Lending á Naxos

Af veröndinni

Ég er lent á Naxos eftir langt, langt ferðalag. Flugið var óttalega leiðinlegt, en bátsferðin frá Aþenu til Naxos var besti parturinn, þótt lengstur væri, rúmir fimm tímar. Það var ótrúleg fegurð að sigla út á Eyjahafið í glampandi sól til móts við sólarlagið og Naxos. Þvílíkur blámi! Dimitris Manolas, gestgjafi minn á Agios Giorgos tók á móti mér á hafnarbakkanum og fór með mig í smá rúnt um bæinn til að sýna mér helstu kennileiti. Hann ræður ríkjum hér, eftir að pabbi hans og mamma skiluðu gistihúsinu í hendurnar á honum.

Það kom á daginn að herbergið mitt er talsvert minna en ég hafði ímyndað mér, en mjög notalegt. Ég er á þriðju (efstu) hæð, og með besta útsýnið á staðnum, og nú, þegar ég sit hér við opinn gluggann, heyri ég gjálfrið í öldunum á ströndinni, um það bil 10 metra frá húsveggnum. Ég er fyrsti gestur vorsins, hótelið er opnað fyrsta apríl ár hvert og er starfrækt út október. Það er saggalykt í herberginu mínu, en hún verður farin eftir morgundaginn, því ég ætla að byrja á því á morgun að fá mér reykelsi til að gera góða lykt. Þótt húsið sé eldgamalt, er allt hér hvítskúrað og skrúbbað, og greinilega vel hugsað um staðinn. Besti parturinn af herberginu er veröndin, sem er mun stærri en herbergið sjálft, með borði, stólum, sólhlíf, og aragrúa af fallegum blómum sem pabbi hans Dimitris sér um. Meðn ég var að koma mér fyrir fór Dimitri niður, og kom upp með stóra flösku af vatni, karöflu með víninu hans pabba síns, og skál fulla af appelsínum. Yndislegt! Þegar hann sá mig á hafnarbakkanum kallaði hann Bergþóra! .....rétt eins og hann væri Íslendingur – enginn vandræði með þennan framburð – gríska og íslenska hljóma ótrúlega líkar, áherslurnar eru svipaðar, og svo fossa þorn og eð út um allt hjá þeim og errið þeirra er alíslenskt.

Þetta er Grikkland, þetta er Naxos, og eftir því sem ég heyri Grikkina tala meira, rifjast ýmislegt upp fyrir mér frá því í Ameríku, og ég skil þónokkur orð. Get alla vega boðið góða nótt og góðan dag, heilsað, þakkað fyrir mig og sagt: Ekkert að þakka. Ég byrjaði á að pakka öllu hafurtaskinu upp og koma því fyrir í litla blágræna fataskápnum, sem er alveg eins og skápurinn hennar Báru, í Benna og Báru, - og í skúffunum undir litla blágræna borðinu mínu. Ég er með vænan ísskáp, hraðsuðukönnu, öryggishólf, gervihnattasjónvarp, gott baðherbergi með sturtu, tvö blágræn náttborð og blágrænt rúm. Ég réðst líka strax á rúmið og náttborðin og færði allt til, til þess að skapa betra gólfpláss og gera enn meira kósí. Dimitri fannst það sniðugt og hljóp niður og náði í heklaða tuskumottu sem mamma hans bjó til. Allir veggir eru skjannahvítir, en loftið er viðarloft úr brúnum viði með þverbitum, eins og vera ber í svona húsi. Á náttborðunum tveimur og litla sæta skrifborðinu eru glerplötur, og undir þeim skjannahvítir heklaðir dúkar. Þetta er mjög grískt, auðvitað, - eins og ég vonaðist til. Ég finn að hér á mér eftir að líða mjög vel. Þegar Úlfhildur kemur ætlar Dimitri að setja mig í stærra herbergi með tveimur rúmum, svo við mæðgur höfum aðeins rýmra um okkur. Móttökurnar hérna eru mjög hlýjar og viðkunnanlegar, og Dimitri er kátur og hlýr og það kjaftar á honum hver tuska.

Glugginn minn vísar út á veröndina og hafið, og ég hlakka til að vakna í fyrramálið og opna út á verönd og teyga að mér gríska eyjaloftið.

Beggaki


Hér á ég heima

Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Elsku Begga hvað ég er glöð að heyra frá þér. Auðvitað endurraðar þú húsgögnum þarna eins og heima hjá þér.
Fylgist með.
Edda

ek (IP-tala skráð) 10.4.2006 kl. 17:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband