Aróma

Hér gengur sauðféð sjálfala eins og heima

Hér á Naxos vefst það varla fyrir neinum hver merking orðins "aroma" er.  Þótt ég hafi þvælst á ýmsa staði, þá hef ég hvergi fundið jafn mikinn ilm og ilmkeim af mat.  Það er augljóst að hér er ég á stórkostlegu hættusvæði hvað þetta varðar.  Ég er ekki búin að smakka neitt sem er ekki ofboðslega gott.    Ég stefni að því að Naxoskartöflurnar fái sérblogg við tækifæri, - þær eru engum öðrum kartöflum líkar sem ég hef smakkað, - og finnst mér þær þó venjulega ansi góðar.  Hér hafa semsagt orðið til ný viðmið í bragðmati á kartöflum.  Gríska jógúrtið ilmar líka ómótstæðilega, og sama er að segja um ostinn. 

Svo er það lambakjötið. Drottinn minn dýri - við höldum alltaf að allt sé best og æðislegast heima, - en þetta lambakjöt er sko ekki síður gott.  Það sem hér er snætt er líka útigangslamb eins og heima, - eina sem munar er að búféð hér er að borða annars konar gróður.  Það kryddar sig sjálft - kryddjurtirnar aðeins öðruvísi.  Það kom mér reyndar á óvart hvað Naxoslömbin eru lík þeim íslensku.  Sama háralag, - ekki þetta spjátrungslega hrokkna evrópska krullerí, - heldur svona tætingslegt rastafari-lúkk eins og á fallega íslenska sauðfénu.  Þær hafa reyndar aðeins mjóslegnari andlitsdrætti hér.

Hunangið hérna er hreint undur, og brauðið hefur ómótstæðilegan kornilm.  Ávextirnir eru óvenju bragðmiklir - ég tala nú ekki um appelsínurnar, sem eru algjört gúmmelaði.  Ein matmóðir mín hér býr til óhemjugott gums sem hún smyr á nýbakað brauð; - það er eitthvert jukk, gert úr fersku oregano, vorlauk og hvítlauk.  Þvílíkt hnossgæti - og ilmurinn af jukkinu er magnaður. 

Og kaffið - ohh, - hér eru drukknar allar heimsins tegundir af góðu kaffi.  Gríska kaffið er himneskt í úfið morgunsárið, - en þess á milli má fá sér macciato eða latte eða bara venjulegan uppáhelling.  Meira að segja hann bragðast vel hér.

Naxosbúar eru stoltir af matnum sem þeir framleiða sjálfir.  Hér eru margar búðir sem selja ekkert annað en landbúnaðarframleiðslu eyjarinnar.  Þar eru vín, ólífuolía, ávextir, kartöflurnar góðu og ómótstæðilegir ostar... margt fleira líka.  Það er ekkert General Mills drasl að þvælast fyrir í hillunum í þessum búðum, og þær eru alltaf fullar af fólki.

 Beggaki 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mig langar alveg rosalega í brauðið með gumsinu og kaffið með...mmmmmmmm...hljómar ótrúlega vel. Annars er búið að bjóða okkur til Sigurðar Helgasonar á páskunum og við þyggjum það auðvitað enda hangikjöt á borðum. Ragnar hennar Tinnu kemur með, en hann er hér í smá vinnuviku. En heyrðu, ekki tala illa um General Mills : ( hvar væri mannkynið án Cheerios??? Í

Íma (IP-tala skráð) 14.4.2006 kl. 22:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband