Leita í fréttum mbl.is

Menning og glæpir

Um leið og þjóðerni fólksins er nefnt, stöndum við líka frammi fyrir okkur sjálfum og hugmyndum okkar um annað fólk.


Sorg og óhugur hlýtur að hafa gripið alla þá sem heyrðu fréttir frá Svíþjóð þess efnis að faðir hefði myrt 26 ára dóttur sína, vegna þess að hann taldi líferni hennar ekki samræmast þörfum fjölskyldu sinnar. Stúlkan hafði áður mátt þola misþyrmingar af hendi bróður síns og morðhótanir föðurins. Fyrir þremur árum leitaði hún til lögreglunnar, og fékk vernd, sem fólst í því að hún fékk sérstakan öryggishnapp til afnota ef á hana yrði ráðist, auk þess sem hún fékk nýtt nafn og nýja kennitölu í þjóðskrá. Faðirinn lét til skarar skríða þegar dóttirin vitjaði sjúkrar móður sinnar á heimili systur sinnar í Uppsölum. Að sögn sænskra dagblaða var drápið refsing fyrir það að stúlkan hafði uppi sín eigin áform um framgang lífs síns, og sætti sig ekki við að faðir hennar vildi hlutast til um hverjum hún giftist.

Í upphafssetningu þessa pistils stillti ég mig um að segja "kúrdískur" faðir vegna þess að ég velti því fyrir mér hvaða þýðingu það hefur að nefna það. Það er vissulega ein af staðreyndum málsins að fjölskylda stúlkunnar var kúrdísk. Í sænskum blöðum hafa svipaðir atburðir verið rifjaðir upp. Árið 1997 var kona myrt af eiginmanni sínum þegar hún óskaði eftir skilnaði við hann. Sama ár var fimmtán ára stúlka stungin til bana af bróður sínum, og skömmu áður var annarri fimmtán ára stúlku misþyrmt af bróður sínum og frænda, og að þessu sinni fylgdi sögunni að það hefði gerst vegna andúðar þeirra á lífsháttum stúlkunnar. Reyndar er hér ekki rétt haft eftir, því í sænsku fréttinni var talað um "albanska" konu sem myrt var af manni sínum, "tyrkneska" stúlku sem var stungin af bróður sínum, og "íranska" stúlku sem bróðir og frændi misþyrmdu. Um leið og þjóðerni fólksins er opinberað, breytist fréttin óneitanlega. Við okkur blasir, að það er fólk frá öðrum menningarsvæðum sem fremur slík voðaverk. Og fórnarlömbin eru í öllum tilfellum konur. Um leið og þjóðerni fólksins er nefnt, stöndum við líka frammi fyrir okkur sjálfum og hugmyndum okkar um annað fólk. Skiptir það máli að þessi merkimiði upprunans er hengdur á fólk? Það þótti fyndið hér í gamla daga þegar fréttir bárust af bílþjófnuðum eða einhverjum smáglæpum á Akureyri og því var hnýtt aftan í fréttirnar: "Talið er að hér hafi utanbæjarmenn verið á ferð." Þetta var kannski ekki svo fyndið eftir allt saman, því þar opinberaðist svo ljóslega tilhneiging okkar til að líta þá sem komnir eru lengra að, öðrum augum en okkur sjálf. Það þarf ekki að segja neinum í dag, að á Akureyri búa líka krimmar og það er heldur engin frétt að íslenskir og sænskir karlar myrða konur og misþyrma börnum sínum rétt eins og tyrkneskir, kúrdískir, íranskir og albanskir karlar. Konur fremja líka glæpi. Glæpurinn er sá sami, en aðstæðurnar og það sem kallað er menningarumhverfi er annað. Það er fjarri mér að ætla að réttlæta glæp þessara manna með því að benda á að Íslendingar og Svíar líka, fremja sams konar glæpi. Það er þó víst að viðhorf okkar til glæpsins eru afar ólík eftir því hvaða merkimiði hangir á geranda og þolanda. Varla hefði morðið á Fadimu þótt slíkum tíðindum sæta ef svo væri ekki.

En er ekki komið að því að við förum að íhuga betur hvaða augum við sjálf horfum á ranglæti slíkra voðaverka? Það er auðvelt að fordæma fólk sem vegna uppruna síns í annars konar menningarumhverfi hegðar sér ólíkt okkur. Getum við virkilega skellt sökinni á þennan menningarmun og sagt með góðri samvisku að þarna hafi hann ráðið úrslitum, í ljósi þess að sjálf fremjum við hroðalega glæpi? Erum við ekki með því að setja okkur á sama sess og faðirinn situr á, sem fullur fordóma gat ekki þolað að dóttirin kysi annars konar líferni en hann sjálfur? Karlar drepa konur alls staðar í heiminum fyrir það að vilja ekki lúta vilja þeirra. Það þarf varla að segja nútímafólki það að trúarbrögð okkar hvort sem við erum kristin, múslimar eða eitthvað annað, gefa engri manneskju rétt til að taka líf annarrar. Trúin er kennisetning sem leitast við að boða gott. Það er hins vegar túlkun okkar sjálfra á bókstafnum sem sendi kristna menn í krossferðir til fyrirheitna landsins og múslima nokkrum öldum síðar inn í Evrópu, allt í nafni trúarinnar. Enn horfumst við í augu við voðaverk framin í nafni trúarbragða; í Bandaríkjunum, Afganistan, Palestínu, Ísrael og enn víðar. Hættulegast af öllu er að láta undan þeirri skoðun illvirkjanna og trúa því að grimmdarverk þeirra séu framin í nafni trúar eða hugmyndafræði. Það gerir okkur einungis tilbúnari til að taka undir sams konar fordóma gagnvart þeim. Sams konar fordóma og vakna hjá mörgum þegar þeir heyra að kúrdískur faðir hafi myrt dóttur sína, eða jafnvel að "utanbæjarmaður hafi verið á ferð". Fordómar geta sprottið af litlu tilefni og því sem virðist saklaust gaman. Það sem eftir stendur er að glæpur er glæpur. Og það er glæpur þegar ein manneskja myrðir aðra. Umburðarlyndi hlýtur að felast í því að mannréttindi séu virt. Þau lífsgildi að hver manneskja sé frjáls að eigin lífi og eigin skoðunum eiga við um okkur öll hver sem menning okkar og trú er. Fadima kaus að lifa sjálfstæðu lífi og taka sér rétt sem hún með sönnu átti. Faðir hennar virti ekki þennan rétt. Það er ekki hægt að skýra verknað hans með því einu að hann hafi verið Kúrdi og búið við öðruvísi menningu. Hann kunni ekki skil á grundvallarmannréttindum og framdi því þennan átakanlega glæp.

Eftir Bergþóru Jónsdóttur begga@mbl.is

Viðhorf, birt í Morgunblaðinu 30. janúar 2002


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Bergþóra Jónsdóttir
Bergþóra Jónsdóttir

Spurt er:

Á að aðskilja ríki og kirkju?
Er flokkakerfið úrelt?

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband