Leita í fréttum mbl.is

Jón og Jón Moody

Mig langar að vekja athygli ykkar á snilldargrein eftir Jonas Moody í Mogganum í dag.  Lesið það sem þessi piltur hefur að segja:

 

Það er ekkert óeðlilegt við pólitíska spillingu

Jonas Moody skrifar um veitingu íslensks ríkisfangs til kærustu sonar Jónínu Bjartmarz  

AFTUR og aftur hafa Jónína Bjartmarz, Bjarni Benediktsson, og Guðrún Ögmundsdóttir komið með sömu málsvörn vegna veitingar íslensks ríkisfangs til kærustu sonar Jónínu eftir aðeins 15 mánaða dvöl með dvalarleyfi vegna námsvistar: „það var ekkert óeðlilegt við afgreiðslu þessa máls“.

Ég vildi að ég hefði vitað að það væri svo einfalt að redda ríkisborgararétti.Sem útlendingur búsettur á Íslandi hafa síðustu fjögur og hálft ár tilveru minnar verið tileinkuð því að læra hvað það sé að vera meðlimur íslensks samfélags, með það lokamarkmið að öðlast íslenskt ríkisfang. Það tók mig þrjú ár í Háskóla Íslands að vinna fyrir gráðunni minni í íslensku fyrir erlenda stúdenta. Ég hef byggt upp vinahóp af Íslendingum sem styðja mig í mínu lífi og virða mig sem jafninga.

Á Íslandi hef ég unnið sem lítillátur húsvörður í Austurveri og sem þýðandi á glæsilegri skrifstofu forstjóra Kaupþings. Eins og Lucia Celeste Molina Sierra hef ég orðið svo lánsamur að verða ástfanginn af Íslendingi og byggja upp framtíð á Íslandi. Ég hef lesið bækur Halldórs Laxness og ljóð Jónasar Hallgrímssonar. Ég veit líka að hræra skal uppstúf fyrir plokkfisk stanslaust svo að hann verði ekki kekkjóttur, að besti tíminn til að fara í útilegu er fyrsta helgin í júlí og að íslenska þjóðin er meðal réttlátasta fólks í heimi, eða svo hélt ég að minnsta kosti.

Ég hafna þessari hálfvolgu afsökun stjórnmálamanna að „það var ekkert óeðlilegt við afgreiðslu þessa máls“. Ástæða þess að umsóknum um ríkisborgararétt sem synjað hefur verið af Útlendingastofnun er vísað til Alþingis er einmitt að eitthvað óeðlilegt sé við umsóknina. Slík meðferð á við þegar aðstæður réttlæta einhvers konar málsbætur. Vegna sérstakra aðstæðna þykir Alþingi, í óendanlegum vísdómi sínum, við hæfi að veita æðsta heiður sem útlendingi getur hlotnast — að fá að heyra: þú ert einn okkar.

En augljóslega var eitthvað sérstakt við þessa umsókn: tengdamóðir umsækjandans var Jónína Bjartmarz, og málsbætur eru pólitísk spilling og misnotkun valds. Ef einhver ástæða er til sem réttlætir að Lucia Celeste Molina Sierra var gerð að Íslendingi eftir aðeins 15 mánaða dvöl í landinu þá á þjóðin og einnig við hin, fíflin sem kappkostum að fá rétt ríkisborgara, almennilega útskýringu skilið.

En auðvitað gæti þetta mál bæst við sem enn önnur lexía um lífið á Íslandi: Þar sem tengdamóðir mín er útivinnandi kona frá Ísafirði sem sendir mér fiskibollur, prjónar trefla handa mér og reynir sitt besta til að láta mér líða eins og ég eigi heima hér —  þar sem hún er ekki háttsettur alþingismaður og ráðherra — þá er ég ekki svo maklegur að verða hluti þessarar þjóðar. Ég læt mér þetta að kenningu verða. 

Jonas Moody

Höfundur er útlendur blaðamaður,búsettur á Íslandi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Viðar Eggertsson

Sammála, þessi grein Jonasar er sérstaklega góð, kveðja til þín Begga, hvar sem þú ert núna niðurkomin...

Viðar Eggertsson, 6.5.2007 kl. 07:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Bergþóra Jónsdóttir
Bergþóra Jónsdóttir

Spurt er:

Á að aðskilja ríki og kirkju?
Er flokkakerfið úrelt?

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband