Fólkið á Scirocco

Scirocco

Þau eru búin að taka mig að sér, elskulega fjölskyldan á Scirocco.  Pabbi Stratos, mamma Ekaterina, bræðurnir Nikos og Mikhalis og systirin Aþena.  Þau reka saman indælasta veitingahúsið á torginu mínu, og hjá þeim borða ég oft.  En Scirocco er ekki bara staður til að borða á, - þar hittir maður alla sem vert er að hitta og nenna að eyða tíma í þá göfugu list að tala saman, þar er hægt að sitja tímunum saman og lesa í bók, þar er hægt að hangsa yfir vínglasi; - þar er hægt að eyða heitum dögum í skugga undir laufþaki ef maður hefur ekkert annað að sýsla.  Maturinn hennar Ekaterinu er óhemju góður.  Og hún hlær og verður feimin þegar maður segir það við hana. Hún stendur vaktina í eldhúsinu alla daga, en fær vinkonu sína til að hjálpa sér þegar mikið er að gera. Stratos átti sér þann draum, að koma upp þessum veitingastað, og það tókst.  Skömmu síðar fékk hann heilablóðfall og varð að fara í uppskurð, og getur lítið unnið.  Hann situr og spjallar við gesti, drekkur kaffi, sveiflar perlubandinu sínu, og spilar kotru við hina karlana.  Nikos er elstur, 38 ára, og Mikhalis er 34 ára.  Þeir hafa báðir skoðað heiminn og bjuggu um tíma í Svíþjóð.  Þeir eru alltaf kátir og hlýlegir og elska þennan stað og vinnuna sína. Flestir grísku gestirnir knúsa þá og kyssa þegar þeir koma, og það segir manni ýmislegt um virktir þeirra í bænum.  Þeir hafa óhemju gaman af að reyna að tala sænsku við mig, en nota líka hvert tækifæri til að kenna mér grísku. Aþena er áhugaverð stelpa, 28 ára.  Hún elskar staðinn líka, en segir að sig langi samt burtu.  Hana langar að ferðast og skoða heiminn og kannski að mennta sig meira.  Hún getur ekki hugsað sér líf sitt á Naxos um aldur og ævi.  Þótt Aþena elski fjölskyldu sína, þá segir hún þetta líka fjötra.  Mamma hennar reikni með því að hún sé til staðar fyrir þau. Katerina reiðir sig á hana, þótt strákarnir hafi sýnt að þeir spjari sig prýðilega í fjölskyldurekstrinum.  Það eru hefðirnar og sagan sem Aþena hefur illan bifur á.   Hún segir fólk á Naxos líta sig hornauga fyrir að vera orðin 28 ára, og ekki búna að festa ráð sitt og eiga börn.  Henni finnst landar hennar öfundsjúkir, tala illa um nágrannann og ekki hugsa um neitt nema peninga og efnisleg gæði.  Hún er búin að vera með strák í sjö ár, en er ekki lengur viss um hvort hún vilji bindast honum, því hann sé alveg hættur að segja nokkuð fallegt við hana og taki hana sem gefinn hlut.  Hún er ekki viss um að þetta sé lífið sem hana langaði til að lifa.

Svona er Aþena opin og einlæg.  Hún sest hjá mér þegar færi gefst, þegar hún er búin að loka bókhaldsskruddunum, - því bókhaldið er hennar verk.  Hún er með svo stór falleg brún augu, - spurul augu, - og hún spyr mig og spyr hvað ég hafi gert um dagana.  Ekki það að mitt líf hafi verið neitt sérstaklega óvenjulegt eða merkilegt, - en hún er sjúk í sögur af fólki, og finnur þar kannski farvegi fyrir sína eigin drauma.  Hún vill vita hvernig er á Íslandi, hvernig er í Ameríku, og á þeim stöðum sem ég hef þvælst til, - og hún spyr hvort það sé ekki dásamlegt að eiga yngri systur, og til hvers foreldrar mínir hafi ætlast af mér.

