29.3.2006 | 13:02
Hamingjunni fórnað
Útlitsgallað fólk ætti að fást með afslætti - í vinnu, í hjónabönd eða bara í hvað sem er.
Ég hef oft velt því fyrir mér hvers vegna sumt fólk er endalaust að hafa orð á því við systur mína að hún sé of mjó, horuð, rengluleg, vannærð og veikluleg. Ég hef ekki alltaf skilið hvað þetta fólk er að fara, enda er systir mín bæði sæt og góð og er í ofanálag svo ljónheppin að hafa þetta eftirsótta vaxtarlag. Auk þess er mér verulega hlýtt til hennar. Hvað er fólk eiginlega að meina? Ég hef svosum líka velt því fyrir mér hvers vegna þetta sama fólk steinþegir um það að ég sé of feit. Um það ríkir slík grafarþögn að stundum held ég að ég hljóti að vera mjó - í það minnsta passleg, en að ég sýnist bara feit þegar ég horfi á sjálfa mig. Slíkt fyrirbæri er reyndar alþekkt og er ein birtingarmynd grafalvarlegs sjúkdóms.Nei, fjandakornið.
Svar við þessum vangaveltum mínum er mér sagt að fáist í bíói þessa dagana, á myndinni Shallow Hal. Þar segir af manni sem vill bara grannar konur. Þegar hann er dáleiddur klikkar forritið, og honum finnst meira máli skipta að þær séu indælar og góðar, þótt þær séu feitar! Þetta frétti ég hjá unglingi mér nákomnum, sem sagði mér frá boðsferð sinni í bíó, en aðgöngumiðinn sem hún og vinkona hennar áttu að framvísa voru "eins stórar nærbuxur og hægt var að finna". Drottinn minn dýri, maður leggur nú ýmislegt á sig fyrir frían bíómiða nú til dags, enda lítið mál að grínast með feitabollur, þær eru hvort eð er svo geðgóðar og glaðværar sjálfar. En aftur að Grunnhyggna Halla. Hann varð svo óheppinn eftir að hann var fallinn í dá, að verða ástfanginn af konu. Hún var yndisleg og góð, greind og skemmtileg. Hvað er hægt að biðja um meira? Ég sagði óheppin, því þótt Halli virtist sannarlega dottinn í lukkupottinn var einn ljóður á. Ástin hans góða var sem sagt feitabolla. Að því komst hann þegar hann vaknaði úr dáinu. Ég var orðin svo spennt að fylgjast með Halla og ástinni hans að um leið og ég sá unglingablaðið Fókus sem fylgdi DV á föstudaginn svalg ég í mig grein um þessa forvitnilegu bíómynd, til að komast að því hvernig allt fór. Þar stóð: "Á hann að fórna ástríku sambandi fyrir útlitsgalla." Er nema von að spurt sé! Unglingurinn er nefnilega nýbúinn að sjá aðra bíómynd, Legally Blond, og var himinlifandi yfir því að vera dökkhærð en ekki ljóshærð; stúlkur með þann útlitsgalla eiga virkilega erfitt ætli þær að komast í gegnum laganám, ég tala nú ekki um ef þær klæðast bleiku. Sólveig Pétursdóttir hlýtur að hafa komist í gegn í dökku dragtinni sinni sem er svo klæðileg.
Þeir eru orðnir svo margir útlitsgallarnir sem maður þarf að burðast með, að það er skiljanlegt að fólk vilji ekki bæta meiri vandræðum á sig að nauðsynjalausu.
Nú eru liðnir nokkrir dagar, og í millitíðinni er ég búin að ráðfæra mig við mömmu, vinkonur mínar, sálfræðinginn og saumaklúbbinn um það hvað felist í örlögum Halla. Það er undarlegt, en mér finnst tónninn á þann veg, að þetta fólk sem ég treysti svo vel, hafi enga samúð með honum. Mér finnst jafnvel að eitthvað hafi gerst og að ég sé jafnvel orðin umskiptingur eins og Halli.
Mér er sagt að það sé ekkert grín að vera feitur, og þó að ég það sé ekkert víst að ég sé góð og falleg að innan þótt vöxtur minn sé svona, hvað þá að ég sé endilega gáfuð og greind fyrir dökka hárið. Hvað nú ef ég fer að trúa því? Mér er sagt að fordómar ríði röftum hvar sem er, innra með fólki sem utan, og jafnvel að heilu samfélögin taki sig saman um að viðhalda þeim. Ég vissi reyndar að feitlagið fólk á erfitt með að fá á sig föt og skó, og að það þarf að fara í sérstakar sérverslanir fyrir feitt fólk til að fá spjarir utan á sig. Ja, nema það heyri auglýst að hin og þessi búðin sé með fatnað í stórum stærðum, sérstærðum, aukastærðum eða yfirstærðum. Hvaða stærð er ég eiginlega? ... stór, sér, auka eða yfir? Mín stærð getur varla verið númer aftan í hálsmáli, því eins og blaðamaðurinn á Fókus orðaði það, er stærðin útlitsgalli, og það sem er eðlilegt og normal á ekki við um þetta fólk. Og bitte nú. Útlitsgallað fólk hljómar næstum eins og afsláttarfólk. Ég fékk afslátt á píanóinu mínu af því að það var örlítil rispa, þ.e. útlitsgalli, á lokinu á því. Útlitsgallað fólk ætti að fást með afslætti - í vinnu, í hjónabönd eða bara hvað sem er. Mig rámar í könnun sem gerð var einhvers staðar, þar sem kom einmitt fram að feitlagið fólk ætti erfiðara með að fá vinnu en annað fólk, og að því væri síður treyst til ábyrgðarstarfa. Samkvæmt opinberum viðhorfum, gæti einmitt útlitsgallanum verið um að kenna.
Í þessu umskiptingsástandi mínu núna, hef ég líka komist að því hvers vegna systir mín góða er ítrekað spurð um sitt holdafar, en ekki ég. Þarna skipta orðin horaður og feitur grundvallarmáli. Sá sem er horaður þarf bara að borða aðeins meira, ef hann vill, en sá sem er feitur er manneskja sem hefur misst tökin á lífi sínu, kann sér ekki hóf, er of góð við sjálfa sig, hefur engan aga og er bara lin og léleg. Til að bæta okkur þetta upp er klifað á klisjunni um að feita fólkið sé svo guðdómlega glatt. Orðið feitur felur í sér áfellisdóm sem samfélagið allt hefur fellt. Feitir þurfa eins og aðrir að glíma við ýmis vandamál, og er þunglyndi eitt það algengasta, þvert á klisjuna. Áreitið gegn feitu fólki er þung byrði, sem margir kyngja þegjandi og hljóðalaust. En þögnin er jafnvel enn þyngri byrði. Um leið er markvisst unnið að því að kenna unglingum að draga fólk í dilka eftir útliti og segja þeim að það sé ekki sjálfgefið að þeir verði elskaðir ef þeir eru feitir. O svei.
Eftir Bergþóru Jónsdóttur begga@mbl.is
Viðhorf, birt í Morgunblaðinu 23. janúar 2002
Spurt er:
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 3
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Febrúar 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- September 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Janúar 2009
- Október 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Mars 2006
Tónlistarspilari
Bloggvinir
- ulfhildur
- hallsson
- blues
- systapista
- birtab
- vitinn
- hoskuldur
- konur
- arnim
- ragnhildur
- eggmann
- kjarvald
- hrafnaspark
- torfusamtokin
- theld
- konukind
- jullibrjans
- hugsadu
- bleikaeldingin
- einherji
- jenni-1001
- annapala
- vglilja
- halla-ksi
- volcanogirl
- kristinast
- daath
- mariakr
- soley
- arnigunn
- aevark
- ragnarfreyr
- ktomm
- hlynurh
- sinfonian
- elvabjork
- raggissimo
- nonniblogg
- vitale
- malacai
- ingolfurasgeirjohannesson
- hannibalskvida
- steinibriem
- jea
- vardi
- hildurhelgas
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.