Bloggfærslur mánaðarins, mars 2006
29.3.2006 | 13:46
Smiðir gæfunnar
Slíkt fólk telur sig sjálfsagt vera að standa vörð um völundarsmíð eigin gæfu; - ógæfa þess sé fólgin í því að þurfa að horfa á þá sem áttu hvorki nagla né hamar.
Tilvist sjúkdóma er einfaldasta svarið við títtnefndum málshætti. Þeir sem þá fá eiga það á hættu að missa stjórn á örlögum sínum. Utanaðkomandi og algjörlega óviðráðanlegar aðstæður setja strik í lífsreikninginn og gæfusmiðinn vantar nagla. Flestir njóta þess þó að við búum við ágætt atlæti í heilsugæslumálum og oft er hægt að hjálpa fólki við að komast á réttan kjöl. En það er ekki alltaf. Sumir deyja, og svo eru það aðrir sem eru veikir, en þeim er ekki sinnt sem skyldi. Þeir sem fá geðsjúkdóma eru öðrum fremur í hættu, vegna þess að þeim er ekki alltaf sjálfrátt og þeir eru jafnvel ekki færir um að leita sér hjálpar. Það sem verra er það að þau úrræði sem þarf til að hjálpa því fólki eru ekki alltaf til staðar. Fárveikt fólk hrekst um samfélagið bjargarlaust án þess að það þyki tiltökumál, meðan ekkert skelfilegt gerist. Flýtur meðan ekki sekkur. Þó sökkva skipin enn í dag.
Allra verst er þó hve samfélagið er fljótt til hræsni, þótt vafalaust myndu engir játa á sig aðspurðir þá skömm að vera haldnir fordómum. Á síðustu árum hafa komið upp að minnsta kosti þrjú tilfelli sem ég man eftir í fljótu bragði, þar sem íbúar í húsum og jafnvel heilum hverfum hafa tekið sig saman um að mótmæla því að geðsjúkir fengju að setjast þar að. Slíkt fólk telur sig sjálfsagt vera að standa vörð um völundarsmíð eigin gæfu; ógæfa þess sé fólgin í því að þurfa að horfa á þá sem áttu hvorki nagla né hamar. Viðhorf af þessum toga leynast víðar. Enn heyrast raddir um að samkynhneigðir eigi að hrista af sér vitleysuna; - naglhreinsa af sér "ógæfuna", jafnvel á opinberum vettvangi. Það er óskiljanlegt að Alþingi Íslendinga skuli ekki hafa treyst sér til þess að samþykkja það að samkynhneigðir fengju að ættleiða börn svokallaðri frumættleiðingu. Hví mega þeir ekki smíða sér þá gæfu sem þeir eiga þó alltént efnivið í?...Þeir teljast jú hæfir til að ala upp sín eigin börn.
Fátækt er nú sögð landlæg á Íslandi og í hverri viku heyrum við fréttir af neyð fólks sem leitar til hjálparstofnana eftir hjálp með sárustu nauðþurftir. Þarf þetta að vera svona?
Hver er sinnar gæfu smiður, segjum við og lítum undan meðan allsendis allslaus börn hrúgast upp á götum fjarlægra stórborga. Hvaða gæfusmíðar bíða þeirra? Við vonum líka að þessi árans stríð öll fari nú að líða hjá svo við þurfum ekki að horfa upp á grátandi konur í rykmettuðum rústum eigin gæfu.
Einhvers staðar hefur okkur orðið á, og einhvers staðar höfum við misst sjónar á því að gæfan er engum vís. Við höfum það hins vegar í hendi okkar að standa þannig að málum að þeir sem standa höllum fæti geti notið þeirrar gæfu að þeim sé rétt hjálparhönd. Það yrði um leið gæfa okkar hinna. Við höfum kannski ekki öll ráð stóra heimsins í okkar höndum. En hér í okkar litla landi þarf það að vera metnaður okkar allra að allir fái að njóta síns besta. Frelsi einstaklingsins til að njóta mannsæmandi lífs, hlýtur að vera sameiginlegt markmið og ábyrgð allra um leið. Stundum óttast ég þó að vilji fyrir því sé ekki nægur, og hræðist það að skilningur á því sé dvínandi. Um það vitnar sá veruleiki að margir þeir sem raunverulega eru hjálpar þurfi skuli komast í þrot áður en gæfuþjóðin hamingjusama áttar sig á því.
Eftir Bergþóru Jónsdóttur begga@mbl.is
Viðhorf, birt í Morgunblaðinu 8. maí, 2002.
Viðhorf | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.3.2006 | 13:42
Áhrifamáttur tónlistarinnar
Það má auðveldlega færa rök fyrir því að það sem er í almenningseign megi ekki færa til "einkaeignar" á þann hátt sem Kringlan hefur "eignað sér" Armstrong-lagið góða.
En nú er Kringlan búin að koma sér svo haganlega fyrir í hugskoti mínu að mér forspurðri að ég er með stöðuga verki. Það sem veldur er eitt lítið lag. Árum saman hef ég hlustað á Louis Armstrong mér til mikillar gleði og yndis og eitt af uppáhaldslögum mínum með honum heitir A Kiss To Build a Dream On. Kannist þið við það?
Give me a kiss
To build a dream on
And my imagination
Will thrive upon that kiss
Þetta ljúfa lag eftir Kalmer og Rudy við texta Oscars Hammersteins er steinhætt að láta vel í eyrum, það hefur misst yndisleik sinn; því hefur verið stolið frá mér. Hvers á ég að gjalda að þurfa að hugsa um Kringluna í hvert skipti sem ég heyri þetta lag? Skilyrðing sú sem auglýsingastofa og ímyndafræðingar Kringlunnar hafa sennilega ætlað sér að skapa hefur svei mér heppnast þótt formerkin í mínu tilfelli séu varla á þann veg sem vonast var til.
Ótal dæmi er hægt að rekja um svipaða misnotkun á tónlist í auglýsingum. Sígaunastúlkur Verdis og dömubindin og valkyrjur Wagners og klósetthreinsilögurinn voru gróf dæmi sem seint gleymast.
Auglýsendum er vandi á höndum þegar þeir velja tónlist við auglýsingar. Skiljanlega vilja þeir tengja vöru sína við þekkt og grípandi stef, en málið er ekki svo einfalt. Ég kýs að líta á tónlist og öll önnur listaverk sem öðlast hafa almannahylli um allan heim sem sameiginleg verðmæti þjóða heims. Um þau ættu að gilda sömu reglur og um verndaðar náttúrminjar og annað það sem mannkynið telur sameiginlegan arf og menningartákn. Hverjum dytti í hug að hengja kókauglýsingu í Ásbyrgi eða Almannagjá? Varla nokkrum. Þó eru ótal dæmi um að fyrirtæki noti slíka staði í myndefni auglýsinga á óbeinan hátt í svokölluðum ímyndarauglýsingum.
En hver er réttur hvers? Fyrirtæki geta auðvitað keypt sér leyfi til að nota listaverk og menningarminjar í auglýsingar sína. Hvað listaverk varðar, þá gilda um þau ströng lög bæði um höfundarrétt og afnotarétt, og oft grunar mann að ekki sé alls kostar farið eftir þeim þegar um notkun þeirra í auglýsingaskyni er að ræða. En þó svo að öllum reglum sé fylgt, og öll leyfi fengin fyrir slíkri notkun, má um það deila hvort slíkt ætti að leyfast yfir höfuð. Hugtakið public domain, er gjarnan notað um það sem hefur öðlast þann sess að vera almenningseign vegna almannahylli eða vegna þess að höfundarréttur er ekki til staðar. Það sem fellur undir hugtakið er venjulegast til frjálsra afnota fyrir hvern og einn. Með tímanum, þegar höfundarréttur fyrnist, geta listaverk fallið undir þessa skilgreiningu, og það gera til dæmis þjóðlög sem enginn veit hver samdi. Þótt allur almenningur eigi þá kost á því að njóta slíkra verka án þess að hafa áhyggjur af rétti höfundar, er ekki þar með sagt að fyrirtæki og stofnanir geti leyft sér það. Það má auðveldlega færa rök fyrir því að það sem er í almenningseign megi ekki færa til "einkaeignar" á þann hátt sem Kringlan hefur "eignað sér" Armstrong-lagið góða.
Almenn notkun og misnotkun á tónlist er nokkuð sem oftar ætti að gefa gaum. Ég nefndi sjónvarpsauglýsingu, og þá kannski rétt að halda sig við sama miðil. Það er athyglisvert að skoða hvernig tónlist er notuð í sjónvarpsþáttum, sérstaklega íslenskum sjónvarpsþáttum. Mig rámar í eina og eina íslenska heimildamynd þar sem tónlist hefur verið notuð á smekklegan og viðeigandi hátt. Þeir sem að þeim standa eiga lof skilið. En oftar en ekki er eins og dagskrárgerðarfólk hafi ekki nokkra hugmynd um til hvers það ætlar að nota tónlistina. Tónlistin er notuð sem uppfylling í þagnir og skraut við myndefni, og lítið hugsað um það hvernig hún gæti stutt mynd og texta og gefið þættinum heilsteyptara yfirbragð. Íslenskir dagskrárgerðarmenn eiga þó eina töfralausn í pokahorninu, en hvernig þeir fundu hana er mér hulin ráðgáta. Þetta eru Brandenborgarkonsertar Bachs! Hvers vegna eru þeir svona vinsæl bakgrunnstónlist í íslenska heimildaþætti? Þá gildir einu hvort verið er að tala um saltfiskvinnslu fyrr á tímum eða íslenskar bókmenntir. Hver er tengingin við Bach? Mér virðist hugsunin þarna að baki oft svipuð og hjá auglýsendum sem kjósa að tengja ímynd sína við fallegan og grípandi eyrnaorm. Tónlistin er notuð af því að hún er svo ansi þægileg, flestum finnst hún falleg, hún meiðir engan og svo má eflaust komast að því að barrokksveiflan hjá Bach gefi þættinum fágað og vandað yfirbragð. Klassískt.
Tónlistin segir oft meira en mörg orð, og það er vont þegar hún er misnotuð.
Þeir sem vilja nýta tónlist til opinberra nota á hvaða hátt sem er þurfa að átta sig á þessu og leiða hugann að orðunum til hvers og hvernig. Tónlistin þarf ekki að vera á stalli sem hin dýra list. Hana þarf þó að umgangast með virðingu og sanngirni og skilningi á því hver áhrifamáttur hennar getur verið.
Eftir Bergþóru Jónsdóttur begga@mbl.is
Viðhorf, birt í Morgunblaðinu 24. apríl 2002.
Viðhorf | Breytt s.d. kl. 13:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.3.2006 | 13:40
Vinir í veruleikanum
Það virtist unglingnum fullkomlega eðlilegt og sjálfsagt að Phoebe Buffay ætti heima með öðrum stórmennum sögunnar.
Þetta atvik hefur einnig orðið til þess að vekja mig til umhugsunar um það hvaða augum börn og unglingar líta raunveruleikann, og skilin milli hans og þess sem er skáldað. Hvaða augum líta börnin okkar til dæmis hörmungarfréttir frá stríðsátökum í Palestínu sem þau upplifa gegnum sama sjónvarp og hefur skapað Phoebe Buffay? Gera þau sér grein fyrir mörkunum?
Þessu getur orðið erfitt að svara. Vissulega má reikna með því að flestir fjórtán ára krakkar þekki vel þessi skil, en reyndin er nú samt sú að hinn skáldaði veruleiki, sem þau horfast í augu við daglega í gegnum fjölmiðla, bíó og upplýsingamiðla, stendur þeim á margan hátt nær en hinn sanni, og ugglaust eru áhrif hans ekki síður mikil en þess sem gerist í alvörunni. Þáttaröðin um Vini er græskulaust gaman og vissulega vel gert, þótt margt megi að henni finna, eins og það að Vinirnir skuli nánast aldrei þurfa að hafa samskipti við fólk af öðrum kynþætti en þeim hvíta. En kynslóðin sem á Vini að sínum einkavinum, þekkir Malcolm í miðjunni jafnvel og bekkjarsystkin sín og prísar sig sæla að eiga ekki Frasier að pabba, verður ekki eins og þær sem á undan fara.
Ég spyr mig hvaða vegarnesti þessi kynslóð fer með út í lífið. Það sem mestan ugg vekur, er það hversu einlit og einhliða sú unglingamenning er sem þau alast upp við. Amerískir sjónvarpsþættir eru fyrirferðarmiklir á öllum sjónvarpsstöðvum, Ríkisútvarpinu ekki síður en þeim einkareknu. Hvaða möguleika á barnið mitt á því að kynnast einhverju öðru? Fá, ef satt skal segja. Það má að vísu af og til sjá enska og ástralska sjónvarpsþætti sem höfða til unglinga, en varla eru það mikil frávik frá því flóði sem hingað berst frá Ameríku. Ég óttast það að íslenskir krakkar eigi það á hættu að verða jafneinsýnir og einsleitir og þeir amerísku krakkar sem þau eiga að vinum gegnum fjölmiðla. Hvernig getur annað orðið ef þau fá ekki tækifæri til að kynnast öðru? Ætla mætti að hvergi væri búið til afþreyingarefni fyrir krakka annars staðar en í Ameríku. Við vitum þó betur og hvílíkur hvalreki að fá af og til myndir eins og Fucking Åmål, þar sem fjallað var um líf unglingsstúlkna af miklu raunsæi, en um leið á auðskilinn hátt sem höfðaði sterkt til krakka. Þar fundu krakkar platraunveruleika sem þau gátu samsamað sig við og krakka sem líktust þeim. En þetta gerist því miður allt of sjaldan. Amerísk beib og ofurtöffarar lifa í veröld þar sem ekki er talað um tilfinningar sem geta stundum verið sárar og erfiðar. Þar eru krakkar ekki að takast á við spurningar sem blasa við í lífi raunverulegra unglinga. Malcolm í miðið er svo erfiður foreldrum sínum af því að hann er svo ofboðslega gáfaður! Það er hans byrði. Phoebe Buffay er munaðarlaus og ólst upp á götunni, en annars gengur henni allt í haginn - hún er líka bæði svo sæt og fyndin. Krakkarnir í Two Guys and a Girl eru yfirborðsleg og vandamál þeirra svo fáfengileg að venjulegt fólk hlýtur að spyrja sig hvernig það sé hægt að gera þætti um fólk sem er svo fullkomið. Heillanornirnar eru að vísu munaðarlausar, en þær eru bæði svo sætar og fínar og eiga sæta kærasta og eru ofan á allt göldróttar, að auðvitað gengur þeim allt í haginn. Allt er svo skínandi fínt, ljómandi gott, dæmalaust auðvelt og svo ofboðslega skemmtilegt, að það er kannski ekki að undra þrátt fyrir allt að venjulegir íslenskir krakkar vilji gangast þessum heimi á hönd.
Eftir Bergþóru Jónsdóttur begga@mbl.is
Viðhorf, birt í Morgunblaðinu 10. apríl, 2002.
Viðhorf | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.3.2006 | 13:38
Vorfiðringur
Meðan ég lá í flensu um daginn lét ég útvega mér alla mögulega og ómögulega ferðapésa - alla bæklinga sem hönd á festi svo framarlega sem á þeim var mynd af sól.
Margur, og víst það maklegt er mjög þessum skálkum formælir
mjög þessum skálkum formælir
Það er ekki bara rímið sem er undarlegt - heldur líka að áhersla skuli sett á lokaatkvæði orðsins formælir. En hvað um það, sennilega hefur Hallgrímur Pétursson ekki verið mjög músíkalskur maður, þótt hann hafi verið margra maki að guðlegu andríki. Eftir nokkur ár verð ég örugglega ekki bara búin að fyrirgefa Hallgrími, heldur líka hætt að taka eftir þessu og láta það pirra mig inn við beinið.
En það er vorið. Nú er vorlyktin komin - þessi næstum erótíska lykt af frjórri mold sem er meir en tilbúin til að taka við sáðmönnum vorsins, sem lúra á hnjám sér í beðum og runnum með bleika gúmmíhanska og klórur; krafsa burt eftirhreytur vetrarins og gera allt klárt fyrir það að blóm og runnar geti skartað sínu fegursta þegar þar að kemur og sírenurnar fari að ilma. Þær gera það nefnilega líka á Íslandi, rétt eins og í útlöndum. Mikið hlakka ég til. Vorið er alveg að koma, ég hef það á tilfinningunni að þetta gerist bara núna alveg næstu daga. Vitið til.
En þótt mér þyki alltaf best heima og sumarið hvergi eins unaðslegt og hér er ég loksins að komast á þann aldur, að mig langar að upplifa það einhvers staðar annars staðar líka. Ég hélt lengi að útþráin tilheyrði bara unga fólkinu, en það er þá sennilega eitthvað bogið við mig, því mér finnst þessi þrá vaxa með aldrinum. Ég hef tekið eftir því nokkur síðustu ár, að um leið og þetta dásamlega vor fer að gera vart við sig langar mig í enn meira vor - enn meira sumar. Meðan ég lá í flensu um daginn lét ég útvega mér alla mögulega og ómögulega ferðapésa - alla bæklinga sem hönd á festi svo framarlega sem á þeim var mynd af sól. Pésana svalg ég í mig af áfergju og reyndi að finna draumum mínum um mikið sumar farveg í tilhugsun um pakkaferðir, borgarferðir, sveitaferðir og sérferðir. Ég fann ekki alveg það sem mig langaði mest í. Ég held að það sem mig langar í sé kytra fyrir mig og mína hjá óþekktum bónda suður í Úmbríu. Þessi bóndi ræktar ólífur, epli og vín og er með svolítinn sundlaugarpoll í garðinum, þar sem ég get látið sólina smjúga í merg og bein milli þess sem ég skoða mikilfenglegar menningarminjar og teyga í mig stemningu ítalskra miðaldaborga. Ég veit annars ekkert um þetta - hégómlegir draumar. Það er verra að það er orðið svo erfitt að komast í burtu. Það kostar of fjár að heimsækja aðrar þjóðir, og eftir að flugfélagið Go treystir sér ekki lengur til að bera okkur í burtu á skikkanlegum prís þverr vonin um að komast einhvern tíma til bóndans góða, ekki síst ef fargjaldið fyrir einn kostar hátt í sjötíu þúsund krónur. Þegar ég var að huga að málsháttum í páskaeggin sem ég ætla kannski að búa til ef ég nenni rakst ég alveg óvart í Hávamál:
Sá einn veit
er víða ratar
og hefir fjöld um farið
hverju geði
stýrir gumna hver,
sá er vitandi er vits.
Mér fannst þetta vísbending - já næstum sönnun þess að mér væri ætlað að komast út í sumar; hér væru vitsmunir mínir í húfi. Í gær var vorfiðringurinn alveg að fara með mig, en dvínandi von um að ég fengi nokkurn tíma að sjá eplin í Úmbríu skyggðu óþægilega á ólgandi vorþrána. Ætl'ann fari ekki bara að snjóa.
Eftir Bergþóru Jónsdóttur begga@mbl.is
Viðhorf, birt í Morgunblaðinu 27. mars, 2002
Viðhorf | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.3.2006 | 13:36
Hvar eru Maha og Renda?
Í sjónvarpinu sé ég hús sem búið er að jafna við jörðu og konu sem fórnar höndum í rústunum og kallar á heiminn sér til bjargar. Er þetta Maha? Er hún orðin svona núna?
Árin líða, og langt síðan ég týndi vinkonum mínum út í heiminn. Það líður þó varla sá dagur að mér verði ekki hugsað um það hvað þær Maha Abu-Ayyash og Renda Abu-Rayyan hafast að núna. Ég hef ítrekað reynt að hafa uppi á þeim, en án árangurs. Ég heyri af voðaverkum Palestínumanna í Ísrael og voðaverkum Ísraelsmanna í Palestínu og hugsa stöðugt um það hvert þeirra hlutskipti sé í þessum hörmungum.
Í sjónvarpinu sé ég hús sem búið er að jafna við jörðu og konu sem fórnar höndum í rústunum og kallar á heiminn sér til bjargar. Er þetta Maha? Er hún orðin svona núna? Ég les um konu sem gekk með sprengju innanklæða og tortímdi sjálfri sér og öðru blásaklausu fólki í þessari vonlausu baráttu. Var þetta Renda? Myndi hún geta gripið til slíkra voðaverka? Ég heyri af konu í barnsnauð sem situr undir kúlnahríð í bíl sínum meðan maður hennar er drepinn og tengdafaðir særður til ólífis. Var þetta kannski Maha? ...eða Renda?
Dag frá degi vaxa áhyggjur mínar af mínum gömlu skólasystrum sem ég svo ólánlega missti samband við. Það er kannski ekki að undra eins og ástandið er. Ég spyr mig hvort mér væri sama um þetta ástand ef ég þekkti ekki fólk af holdi og blóði sem hrærist í því. Varla; en sennilega tek ég það nær mér en ella væri fyrir þessa gömlu vináttu. En nú finnst mér komið nóg. Palestínumenn kalla nánast daglega á alþjóðasamfélagið og sárbæna það um aðstoð við að koma á friði. Ekkert gerist. Enn einn sendiboðinn frá Bush er sendur á svæðið, og Sharon lýsir yfir vilja til að ræða frið. Krafan um að Arafat aðhafist eitthvað hljómar ótrúlega ótrúverðug á meðan honum er haldið föngnum á afmörkuðum skika í Ramallah, sem í dag er að verða að rústum einum. Og enn sit ég hér og spyr, hvar eru Maha og Renda?
Eftir Bergþóru Jónsdóttur begga@mbl.is
Viðhorf, birt í Morgunblaðinu 13. mars, 2002.
Viðhorf | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.3.2006 | 13:34
Heilbrigði og geðheilbrigði
Eftir stendur það, að sá þunglyndi tekur sjálfur ábyrgð á sjúkdómi sínum, hikar við að leita sér hjálpar og hikar við að tala um hlutskipti sitt.
Ég velti því þó fyrir mér hvort þessi skilgreining á andlegri heilsu eigi einhvern þátt í því að gera geðheilbrigði á einhvern hátt frábrugðið almennu heilbrigði í huga fólks og móta þá hugmynd að hægt sé að vera heilbrigður þótt geðheilbrigði sé ekki fyrir að fara. Ég velti því sem sagt fyrir mér hvort hægt sé að vera heilbrigður en um leið ekki geðheilbrigður. Í sundurgreiningunni hlýtur þó að felast, að hægt sé að vera geðheilbrigður en ekki heilbrigður að öðru leyti.
Þetta geðheilbrigðisorð er sérstaklega umhugsunarvert í ljósi þess að margir þeirra sem við geðsjúkdóma glíma hafa sagt að þeir sjúkdómar séu ekki litnir sömu augum og aðrir. (Ég ætla ekki að veigra mér við því að nota orðið geðsjúkdómar; það nota ég með fullri virðingu fyrir þeim sem af þeim þjást. Mér er bara þvert um geð að nota tilgerðarlega og vonda nýyrðið geðraskanir.) Dæmi hafa verið tekin af hjarta- og kransæðasjúkdómum. Það eru þekktir sjúkdómar og viðurkennt að þeir sem af þeim þjást þurfa bráða bót á þeim, annars gæti líf manneskjunnar verið í bráðri hættu. Það þykir engum tiltökumál að tala um þessa sjúkdóma, og talið eðlilegt að fólk fái aðstoð og svigrúm til að ná bata.
Geðsjúkdómar eru á hinn bóginn engan veginn jafn viðurkenndir opinberlega, hvað sem hver segir. Sjálfsagt er það þó mismunandi eftir því hve einkenni þeirra eru alvarleg og sýnileg. Það er þó enn ekki orðið svo að þeir sem haldnir eru geðsjúkdómum treysti sér til að tala um þá á jafn opinskáan hátt og þeir sem þjást af hjartasjúkdómum, gigt, mígreni og slíkum líkamlegum kvillum.
Samt virðist það svo, að flestum þyki það sjálfsagt mál að fólk með geðræn vandamál leiti sér hjálpar - einn varnagli þó; bara ef það hendir ekki það sjálft eða þeirra nánustu. Þunglynt fólk hefur talað um það, að því sé stöðugt ráðlagt að hrista af sér slenið og vera ekki með þessa bölvuðu vitleysu. Með því er verið að halda að þessu fólki að það sé ekkert að því, annað en það, að það þurfi sjálft að taka sig taki til að koma sér aftur á réttan kjöl. Með því er einnig verið að draga úr þeirri staðreynd að þunglyndi sé sjúkdómur sem þarfnist aðhlynningar sérfræðinga á því sviði. Úrtölur af þessu tagi eru enn ótrúlega lífseigar og lýsa fordómum sem geta haft mjög alvarlegar afleiðingar fyrir þann sjúka. Eftir stendur nefnilega það, að sá þunglyndi tekur sjálfur ábyrgð á sjúkdómi sínum, hikar við að leita sér hjálpar og hikar við að tala um hlutskipti sitt. Meðan viðhorf umhverfisins eru enn svo úrelt er skiljanlegt að sá þunglyndi treysti sér ekki til að segja sannleikann þegar hann hringir í vinnuna og tilkynnir forföll. Hann segist vera kvefaður, illa fyrir kallaður, lasinn og slappur, en treystir sér ekki til að segja eins og er, að hann sé kvíðinn og dapur og treysti sér þess vegna ekki til að takast á við verkefni dagsins. En hvað er að því? Ekkert annað en ótti hins sjúka við fordóma. Hjartveikur maður er meðhöndlaður umsvifalaust. Annars er hætta á að hann deyi. Geðsjúkur maður er meðhöndlaður ef hann sjálfur treystir sér til að leita sér hjálpar. Samt er líka hætta á því að hann deyi leiti hann sér ekki hjálpar. Neyð hans er ekki síðri en hins hjartveika. En á meðan hann telur í sig kjarkinn má honum vera ljóst af þeim viðbrögðum sem illu heilli eru enn svo ríkjandi, að heilbrigði og geðheilbrigði er ekki sami hluturinn.
Það hefur komið fram, að um fimmtíu þúsund Íslendingar séu að jafnaði haldnir geðsjúkdómum af ýmsu tagi, og þá sennilega jafnt "léttvægum" sem alvarlegum. Einhvern tíma heyrði ég sagt frá því að forstjóri fyrirtækis hefði farið í veikindaleyfi og tilkynnt að það væri vegna geðrænna erfiðleika. Ætli þeim manni hafi nokkurn tíma verið hrósað fyrir það þor sem hann sýndi með því að segja sannleikann? Ætli hann hafi gert sér grein fyrir því hve margir í hans sporum glöddust í hjarta sínu yfir því að einhver skyldi þora að viðurkenna á sig þetta sem er svo erfitt að tala um? Þeir geðsjúku eru ekki endilega best til þess fallnir að standa upp til varnar sjálfum sér og sínum erfiðleikum. Samfélagið þarf að sýna þeim að þeim sé óhætt; að það skilji að kvillar þeirra séu sjúkdómar sem taka beri alvarlega og að hægt sé að tala um geðsjúkdóma fordómalaust.
Eftir Bergþóru Jónsdóttur begga@mbl.is
Viðhorf, birt í Morgunblaðinu 27. febrúar, 2002.
Viðhorf | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.3.2006 | 13:15
Ji, ertu með andstöðuþrjóskuröskun!
Það sem ég hef miklu meiri áhyggjur af eru annars konar áhrif enskrar tungu. Hún hefur nefnilega tekið upp á því að lauma sér inn í almennt málfar og er farin að láta á sér bera - ekki bara í slettum - heldur líka í því hvernig við notum málið. Fyrir vikið verður íslenskan mun fátæklegri en ella þyrfti að vera. Íslensk sagnorð virðast eiga mjög undir högg að sækja. Enska sögnin "to do" er farin að gera sig gildandi í íslensku máli; ekki sem sletta, heldur á þann hátt að í stað þess að nota íslensk sagnorð notum við sögnina að gera, og slengjum svo viðeigandi nafnorði aftanvið. Það er undantekning að heyra íþróttafréttamenn nota sögnina að skora. Íþróttamenn gera mörk. Sögnin að skora er hreinlega í útrýmingarhættu. Sálartetur mitt er svo einkennilega samansett, að þetta minnir mig alltaf á það að í eina tíð þóttu sagnorð sem lýstu þeim verknaði er börn þurftu að hægja sér svo klúr og dónaleg, að til þess að komast hjá því að nota þau sagði fólk að krakkinn hefði gert í buxurnar eða gert stórt. Nú þykir engum tiltökumál að nota viðeigandi sagnorð um þetta, en sögnin að skora virðist enn vera viðsjálli en svo að íþróttafréttamenn þori að taka sér hana í munn. Eldra dæmi um þessa enskulegu sagnanotkun er það að gera hreint. Það þykir ekki tiltökumál lengur að segja að maður ætli heim að gera hreint; - hvað þá ef maður ætlar að gera hreint fyrir sínum dyrum. Sagnirnar að hreinsa og þrífa víkja fyrir þessu orðalagi. Ég held að smám saman seytli þessi notkun sagnorða og nafnorða inn í íslenskuna og þyki á endanum eðlileg. Það er synd. Það er ekki bara sögnin að gera sem sækir á, heldur virðist almennt hugmyndaleysi í notkun sagnorða á undanhaldi. Skáld af öllu tagi, ljóðskáld, tónskáld og leikskáld, eru æ oftar farin að skrifa verk sín. Jú, sögnin lýsir vitaskuld þeim verknaði sem lýtur að framkvæmdinni sjálfri. En tilhugsunin um að Mozart hafi skrifað Sálumessu sína er ótrúlega óspennandi og orðinu fylgir engan veginn sama andagift og orðunum að semja, yrkja, kveða og skálda.
Nafnorðatískan sem fylgir þessari þróun er líka hvimleið. Um hana ætla ég að nefna dæmi, sem mér þótti svo stórfenglegt að ég mátti til með að deila því með fleirum.
Í saumaklúbbnum mínum er ekki mikið saumað, en þeim mun meira skrafað um menn og málefni. Þegar talið barst að gömlum kunningja sem átti í vandræðum spurði vinkona mín í stétt uppeldismenntaðra hvort hann væri ekki bara með andstöðuþrjóskuröskun. Um leið og hún sleppti orðinu og andlit okkar hinna þögnuðu í forundran gaus upp úr henni óstöðvandi hlátur. Hún hló ekki bara að tómum andlitum okkar hinna, ég held að henni hafi bara þótt það svo fyndið að taka sér þetta orð í munn. Það kom sem sé á daginn að andstöðuþrjóskuröskun er eitt þeirra svokölluðu íðorða, sem notuð eru í hennar fagi til að lýsa ákveðinni hegðun fólks. Þetta orð var yfirgengilega knúsað, og til þess eins að hlæja að því. Þá komu raskanirnar hver af annarri, geðröskun, kvíðaröskun, átröskun, hegðunarröskun, sértækar þroskaraskanir og gagntækar þroskaraskanir að ógleymdri mótþróaþrjóskuröskun, sem í dag er víst búið að stytta í mótþróaröskun - guði sé lof. Við nánari athugun fann ég ekki orðið röskun í orðabókinni minni, hvað þá raskanir í fleirtölu. Nafnorðið er dregið af sögninni að raska einhverju. Andstöðuþrjóskuröskun er heldur ekki til, og hvernig sem ég reyni að skilja orðið get ég það ekki. Ég veit hvað andstaða er og hvað þrjóska er, og veit líka hvað röskun er, þótt orðið hafi ekki hlotið náð orðabókarsmiðsins. Andstöðuþrjóska er eitthvað sem maður ímyndar sér um manneskju sem þrjóskast við að vera í andstöðu við allt og alla. En hvað svo gerist þegar þeirri hegðun er raskað finnst mér að hljóti að vera eitthvað til bóta. En andstöðuþrjóskuröskun þýðir svo reyndar eitthvað allt annað og flóknara, en orðið, sem er þýðing á því sem heitir á ensku pervasive development disorder, er ekki gegnsærra en svo, að hverjum manni hlýtur að vera ómögulegt að skilja það. Það er ekki allt fengið með því að þýða ensk orð yfir á íslensku. Málið skánar ekki við það eitt. Þá eru ónýtu perurnar skárri. Það er ekki nóg að fagfólkið setjist niður með orðabækur sínar; það þarf fólk með hugarflug og næmi fyrir íslenskri tungu til að smíða ný orð. En vel á minnst, oft eru bjargirnar nærri. Þegar ég var að leita að röskun í orðabókinni rakst ég á skemmtilegt orð, sem gæti komið uppeldisfólki að gagni við að greina hegðurnarvandamál. Hefur einhver heyrt talað um rösólf?
Eftir Bergþóru Jónsdóttur begga@mbl.is
Viðhorf, birt í Morgunblaðinu 13. febrúar 2002
Viðhorf | Breytt s.d. kl. 13:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.3.2006 | 13:09
Menning og glæpir
Um leið og þjóðerni fólksins er nefnt, stöndum við líka frammi fyrir okkur sjálfum og hugmyndum okkar um annað fólk.
Í upphafssetningu þessa pistils stillti ég mig um að segja "kúrdískur" faðir vegna þess að ég velti því fyrir mér hvaða þýðingu það hefur að nefna það. Það er vissulega ein af staðreyndum málsins að fjölskylda stúlkunnar var kúrdísk. Í sænskum blöðum hafa svipaðir atburðir verið rifjaðir upp. Árið 1997 var kona myrt af eiginmanni sínum þegar hún óskaði eftir skilnaði við hann. Sama ár var fimmtán ára stúlka stungin til bana af bróður sínum, og skömmu áður var annarri fimmtán ára stúlku misþyrmt af bróður sínum og frænda, og að þessu sinni fylgdi sögunni að það hefði gerst vegna andúðar þeirra á lífsháttum stúlkunnar. Reyndar er hér ekki rétt haft eftir, því í sænsku fréttinni var talað um "albanska" konu sem myrt var af manni sínum, "tyrkneska" stúlku sem var stungin af bróður sínum, og "íranska" stúlku sem bróðir og frændi misþyrmdu. Um leið og þjóðerni fólksins er opinberað, breytist fréttin óneitanlega. Við okkur blasir, að það er fólk frá öðrum menningarsvæðum sem fremur slík voðaverk. Og fórnarlömbin eru í öllum tilfellum konur. Um leið og þjóðerni fólksins er nefnt, stöndum við líka frammi fyrir okkur sjálfum og hugmyndum okkar um annað fólk. Skiptir það máli að þessi merkimiði upprunans er hengdur á fólk? Það þótti fyndið hér í gamla daga þegar fréttir bárust af bílþjófnuðum eða einhverjum smáglæpum á Akureyri og því var hnýtt aftan í fréttirnar: "Talið er að hér hafi utanbæjarmenn verið á ferð." Þetta var kannski ekki svo fyndið eftir allt saman, því þar opinberaðist svo ljóslega tilhneiging okkar til að líta þá sem komnir eru lengra að, öðrum augum en okkur sjálf. Það þarf ekki að segja neinum í dag, að á Akureyri búa líka krimmar og það er heldur engin frétt að íslenskir og sænskir karlar myrða konur og misþyrma börnum sínum rétt eins og tyrkneskir, kúrdískir, íranskir og albanskir karlar. Konur fremja líka glæpi. Glæpurinn er sá sami, en aðstæðurnar og það sem kallað er menningarumhverfi er annað. Það er fjarri mér að ætla að réttlæta glæp þessara manna með því að benda á að Íslendingar og Svíar líka, fremja sams konar glæpi. Það er þó víst að viðhorf okkar til glæpsins eru afar ólík eftir því hvaða merkimiði hangir á geranda og þolanda. Varla hefði morðið á Fadimu þótt slíkum tíðindum sæta ef svo væri ekki.
En er ekki komið að því að við förum að íhuga betur hvaða augum við sjálf horfum á ranglæti slíkra voðaverka? Það er auðvelt að fordæma fólk sem vegna uppruna síns í annars konar menningarumhverfi hegðar sér ólíkt okkur. Getum við virkilega skellt sökinni á þennan menningarmun og sagt með góðri samvisku að þarna hafi hann ráðið úrslitum, í ljósi þess að sjálf fremjum við hroðalega glæpi? Erum við ekki með því að setja okkur á sama sess og faðirinn situr á, sem fullur fordóma gat ekki þolað að dóttirin kysi annars konar líferni en hann sjálfur? Karlar drepa konur alls staðar í heiminum fyrir það að vilja ekki lúta vilja þeirra. Það þarf varla að segja nútímafólki það að trúarbrögð okkar hvort sem við erum kristin, múslimar eða eitthvað annað, gefa engri manneskju rétt til að taka líf annarrar. Trúin er kennisetning sem leitast við að boða gott. Það er hins vegar túlkun okkar sjálfra á bókstafnum sem sendi kristna menn í krossferðir til fyrirheitna landsins og múslima nokkrum öldum síðar inn í Evrópu, allt í nafni trúarinnar. Enn horfumst við í augu við voðaverk framin í nafni trúarbragða; í Bandaríkjunum, Afganistan, Palestínu, Ísrael og enn víðar. Hættulegast af öllu er að láta undan þeirri skoðun illvirkjanna og trúa því að grimmdarverk þeirra séu framin í nafni trúar eða hugmyndafræði. Það gerir okkur einungis tilbúnari til að taka undir sams konar fordóma gagnvart þeim. Sams konar fordóma og vakna hjá mörgum þegar þeir heyra að kúrdískur faðir hafi myrt dóttur sína, eða jafnvel að "utanbæjarmaður hafi verið á ferð". Fordómar geta sprottið af litlu tilefni og því sem virðist saklaust gaman. Það sem eftir stendur er að glæpur er glæpur. Og það er glæpur þegar ein manneskja myrðir aðra. Umburðarlyndi hlýtur að felast í því að mannréttindi séu virt. Þau lífsgildi að hver manneskja sé frjáls að eigin lífi og eigin skoðunum eiga við um okkur öll hver sem menning okkar og trú er. Fadima kaus að lifa sjálfstæðu lífi og taka sér rétt sem hún með sönnu átti. Faðir hennar virti ekki þennan rétt. Það er ekki hægt að skýra verknað hans með því einu að hann hafi verið Kúrdi og búið við öðruvísi menningu. Hann kunni ekki skil á grundvallarmannréttindum og framdi því þennan átakanlega glæp.
Eftir Bergþóru Jónsdóttur begga@mbl.is
Viðhorf, birt í Morgunblaðinu 30. janúar 2002
Viðhorf | Breytt s.d. kl. 13:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.3.2006 | 13:02
Hamingjunni fórnað
Útlitsgallað fólk ætti að fást með afslætti - í vinnu, í hjónabönd eða bara í hvað sem er.
Ég hef oft velt því fyrir mér hvers vegna sumt fólk er endalaust að hafa orð á því við systur mína að hún sé of mjó, horuð, rengluleg, vannærð og veikluleg. Ég hef ekki alltaf skilið hvað þetta fólk er að fara, enda er systir mín bæði sæt og góð og er í ofanálag svo ljónheppin að hafa þetta eftirsótta vaxtarlag. Auk þess er mér verulega hlýtt til hennar. Hvað er fólk eiginlega að meina? Ég hef svosum líka velt því fyrir mér hvers vegna þetta sama fólk steinþegir um það að ég sé of feit. Um það ríkir slík grafarþögn að stundum held ég að ég hljóti að vera mjó - í það minnsta passleg, en að ég sýnist bara feit þegar ég horfi á sjálfa mig. Slíkt fyrirbæri er reyndar alþekkt og er ein birtingarmynd grafalvarlegs sjúkdóms.Nei, fjandakornið.
Svar við þessum vangaveltum mínum er mér sagt að fáist í bíói þessa dagana, á myndinni Shallow Hal. Þar segir af manni sem vill bara grannar konur. Þegar hann er dáleiddur klikkar forritið, og honum finnst meira máli skipta að þær séu indælar og góðar, þótt þær séu feitar! Þetta frétti ég hjá unglingi mér nákomnum, sem sagði mér frá boðsferð sinni í bíó, en aðgöngumiðinn sem hún og vinkona hennar áttu að framvísa voru "eins stórar nærbuxur og hægt var að finna". Drottinn minn dýri, maður leggur nú ýmislegt á sig fyrir frían bíómiða nú til dags, enda lítið mál að grínast með feitabollur, þær eru hvort eð er svo geðgóðar og glaðværar sjálfar. En aftur að Grunnhyggna Halla. Hann varð svo óheppinn eftir að hann var fallinn í dá, að verða ástfanginn af konu. Hún var yndisleg og góð, greind og skemmtileg. Hvað er hægt að biðja um meira? Ég sagði óheppin, því þótt Halli virtist sannarlega dottinn í lukkupottinn var einn ljóður á. Ástin hans góða var sem sagt feitabolla. Að því komst hann þegar hann vaknaði úr dáinu. Ég var orðin svo spennt að fylgjast með Halla og ástinni hans að um leið og ég sá unglingablaðið Fókus sem fylgdi DV á föstudaginn svalg ég í mig grein um þessa forvitnilegu bíómynd, til að komast að því hvernig allt fór. Þar stóð: "Á hann að fórna ástríku sambandi fyrir útlitsgalla." Er nema von að spurt sé! Unglingurinn er nefnilega nýbúinn að sjá aðra bíómynd, Legally Blond, og var himinlifandi yfir því að vera dökkhærð en ekki ljóshærð; stúlkur með þann útlitsgalla eiga virkilega erfitt ætli þær að komast í gegnum laganám, ég tala nú ekki um ef þær klæðast bleiku. Sólveig Pétursdóttir hlýtur að hafa komist í gegn í dökku dragtinni sinni sem er svo klæðileg.
Þeir eru orðnir svo margir útlitsgallarnir sem maður þarf að burðast með, að það er skiljanlegt að fólk vilji ekki bæta meiri vandræðum á sig að nauðsynjalausu.
Nú eru liðnir nokkrir dagar, og í millitíðinni er ég búin að ráðfæra mig við mömmu, vinkonur mínar, sálfræðinginn og saumaklúbbinn um það hvað felist í örlögum Halla. Það er undarlegt, en mér finnst tónninn á þann veg, að þetta fólk sem ég treysti svo vel, hafi enga samúð með honum. Mér finnst jafnvel að eitthvað hafi gerst og að ég sé jafnvel orðin umskiptingur eins og Halli.
Mér er sagt að það sé ekkert grín að vera feitur, og þó að ég það sé ekkert víst að ég sé góð og falleg að innan þótt vöxtur minn sé svona, hvað þá að ég sé endilega gáfuð og greind fyrir dökka hárið. Hvað nú ef ég fer að trúa því? Mér er sagt að fordómar ríði röftum hvar sem er, innra með fólki sem utan, og jafnvel að heilu samfélögin taki sig saman um að viðhalda þeim. Ég vissi reyndar að feitlagið fólk á erfitt með að fá á sig föt og skó, og að það þarf að fara í sérstakar sérverslanir fyrir feitt fólk til að fá spjarir utan á sig. Ja, nema það heyri auglýst að hin og þessi búðin sé með fatnað í stórum stærðum, sérstærðum, aukastærðum eða yfirstærðum. Hvaða stærð er ég eiginlega? ... stór, sér, auka eða yfir? Mín stærð getur varla verið númer aftan í hálsmáli, því eins og blaðamaðurinn á Fókus orðaði það, er stærðin útlitsgalli, og það sem er eðlilegt og normal á ekki við um þetta fólk. Og bitte nú. Útlitsgallað fólk hljómar næstum eins og afsláttarfólk. Ég fékk afslátt á píanóinu mínu af því að það var örlítil rispa, þ.e. útlitsgalli, á lokinu á því. Útlitsgallað fólk ætti að fást með afslætti - í vinnu, í hjónabönd eða bara hvað sem er. Mig rámar í könnun sem gerð var einhvers staðar, þar sem kom einmitt fram að feitlagið fólk ætti erfiðara með að fá vinnu en annað fólk, og að því væri síður treyst til ábyrgðarstarfa. Samkvæmt opinberum viðhorfum, gæti einmitt útlitsgallanum verið um að kenna.
Í þessu umskiptingsástandi mínu núna, hef ég líka komist að því hvers vegna systir mín góða er ítrekað spurð um sitt holdafar, en ekki ég. Þarna skipta orðin horaður og feitur grundvallarmáli. Sá sem er horaður þarf bara að borða aðeins meira, ef hann vill, en sá sem er feitur er manneskja sem hefur misst tökin á lífi sínu, kann sér ekki hóf, er of góð við sjálfa sig, hefur engan aga og er bara lin og léleg. Til að bæta okkur þetta upp er klifað á klisjunni um að feita fólkið sé svo guðdómlega glatt. Orðið feitur felur í sér áfellisdóm sem samfélagið allt hefur fellt. Feitir þurfa eins og aðrir að glíma við ýmis vandamál, og er þunglyndi eitt það algengasta, þvert á klisjuna. Áreitið gegn feitu fólki er þung byrði, sem margir kyngja þegjandi og hljóðalaust. En þögnin er jafnvel enn þyngri byrði. Um leið er markvisst unnið að því að kenna unglingum að draga fólk í dilka eftir útliti og segja þeim að það sé ekki sjálfgefið að þeir verði elskaðir ef þeir eru feitir. O svei.
Eftir Bergþóru Jónsdóttur begga@mbl.is
Viðhorf, birt í Morgunblaðinu 23. janúar 2002
Viðhorf | Breytt s.d. kl. 13:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Spurt er:
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Febrúar 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- September 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Janúar 2009
- Október 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Mars 2006
Tónlistarspilari
Bloggvinir
- ulfhildur
- hallsson
- blues
- systapista
- birtab
- vitinn
- hoskuldur
- konur
- arnim
- ragnhildur
- eggmann
- kjarvald
- hrafnaspark
- torfusamtokin
- theld
- konukind
- jullibrjans
- hugsadu
- bleikaeldingin
- einherji
- jenni-1001
- annapala
- vglilja
- halla-ksi
- volcanogirl
- kristinast
- daath
- mariakr
- soley
- arnigunn
- aevark
- ragnarfreyr
- ktomm
- hlynurh
- sinfonian
- elvabjork
- raggissimo
- nonniblogg
- vitale
- malacai
- ingolfurasgeirjohannesson
- hannibalskvida
- steinibriem
- jea
- vardi
- hildurhelgas