Leita í fréttum mbl.is

Silvía Sökksess

Munurinn á framtíðarhópi Viðskiptaráðs og Silvíu Nótt er sá, að meðan hún er satt leikrit er hann lygilegur raunveruleiki - og það er grundvallaratriði.


Ha - getur verið að Silvía Nótt fari í taugarnar á ykkur? Það eina sem ég fíla ekki við Silvíu Nótt eru þeir sem fíla hana ekki. Silvía Nótt er ógeðslega fræg, rosalega talenteruð, og innst í hjartarótum er ég ofboðslega hamingjusöm yfir því að hún skuli hafa fæðst, OG vera Íslendingur: Silvía Nótt á eftir að bösta Eurovision, svo ógeðslega flott með Homma og Nammi upp á arminn; - hún ER Eurovision, hún er við, hún er hugsun okkar, hún er talsmáti okkar, hún er lífsviðhorf okkar, hún er kjarni þess að vera Íslendingur, hún er slöttið og fjallkonan - og hún mun sigra!

Annars get ég sagt ykkur í trúnaði að það er eitt sem ég hef mikla minnimáttarkennd yfir gagnvart Silvíu Nótt. Meðan ég engist um í vel innrættu samviskubiti yfir því hvað ég er farin að slangra og sletta ógeðslega mikið - á ensku, og tala almennt asnalega þegar ég er ekki sérstaklega að vanda mig - þá stendur hún keik, hrein og bein og fullkomlega einlæg, talar eins og henni sýnist og brúkar þann munn sem henni er gefinn. Hún er búin að sjá ljósið! Og þið hneykslist? Óþarfi, - segi ég, því senn líður að því að vel innrættum samviskuþrautum mínum linni, og við Silvía Nótt verðum sem síamstvíburar í hispurslausum talsmáta þar sem slangur og slettur fá ekki bara að njóta sín, heldur öðlast viðurkenningu. Framtíðarhópur Viðskiptaráðs Íslands vill bæta enskukunnáttu mína - og telur brýnt að ég verði jafnvíg á bæði málin. "Hvert í logandi" - hvað? ...þegar "what the fuck" hljómar miklu betur, að ekki sé talað um hagræðinguna sem næst með sparnaði á stöfum og atkvæðum. Hingað og ekki lengra, og afsakið orðbragðið.

Snilld Silvíu Nætur felst í því hvað hún er tær mynd af íslensku þjóðinni. Hún sér í gegnum okkur; er löngu búin að átta sig á að Eurovision er vettvangurinn fyrir hana, - einmitt vegna þess að þar er veruleikinn marflatur, geldur, steindauður, - og enskur! Þar eru engar víddir, engin sérkenni, ekkert sem gæti storkað einsleitninni - nema einmitt hún. Silvía Nótt er perla sannleikans, meðan allt annað er skrum.

Framtíðarhóp Viðskiptaráðs dreymir stóra drauma um frægð og frama, eins og Silvíu Nótt; - dreymir um að íslenska þjóðin verði eins og aðrar þjóðir, - aðrar merkilegar þjóðir, þjóðirnar sem hafa eitthvað að segja, þjóðirnar sem hafa völdin. Þær tala líka ensku. En munurinn á framtíðarhópi Viðskiptaráðs og Silvíu Nótt er sá, að meðan hún er satt leikrit er hann lygilegur raunveruleiki - og það er grundvallaratriði. Þess vegna er Silvía Nótt sökksess, en framtíðarhópurinn ekki.

Hópurinn segir í skýrslu sinni að tvímælalaust eigi að færa enskukennsluna niður í yngstu bekki grunnskólans þegar börnin séu móttækilegust fyrir málörvun, og að sjálfsagt sé að árið 2015 verði ákveðnar námsgreinar í grunn- og framhaldsskólum kenndar á ensku. Og hvað er í húfi ef við gerum þetta ekki? Við gætum ekki notið okkar í alþjóðlegum viðskiptum og samskiptum!

Og bitte nú!

Satt að segja hef ég staðið í þeirri trú að Íslendingar væru þegar þjóða bestir í ensku, - fyrir utan þær sem hafa hana að móðurmáli. Svíar eru kannski betri - ég veit ekki. Hvers konar heimsyfirráð eru það eiginlega sem framtíðarhópurinn sér fyrir sér fyrir okkar hönd? Og hefur einhverjum þótt viðskiptavit Íslendinga í útlöndum naumt skorið? Er þetta ekki þjóðin sem hefur selt útlendingum fisk frá því hún man eftir öðru en mold og töðu, og staðið sig vel í því? Eru Íslendingar ekki að kaupa upp bæði Lundúnir og Kaupmannahöfn? Eigum við ekki banka og verksmiðjur í Austur-Evrópu? Það eru hversdagsfréttir að heyra af landvinningum þjóðarinnar erlendis og ekkert sem bendir til þess að henni séu neinar hömlur settar fyrir kunnáttuleysi í ensku, - þvert á móti. Okkur skortir ekkert þegar að enskunni kemur. Þar erum við seif.

En ég spyr á móti hverslags þröngsýni og hugmyndafátækt það sé hjá framtíðarhópi Viðskiptaráðs að ætla okkur bara að geta talað við enskumælandi fólk, - úr því að á annað borð er verið að sigra heiminn. Varla er það eina fólkið sem stundar "viðskipti og samskipti".

Ég ætla að leggja það til að hverjum og einum skóla í landinu verði skylt að kenna nemendum sínum eitt "framandi" tungumál. Enskukunnátta hefur ekki bjargað þjóðum heims frá stríðum og volæði, og nær að leggja sig eftir tungumálum sem hugsanlega geta bætt samskipti okkar við aðra heimshluta. Hvernig væri ef Rimaskóli yrði úrdú-skólinn, Vesturbæjarskóli yrði portúgölsku-skólinn, Fellaskóli yrði marathi-skólinn, Laugarbakkaskóli yrði quechuaskólinn, Glerárskóli yrði arabískuskólinn, Hvassaleitisskóli yrði japönskuskólinn... þá fyrst færum við að tala bissness - ekki satt? Og bara svo þið vitið það, þá tala 80 milljónir manna marathi, og væri nú virkilega gaman að heyra hvað það fólk hefði að segja af sínum högum - að ég tali nú ekki um að gera við það bissness.

Og svona í framhjáhlaupi í lokin langar mig að nefna það, að það væri líka fínt ef við héldum áfram að tala íslensku. Ég kann hana nefnilega þokkalega. Mér finnst þó ekki nóg, að "mikilvægt sé að slá hvergi af kröfunni um að "viðhalda" íslenskri tungu, eins og það var orðað í fréttinni um skýrslu framtíðarhópsins - viðhald hljómar eins og ill nauðsyn. Íslenskuna á að nota sem skapandi verkfæri orðs og æðis. Silvía Nótt skilur sannleikann í því.

Bergþóra Jónsdóttir (begga@mbl.is)

Viðhorf, birt í Morgunblaðinu 10. febrúar, 2006.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Bergþóra Jónsdóttir
Bergþóra Jónsdóttir

Spurt er:

Á að aðskilja ríki og kirkju?
Er flokkakerfið úrelt?

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband