Ekki taka stoltið frá mér

Páskaskrautið á ljósastaurunum

Pálmasunnudagur er heitur á Naxos, og í fyrsta sinn sá ég slangur af fólki á ströndinni.  Mest voru það útlendingar, en líka stöku gömul kona, dökkklædd með skuplu, með niðjakrílin sín í eftirdragi.   Gegnum sólþyrstan letidrungann var ég búin að heyra hróp og köll  á litlar Maríur og Írínur og Yannisa og Spyrosa, ærsl og læti, þegar ég heyrði kallað: "Kári,  Kári!"  Ósköp var það nú ógrískt, og kiðið sömuleiðis, svona skjannaljóshært.  Þar var kominn Egill Helgason með snáðann sinn.  Við ætlum að hittast í grískum mat annað kvöld.

Ég komst að því þegar ég kom hingað upp á torg, að vinur minn á netkaffinu, þessi af Dylankynslóðinni - sem ég veit ekki einu sinni ennþá hvað heitir, - hann er svolítið sár út í mig, - kannski móðgaður.  Og hvernig tókst mér að svekkja hann?  Honum fannst að ég hefði bara átt að þiggja boð um fría tölvunotkun án þess að vera með múður, og tilboð um aðstoð á móti.  Ég fann að hann meinti þetta, og þetta var eitthvað að trufla hann.  Hann rakti mér alla sína fiskimannssögu, og sögu netkaffisins og sagði mér allt um Akkiles, munaðarlausan bróðurson hans sem vinnur á netkaffinu, en er óttalegur gaur...

Þessi maður hefur ákveðið að lífið eigi að vera gott, og maður eigi að njóta samvista við annað fólk.  Honum fannst ástæða til að gleðja mig, og fannst ég gera lítið úr hans gleði yfir því að gleðja mig, með því að bjóða eitthvað á móti.  "The pride - don't take that away from me" sagði hann, og ég skil hann og skammast mín auðvitað smá.  Maður er bara ekki vanur svona trakteringum.  Nú erum við búin að kjafta enn meira saman og allt í góðu.  Kannski ég segi sögu hans einhvern tíma hér, - hún er áhugaverð.   

Það er undarlegt að sitja hér í sól og blíðu með allar þessar rakettusprengingar allt í kringum mig.  Hvernig verður það um páskana?  Það er verið að setja upp páskaskraut á ljósastaurana í bænum - svona eins og jólaljósin í miðbænum heima.  Gulir rafungar og kerti.

Beggaki


Ströndin á pálmasunnudag

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband