Leita í fréttum mbl.is

JÁ! í litlum kössum

"Þá kemur atriðið þegar brúðurin sker sér af brúðartertunni og brúðguminn hjálpar til með því að styðja hönd sinni mjúklega yfir hönd hennar meðan hnífsblaðið afmeyjar gúmmelaðið."

ÞAÐ gladdi mig ósegjanlega í gær að prestur skyldi sjá sig knúinn til að stinga niður penna til að gagnrýna Hollývúdstílinn í íslenskum brúðkaupum nú til dags. Ég skal alveg viðurkenna að það kemur fyrir að ég horfi á Brúðkaupsþáttinn Já á Skjá einum (ég myndi aldrei viðurkenna það fyrir skoðanakönnuðum Gallup), - það getur jú verið bráðskemmtilegt að sjá ungt fólk og velta því fyrir sér í hverju það er að pæla með líf sitt. Prestinum þótti undarlegt hvað brúðhjón þáttanna eru ung, í ljósi þess hve margir eru að draga það að drattast upp að altarinu langt fram eftir aldri, - og sumir láta jafnvel aldrei af því verða og gangast með gleði myrkraöflunum á hönd og kjósa að lifa lífi sínu í lukkulegri synd. En það er ásýnd brúðkaupsins í fyrrnefndum sjónvarpsþætti sem hefur vakið undrun mína eins og prestsins. Ég játa að spenningur minn eftir næsta þætti snýst oftar en ekki um það hvort nú komi ekki eitthvað öðru vísi; - öðru vísi fólk, - öðru vísi undirbúningur, - öðru vísi siðvenjur, - öðru vísi veisla. Það bólar ekkert á því ennþá, fyrir utan eitt brúðkaup að heiðnum sið, sem var eina tilbrigðið við þetta annars eintóna stef. Það sem mér þykir merkilegast að sjá, er það hvað margir geta gengið í hjónaband á nákvæmlega sama hátt. Undirbúningnum er líkt háttað; - gestalistinn, - boðskortin með mynd af hjónaleysunum á að giska fimm ára; - svo þarf að skoða í búðir; - og athuga hvar maður ætlar að hafa brúðargjafalista og velja tilvonandi brúðargjafir. Núnú, þau velja sér kjóla og föt úr brúðkaupsfataleigunum, - fara síðan í andlitssnyrtingu, hand- og fótsnyrtingu; - nudd bætist við ef hugmyndaauðgin er veruleg og jafnvel brúðkaupstertusmakk. "Gæsun" og "steggjun" eru auðvitað bráðnauðsynlegir liðir í undirbúningnum, og einnig hárgreiðslan og klippingin og svo þarf að velja sjetteringarnar í brúðarvöndinn. Þá kemur að salnum sem er skreyttur með blómum. Svo er það athöfnin sjálf; - pabbi skilar stelpunni sinni inn kirkjugólfið og til næsta karlmannsins í lífi hennar; brúðarmeyjar og -sveinar, hringapúðarnir og púðaberarnir, - slörið, kossinn, hrísgrjónin, limman og ekki má gleyma sokkabandinu! Og svo er það veislan; - fyrst af öllu eru það útskornu glösin fyrir brúðarskálina sem pabbi og mamma hafa gefið brúðhjónunum ungu, - en þessara glasa er þörf fyrir þá athöfn þegar brúðhjónin skála í kross! Þá kemur atriðið þegar brúðurin sker sér af brúðartertunni og brúðguminn hjálpar til með því að styðja hönd sinni mjúklega yfir hönd hennar meðan hnífsblaðið afmeyjar gúmmelaðið. Annað hvort eru þessar kökur svona ólseigar eða stúlkurnar svo uppgefnar eftir undirbúninginn að þær ráða ekki við þetta án hjálpar "sterkara" kynsins. Brúðarvals er nauðsynlegur, - jafnvel þótt brúðhjónin hafi hvorki takt né tilfinningu fyrir þessari samhæfðu hreyfingu, - og svo eru það leikirnir. Er einhver eftir sem giftir sig án þess að fara í Barbí og Ken leikinn? ...eða gera lyklabrandarann? Svo er blómvendinum kastað og loks sokkabandinu.

Maður spyr sig hvað þetta allt saman eigi að fyrirstilla. Eru það virkilega dætur rauðsokkakynslóðarinnar sem vilja gifta sig á þennan hátt? Undirlægjuháttur þeirrar kvenþjóðar sem tekur þátt í þessu virðist algjör. Þannig brúðkaup er sjónarspil, þar sem gert er út á hégóma sem á ekkert skylt við þá ást og tryggð sem parið er að heita hvort öðru; - það er aukaatriði. Veglegt! ...er lykilorð, - ekkert má til spara til að dagurinn verði eftirminnilegur.

Mér hefur stundum dottið í hug að samband sé á milli þess að allir vilja gera eins og þess að við erum jú, ennþá að minnsta kosti, sauðfjárræktarþjóð. Hjarðareðlið leynir sér í það minnsta ekki í téðum brúðkaupsþætti. Forystusauðurinn er búinn að hanna herlegheitin og hjörðin hermir eftir. Það er einkennilegt hvað þetta er ríkt í íslensku þjóðinni, - þótt hún rembist við að telja sjálfri sér trú um að hún sé svo afskaplega sjálfstæð. Hún trúir því að hér sé einstaklingurin stærð númer eitt og að hver og einn hafi sín sérkenni, sitt lundarfar, sína sérvisku; - og leyfi sér að bera sjálfan sig á torg eins og hann er klæddur. En það er öðru nær.

Ég tók eftir því að presturinn sem vitnað var í hér í upphafi talaði um Hollývúdstíl, en ekki amerískan stíl. Ég held að þar hafi hann átt kollgátuna, því hinn almenni Bandaríkjamaður er langt frá því að vera fastur í hugarfari hjarðarinnar. Hollývúdstíllinn er hins vegar eftiröpun af evrópskri aðalstísku, það er nú einmitt eitthvað sem Íslendingar geta orðið ginnkeyptir fyrir.

Hvers vegna dettur engum í hug að gera brúðkaupsdaginn eftirminnilegan með því að hafa hann persónulegan og einstakan á þann hátt sem fólk ræður við, - bæði andlega og fjárhagslega. Ég vona heitt og innilega að Brúðkaupsþátturinn Já sé að sýna okkur fáar undantekningar, en ekki hið almenna mynstur í hjónavígslum ungs fólks í dag. Ég vil trúa því að Íslendingar eigi þrátt fyrir allt þann snefil af sjálfstæði sem þeir þrá svo heitt, að þeir geti fundið gleðina í því að gera tímamót í lífi sínu að persónulegum viðburði á skapandi og raunverulega eftirminnilegn hátt.

En ég komst að því í Ráðleggingahorninu um daginn, að grjónum skal ekki kastað á brúðhjónin, heldur upp í loft svo þeim rigni yfir þau. Ekki vill maður eiga það á hættu að blinda brúðina eftir allan þann undirbúning sem hún hefur þurft að ganga í gegnum.

Eftir Bergþóru Jónsdóttur begga@mbl.is

Viðhorf, birt í Morgunblaðinu 31. júlí 2002


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Bergþóra Jónsdóttir
Bergþóra Jónsdóttir

Spurt er:

Á að aðskilja ríki og kirkju?
Er flokkakerfið úrelt?

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband