Kastró

Kastró

Það má segja að toppurinn á tilverunni hér á Naxos sé Kastró.  Kastró, er heilmikið borgvirki, sem trónir á efstu hæð byggðarinnar, og rís hátt, nokkur hundruð metra yfir sjávarmáli.  Kastró þýðir kastali og í þennan kastala er sko ekki auðhlaupið.  Það tók mig reyndar nokkra daga að safna í mig kjarki og þreki til að ráðast til uppgöngu, enda er mannvirkið hannað í þeim tilgangi að heimsóknin þangað sé bæði svínslega erfið og ógreiðfær.  Þetta er semsagt alvöru virki. Það var Feneyingurinn Marco Sanudo sem byggði Kastró árið 1206, en Feneyingar komust til valda á eynni, undir hans stjórn, eftir fjórðu krossferðina.  Í þrjúhundruð ár, var Hringeyjum öllum stýrt úr þessum himinháa kastala, og Naxos var höfuðstaður eyjanna.  Það er eiginlega hræðilega sorglegt, að kastalinn var að hluta til byggður úr efniviði sem tekinn var úr hofinu fallega sem byrjað var að reisa þar sem nú er hafnarmynni bæjarins, árið 522 fyrir Krist.  Það hof var aldrei fullklárað, og nú stendur þar aðeins risavaxið hofhliðið, helsta kennileiti eyjarinnar.

En aftur að Kastró.  Kastalinn var byggður að feneyskri hefð, og göturnar þröngir rangalar, með fallegum torgum inn á milli.  Í suðvesturhluta virkisins, er hús Barozzi fjölskyldunnar, en einhverjir af því sauðahúsi stofnuðu Feneyjar á sínum tíma. Barozzifólkið réði ríkjum á eynni Santorini á þrettándu öld.  Annað flott mannvirki í kastalanum er Della Rokka húsið, eins og Grikkirnir kalla það, en það tilheyrði franskættaðri fjölskyldu, De la Roche.  Í þeirra híbýlum er nú feneyskt safn sem gaman er að skoða.

En það er líka fleira fallegt innan múrsins.  Þarna er kaþólsk kirkja, og tveir skólar, meðal annars jesúítaskóli, sem státar af ekki aumingjalegri fyrrum nemum en sjálfum Nikosi Kazantzakis, sem skrifaði Alexis Zorbas og fleiri góðar sögur.  Þar er nú aðal minjasafn eyjarinnar.

Ég ætla ekki að lýsa í smáatriðum þeirri mæðu að komast upp í Kastró, eða angistinni við að finna inngang í herlegheitin.  Ég kom austanmegin að, og þar er inngangan í gegnum lítil bogagöng sem eru eiginlega falin bak við trjágróður.  Þegar inn er komið tóku við rangalar og stígar og tröppur - allt uppávið auðvitað, en loks er komið að fyrstu byggingunum, sem eru byggðar inn í múrinn sjálfan.  Friðurinn og kyrrðin, eldsnemma morguns, gerðu þennan stað nánast helgan.  Ég var ein á ferli, og umsvifalaust var mér kippt inn í horfnar aldir.  Það er engin leið að lýsa stemmningunni og hughrifunum sem ég varð fyrir þarna.  Forneskja - er allt of ljótt orð, - fyrnd, er skárra, - eilífð, kannski skást.  Fyrir konutetur af Fróni, sem hefur fátt annað en heimóttann í vegarnesti útí heiminn, er þetta mikilfenglegt.  Tíminn hvarf meðan ég ranglaði um þröngar traðirnar - allar úr skjannahvítum marmara, og eina merkið um lífverur, aðrar en þær fljúgandi, - var köttur sem kúrði við vegg, og gömul kona, sem býr þarna enn, en íbúum kastalans fækkar nú óðum.

Ég rambaði loks á annan útgang - aðalhlið Kastró, í suðvesturendanum, og tölti niður hallann, gegnum gamla bæinn á Naxos, þar sem göturnar eru örmjóar og liggja víða undir húsasund og tröppur.  Ein og ein mannvera á stangli, - og þeim fjölgaði eftir því sem neðar dró.  Neðst í gamla bænum, rétt ofan við hafnargötuna hafa einyrkjar sest að í litlum kytrum, og þar föndra þeir við að smíða alls konar glingur og skart til að selja ferðamönnum, og margir hafa séð tækifæri í að opna þarna litla sæta veitingastaði með grískum mat.  Þarna er líka lítil djassbúlla, og svo gamli markaðurinn, þar sem ægir saman öllu besta ferskmeti eyjarinnar, ávöxtum, ólívum, hunangi, og grænmeti í stórum trogum.  Þessi bæjarhluti er hrífandi í fallegri elli sinni, og hingað er gott að koma til að upplifa það á eigin skinni hvað tíminn er í raun og veru afstæður.

 Beggaki


Kastró
Kastró
Kastró
Kastró
Kastró
Kastró
Kastró
Kastró
Kastró
Kastró

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband