Færsluflokkur: Bloggar
Sunnudagur, 16. apríl 2006
Ekki taka stoltið frá mér
Pálmasunnudagur er heitur á Naxos, og í fyrsta sinn sá ég slangur af fólki á ströndinni. Mest voru það útlendingar, en líka stöku gömul kona, dökkklædd með skuplu, með niðjakrílin sín í eftirdragi. Gegnum sólþyrstan letidrungann var ég búin að heyra hróp og köll á litlar Maríur og Írínur og Yannisa og Spyrosa, ærsl og læti, þegar ég heyrði kallað: "Kári, Kári!" Ósköp var það nú ógrískt, og kiðið sömuleiðis, svona skjannaljóshært. Þar var kominn Egill Helgason með snáðann sinn. Við ætlum að hittast í grískum mat annað kvöld.
Ég komst að því þegar ég kom hingað upp á torg, að vinur minn á netkaffinu, þessi af Dylankynslóðinni - sem ég veit ekki einu sinni ennþá hvað heitir, - hann er svolítið sár út í mig, - kannski móðgaður. Og hvernig tókst mér að svekkja hann? Honum fannst að ég hefði bara átt að þiggja boð um fría tölvunotkun án þess að vera með múður, og tilboð um aðstoð á móti. Ég fann að hann meinti þetta, og þetta var eitthvað að trufla hann. Hann rakti mér alla sína fiskimannssögu, og sögu netkaffisins og sagði mér allt um Akkiles, munaðarlausan bróðurson hans sem vinnur á netkaffinu, en er óttalegur gaur...
Þessi maður hefur ákveðið að lífið eigi að vera gott, og maður eigi að njóta samvista við annað fólk. Honum fannst ástæða til að gleðja mig, og fannst ég gera lítið úr hans gleði yfir því að gleðja mig, með því að bjóða eitthvað á móti. "The pride - don't take that away from me" sagði hann, og ég skil hann og skammast mín auðvitað smá. Maður er bara ekki vanur svona trakteringum. Nú erum við búin að kjafta enn meira saman og allt í góðu. Kannski ég segi sögu hans einhvern tíma hér, - hún er áhugaverð.
Það er undarlegt að sitja hér í sól og blíðu með allar þessar rakettusprengingar allt í kringum mig. Hvernig verður það um páskana? Það er verið að setja upp páskaskraut á ljósastaurana í bænum - svona eins og jólaljósin í miðbænum heima. Gulir rafungar og kerti.
Beggaki
Bloggar | Breytt 18.4.2006 kl. 16:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 15. apríl 2006
Síðasta rigningin
Það stóð í stjörnuspánni minni í morgun, að sama hversu laglaus ég væri, þá ætti ég að prófa hvernig það er að syngja hástöfum. Sleppa öllum hömlum og bara syngja; - helst úti. Það vildi svo til, að þetta var einmitt á dagskránni í dag. Í dag 15. apríl er öld liðin frá fæðingu ömmu minnar og alnöfnu, og ég vildi gera það sem ég geri þegar ég er heima, - fara í kirkjugarðinn og syngja. Ég rölti mér út í kirkjugarðinn, sem er bak við kirkjuna hér við litla torgið mitt. Þessi kirkjugarður er óvenjulegur fyrir Íslending, - hér er hver einasta gröf steypt í marmara. Þetta er eins og marmaraskógur hlaðinn blómum. Ég fann á endanum leiði konu sem hafði fæðst 1906, hún hét Eleni, og fyrir hana söng ég Allt eins og blómstrið eina. Þá kom ömmusyrpan, Máría ljáðu mér möttul þinn, Smávinir fagrir og Heyr himnasmiður. Ég lét þetta duga, og vona að þær amma og Eleni hafi það gott í himnavistinni og bið Eleni forláts á því að ég hafi ekki kunnað neitt grískt. Ég kann nú reyndar lagið um stjörnurnar, - fer kannski síðdegis og raula það ef textinn rifjast upp fyrir mér.
Í gær rigndi í fyrsta sinn eftir komu mína hingað, og vinkona mín á Scirocco fullyrti að það væri síðasta regn fyrir sumar. Undarlegt að geta fullyrt svoleiðis, - en hún var viss - um þetta leyti hættir að rigna, og byrjar ekki aftur að rigna fyrr en í október, segir hún, og ég ætla að trúa því þar til annað kemur í ljós. Það hefur verið næðingur síðustu daga, fyrir utan einn dag um daginn, þegar ég vaknaði við það að brast á með logni. Samt er hlýtt, og stundum talsvert heitt. Þetta eru góðir dagar. Ég get ekki nógsamlega prísað það hvað ég var heppin að velja mér akkúrat þennan gististað. Hótel Agios Georgios, eða St. George, er á langsamlega besta stað í bænum, - á ströndinni, þetta stutta spottakorn frá torginu, og örlítinn spöl frá höfninni. Ég finn að á hafnarsvæðinu er meira gert út á ferðamennskuna, og kaffihúsin þar eru dýrari en hér uppá torginu mínu. Hér er heimafólkið, og það gerir torgið svo sjarmerandi.
Hér á netkaffinu er líka gott að sitja, og eigandinn, sem segist ekkert kunna á tölvur, enda sé hann bara fiskimaður, er vænn og skemmtilegur. Hann segist vera heilli kynslóð eldri en ég, - af Bob Dylan kynslóðinni, fæddur '52, og ég hlæ innra með mér að því. Þótt hann sé orðinn hvíthærður, er nú ekki langt í það að ég verði það sjálf, - ef ég er ekki bara orðin það. Og ef hann bara vissi um ást mína á Dylan og Donovan og öllum þeim. Eftir nokkra daga hætti hann að rukka fullt verð fyrir tölvuafnotin, og ég fór að fá vænan afslátt. Svo kom að því að hann sagði að ég mætti sitja hér frítt, - honum fyndist ómögulegt að láta síbrosandi Íslending, sem kominn er af fiskimönnum, vera að borga sér. Mér fannst það ótækt, og á endanum gerðum við díl um að ég myndi sitja yfir ánum og passa staðinn ef hann þyrfti að skreppa frá á meðan ég væri hér og enginn annar starfsmaður tiltækur. Þetta eru ekki slæm kjör, því hingað kemur skemmtilegt fólk. Það er þannig á þessu netkaffi, að þótt hér séu tölvur í röðum og allt eins og vera ber á slíkum stað, - þá er fólk ekkert of upptekið af því að vinna á þær. Fólk kíkir hingað inn til að spjalla - og þá gleymist tölvan á meðan. Einn af fastakúnnunum hér er Panos. Hann er silfursmiður - býr til skart úr silfri og steinum. Á veturna smíðar hann hringa og skart í gríð og erg, og á sumrin opnar hann litlu búðina sína og selur ferðamönnum. Þannig er líf margra hér. Veturinn er notaður til að undirbúa sumarið. En Panos festi strax auga á hringnum mínum sem Halla Boga smíðaði, og vildi fá að skoða. Það var auðsótt. Ég sagði honum að hringurinn hefði verið smíðaður sérstaklega fyrir mig, og honum fannst hann fallegur. Hann bauð mér að koma í búðina sína, og næsta dag fór ég þangað að skoða. Eins og allir hér er hann forvitinn um Ísland og hvað rekur Íslending í að takast á hendur ferðalag til að setjast upp á eynni Naxos.
Það er auðvelt að kynnst fólki hér - samræðulistin er ennþá í hávegum höfð, og góð tilfinning að labba heim á kvöldin og fá vink og "kalinichta Begga" úr ýmsum áttum á leiðinni.
Beggaki
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Föstudagur, 14. apríl 2006
Aróma
Hér á Naxos vefst það varla fyrir neinum hver merking orðins "aroma" er. Þótt ég hafi þvælst á ýmsa staði, þá hef ég hvergi fundið jafn mikinn ilm og ilmkeim af mat. Það er augljóst að hér er ég á stórkostlegu hættusvæði hvað þetta varðar. Ég er ekki búin að smakka neitt sem er ekki ofboðslega gott. Ég stefni að því að Naxoskartöflurnar fái sérblogg við tækifæri, - þær eru engum öðrum kartöflum líkar sem ég hef smakkað, - og finnst mér þær þó venjulega ansi góðar. Hér hafa semsagt orðið til ný viðmið í bragðmati á kartöflum. Gríska jógúrtið ilmar líka ómótstæðilega, og sama er að segja um ostinn.
Svo er það lambakjötið. Drottinn minn dýri - við höldum alltaf að allt sé best og æðislegast heima, - en þetta lambakjöt er sko ekki síður gott. Það sem hér er snætt er líka útigangslamb eins og heima, - eina sem munar er að búféð hér er að borða annars konar gróður. Það kryddar sig sjálft - kryddjurtirnar aðeins öðruvísi. Það kom mér reyndar á óvart hvað Naxoslömbin eru lík þeim íslensku. Sama háralag, - ekki þetta spjátrungslega hrokkna evrópska krullerí, - heldur svona tætingslegt rastafari-lúkk eins og á fallega íslenska sauðfénu. Þær hafa reyndar aðeins mjóslegnari andlitsdrætti hér.
Hunangið hérna er hreint undur, og brauðið hefur ómótstæðilegan kornilm. Ávextirnir eru óvenju bragðmiklir - ég tala nú ekki um appelsínurnar, sem eru algjört gúmmelaði. Ein matmóðir mín hér býr til óhemjugott gums sem hún smyr á nýbakað brauð; - það er eitthvert jukk, gert úr fersku oregano, vorlauk og hvítlauk. Þvílíkt hnossgæti - og ilmurinn af jukkinu er magnaður.
Og kaffið - ohh, - hér eru drukknar allar heimsins tegundir af góðu kaffi. Gríska kaffið er himneskt í úfið morgunsárið, - en þess á milli má fá sér macciato eða latte eða bara venjulegan uppáhelling. Meira að segja hann bragðast vel hér.
Naxosbúar eru stoltir af matnum sem þeir framleiða sjálfir. Hér eru margar búðir sem selja ekkert annað en landbúnaðarframleiðslu eyjarinnar. Þar eru vín, ólífuolía, ávextir, kartöflurnar góðu og ómótstæðilegir ostar... margt fleira líka. Það er ekkert General Mills drasl að þvælast fyrir í hillunum í þessum búðum, og þær eru alltaf fullar af fólki.
Beggaki
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Föstudagur, 14. apríl 2006
Blúskveðja
Ég fékk himneska kveðju að heiman í dag. Síminn hringdi, Deitra Farr að senda mér kveðju yfir höf og lönd úr Fríkirkjunni í Reykjavík. Hún söng fyrir mig Nobody Knows... þvílík kveðja - og blúsmenn Íslands spiluðu með. Það verður greinilega mikil stemmning á tónleikunum þar í kvöld. Það er nú meiri snilldin hvað Blúshátíðin hefur gengið vel hjá Dóra, og hugurinn verður örugglega heima í kvöld þegar Deitra og hinar blúsdrottningarnar, vinkonur hennar, Grana Louise og Zora Young, og Mississippi blúsarinn sem Dóri kallar Krúttland Jackson, en heitir Fruteland Jackson syngja sálma amerískra blökkumanna. Þið eigið bara gott þarna heima, að þurfa ekki að missa af þessum tónleikum. Á föstudaginn langa á hátíðinni í fyrra sungu Andrea okkar og Deitra með blúsköllunum, og það eru með eftirminnilegustu tónleikum sem ég hef farið á.
Begga
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 14. apríl 2006
Páskaundirbúningur
Það er föstudagurinn langi, og hér gengur lífið sinn vana gang, enda koma grískir páskar ekki fyrr en eftir viku. Þó er óhætt að segja að allt sé á fullu við páskaundirbúining, wúííííííí, pling, plang, plong.... hó hó er að koma gamlárskvöld? Nei, það eru að koma páskar, grískir páskar og þeir eru engin venjuleg hátíð. Dimitri er búinn að upplýsa mig um það að um næstu helgi megi ég ekki gera neitt annað en að vera grísk og taka þátt í öllu sem hér gerist. Og það sem gerast mun, er það, að á miðnætti, laugardagskvöld fyrir páska, tjúllast allt í sprengingum og flugeldum, bombum og blístrum, og aðallega, - já, aðallega við kirkjurnar. Prestarnir, sem eru margir hér, eru sprengjukóngar, en allir sem vettlingi geta valdið sprengja líka. Eftir sprengingar byrjar svo páskadjammið, en best mun þó vera að fara í fyrra fallinu í háttinn, því á páskadagsmorgun fara allir til messu. Það ætla ég líka að gera. Strax eftir messu fara allir niður á strönd, grillin eru ræst og lömbunum, sem búið er að baða í kryddjurtum og himneskri ólífuolíu í marga daga, komið fyrir á teini, og byrjað að elda. Á meðan lambið snýst eins og tungl yfir heitri glóðinni er svo sungið, dansað og drukkið - allir saman - allir - og allir dansa, skiptast á vínsopum og bragða svo matinn hver hjá öðrum.
Ég get ekki sagt annað en að ég hlakki til páskanna í ár.
Búðirnar eru fullar af páskaglingri og líka páskaeggjum. Hér eru það bakaríin sem keppast um að vera með flottustu eggin - og þau eru öll risastór, og páskakerti eru fyrirbæri sem allir eru að skoða. Það eru bara venjuleg kerti, skreytt með einhverju glingri, en greinilega ómissandi í hátíðahöldunum.
En það er eins og heima um jólin, - mesta fúttið í undirbúningnum er hjá sprengjumönnunum, - snáðum á öllum aldri, sem geta ekki beðið með að sjá hvort flugeldarnir virka. Og þeir láta sig hafa það að skjóta þeim á loft úr húsasundum, jafnvel þótt það sé heiðríkur og sólbjartur dagur. Kettir og eðlur stökkva á flótta undan látunum, og gaurarnir fyllast kappi og sprengjumóð. Skyldi þá langa til að verða prestar?
Beggaki
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Fimmtudagur, 13. apríl 2006
Kveðið á sandi
Ég fór óvenjusnemma á fætur í morgun, og ástæðan fyrir því var sú, að ég vaknaði við það að það skall skyndilega á stafalogn, eftir vindblásna nótt og hávaða frá hafinu. Allt í einu heyrðist ekkert. Morgunninn hefst á ströndinni, - þar er púlsinn tekinn, - hvernig veðrið mun verða, - hvernig best er að búa sig út í daginn. Það var heitt í morgun, - og þetta spegilslétta haf og sandbreiðurnar til suðurs, kölluðu á langan göngutúr.
Það er sérkennilegt að vera svona einn í veröldinni, eldsnemma morguns á strönd útí buska, strönd sem á sér langa og merkilega sögu, en maður þekkir ekki. Þetta er eins og hugleiðsla. Lauflétt öldugjálfrið er nógu órytmískt til að frelsa mann frá reglufestu göngutaktsins, og maður fer að hægja á sér, ganga skrykkjótt, staldra við, flýta, skoða, stoppa og lulla sér áfram í sama frjálsa rytma og þetta umhverfi spilar fyrir mann. Ég geng út á lítið eiði og sest niður á stein, sekk mér í hugsanir um hetjur og guði, um skrattakollinn hann Þeseif sem var svo ómerkilegur að skilja Ariödnu hér eftir sofandi á kletti, eftir að hún hafði hjálpað honum að drepa Mínótárinn hræðilega á Krít. Var það þessi klettur? Var það kletturinn heima við húsið mitt? Eða var það næsti klettur? Eitt andartak hugsa ég um það hvort ég eigi að prófa að leggja mig hérna á þessum stóra steini - vita hvort ég vakna seint og um síðir við koss frá Dýonísosi eins og Ariadne.... nei, obbosí, það er að flæða yfir eiðið, og ég stekk í land - rennblotna í fæturna, en hvað gerir það til?
Ég held áfram, - langar að komast inn að næstu strönd Agios Prokopios, og kannski alla leið til Agios Anna ef ég nenni. Hugsunin beinist að ómerkilegum hlutum; - hvort skyldi vera betra að labba næst sjónum, þar sem sandurinn er blautur; í farveginum þar sem þarinn og smásteinarnir hafa orðið eftir, eða efst, þar sem sandurinn er mjúkur og gljúpur - eða jafnvel upp á melnum fyrir ofan sandinn. Prófa allar fjórar aðferðirnar. Það er mikilvægt að komast að sannleikanum um þetta atriði. Ég ætla ekki að segja hvað mér finnst, - þið verðið að komast að ykkar eigin sannleika hvað þetta varðar. Á stóru eiði sem skilur strendurnar að er fallegur gróður, runnar og smátré og breiða af villtum blómum. Labbilabb, og ég er komin til Agios Prokopios. Naxosbær er horfinn sjónum mínum. Hér er þá svona - allt önnur veröld. Hér eru nokkrir bátar og karl að mála einn þeirra. Hér er líka meiri melur, og meiri gróður. Ég velti því fyrir mér hvort ég verði bitin af sporðdreka ef ég sest í fjörugrjótið - tek sjensinn. Hér er ég í Paradís, - það er svo hljóðbært í logninu að ég heyri í blautum pensilstrokum bátsmannsins... hugurinn reikar til vina minna heima, fjölskyldunnar og stóru stelpunnar minnar, - hugsa um ástina, tónlistina, tímann og eilfíðina. Eitt augnablik verð ég eins og Amaldus gamli í turninum útá heimsenda, og næsta augnablik er ég eilífðarunglingur að upplifa hippískan draum. Hvað hef ég gert til að eiga innistæðu fyrir þessari hamingju?
Rölti rólega heim á leið, rek mín eigin spor, tek myndir af dýrðinni í kringum mig. Þrjár sænskar konur lagstar berbrjósta út í sand. Var ég ekki að tala um Paradís? Tek eftir því að eitt húsið við ströndina heitir Paradís, og þar er maður að mála. Hér eru fæðingarhríðirnar rétt að byrja, - fáir á ströndinni svo snemma vors. Ég er heppin, - þangað til verður þetta minn heimur, þar sem ég get spígsporað í mínum eigin hamingjutakti. Nú á ég heima hér.
Beggaki
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Miðvikudagur, 12. apríl 2006
Ævintýri á fjöllum
Fyrirheit mánudagsins voru að taka strætó upp í fjöll og skoða þorpið Apiranþos. Ég vaknaði eldsnemma til að ná í fyrsta strætó, dreif mig niður að höfn, þar sem strætóstoppistöð bæjarins er. Þar var fólk farið að safnast saman, aðallega gamalmenni og konur með börn, og svo örfáir ferðamenn. Við vorum varla sest inn í óhrjálegan fararskjótann, þegar maður á miðjum aldri, valdsmannslegur í fasi rekur alla út, og inn í annan vagn, eldgamla rútu.
Það var þröng á þingi, flestallir með einhvern farangur í úttroðnum plastpokum, og hávaðinn eftir því. Það talar enginn lágt í Grikklandi. En það var líka mikill hlátur, upphrópanir, hagræðingar og tilfærslur, og á endanum settist hjá mér gamall maður með eina framtönn. Ungur bílstjóri snaraði sér inn og ók af stað, en sá mynduglegi tók að rukka fyrir farið. Sá gamli við hliðina á mér var greinilega spenntur að sjá jafn skrýtinn fugl og mig, og hóf að hnykkja olnboganum í síðuna á mér, og segja eitthvað, og lítið sem ég gat gert annað en að kinka kolli og brosa. En hann lét það ekki duga. Hélt áfram að ræða og spjalla og spyrja, og í hvert skipti sem hann opnaði munninn fékk ég ýmist olnboga í síðuna eða að hann smellti læri sínu utan í mitt. Þess á milli benti hann út um gluggan, og sagði mér eitthvað greinilega mjög fallegt um staði og staðhætti á Naxos. Satt best að segja kunni ég þessari þvermóðsku og innilegu bjartsýni nokkuð vel. Hann var ekkert að setja það fyrir sig að ég skildi ekki orð, en hafði greinilega mjög gaman af því að segja mér frá. Ég gat ekki annað en glaðst yfir því - uppákoman hlýtur í það minnsta að hafa verið mjög kómísk fyrir þá sem sátu nálægt. Þegar hann fór úr vagninum, nokkrum þorpum á undan mínum áfangastað, kvaddi hann innilega og með virktum. Ég gat þó kvatt á móti: Yasú, yasú, kalimera!
Landslagið á Naxos er fallegt. Hæðir og dalir, og gróðursæld og hrjósturblettir á víxl. Síðasta þorp fyrir Apiranþos var Filoti, sem lítur út fyrir að vera mjög fallegt. Þaðan var ekið uppí móti, uppí fjöll, sem virtust ekkert sérstaklega há úr fjarlægð, en voru það svo sannarlega þegar rútan hossaðist á þröngum kræklóttum veginum - bílstjórinn sló hvergi af, en flautaði svo um munaði í hverri beygju.
Svo komum við í Apiranþos, og ég varð hissa. Þetta leit út eins og stórt bílastæði fyrir neðan háa hlíð þakta hvítum húsum, og þarna var rok. Jú, þarna var kirkja, og hlið. Ég gekk inn um hliðið, og inn eftir þröngum hlöðnum stíg, og smám saman opinberaðist þetta dásamlega þorp mér. Og rokið varð eftir á bílastæðinu - dúnalogn fyrir innan. Ég áttaði mig á því að bílastæðið við þorpshliðið, var ætlað öllum íbúum þess, því innfyrir hliðið fer ekkert vélknúið farartæki, ekki einu sinni vespa. Göturnar liðu þarna hver þvert á aðra upp og niður í tröppum og sundum, undir hús og milli húsa, allt eins og í einhverri dúkkuveröld. Ég vissi svosem ekkert hvert ég var að fara, ég var bara að rölta um, en önnur hver gata endaði á litlum húsatröppum, og þá var bara að snúa við og velja sér einhvern annan rangala. Þarna voru krakkar að leika sér og unglingsstrákar röltu um með asnana sína. Hnakktöskurnar þeirra voru stórir bláir kókflöskukassar, og þar í einhver varningur. Það er erfitt að lýsa þeim áhrifum sem þetta fallega þorp hafði á mig. Hvernig væri að búa á svona stað? Næsti húsagluggi í mesta lagi í tveggja metra fjarlægð frá þínum, og svalirnar þínar næstum kyssa svalirnar á húsinu andspænis þér. En húsin voru falleg, - og sumar svalirnar þaktar blómum. Þarna voru líka veitingahús, og þar inni - eins og alls staðar, - karlar að spila kotru og drekka ouzo eða raki.
Ég rölti mér inn á safnið sem er bæjarstoltið, en þar er varðveittur þjóðlegur vefnaður frá fyrri tíð. Það var nú aldeilis góss sem þar er varðveitt, og augljóst að þær hannyrðakonur sem þar hafa setið við, hafa ekki hangsað yfir kotru og rakidrykkju.
Klukkustundirnar þutu hjá, meðan ég var í þessari sérkennilegu skoðunarferð, og senn kominn tími á síðasta strætó í Naxosbæ. Í strætópésanum sagði að síðasti vagn færi 16.30, en valdsmannskarlinn um morguninn hafði sagt mér 16.15. Þegar ég spurði hverju þetta sætti, sagði hann að hann segði alltaf að strætó færi korteri fyrr en hann ætti að fara, til að allir væru örugglega mættir á stoppistöðina þegar vagninn kæmi. Þetta væri nú svosem í lagi ef vagninn hefði komið kl. 16.30. En hann kom ekki fyrr en 16.45 og þessar fjórar hræður sem biðu með mér orðnar svolítið spenntar. En svo kom strætó - tómur - bara við fimm ferðamennirnir. Ferðin til baka var falleg og vandræðalaus. Í Filoti var hópur af skólakrökkum tekinn um borð og kennari. Skömmu eftir að við ókum af stað þaðan, - og rétt komin út í óbreytta og hreinræktaða sveit, stöðvaði bílstjórinn bílinn, smalaði okkur útlendingunum saman og sagði bara "caput! caput! caput! another bus! caput!" Við skildum þetta sem svo að bíllinn væri bilaður og að annar vagn kæmi innan skamms að sækja okkur. En merkilegt var að bílstjórinn ók til baka með skólakrakkana en skildi okkur útlendingana eftir þarna á þjóðveginum. Við fórum auðvitað að spjalla og spekúlera; tveir stæðilegir finnskir strákar og bresk hjón, og okkur fannst þetta sérkennileg uppákoma. Ekki lét næsti strætó á sér kræla og við vorum farin að velta því fyrir okkur hvort við þyrftum að húkka far í bæinn. Kom þá ekki leigubíll brunandi og skransaði eins og bíómyndarbíll við hælana á okkur. "No bus, only taxi, bus caput!" Ekki vandræði að skilja það, - en hvernig ætlaði hann að koma okkur fyrir í litlum leigubíl. Breski karlinn bauðst til að bíða, en mér fannst eðlilegast að ég biði, þar sem ég var hvort eð er ein. En bílstjórinn hlustaði ekki á svoleiðis kurteisismúður, og byrjaði að raða í bílinn. Finnarnir tveir fyrst, aftur í, þá breski maðurinn, sem var ansi hávaxinn, ég frammí með farangur allra á hnjánum og sætið eins framarlega og hægt var, og breska frúin, lekker dama, var svo lögð til hvílu á lærum herramannanna afturí. Þetta var semsagt röggsamur bílstjóri og tók hlutverk sitt alvarlega að koma okkur heilum í bæinn aftur. Ég sá ekkert út fyrir finnskum bakpokum, en núna var bara hægt að hlæja, og við hlógum öll. Þetta var óvænt ævintýri og ég held að meir að segja bresku frúnni hafi þótt þetta mjög skemmtilegt. Bílstjórinn kom okkur á áfangastað og rukkaði bara sem nam strætófargjaldinu sem strætóbílstjóranum hafði ekki enn gefist tími til að rukka. Mér fanst 2.30 evrur ekki mikið fyrir svona ævintýri.
Beggaki
Bloggar | Breytt 14.4.2006 kl. 15:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Þriðjudagur, 11. apríl 2006
Aldrei á sunnudögum
Ég er búin að verða mér út um alla helstu reisupésa eyjarinnar, strætóbók og fleira, en það er alveg ótrúlegt að upplýsingar um ferjuferðir milli eyja fást hvergi á prenti. Það er nefninlega þannig hér að meðan sumarið er ekki alveg komið, þá er þetta svolítið losaralegt, og fer helst eftir því hvað skipstjórum og ferjumönnum líst á að gera. Einu ferjurnar sem komnar eru á fastan rúnt er ferjan til Pireus og Krítarferjan. En ég ætla ekki strax í heimsókn til Yanna, og því verður Krít að bíða. Mig langar hins vegar að kíkja á Folegandros sem mér er sagt að sé yndisleg, og Sifnos er líka á bráðaplaninu.
Ég ætlaði hins vegar að eyða þessum sunnudegi í strandgöngu, suður með eynni, og reyna að komast til Agios Anna. En nú ber svo við að hér er hávaðabrim, og enn nýtt leikhús að horfa á það frá veröndinni minni. Ég ætla því að láta strandgönguna bíða og taka daginn rólega. Strætóferð inn á eyju er heldur ekki inni í myndinni í dag, því Dimitri segir að í þorpunum inni í landi, sofi allt á sunnudögum.
Það þurfti ekki meira til en þessa setningu "sofi allt á sunnudögum" - ég er búin að vera með á heilanum síðan lagið sem Melina Mercouri söng í myndinni um Börnin í Pireus Never on Sundays. Ég held að þessi lagarofi í hausnum á mér sé geðsjúkdómur. Það má enginn segja neitt þá dettur mér í hug lag um eitthvað tengt því. En hvað um það, dagurinn fer sjálfsagt í einhver rólegtheit, og fyrsta vers verður að kanna ástandið uppá torgi, og hvernig gengur að þrífa og gera huggulegt þar. Þar er líka besta netkaffið, og eigandi þess er besti vinur Dimitris. Í gær kom hann askvaðandi meðan ég var að spjalla við Úlfhildi, sagðist vera á leið út í búð, og hvort hann gæti fær mér eitthvað. Jú, mig langaði smá í kók, og fyrr en varði kom hann færandi hendi með kókdós og rör. "On the house", sagði vinurinn, "I want you to feel at home here". Þannig er stemmningin hérna, og mér finnst ég stálheppin að hafa álpast hingað á undan öðrum ferðamönnum, - hér eru allir vinalegir og hlýir við hjarðlausan sauð frá Íslandi.
En nú ætla ég að skvera mér í sturtu og búa mig undir að kanna hvernig sunnudagur á Naxos lítur út. Best að kveikja aftur á Junior Wells, - Messin with the Kid kemur mér í góða skapið, sem svosem enginn hörgull er á hér á þessum unaðsreiti.
Beggaki
Bloggar | Breytt 14.4.2006 kl. 15:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Þriðjudagur, 11. apríl 2006
Nostalgía í 16 fermetrum
Það er skrýtin tilfinning að lifa lífi sínu allt í einu á 16 fermetrum, þegar maður er vanur 100m2 í týpísku reykvísku fjölbýlishúsi. Mér líður eins og ég sé aftur orðin unglingur í herberginu mínu í H7. Hér er svo auðvelt að búa til stemmningu, rútta til og breyta, hengja upp myndir kveikja á kertum og reykelsi og hafa það verulega notalegt, og úr því að Dimitri segir að ég megi gera hér hvað sem ég vilji, þá hika ég ekkert við að haga mínu lífi hér á Agios Giorgos eins og mér sýnist.
Í gærkvöldi hafði ég ráðgert að fara á grískt danskvöld á stað hér rétt hjá, en fyrr um daginn hafði ég rambað á hannyrðaverslun, og stóðst ekki mátið þegar ég sá himneskt úrval af steinum og perlum, leðurreimum og öllu því sem þarf til að búa til skart. Þegar ég var komin heim úr þeim leiðangri, varð föndrið svo spennandi að gríski dansinn gleymdist. Þetta varð einhvern veginn alveg eins og í gamla daga þegar ég sat kvöld eftir kvöld að teikna, vantslita, sauma, vefa eða prjóna í herberginu mínu heima hjá pabba og mömmu ég komst í djúp tengsl við gamalt sjálf. Og merkilegt ég fann mig knúna til að slökkva á Bill Wyman og Junior Wells í græjunum mínum og kveikja á útvarpinu. Það skipti engu máli þótt þar væru einhverjir vellulegir grískir Loðmundar að kyrja eitthvað sem ég skildi ekkert í, - þegar maður situr og dútlar eitthvað í höndunum, þá hlustar maður bara á útvarp, - skiptir ekki máli hvaða útvarp.
Þetta var því frábært kvöld og afraksturinn allra fallegasta hálsfesti úr grískum stein- og messingperlum. Lagðist svo í fletið mitt og las meira í Grikklandsgaldri Sigurðar A. Magnússonar og vaknaði kófsveitt við drauma um funheitan grískan dans.
Beggaki
Bloggar | Breytt 14.4.2006 kl. 15:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Þriðjudagur, 11. apríl 2006
Vinkonan á Platia
Það er búið að opna veitingahúsið Platia við aðaltorgið í Naxosbæ. Það sker sig frá öðrum fyrir það að þar eru borð og stólar í grænum lit, en ekki þeim bláa og grænbláa sem er svo víða. Nú er komið að því að smakka gríska matinn ég hef ákveðnar væntingar ef hann er ekki verri en grískur matur í Ameríku, þá er hann góður. Þarna sitja nokkrir karlar tveir þeirra að spila kotru í makindum undir hávaðanum frá torginu, en á móti mér á veröndinni situr falleg gömul kona í kjól, og goltreyju, á inniskóm og með svarta skuplu.
Morgunverður samanstendur af grísku kaffi, appelsínusafa, grísku brauði með hunangi, og jógúrti með ferskum ávöxtum. Mér líst vel á þetta. Elskulegur þjónninn tekur niður pöntunina en þá upphefst eitthvert vesen. Gamla konan er ræst á fætur og þjónninn spyr mig hvers konar ávextir mér þyki bestir. "Allir ávextir eru góðir," segi ég brosandi. Hann víkur sér að ömmu, réttir hennir litla buddu, bendir á mig, kyssir hana á kinnina, og fyrr en varir fer hún að hlæja feimnislega, lítur á mig og stekkur svo af stað, jafn léttfætt og Fía frænka. Fyrr en varir kemur hún til baka með poka fullan af ávöxtum og sýnir mér oní hann með spurn í augum. Þetta var þá málið það þurfti að senda ömmu út í búð eftir ávöxtunum í jógúrtið og appelsínum í safann minn, og nú stendur hún hróðug andspænis mér þessi aldna Afródíta og hlær þegar ég kinka kolli og segi "efcharistó" - takk. Við erum orðnar vinkonur.
Morgunverðurinn var hrein dásemd, og safinn eins og að fá appelsínu í æð þetta er ljúft; - ekki síst fyrir tilverknað ömmu, sem horfði með sínu feimnislega brosi á mig allan tíman, - svona rétt til að fylgjast með því hvort mér líkaði trakteringarnar hjá niðjum hennar í eldhúsinu.
Hingað á ég eftir að koma oft.
Beggaki
Bloggar | Breytt 14.4.2006 kl. 15:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)