Þriðjudagur, 11. apríl 2006
Vinkonan á Platia
Það er búið að opna veitingahúsið Platia við aðaltorgið í Naxosbæ. Það sker sig frá öðrum fyrir það að þar eru borð og stólar í grænum lit, en ekki þeim bláa og grænbláa sem er svo víða. Nú er komið að því að smakka gríska matinn ég hef ákveðnar væntingar ef hann er ekki verri en grískur matur í Ameríku, þá er hann góður. Þarna sitja nokkrir karlar tveir þeirra að spila kotru í makindum undir hávaðanum frá torginu, en á móti mér á veröndinni situr falleg gömul kona í kjól, og goltreyju, á inniskóm og með svarta skuplu.
Morgunverður samanstendur af grísku kaffi, appelsínusafa, grísku brauði með hunangi, og jógúrti með ferskum ávöxtum. Mér líst vel á þetta. Elskulegur þjónninn tekur niður pöntunina en þá upphefst eitthvert vesen. Gamla konan er ræst á fætur og þjónninn spyr mig hvers konar ávextir mér þyki bestir. "Allir ávextir eru góðir," segi ég brosandi. Hann víkur sér að ömmu, réttir hennir litla buddu, bendir á mig, kyssir hana á kinnina, og fyrr en varir fer hún að hlæja feimnislega, lítur á mig og stekkur svo af stað, jafn léttfætt og Fía frænka. Fyrr en varir kemur hún til baka með poka fullan af ávöxtum og sýnir mér oní hann með spurn í augum. Þetta var þá málið það þurfti að senda ömmu út í búð eftir ávöxtunum í jógúrtið og appelsínum í safann minn, og nú stendur hún hróðug andspænis mér þessi aldna Afródíta og hlær þegar ég kinka kolli og segi "efcharistó" - takk. Við erum orðnar vinkonur.
Morgunverðurinn var hrein dásemd, og safinn eins og að fá appelsínu í æð þetta er ljúft; - ekki síst fyrir tilverknað ömmu, sem horfði með sínu feimnislega brosi á mig allan tíman, - svona rétt til að fylgjast með því hvort mér líkaði trakteringarnar hjá niðjum hennar í eldhúsinu.
Hingað á ég eftir að koma oft.
Beggaki
Meginflokkur: Ferðalög | Aukaflokkur: Bloggar | Breytt 14.4.2006 kl. 15:30 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.