Næturkuldi og vorverk

Kústur hvílir sig

En sá kuldi – ég var víst búin að gleyma því að hér er fólk ekkert að hafa fyrir því að kynda á næturnar; - þetta bara hefur sinn gang. Vaknaði margoft ísköld og skjálfandi fyrstu nóttina, en um leið og fyrstu sólargeislarnir smugu inn um gluggahlerana sofnaði ég vært og svaf framundir hádegi. Ekkert lífsmark í húsinu, og ég dreif mig út í göngutúr. Hér er ekki erfitt að villast, húsasundin örmjó og göturnar hver annarri lík með litlum hvítum húsum með bláum dyrum og gluggapóstum. Rambaði samt fljótlega upp á aðaltorgið í bænum og settist þar niður við gosbrunninn sem enn er ekki farinn að láta til sín taka. Ótrúleg mannmergð á svo litlu torgi. Torgið sjálft er nú varla meira en eitt stórt tré og þessi andvana gosbrunnur, gatan í kring er mjó, og þar þjóta litlir bílar og vespur eins og um eins og þeir haldi að þetta sé stórborg, en það er nú öðru nær.

Hér er eitthvað stórkostlegt í gangi sem útskýrir erilinn. Það er alls staðar verið að taka til, mála, skrúbba, þrífa, dytta að, spúla og bera inn varning. Það er ekki bara hótelið hans Dimitris sem er að opna eftir vetrardvala, heldur bærinn allur, og sennilega eyjan öll. Þetta útskýrir líka það að ég taldi um þrjátíu vörutrukka inn í ferjuna á höfninni í Aþenu. Það er verið að tappa á eyna, búa hana undir sumarið og vertíðina sem því fylgir. Konur eru alls staðar í óða önn að sópa og setja niður blóm og lauka og koma fyrir á svölum og í öllum mögulegum skotum meðan karlarnir eru að drösla varningi inn í búðirnar og veitingahúsin, sem raða sér eins og maurar í herfylkingu þétt í kringum torgið. Hér er líf að fæðast og ég sit hér eins og vitni að fæðingunni. Það rifjast upp fyrir mér að Grikkir eru háværir, og hljóma eins og þeir séu stöðugt að þrasa, þegar þeir eru bara að tala saman. Mannamál er líka aðaltónlistin á þessu torgi, hróp og köll, en gegnum hávaðann fossar óbeisluð gleði og tilhlökkun. Það er eins hjá mér. Ég bíð spennt að sjá hvað úr þessum fæðingarhríðum verður.

Beggaki


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband