Kveðið á sandi

Strandganga

Ég fór óvenjusnemma á fætur í morgun, og ástæðan fyrir því var sú, að ég vaknaði við það að það skall skyndilega á stafalogn, eftir vindblásna nótt og hávaða frá hafinu.  Allt í einu heyrðist ekkert.  Morgunninn hefst á ströndinni, - þar er púlsinn tekinn, - hvernig veðrið mun verða, - hvernig best er að búa sig út í daginn.  Það var heitt í morgun, - og þetta spegilslétta haf og sandbreiðurnar til suðurs, kölluðu á langan göngutúr.

Það er sérkennilegt að vera svona einn í veröldinni, eldsnemma morguns á strönd útí buska, strönd sem á sér langa og merkilega sögu, en maður þekkir ekki.  Þetta er eins og hugleiðsla.  Lauflétt öldugjálfrið er nógu órytmískt til að frelsa mann frá reglufestu göngutaktsins, og maður fer að hægja á sér, ganga skrykkjótt, staldra við, flýta, skoða, stoppa og lulla sér áfram í sama frjálsa rytma og þetta umhverfi spilar fyrir mann.  Ég geng út á lítið eiði og sest niður á stein, sekk mér í hugsanir um hetjur og guði, um skrattakollinn hann Þeseif sem var svo ómerkilegur að skilja Ariödnu hér eftir sofandi á kletti, eftir að hún hafði hjálpað honum að drepa Mínótárinn hræðilega á Krít.   Var það þessi klettur?  Var það kletturinn heima við húsið mitt?  Eða var það næsti klettur?  Eitt andartak hugsa ég um það hvort ég eigi að prófa að leggja mig hérna á þessum stóra steini - vita hvort ég vakna seint og um síðir við koss frá Dýonísosi eins og Ariadne.... nei, obbosí, það er að flæða yfir eiðið, og ég stekk í land - rennblotna í fæturna, en hvað gerir það til? 

Ég held áfram, - langar að komast inn að næstu strönd Agios Prokopios, og kannski alla leið til Agios Anna ef ég nenni.  Hugsunin beinist að ómerkilegum hlutum; - hvort skyldi vera betra að labba næst sjónum, þar sem sandurinn er blautur; í farveginum þar sem þarinn og smásteinarnir hafa orðið eftir, eða efst, þar sem sandurinn er mjúkur og gljúpur - eða jafnvel upp á melnum fyrir ofan sandinn.  Prófa allar fjórar aðferðirnar.  Það er mikilvægt að komast að sannleikanum um þetta atriði.  Ég ætla ekki að segja hvað mér finnst, - þið verðið að komast að ykkar eigin sannleika hvað þetta varðar.  Á stóru eiði sem skilur strendurnar að er fallegur gróður, runnar og smátré og breiða af villtum blómum.  Labbilabb, og ég er komin til Agios Prokopios.  Naxosbær er horfinn sjónum mínum.  Hér er þá svona - allt önnur veröld. Hér eru nokkrir bátar og karl að mála einn þeirra.  Hér er líka meiri melur, og meiri gróður.  Ég velti því fyrir mér hvort ég verði bitin af sporðdreka ef ég sest í fjörugrjótið - tek sjensinn.  Hér er ég í Paradís, - það er svo hljóðbært í logninu að ég heyri í blautum pensilstrokum bátsmannsins... hugurinn reikar til vina minna heima, fjölskyldunnar og stóru stelpunnar minnar, - hugsa um ástina, tónlistina, tímann og eilfíðina.  Eitt augnablik verð ég eins og Amaldus gamli í turninum útá heimsenda, og næsta augnablik er ég eilífðarunglingur að upplifa hippískan draum.  Hvað hef ég gert til að eiga innistæðu fyrir þessari hamingju? 

Rölti rólega heim á leið, rek mín eigin spor, tek myndir af dýrðinni í kringum mig.  Þrjár sænskar konur lagstar berbrjósta út í sand.  Var ég ekki að tala um Paradís?  Tek eftir því að eitt húsið við ströndina heitir Paradís, og þar er maður að mála.  Hér eru fæðingarhríðirnar rétt að byrja, - fáir á ströndinni svo snemma vors.  Ég er heppin, - þangað til verður þetta minn heimur, þar sem ég get spígsporað í mínum eigin hamingjutakti.  Nú á ég heima hér.

Beggaki


Strandganga
Strandganga
Málað í Paradís
Strandganga
Strandganga

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Begga!!!!!!!!!
Hvers vegna ert þú ekki að skrifa bækur? Ég legg til að þú leggist í svona ferðir og skrifir bók um hverja ferð.
Þetta er allt að fara inn í Power Point og Words hjá mér
Bestu kveðjur,
Magga tanta

Ólafía Margrét Ólafsdóttir (IP-tala skráð) 13.4.2006 kl. 21:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband