29.3.2006 | 13:15
Ji, ertu með andstöðuþrjóskuröskun!
Það sem ég hef miklu meiri áhyggjur af eru annars konar áhrif enskrar tungu. Hún hefur nefnilega tekið upp á því að lauma sér inn í almennt málfar og er farin að láta á sér bera - ekki bara í slettum - heldur líka í því hvernig við notum málið. Fyrir vikið verður íslenskan mun fátæklegri en ella þyrfti að vera. Íslensk sagnorð virðast eiga mjög undir högg að sækja. Enska sögnin "to do" er farin að gera sig gildandi í íslensku máli; ekki sem sletta, heldur á þann hátt að í stað þess að nota íslensk sagnorð notum við sögnina að gera, og slengjum svo viðeigandi nafnorði aftanvið. Það er undantekning að heyra íþróttafréttamenn nota sögnina að skora. Íþróttamenn gera mörk. Sögnin að skora er hreinlega í útrýmingarhættu. Sálartetur mitt er svo einkennilega samansett, að þetta minnir mig alltaf á það að í eina tíð þóttu sagnorð sem lýstu þeim verknaði er börn þurftu að hægja sér svo klúr og dónaleg, að til þess að komast hjá því að nota þau sagði fólk að krakkinn hefði gert í buxurnar eða gert stórt. Nú þykir engum tiltökumál að nota viðeigandi sagnorð um þetta, en sögnin að skora virðist enn vera viðsjálli en svo að íþróttafréttamenn þori að taka sér hana í munn. Eldra dæmi um þessa enskulegu sagnanotkun er það að gera hreint. Það þykir ekki tiltökumál lengur að segja að maður ætli heim að gera hreint; - hvað þá ef maður ætlar að gera hreint fyrir sínum dyrum. Sagnirnar að hreinsa og þrífa víkja fyrir þessu orðalagi. Ég held að smám saman seytli þessi notkun sagnorða og nafnorða inn í íslenskuna og þyki á endanum eðlileg. Það er synd. Það er ekki bara sögnin að gera sem sækir á, heldur virðist almennt hugmyndaleysi í notkun sagnorða á undanhaldi. Skáld af öllu tagi, ljóðskáld, tónskáld og leikskáld, eru æ oftar farin að skrifa verk sín. Jú, sögnin lýsir vitaskuld þeim verknaði sem lýtur að framkvæmdinni sjálfri. En tilhugsunin um að Mozart hafi skrifað Sálumessu sína er ótrúlega óspennandi og orðinu fylgir engan veginn sama andagift og orðunum að semja, yrkja, kveða og skálda.
Nafnorðatískan sem fylgir þessari þróun er líka hvimleið. Um hana ætla ég að nefna dæmi, sem mér þótti svo stórfenglegt að ég mátti til með að deila því með fleirum.
Í saumaklúbbnum mínum er ekki mikið saumað, en þeim mun meira skrafað um menn og málefni. Þegar talið barst að gömlum kunningja sem átti í vandræðum spurði vinkona mín í stétt uppeldismenntaðra hvort hann væri ekki bara með andstöðuþrjóskuröskun. Um leið og hún sleppti orðinu og andlit okkar hinna þögnuðu í forundran gaus upp úr henni óstöðvandi hlátur. Hún hló ekki bara að tómum andlitum okkar hinna, ég held að henni hafi bara þótt það svo fyndið að taka sér þetta orð í munn. Það kom sem sé á daginn að andstöðuþrjóskuröskun er eitt þeirra svokölluðu íðorða, sem notuð eru í hennar fagi til að lýsa ákveðinni hegðun fólks. Þetta orð var yfirgengilega knúsað, og til þess eins að hlæja að því. Þá komu raskanirnar hver af annarri, geðröskun, kvíðaröskun, átröskun, hegðunarröskun, sértækar þroskaraskanir og gagntækar þroskaraskanir að ógleymdri mótþróaþrjóskuröskun, sem í dag er víst búið að stytta í mótþróaröskun - guði sé lof. Við nánari athugun fann ég ekki orðið röskun í orðabókinni minni, hvað þá raskanir í fleirtölu. Nafnorðið er dregið af sögninni að raska einhverju. Andstöðuþrjóskuröskun er heldur ekki til, og hvernig sem ég reyni að skilja orðið get ég það ekki. Ég veit hvað andstaða er og hvað þrjóska er, og veit líka hvað röskun er, þótt orðið hafi ekki hlotið náð orðabókarsmiðsins. Andstöðuþrjóska er eitthvað sem maður ímyndar sér um manneskju sem þrjóskast við að vera í andstöðu við allt og alla. En hvað svo gerist þegar þeirri hegðun er raskað finnst mér að hljóti að vera eitthvað til bóta. En andstöðuþrjóskuröskun þýðir svo reyndar eitthvað allt annað og flóknara, en orðið, sem er þýðing á því sem heitir á ensku pervasive development disorder, er ekki gegnsærra en svo, að hverjum manni hlýtur að vera ómögulegt að skilja það. Það er ekki allt fengið með því að þýða ensk orð yfir á íslensku. Málið skánar ekki við það eitt. Þá eru ónýtu perurnar skárri. Það er ekki nóg að fagfólkið setjist niður með orðabækur sínar; það þarf fólk með hugarflug og næmi fyrir íslenskri tungu til að smíða ný orð. En vel á minnst, oft eru bjargirnar nærri. Þegar ég var að leita að röskun í orðabókinni rakst ég á skemmtilegt orð, sem gæti komið uppeldisfólki að gagni við að greina hegðurnarvandamál. Hefur einhver heyrt talað um rösólf?
Eftir Bergþóru Jónsdóttur begga@mbl.is
Viðhorf, birt í Morgunblaðinu 13. febrúar 2002
Spurt er:
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 3
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Febrúar 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- September 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Janúar 2009
- Október 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Mars 2006
Tónlistarspilari
Bloggvinir
- ulfhildur
- hallsson
- blues
- systapista
- birtab
- vitinn
- hoskuldur
- konur
- arnim
- ragnhildur
- eggmann
- kjarvald
- hrafnaspark
- torfusamtokin
- theld
- konukind
- jullibrjans
- hugsadu
- bleikaeldingin
- einherji
- jenni-1001
- annapala
- vglilja
- halla-ksi
- volcanogirl
- kristinast
- daath
- mariakr
- soley
- arnigunn
- aevark
- ragnarfreyr
- ktomm
- hlynurh
- sinfonian
- elvabjork
- raggissimo
- nonniblogg
- vitale
- malacai
- ingolfurasgeirjohannesson
- hannibalskvida
- steinibriem
- jea
- vardi
- hildurhelgas
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.