 Það er gaman að tala við unga konu sem er svona full af þrá og löngun, og langar til að slíta af sér viðjar hefðarinnar, og horfa keik framan í heiminn.  Hvað get ég annað en stappað í hana stálinu, og sagt henni að bræður hennar séu fullfærir um að passa pabba og mömmu og sjá um staðinn, og að eins og þau haldi mikið uppá hana, muni hún alltaf eiga athvarf hjá þeim, þegar hana langar að snúa til baka.  Þetta veit hún auðvitað, en skrefin eru þung og buddan létt.   Hún nær í skot handa okkur, - kahlúa með rjóma, og segir mér sögu af vinkonu sinni sem langaði að skíra barn sitt nafni út í bláinn, - en það er ekki venjan hér.  Hér er ákveðin regla á því, hvaða afa er byrjað á, þar til búið er að dekka afa og ömmunöfnin fjögur, - og þá fyrst má skíra barn útí bláinn - fimmta barn.  Vinkonan uppskar það að amma hennar hefur ekki tala við hana frá því að barnið fæddist, og það hvín í Aþenu þegar hún segir þetta.  "Ég vil ekki lifa svona," segir hún hneyksluð á því að eitt barnsnafn skuli getað valdið slíkum þjáningum í einni fjölskyldu.     

 Aþena vill að heimurinn verði betri - og sérstaklega við fátækt fólk og konur.  Hún hefur líka ákveðnar skoðanir á uppeldi og menntun.  Hún talar um hörmungarnar í heiminum, og er búin að gera það upp við sig, að þegar hún kemst til valda, þá verði bannað að kenna mannkynssögu.  "Nú?" spyr ég hissa.  Jú, það er vegna þess að í mannkynssögunni er stöðugt verið að minna fólk á gömul stríð, gamalt hatur, gamla heift, eins og fólk "megi" ekki gleyma því.  Í staðinn vill hún að börnum verði kennt að hugsa um framtíðina, og hvað þau geta gert til að gera heiminn betri og þykja vænt um náungann. 

Mér finnst gaman að sitja í þessu landi heimspekinganna og hlusta á eldmóðinn í heimspekilegum vangaveltum Aþenu, og ég veit að hún hefur nokkuð til síns máls, - kannski bara heilmikið.  Við kveikjum okkur í sígó, og þegjum smá stund, og svo spyr hún skellihlæjandi hvort það sé ekki gaman að vera með svona blá augu, og hvort ég vilji skipta.  Síminn hringir, og Sigga systir segir mér þau tíðindi að barnið hennar vilji fara að komast í heiminn - ég segi Aþenu það, og hún rífur af mér símann, til að óska Siggu til hamingju.   Nú finnst Mikhalis greinilega komið nóg af hangsi systur sinnar og kallar á hana að koma að hjálpa sér.  Sjálfur notar hann hvert tækifæri til að setjast niður með gestum sínum og spjalla.  Meir að segja mamma Katerina hefur gaman af spjalli og kann nógu mikið í ensku til að geta rætt um daginn og veginn.  Hér er ég Beggaki, - Begga litla, - það er hlýleg kveðja, og þótt matarvistin hjá þessu væna fólki sé óskaplega góð, þá er eiginlega enn betra bara að vita af þeim í tilveru minni hér og geta sest niður og verið eins og heima hjá mér og eiga von á skemmtilegu spjalli - og kannski ouzo eða raki með því.

Beggaki


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

vantar ekki einhvern í uppvaskið þarna á scirocco í sumar, t.d. eina kellu og eina stelpu? æ hvað það er dásamlegt að fylgjast með þér, bið að heilsa familíunni!
sigga st.

sigga steina (IP-tala skráð) 18.4.2006 kl. 18:16

2 identicon

Haltu áfram að hræra í Aþenu Begga mín en þú verður að passa að fá ekki hina fjölskyldumeðlimina upp á móti þér.
Mikið vildi ég að ég gæti skroppið eitt kvöldið og fengið mér að borða með þér hjá þessu sómafólki.
Habbó

Habbó (IP-tala skráð) 19.4.2006 kl. 18:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband