29.3.2006 | 13:34
Heilbrigði og geðheilbrigði
Eftir stendur það, að sá þunglyndi tekur sjálfur ábyrgð á sjúkdómi sínum, hikar við að leita sér hjálpar og hikar við að tala um hlutskipti sitt.
Ég velti því þó fyrir mér hvort þessi skilgreining á andlegri heilsu eigi einhvern þátt í því að gera geðheilbrigði á einhvern hátt frábrugðið almennu heilbrigði í huga fólks og móta þá hugmynd að hægt sé að vera heilbrigður þótt geðheilbrigði sé ekki fyrir að fara. Ég velti því sem sagt fyrir mér hvort hægt sé að vera heilbrigður en um leið ekki geðheilbrigður. Í sundurgreiningunni hlýtur þó að felast, að hægt sé að vera geðheilbrigður en ekki heilbrigður að öðru leyti.
Þetta geðheilbrigðisorð er sérstaklega umhugsunarvert í ljósi þess að margir þeirra sem við geðsjúkdóma glíma hafa sagt að þeir sjúkdómar séu ekki litnir sömu augum og aðrir. (Ég ætla ekki að veigra mér við því að nota orðið geðsjúkdómar; það nota ég með fullri virðingu fyrir þeim sem af þeim þjást. Mér er bara þvert um geð að nota tilgerðarlega og vonda nýyrðið geðraskanir.) Dæmi hafa verið tekin af hjarta- og kransæðasjúkdómum. Það eru þekktir sjúkdómar og viðurkennt að þeir sem af þeim þjást þurfa bráða bót á þeim, annars gæti líf manneskjunnar verið í bráðri hættu. Það þykir engum tiltökumál að tala um þessa sjúkdóma, og talið eðlilegt að fólk fái aðstoð og svigrúm til að ná bata.
Geðsjúkdómar eru á hinn bóginn engan veginn jafn viðurkenndir opinberlega, hvað sem hver segir. Sjálfsagt er það þó mismunandi eftir því hve einkenni þeirra eru alvarleg og sýnileg. Það er þó enn ekki orðið svo að þeir sem haldnir eru geðsjúkdómum treysti sér til að tala um þá á jafn opinskáan hátt og þeir sem þjást af hjartasjúkdómum, gigt, mígreni og slíkum líkamlegum kvillum.
Samt virðist það svo, að flestum þyki það sjálfsagt mál að fólk með geðræn vandamál leiti sér hjálpar - einn varnagli þó; bara ef það hendir ekki það sjálft eða þeirra nánustu. Þunglynt fólk hefur talað um það, að því sé stöðugt ráðlagt að hrista af sér slenið og vera ekki með þessa bölvuðu vitleysu. Með því er verið að halda að þessu fólki að það sé ekkert að því, annað en það, að það þurfi sjálft að taka sig taki til að koma sér aftur á réttan kjöl. Með því er einnig verið að draga úr þeirri staðreynd að þunglyndi sé sjúkdómur sem þarfnist aðhlynningar sérfræðinga á því sviði. Úrtölur af þessu tagi eru enn ótrúlega lífseigar og lýsa fordómum sem geta haft mjög alvarlegar afleiðingar fyrir þann sjúka. Eftir stendur nefnilega það, að sá þunglyndi tekur sjálfur ábyrgð á sjúkdómi sínum, hikar við að leita sér hjálpar og hikar við að tala um hlutskipti sitt. Meðan viðhorf umhverfisins eru enn svo úrelt er skiljanlegt að sá þunglyndi treysti sér ekki til að segja sannleikann þegar hann hringir í vinnuna og tilkynnir forföll. Hann segist vera kvefaður, illa fyrir kallaður, lasinn og slappur, en treystir sér ekki til að segja eins og er, að hann sé kvíðinn og dapur og treysti sér þess vegna ekki til að takast á við verkefni dagsins. En hvað er að því? Ekkert annað en ótti hins sjúka við fordóma. Hjartveikur maður er meðhöndlaður umsvifalaust. Annars er hætta á að hann deyi. Geðsjúkur maður er meðhöndlaður ef hann sjálfur treystir sér til að leita sér hjálpar. Samt er líka hætta á því að hann deyi leiti hann sér ekki hjálpar. Neyð hans er ekki síðri en hins hjartveika. En á meðan hann telur í sig kjarkinn má honum vera ljóst af þeim viðbrögðum sem illu heilli eru enn svo ríkjandi, að heilbrigði og geðheilbrigði er ekki sami hluturinn.
Það hefur komið fram, að um fimmtíu þúsund Íslendingar séu að jafnaði haldnir geðsjúkdómum af ýmsu tagi, og þá sennilega jafnt "léttvægum" sem alvarlegum. Einhvern tíma heyrði ég sagt frá því að forstjóri fyrirtækis hefði farið í veikindaleyfi og tilkynnt að það væri vegna geðrænna erfiðleika. Ætli þeim manni hafi nokkurn tíma verið hrósað fyrir það þor sem hann sýndi með því að segja sannleikann? Ætli hann hafi gert sér grein fyrir því hve margir í hans sporum glöddust í hjarta sínu yfir því að einhver skyldi þora að viðurkenna á sig þetta sem er svo erfitt að tala um? Þeir geðsjúku eru ekki endilega best til þess fallnir að standa upp til varnar sjálfum sér og sínum erfiðleikum. Samfélagið þarf að sýna þeim að þeim sé óhætt; að það skilji að kvillar þeirra séu sjúkdómar sem taka beri alvarlega og að hægt sé að tala um geðsjúkdóma fordómalaust.
Eftir Bergþóru Jónsdóttur begga@mbl.is
Viðhorf, birt í Morgunblaðinu 27. febrúar, 2002.
Spurt er:
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 3
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Febrúar 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- September 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Janúar 2009
- Október 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Mars 2006
Tónlistarspilari
Bloggvinir
- ulfhildur
- hallsson
- blues
- systapista
- birtab
- vitinn
- hoskuldur
- konur
- arnim
- ragnhildur
- eggmann
- kjarvald
- hrafnaspark
- torfusamtokin
- theld
- konukind
- jullibrjans
- hugsadu
- bleikaeldingin
- einherji
- jenni-1001
- annapala
- vglilja
- halla-ksi
- volcanogirl
- kristinast
- daath
- mariakr
- soley
- arnigunn
- aevark
- ragnarfreyr
- ktomm
- hlynurh
- sinfonian
- elvabjork
- raggissimo
- nonniblogg
- vitale
- malacai
- ingolfurasgeirjohannesson
- hannibalskvida
- steinibriem
- jea
- vardi
- hildurhelgas
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.