem svosem enginn hörgull er á hér á þessum unaðsreiti.
Beggaki
Meginflokkur: Ferðalög | Aukaflokkur: Bloggar | Breytt 14.4.2006 kl. 15:31 | Facebook
Athugasemdir
En hvað þetta er dásamlega skemmtilegt blogg! Við hugsum til þín héðan af Mogga.
inga maría
inga maría (IP-tala skráð) 11.4.2006 kl. 11:35
En hvað þetta er dásamlegt blogg! Við hugsum til þín héðan af Mogga.
inga maría
inga maría (IP-tala skráð) 11.4.2006 kl. 11:37
Hæ Begga, frábært að vita af þér á þessum unaðsreit og sjá hvað þar er allt bjart og fallegt, hlakka til að fylgjast með ævintýrum þínum!
Sigga Steina
Sigga Steina (IP-tala skráð) 11.4.2006 kl. 11:46
Hæ Begga, hvað merkir "ki" í viðbót við nafnið þitt. Pápi
Pápi (IP-tala skráð) 11.4.2006 kl. 21:42
Skemmtileg lesning hér Bessí mín. Ég er líka með lagasjúkdóminn, er farin að raula lög sem hafa einhverja tenginu við einhver orð sem ég heyri, án þess að taka eftir því, lög sem ég myndi aldrei muna annars þó mér væri borguð milljón.
Ímsílíms
Íma (IP-tala skráð) 12.4.2006 kl. 22:37
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.