Músmúllapáskar

Páskaborðhald

Það er stemmning að sitja í myrkvaðri kirkju laust fyrir miðnætti á laugardagskvöld fyrir páska og bíða þess að presturinn kveiki fyrsta ljósið.  Þessi páskamessa er sérstæðasta guðsþjónusta sem ég hef sótt, og ekki að undra - ég hef aldrei sótt messu í orþódoxkirkju áður.  Ilmurinn er sterkur og í myrkrinu stirnir samt á gyllinguna í íkonum og öðru kirkjuskrauti.  Tónlistin er sérkennilega forn og minnir mjög á arabískan helgisöng.  Svo kemur ljósið - ein týra, sem verður að tveim, þegar presturinn tendrar kerti næstu manneskju, - og hægt og bítandi gengur ljósið milli manna eftir kirkjubekkjunum, þar til sneisafull kirkjan er full af birtu kertaljósanna.  Presturinn segir loks orðin sem beðið er eftir: Kristur er upprisinn! og fagnaðarlætin brjótast út.  Fólkið þyrpist út á kirkjutorgið með logandi kertin sín. Þar bíða sprengjumennirnir ekki boðanna og hefja flugeldaskothríð og annars konar sprengjuverk.  Gleðin breiðist um bæinn frá kirkjunum þremur í Naxosbæ, og allt ætlar vitlaust að verða í hamagangi.  Þetta tekur þó tiltölulega fljótt af, og fólk fer heim og borðar páskamáltíð sem að þjóðlegum sið er innmatur úr lambi, eldaður á sérstakan máta.  Ég tölti heimáleið og í háttinn, því sunnudagurinn, páskadagur, verður tekinn snemma.

Páskadagur rís bjartur og fagur og ég sit snurfusuð á veröndinni þegar Dimitri kemur og spyr hvort ég sé tilbúin.   Jú, ég er það - held ég, - veit reyndar ekkert hvert ég er að fara, eða við hverju ég á að búast.  Ég trítla niður tröppurnar í mannlausu húsinu og þar bíður Dimitri á svörtum forstjórajeppa.  Ég sest inn, - og hann fussar yfir áströlsku gestunum sem ætluðu að koma með í sveitina en eru týndir.  Einn rúntur niðrá höfn er allt sem þarf - þar sitja þau Rachel og Chris, ungt par frá Brisbane sem er á fimm mánaða heimsreisu áður en hafist verður handa við barneignir og búaleik.  Þá er brunað úr bænum í norðausturátt, og áfangastaðurinn er þorpið Engares, sem aðeins er í um 8 kílómetra fjarlægð frá bænum.  En hér verður ekkert ferðast nema að renna yfir eins og einn fjallgarð með krókóttum vegum, - og ferðin tók lengri tíma en ætla mætti.

Bílnum er lagt við lúið grindverk umvafið fallegustu villiblómum, - og þá hefst göngutúrinn, gegnum mela og móa, árfarveg og grjót, og ég á hælum, í tilefni af páskum.  En ilmurinn af gróðrinum dregur mig áfram og lyktin af grilli einhvers staðar í nálægð.  Loks komum við í lítinn lund, og þar er fjölmenni.  Pabbi Dimitris og mamma, systur hans þrjár, þeirra menn og börn; - kærastan, systir hennar og foreldrar þeirra, og svo aðskiljanlegustu skyldmenni og vinir.  Og við þrír útlendingarnir. 

Það var búið að dekka langborð með appelsínugulum dúk, og hlaða á það mat.  Úff.  Það voru meiri ósköpin.  Ég veit ekki hvort þetta voru tveir skrokkar eða þrír, en alla vega hef ég aldrei séð jafn mikið af grilluðu lambakjöti á einum stað.  Þarna voru líka salöt, kjötbollur sem heita kefteðes, brauð, bæði nýtt og grillað, ólífur, kartöflur, bæði steiktar og grillaðar, kjúklingapæ, sérstakt páskabrauð, möndlukökur, fetaostur, og svo ávexir. Amminamm, - ávextirnir voru tíndir af trjánum, jafnóðum oní gestina, appelsínur, mandarínur, sítrónur, og svo litlir yndislegir og dísætir ávextir sem heita músmúlla en ég hef ekki hugmynd um hvað heita á íslensku.  Já, og blómin á borðinu - þau voru öll tínd í þessum edenslundi - valmúi, krýsur og önnur blóm sem ég kann ekki að nefna.  Heimagert vín í boði húsbóndans var drukkið með kræsingunum - og auðvitað búið til úr berjum af vínviði sem vex á þessum skika þeirra.  En það var líka boðið upp á ouzo, bjór, gos og vatn fyrir þá sem það vildu.   Þarna sátum við í tæpa sjö klukkutíma og sölluðum á okkur, og stöðugt var verið að bera meiri mat af öllum sortum á borðið.  Það var auðvitað farið í páskaleikinn, sem er þannig að allir fá hver sitt egg - harðsoðið, málað í fallegum litum.  Svo halda tveir hvor um sitt egg, og reyna að brjóta egg hins. Sá sem eftir stendur með óbrotið egg, vinnur og reynir þá við egg næstu manneskju, og þannig er farið allan hringinn og sá sem er einn með óbrotið egg í lok leiksins er sigurvegarinn.

Það voru gömlu gömlu mennirnir sem stóðu sig best í dansinum, og kunnu meira en unga fólkið.  Það sem helst háði þeim við fótaburðinn var vínið og ouzoið sem þeir voru búnir að sötra vel þegar að dansinum kom.  Það voru líka fullorðnu mennirnir sem stóðu fyrir kínverjasprenginum þegar borðhaldið var um það bil að verða búið - litlu börnin auðvitað dauðskelkuð, - en karlarnir virtust skemmta sér vel í þessum strákaleik sínum.  Eftir að allir voru orðnir mettir og pakkaðir af mat, var enn borið þrisvar sinnum á borðið af grillinu.  Mamma Dimitris, frú Manolas, sló hvergi af allan tíman í húsmóðurstörfunum, og sá auðvitað til þess að við borðuðum vel - og meir en það, - allir fóru heim með stóra poka fulla af mat og ávöxtum, og blómvönd úr villiblómum.

 Þetta var nú meiri dýrðin, og ég er heppin að fá að taka þátt í svona veislu með heimafólki.  En hér er það bara svo sjálfsagt að allir séu með, og enginn er skilinn eftir þegar á að gleðjast.  Ástralirnir voru líka orðlausir yfir þessari einstöku gestrisni og sögðust hvergi hafa kynnst öðru eins.  Í þessu þorpi, Engares á Manolasfólkið þennan landsskika og þar rækta þau það sem þarf til hótelsins, - bæði ber í vín, ávexti, blóm og fleira, og þar eru þau líka með hænsni og kanínur og héra.  Húsið þarna er varla meira en kofi - gluggalaus og rafmagnslaus kytra með stóru fleti og svo hillum þar sem þau geyma sultur og ber og alls konar góðgæti.  Einn af mágum Dimitris sýndi Íslandi mikinn áhuga og fannst erfitt að trúa því að meðalvetrarhiti á Íslandi væri hærri en í köldustu þorpunum í norður Grikklandi.  Það er líka erfitt fyrir mig að trú því þar sem ég sit hér í hita og sól og les fréttirnar að heiman um hálku og snjó.  

Beggaki


Dimitri
Páskaborðhald
Giorgos Manolis í bláu skyrtunni
Stutt í appelsínurnar
Páskaborðhald
Grísku frúrnar sáu til þess að allir fengju nóg

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæl Begga mín. Mér finnst frábært að lesa um ævintýri þín á Naxos, þetta er eins og framhaldssaga af bestu gerð. Það er næstum því eins og maður sé þarna hjá þér.
kveðja Ditta frænka

Kristín Guðmundsdóttir (IP-tala skráð) 24.4.2006 kl. 23:12

2 Smámynd: www.zordis.com

Hljómar mjög spennandi, enda allt framandi gaman og áhugavert! Ætlaru að vera lengi á Naxos?

Gaman að fylgjast með frá SuðurSpáni...

www.zordis.com, 25.4.2006 kl. 04:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband