Leita í fréttum mbl.is

Hvar eru Maha og Renda?


Á vegferðinni gegnum lífið eignast maður vini. Suma þessara vina á maður lengi, jafnvel allan sinn aldur, aðra skemur. Maður kynnist fólki sem verður manni samferða um hríð, en svo breytast aðstæður, leiðir skilur, eða eitthvað annað verður þess valdandi að maður missir af fólki sem þó er manni kært. Fyrir um tuttugu árum var ég í námi í Bandaríkjunum, og eins og gengur og gerist í stóru háskólasamfélagi kynntist maður fólki af ýmsu þjóðerni. Maha Abu-Ayyash og Renda Abu-Rayan voru náfrænkur og vinkonur á mínum aldri, og bjuggu á sama stað og ég. Þær voru frá Ramallah í Palestínu. Þetta voru ósköp venjulegar ungar konur, fullar af metnaði um nám sitt, voru báðar að læra verkfræði og hugðust með því verða reiðubúnar að leggja þjóð sinni lið með kunnáttu sinni, enda varla vanþörf á verkfræðingum í stríðshrjáðu landi. Maha var stór og sterk, ör í lund og talaði mikið um ástandið heima og þær vonir og þrár sem hún batt við það að einhvern tíma í hennar tíð kæmist á friður heima. Renda var ljóðræn og dreymin, og ekki laust við að hún væri örvæntingarfyllri en frænkan um að einhvern tíma rættist úr. Móðir hennar bjó enn í Ramallah, en faðir hennar og tveir bræður voru landflótta í Kanada. Hana dreymdi fyrst og fremst um það að fjölskyldan gæti sameinast, hvar sem það yrði. En feðgarnir áttu ekki afturkvæmt heim, og móðirin óttaðist, að ef hún færi burt, fengi hún ekki að komast heim aftur. Það var sérstakt fyrir Íslending að heyra þessar ungu konur tala um líf sitt í skugga ofbeldis og átaka, vona og vonleysis. Sennilega hefur þetta haft meiri áhrif á mig en mig grunaði þá. Þær áttu skyldmenni í flóttamannabúðum í Líbanon, og einnig í Jórdaníu, og nokkrir venslamenn voru sestir að vestanhafs meðan beðið var eftir því að hægt yrði að snúa heim. Það var markmið allra. Það er eins og mig minni að sjaldan hafi verið talað um Palestínu áður en ég kynntist Möhu og Rendu. Mér finnst eins og það hafi einungis verið talað um Vesturbakkann og herteknu svæðin. Var það tabú þá að nefna Palestínu á nafn? Ég geri mér ekki grein fyrir því hvort þetta hafi verið þannig í raunveruleikanum; í það minnsta fannst mér það nýtt að heyra talað um Palestínu sem land þegar ég kynntist þessum vinkonum mínum. Við Renda og Maha sátum löngum stundum ásamt vinum okkar af ýmsu þjóðerni á kaffihúsum og krám og ræddum leiðirnar til bjargar þessum viðsjála heimi okkar. Sumir þóttust hafa lausnir á reiðum höndum - ekki þær. Þetta var árið 1982. Það var mikill sorgardagur fyrir Möhu og Rendu þegar Elie Hobeika, stríðsherra öfgasinnaðra kristinna manna í Líbanon, og menn hans drápu allt að 1.500 manns í Sabra- og Shattila-flóttamannabúðum Palestínumanna í Líbanon. Þar áttu þær skyldmenni. Hobeika framdi voðaverkin í skjóli og með fulltingi þáverandi varnarmálaráðherra Ísraels. Hann heitir Ariel Sharon og er nú orðinn forsætisráðherra þjóðar sinnar. Blóðbaðið í Sabra og Shattila stendur mér enn í dag ljóslifandi fyrir hugskotssjónum vegna tengsla við þessar vinkonur mínar. Tuttugu ár eru liðin, og enn horfir illa um frið. Höfðað hefur verið mál í Belgíu gegn Sharon fyrir drápin í Sabra og Shattila og hann ásakaður um stríðsglæpi. Fyrir um mánuði var Elie Hobeika sprengdur í tætlur í Líbanon. Palestínumenn hafa sakað Ísraelsmenn um morðið; Hobeika hafi verið drepinn til að koma í veg fyrir að hann vitnaði gegn Sharon um morðin í flóttamannabúðunum. Hver veit hvað til er í því.

Árin líða, og langt síðan ég týndi vinkonum mínum út í heiminn. Það líður þó varla sá dagur að mér verði ekki hugsað um það hvað þær Maha Abu-Ayyash og Renda Abu-Rayyan hafast að núna. Ég hef ítrekað reynt að hafa uppi á þeim, en án árangurs. Ég heyri af voðaverkum Palestínumanna í Ísrael og voðaverkum Ísraelsmanna í Palestínu og hugsa stöðugt um það hvert þeirra hlutskipti sé í þessum hörmungum.

Í sjónvarpinu sé ég hús sem búið er að jafna við jörðu og konu sem fórnar höndum í rústunum og kallar á heiminn sér til bjargar. Er þetta Maha? Er hún orðin svona núna? Ég les um konu sem gekk með sprengju innanklæða og tortímdi sjálfri sér og öðru blásaklausu fólki í þessari vonlausu baráttu. Var þetta Renda? Myndi hún geta gripið til slíkra voðaverka? Ég heyri af konu í barnsnauð sem situr undir kúlnahríð í bíl sínum meðan maður hennar er drepinn og tengdafaðir særður til ólífis. Var þetta kannski Maha? ...eða Renda?

Dag frá degi vaxa áhyggjur mínar af mínum gömlu skólasystrum sem ég svo ólánlega missti samband við. Það er kannski ekki að undra eins og ástandið er. Ég spyr mig hvort mér væri sama um þetta ástand ef ég þekkti ekki fólk af holdi og blóði sem hrærist í því. Varla; en sennilega tek ég það nær mér en ella væri fyrir þessa gömlu vináttu. En nú finnst mér komið nóg. Palestínumenn kalla nánast daglega á alþjóðasamfélagið og sárbæna það um aðstoð við að koma á friði. Ekkert gerist. Enn einn sendiboðinn frá Bush er sendur á svæðið, og Sharon lýsir yfir vilja til að ræða frið. Krafan um að Arafat aðhafist eitthvað hljómar ótrúlega ótrúverðug á meðan honum er haldið föngnum á afmörkuðum skika í Ramallah, sem í dag er að verða að rústum einum. Og enn sit ég hér og spyr, hvar eru Maha og Renda?

Eftir Bergþóru Jónsdóttur

Viðhorf, birt í Morgunblaðinu 13. mars, 2002.


mbl.is Lýsa stuðningi við Magnús Þór
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Auðun Gíslason

Frábær pistill!  Takk fyrir!

Auðun Gíslason, 24.5.2008 kl. 15:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Bergþóra Jónsdóttir
Bergþóra Jónsdóttir

Spurt er:

Á að aðskilja ríki og kirkju?
Er flokkakerfið úrelt?

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband