Miðvikudagur, 12. apríl 2006
Ævintýri á fjöllum
Fyrirheit mánudagsins voru að taka strætó upp í fjöll og skoða þorpið Apiranþos. Ég vaknaði eldsnemma til að ná í fyrsta strætó, dreif mig niður að höfn, þar sem strætóstoppistöð bæjarins er. Þar var fólk farið að safnast saman, aðallega gamalmenni og konur með börn, og svo örfáir ferðamenn. Við vorum varla sest inn í óhrjálegan fararskjótann, þegar maður á miðjum aldri, valdsmannslegur í fasi rekur alla út, og inn í annan vagn, eldgamla rútu.
Það var þröng á þingi, flestallir með einhvern farangur í úttroðnum plastpokum, og hávaðinn eftir því. Það talar enginn lágt í Grikklandi. En það var líka mikill hlátur, upphrópanir, hagræðingar og tilfærslur, og á endanum settist hjá mér gamall maður með eina framtönn. Ungur bílstjóri snaraði sér inn og ók af stað, en sá mynduglegi tók að rukka fyrir farið. Sá gamli við hliðina á mér var greinilega spenntur að sjá jafn skrýtinn fugl og mig, og hóf að hnykkja olnboganum í síðuna á mér, og segja eitthvað, og lítið sem ég gat gert annað en að kinka kolli og brosa. En hann lét það ekki duga. Hélt áfram að ræða og spjalla og spyrja, og í hvert skipti sem hann opnaði munninn fékk ég ýmist olnboga í síðuna eða að hann smellti læri sínu utan í mitt. Þess á milli benti hann út um gluggan, og sagði mér eitthvað greinilega mjög fallegt um staði og staðhætti á Naxos. Satt best að segja kunni ég þessari þvermóðsku og innilegu bjartsýni nokkuð vel. Hann var ekkert að setja það fyrir sig að ég skildi ekki orð, en hafði greinilega mjög gaman af því að segja mér frá. Ég gat ekki annað en glaðst yfir því - uppákoman hlýtur í það minnsta að hafa verið mjög kómísk fyrir þá sem sátu nálægt. Þegar hann fór úr vagninum, nokkrum þorpum á undan mínum áfangastað, kvaddi hann innilega og með virktum. Ég gat þó kvatt á móti: Yasú, yasú, kalimera!
Landslagið á Naxos er fallegt. Hæðir og dalir, og gróðursæld og hrjósturblettir á víxl. Síðasta þorp fyrir Apiranþos var Filoti, sem lítur út fyrir að vera mjög fallegt. Þaðan var ekið uppí móti, uppí fjöll, sem virtust ekkert sérstaklega há úr fjarlægð, en voru það svo sannarlega þegar rútan hossaðist á þröngum kræklóttum veginum - bílstjórinn sló hvergi af, en flautaði svo um munaði í hverri beygju.
Svo komum við í Apiranþos, og ég varð hissa. Þetta leit út eins og stórt bílastæði fyrir neðan háa hlíð þakta hvítum húsum, og þarna var rok. Jú, þarna var kirkja, og hlið. Ég gekk inn um hliðið, og inn eftir þröngum hlöðnum stíg, og smám saman opinberaðist þetta dásamlega þorp mér. Og rokið varð eftir á bílastæðinu - dúnalogn fyrir innan. Ég áttaði mig á því að bílastæðið við þorpshliðið, var ætlað öllum íbúum þess, því innfyrir hliðið fer ekkert vélknúið farartæki, ekki einu sinni vespa. Göturnar liðu þarna hver þvert á aðra upp og niður í tröppum og sundum, undir hús og milli húsa, allt eins og í einhverri dúkkuveröld. Ég vissi svosem ekkert hvert ég var að fara, ég var bara að rölta um, en önnur hver gata endaði á litlum húsatröppum, og þá var bara að snúa við og velja sér einhvern annan rangala. Þarna voru krakkar að leika sér og unglingsstrákar röltu um með asnana sína. Hnakktöskurnar þeirra voru stórir bláir kókflöskukassar, og þar í einhver varningur. Það er erfitt að lýsa þeim áhrifum sem þetta fallega þorp hafði á mig. Hvernig væri að búa á svona stað? Næsti húsagluggi í mesta lagi í tveggja metra fjarlægð frá þínum, og svalirnar þínar næstum kyssa svalirnar á húsinu andspænis þér. En húsin voru falleg, - og sumar svalirnar þaktar blómum. Þarna voru líka veitingahús, og þar inni - eins og alls staðar, - karlar að spila kotru og drekka ouzo eða raki.
Ég rölti mér inn á safnið sem er bæjarstoltið, en þar er varðveittur þjóðlegur vefnaður frá fyrri tíð. Það var nú aldeilis góss sem þar er varðveitt, og augljóst að þær hannyrðakonur sem þar hafa setið við, hafa ekki hangsað yfir kotru og rakidrykkju.
Klukkustundirnar þutu hjá, meðan ég var í þessari sérkennilegu skoðunarferð, og senn kominn tími á síðasta strætó í Naxosbæ. Í strætópésanum sagði að síðasti vagn færi 16.30, en valdsmannskarlinn um morguninn hafði sagt mér 16.15. Þegar ég spurði hverju þetta sætti, sagði hann að hann segði alltaf að strætó færi korteri fyrr en hann ætti að fara, til að allir væru örugglega mættir á stoppistöðina þegar vagninn kæmi. Þetta væri nú svosem í lagi ef vagninn hefði komið kl. 16.30. En hann kom ekki fyrr en 16.45 og þessar fjórar hræður sem biðu með mér orðnar svolítið spenntar. En svo kom strætó - tómur - bara við fimm ferðamennirnir. Ferðin til baka var falleg og vandræðalaus. Í Filoti var hópur af skólakrökkum tekinn um borð og kennari. Skömmu eftir að við ókum af stað þaðan, - og rétt komin út í óbreytta og hreinræktaða sveit, stöðvaði bílstjórinn bílinn, smalaði okkur útlendingunum saman og sagði bara "caput! caput! caput! another bus! caput!" Við skildum þetta sem svo að bíllinn væri bilaður og að annar vagn kæmi innan skamms að sækja okkur. En merkilegt var að bílstjórinn ók til baka með skólakrakkana en skildi okkur útlendingana eftir þarna á þjóðveginum. Við fórum auðvitað að spjalla og spekúlera; tveir stæðilegir finnskir strákar og bresk hjón, og okkur fannst þetta sérkennileg uppákoma. Ekki lét næsti strætó á sér kræla og við vorum farin að velta því fyrir okkur hvort við þyrftum að húkka far í bæinn. Kom þá ekki leigubíll brunandi og skransaði eins og bíómyndarbíll við hælana á okkur. "No bus, only taxi, bus caput!" Ekki vandræði að skilja það, - en hvernig ætlaði hann að koma okkur fyrir í litlum leigubíl. Breski karlinn bauðst til að bíða, en mér fannst eðlilegast að ég biði, þar sem ég var hvort eð er ein. En bílstjórinn hlustaði ekki á svoleiðis kurteisismúður, og byrjaði að raða í bílinn. Finnarnir tveir fyrst, aftur í, þá breski maðurinn, sem var ansi hávaxinn, ég frammí með farangur allra á hnjánum og sætið eins framarlega og hægt var, og breska frúin, lekker dama, var svo lögð til hvílu á lærum herramannanna afturí. Þetta var semsagt röggsamur bílstjóri og tók hlutverk sitt alvarlega að koma okkur heilum í bæinn aftur. Ég sá ekkert út fyrir finnskum bakpokum, en núna var bara hægt að hlæja, og við hlógum öll. Þetta var óvænt ævintýri og ég held að meir að segja bresku frúnni hafi þótt þetta mjög skemmtilegt. Bílstjórinn kom okkur á áfangastað og rukkaði bara sem nam strætófargjaldinu sem strætóbílstjóranum hafði ekki enn gefist tími til að rukka. Mér fanst 2.30 evrur ekki mikið fyrir svona ævintýri.
Beggaki
Meginflokkur: Ferðalög | Aukaflokkur: Bloggar | Breytt 14.4.2006 kl. 15:28 | Facebook
Athugasemdir
jahérna en yndislegt að vita af þér þarna í þessum dásemdum. Hjartans kveðjur frá Indru og Ragnari Steini!
indra (IP-tala skráð) 12.4.2006 kl. 16:41
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.