Leita í fréttum mbl.is

Blær nafna

"Mér fannst alveg sanngjarnt að leyfa ekki að lítil stúlka fengi að heita Satanía, en finnst alveg ómögulegt að önnur skuli ekki fá að heita Blær. Hvað gæti nú verið svo slæmt við það?"

EINU sinni var mér sögð sagan af Sveini. Hann var afar góður karl, og þegar hann var orðinn aldraður og farinn að nálgast dauðann var lítil stúlka í fjölskyldunni skírð í höfuð honum, Sveinsína. Sveinsína hafði alla kosti afa síns, einstakt gæðablóð, og þegar hún var komin að fótum fram var ákveðið að einn niðja hennar skyldi bera nafn hennar og var því skírður Sveinsíníus. Sveinsíníus var sjómaður, og svo slysalega vildi til að hann fórst á sjó frá ófrískri konu sinni og þegar dóttir leit dagsins ljós var hún auðvitað látin bera nafn föður síns, Sveinsíníusína. Ég veit ekki hvort þessi saga er sönn; það skiptir kannski ekki máli; - hún gæti vel verið það, aðrar eins furður þekkjast vel þegar Íslendingum eru gefin nöfn.

Mér þótti alltaf vænt um nafnið mitt, enda skírð í höfuðið á ömmu minni, Bergþóru, sem ég elskaði afar heitt. Að pabbi minn skyldi heita Jón fannst mér líka gott; einfalt og þjóðlegt og ekki þykir mér minna vænt um hann. Svo var amma mín líka Jónsdóttir eins og ég, þótt Jónarnir væru ekkert skyldir og kæmu hvor úr sínu sjávarplássinu.

Þegar ég var lítil prísaði ég mig alltaf sæla, fyrir að heita hvorki Lofthæna né Freðsvunta, og þegar ég var einhvern tíma að þakka móður minni fyrir það, sagði hún mér, að ég hefði reyndar verið skírð millinafninu Fimmsunntrína, en það hefði bara gleymst að segja mér það. Fimmsunntrína var sem sé sú sem fæddist fimmta sunnudag eftir trínitatis. Ég trúði þessu ekki lengi, en þó fór þessi stríðni í taugarnar á mér; - þetta hefði nefnilega alveg getað verið rétt; það eru jú mörg sérstök nöfn í fjölskyldunni. Langafi minn norður í landi var til að mynda skírður Garibaldi, í höfuðið á ítölsku frelsishetjunni. Ég furða mig oft á því hvernig langalangafi minn og -amma gátu látið sér detta annað eins nafn í hug, og ekki síður hvernig þau höfðu haft spurnir af ítölsku frelsishetjunni lengst norður á hjara Íslands. En mér þykir vænt um þetta nafn, og ég gleðst yfir því að margir ættingja minna hafa látið það lifa í nöfnum barna sinna.

Í ættum mínum að vestan eru sannarlega mörg sérkennileg nöfn, bæði Ebeneser og Efemía, þótt nánustu forfeður mínir þaðan hafi bara heitið Jón og Margrét. Í Kjósarleggnum heita karlarnir Ólafur, Guðmundur og Magnús, en konurnar Kristín og Úlfhildur. Úlfhildarnafnið þótti einhvern tíma frekar ósmart, en mér þótti það alltaf sérstaklega fallegt og kraftmikið og hikaði ekki við að nefna dóttur mína Úlfhildi eftir að við foreldrar hennar höfðum mátað það við hana í nokkrar vikur. Ekki að það væri endilega í höfuðið á einhverri formóðurinni, heldur bara til að halda góðu nafni við.

Mörg íslensk nöfn eru mjög "spes"; - og talandi um spes, - þá finnst mér eiginlega furðulegt að enginn nútímamanneskjan skuli hafa endurlífgað kvenmannsnafnið Spes, komið úr latínu eins og kærleiksnafnið Karítas, og þýðir von. Spes hefur líka þessa tvíræðu merkingu í dag, - Spes er von, en líka sérstök.

Það þykir alltaf tíðindum sæta þegar mannanafnanefnd kveður upp dóma sína um það hvaða nöfn skuli leyfð í íslensku máli og hver ekki. Í það minnsta gína fjölmiðlar yfir þessum fréttum og slá þeim gjarnan upp. Eins og aðrir les ég þessar fréttir af miklum áhuga, og ýmist lofa nefndina fyrir réttvísi og skynsemi, eða verð alveg yfir mig gáttuð á forsjárhyggjunni. Mér fannst alveg sanngjarnt að leyfa ekki að lítil stúlka fengi að heita Satanía, en finnst alveg ómögulegt að önnur skuli ekki fá að heita Blær. Hvað gæti nú verið svo slæmt við það?

Jú, það er karlkyns, að mati nefndarinnar. En hverju skiptir það, þegar fjöldi íslenskra mannanafna ber annað kyn en manneskjan sem ber nafnið? Eitt elsta nafnið þessarar náttúru er Sturla; - sem er kvenkyns, - rétt eins og Erla, en er karlmannsnafn. Svo eru það Sigmar og Dagmar, Auður og Höður. Leyft er að skíra drengi Blæ, og þá tekur það karlkynsfallbeygingu: Blær-Blæ-Blæ-Blæs. Karlmannsnafnið Sturla tekur hins vegar kvenkynsbeyginu: Sturla-Sturlu-Sturlu-Sturlu. Einstöku sinnum heyrir maður fólk eiga í vandræðum með þetta og segja Sturli, en ég held að engum dytti í hug að taka nafnið úr notkun fyrir þau glappaskot. En hvers vegna ekki Blær? Þetta fallega nafn hlýtur að geta þrifist í íslensku máli sem kvenmannsnafn. Það fannst í það minnsta Halldóri Laxness, sem gaf það dularfullu stúlkunni sem spilaði á píanóið í Brekkukotsannál. Þótt nöfnin Sturla og Erla séu hvort tveggja kvenkyns og fallbeygist samkvæmt því, þá taka Sigmar og Dagmar hvort sína beyginguna eftir kyni. Það gæti Blær einfaldlega líka gert og samt fallið vel að íslensku máli. Í bókinni Nöfnum Íslendinga eftir Guðrúnu Kvaran og Sigurð Jónsson frá Arnarvatni er nafnsins getið sem kvenmannsnafns sem beygist Blær-Blæ-Blæ-Blær, en einnig bent á aðra beygingu þágufalls og eignarfalls sem er ljómandi falleg: Blævi-Blævar. Það er óskiljanlegt að mannanafnanefnd skuli ekki ekki geta séð í gegnum fingur sér við þá foreldra sem kjósa að gefa dóttur sinni þetta fallega og fullkomlega eðlilega kvenmannsnafn. Eitt er að banna ónefni eins og Sveinsíníusínu og Sataníu, en annað að hafna góðum og gildum nöfnum á afar hæpnum forsendum. Auðvitað þarf mannanafnanefnd að hlíta ákveðnum reglum en að hengja sig í þær af slíkri óbilgirni verður henni aldrei til farsældar.

Eftir Bergþóru Jónsdóttur begga@mbl.is

Viðhorf, birt í Morgunblaðinu 3. júlí 2002.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Bergþóra Jónsdóttir
Bergþóra Jónsdóttir

Spurt er:

Á að aðskilja ríki og kirkju?
Er flokkakerfið úrelt?

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband