Færsluflokkur: Ferðalög

Katerina

Katerina og Nikos

Hér er mynd af minni elskulegu Katerinu, kokki á Scirocco.  Það er frumburðurinn, Nikos, sem heldur utan um mömmu sína, en hann er þjónn þar með bróður sínum, Mikhalis.  Ég sagði ykkur um daginn frá Hassan, Egyptanum, sem einn allra jarðarbúa fær að kippa í pottana hennar Katerínu.  Af einhverjum ástæðum vill hún hvorki sjá sýni sína, né dótturina Aþenu í eldhúsinu - hvað þá aðra.  En nú eru komnir tveir viðbótarmenn á Scirocco, Robert og Ervis, sem þjóna til borðs með bræðrunum Vinkonan er enn í uppvaskinu og ung stelpa með henni. Robert er Serbi, sem búinn er að búa hér lengi, en Ervis er Albani sem líka hefur kosið að kortleggja framtíð sína á Naxos.  Nú er nefninlega líf farið að færast í tuskurnar á Scirocco og nánast fullt út á götu á hverju kvöldi.   En staðurinn á sínar mublur, og ein af þeim er Beggaki.  Pabbi Stratos, klappar mér alltaf jafn vingjarnlega á bakið þegar ég kem, og talar við mig á grískunni sem ég skil ekki baun í.  En það er allt í lagi.  Hann er þarna, sötrar vínið sitt og fylgist með.  Chantal, maltversk-ástralska kærastan hans Mikhalis, er líka kommóða á Scirocco, og spjallar við alla eins og allir gera.  Tim, er ljósmyndari frá Ástralíu, sem lifir í eilífu sumri, - hér á sumrin og svo í neðra þegar sumarið hefst þar.  Hér er líka eldri Breti sem situr og les og sötrar bjór alla daga, og svo hún Riit, sem er hollensk kona - búin að búa lengi á Englandi, og hjálpar til á bílaleigunni sem fylgir netkaffinu.  Svo eru það Grikkirnir í röðum fastagesta, og þeir eru margir. Einn þeirra er Kostas sem rekur barinn við hliðina á Scirocco.  Hann kemur með tóman disk, stekkur inn í eldhús til Katerínu og biður hana að gefa sér eitthvað gott.  Og það gerir hún.  Stundum fer Kosta yfir og borðar þar meðan hann sinnir sínum kúnnum, eða hann sest niður og spjallar við fólkið.

En svo er það galdurinn hennar Katerinu.  Ég borða matinn hennar nánast daglega,  og hann er góður.  Samt færist beltið óðum nær innsta gati.  Katerina er ekkert að spara við fólk - það á að borða vel og allt er vel úti látið.  Hver réttur gæti dugað tveimur þess vegna, en flestir fá sér samt tvo rétti.  Hvernig er þetta hægt?

Katerína eldar hollan og góðan mat, - en annað skiptir líka máli. Hún elskar þennan stað.  Hún elskar gestina sína, og hún elskar að matreiða fyrir þá.  Hún er ekkert sérstaklega snögg að elda, en það er líka allt í lagi - því hér er tíminn algjört aukaatriði.  Hún leggur alla sína ást og alúð jafnvel í ómerkilegustu kartöflu.  Henni liggur ekki á.  Hún er í núinu að elda mat fyrir mig.  Og það skiptir ekki heldur máli hvort það eru lambakótelettur eða hrognasalat. Allt þarf sinn tíma, - það þarf að hræra rétt, snúa rétt, krydda rétt, og raða fallega á diskinn.  Hún sinnir hverju verki í eldhúsinu sínu, eins og það sé eina verkið sem hún þarf nokkurn tíma að leysa af hendi, - eina verkið sem skiptir máli í veröldinni, og hver diskur fer frá henni fram í sal, fullur af umhyggju, natni og ást, sem verður að hreinu hnossgæti á vörum manns.   Mér finnst þetta hrein list, - ekki endilega listin að matbúa, heldur listin að lifa augnablikið til fullnustu.  Þegar sljákkar í gestaflaumnum, tekur hún af sér svuntuna og kemur fram, sest niður og spjallar.  When daughter come?  How old? Like you?  Islandia cold now?  Og svo hnussar í henni yfir  Aþenu dóttur hennar sem er stungin af til  Aþenu að eyða peningum og slæpast.  Svo talar hún við Stratos, setur honum fyrir fleiri verkefni - fylla á sykurinn, vökva blómin, og þau brosa bæði og hann fer að kanna hvort vínið hans góða sé ekki örugglega í lagi. Synirnir sprella í kringum þau og gestina sína og fyrsta boðorðið er gleði.   

Það eru samfelldar ánægjustundir að sitja á Scirocco.  Við mótið er hlýtt, og þar snæðir maður hamingjuna inn að beini í réttunum hennar Katerinu.

Beggaki


Sveitasæla

Moutsuna

Síðustu dagar hafa farið í að skoða Naxos í krók og kring, burra milli þorpa, skoða strendurnar, fara upp í fjöll, finna leynivíkur, sötra heimatilbúið vín á litlum fallegum þorpskrám...  Lífið er gott á Naxos.  Þessi yndislega eyja hefur þann kost, að þótt ferðamennska sé nokkur í kringum Naxosbæ, og strendurnar þar í kring, - þá eru sveitin og aðrir staðir eyjarinnr svo blessunarlega lausir við fólk eins og mig. 

Fjöllin hér er nokkuð myndarleg, það hæsta rúmir þúsund metrar, og heitir auðvitað Seifsfjall.  Fjalllendið gengur eftir eynni endilangri frá suðri til norðurs.  Þorpin uppi í fjöllunum eru mörg ofboðslega sjarmerandi, eins og Apíranþos, sem ég hef sagt ykkur frá. Við austurströndina á ég uppáhaldsþorp, sem ég er búin að koma í tvisvar síðustu daga.  Það heitir Moutsouna, og þar er yndisleg taverna á torgi við pínulítinn bryggjusporð.  Fyrir utan lulla nokkrar jullur, og einn stærri bátur.  Ein af jullunum er leigubíll staðarins.  Í stærri bátnum standa nokkrir menn og eru að dedúa við netin sín og spjalla og hafa það gott.  Á þessu litla torgi er veitingastaður þorpsins - ef þessi staður nær þá þeirri stærð að geta kallast þorp.  Þetta eru örfá hús.  Þarna er ekkert um að vera, - gömul svartklædd kona með skuplu situr við húsvegginn, og maðurinn sem sér um myndarlegt útigrillið atast í selpunni sem þjónar til borðs og eldar.  Þarna eru nánast engir gestir nema ég og ferðafélagi minn, og tíminn,  sekúndur, mínútur, klukkustundir eru ekki til á þessum stað.   Hér er eilífðin í augnablikinu. 

Hvað eru til margar sétteringar af bláu?  Ég gæti hæglega eytt dögum mínum hér í það að reyna að komast að því, en það er nóg fyrir mig að vita að þær eru margar, og hver annarri fallegri.  Hafið er komið í sálina á mér, líka himinbláminn, og muskubláminn á eyjunum í fjarlægð.  Sólsetrið er fjólublátt og sólin er knallrauð þegar hún kyssir eyjarnar í fjarlægð kveðjukossinn, áður en hún dembir sér í djúpin.

Karl í sveitinni vildi endilega kenna okkur nöfnin á litunum á blómunum sínum.  Það voru gerberur og hortensíur, bleikar, rauðar og hvítar.  Ég man ekki grískuna stundinni lengur, en eftir stendur myndin af rosknum manni að duddast í garðinum sínum við ilmandi gróðurinn og aldraðri mömmu hans, - svartklæddri, tinandi gyðju með bros í augunum.  Villigróðurinn á engjum og við vegina er líka fallegur, gul þykkni af grískri írisafræknu, rauður valmúi, gulir sólfíflar og hvít blóm sem ég þekki ekki.  Æ hvað var nú orðið yfir hvítt?

Hátt uppi í fjöllum rekumst við á tvo báta - hvernig komust þeir þangað - og hvers vegna eru þeir þar?  Landróðrabátar, segi ég og þykist vera fyndin.  Margt furðulegt hér.  Það er hálfur annar handleggur að bera skip upp í fjöll, en það er þó ekkert á móti hleðslunum sem teygja sig frá dýpstu dalverpum upp á fjallstinda.  Til hvers þurfti allar þessar girðingar?  Þetta er út um allt - hleðsla eftir hleðslu, - bæði garðar, en líka hleðslur undir stallana í hlíðunum þar sem Naxosgullið, ólífur, vínber og sítrónur vaxa.  Kílómetrar af hleðslum.  

Vegirnir eru mjóir og kræklóttir.  Tvö svín halda til í þessari beygju, en lulla sér útaf veginum þegar bílar nálgast.  Gamlir menn teyma asnana sína sem bera mjólkurbrúsa - eða kannski vínbrúsa, gamlar konur arka milli þorpa - hér eru allir á faraldsfæti og engan munar um að ganga eftir þjóðveginum milli staða.  Jú, ein þeirra, -  í brúnni kápu, húkkar far með okkur til Apíranþos - sjálfsagt.  Síðdegis koma svo geitasmalarnir í vegarkantinn, sólþurrkaðir aldurhnignir höfðingjar sem ramba með prikið sitt á eftir geitunum.  Geiturnar eru tónsmiðir sveitarinnar þar sem þær trítla milli þúfnanna með bjöllur um hálsinn.  Er eitthvað betra en að vakna við þessa tónlist, og værðarlegt jarmið; - hafið niðar bakraddir með mjúku öldugjálfri. Grískur ostur, ólífur og hunang í morgunverð. Sveitin er sæla.

Ég er hætt að telja kirkjur, - þær eru hreinlega of margar á þessari litlu eyju.  Meir en 500.  Gömlu konurnar signa sig í bak og fyrir í hvert sinn sem kirkju ber fyrir augu þeirra - það er ærið verk.

Ég er líka hætt að undrast allan þennan marmara.  Hann er út um allt.  Við finnum staðinn þar sem kúros kúrir í marmaralaut, - voldug stytta af Díonýsosi, sem af einhverjum ástæðum var hætt við að smíða fyrir nokkur þúsund árum.  Þarna liggur hann enn, teinréttur, á bakinu, og fer varla á neitt flakk úr þessu.  Þetta er enginn ferðamannastaður, - engar merkingar, - ómerkileg píla og eitthvað krabb á skilti.  Þessi árþúsunda gamla höggmynd gerir mann pínkulítinn og enn tikkar eilífðin í augnablikinu.

Beggaki


Fleiri myndir

Harmur og gleði Ariödnu á Naxos

Það var meiriháttar kúvending þegar Richard Strauss samdi óperur sínar Rósariddarann og Ariadne á Naxos. Hann var þekktur að ögrandi og ómstríðum síðrómantískum stíl; franski kollegi hans, Saint-Saens hafði lýst því yfir að stíll hans leiddi tónlistina til glötunar og fleiri sögðu að hann myndi leiða sönglistina til glötunar með því að keyra mannsröddina á ystu brún þess mögulega. Hann var arftaki Wagners, tónmálið sterkt og dýnamískt, hljómsveitin stór og söngverk hans kröfðust kraftmikilla og voldugra söngradda. Þegar ein af fyrri óperum hans, Salóme, byggð á sögu Oscar Wilde, var frumsýnd í Metropolitanóperunni í New York 1906, voru viðbrögðin hörð og hætt við frekari sýningar verksins. Óperan þótti of nútímaleg og of erótísk fyrir amerískan smekk, og prímadonnan sem átti að dansa hinn fræga, munúðarfulla Sjöslæðudans, var hundfúl, og sagðist ekki taka þátt í slíku, - það misbyði siðferðiskennd hennar að dansa slíkan dans. Næsta stóra ópera, Elektra, byggð á gríska harmleiknum, sem frumsýnd var 1909 í Dresden olli enn meiri og heitari deilum og angist þeirra sem voru mótfallnir öllu nýju. En hún fékk líka afbragðsgóðar viðtökur hjá öðrum. Það virtist þarna gjá á milli skoðana; Strauss var ýmist lofaður eða dæmdur harkalega fyrir tónlist sína.

Svo komu Rósariddarinn og Ariadne, og sjálfur sagði Strauss að þær væru viðleitni til að nálgast Mozart. Hljómanotkun varð mýkri og ómstríður mildari, allt féll í ljúfa löð, en Strauss fann sér engu að síður leiðir til að fara ótroðnar slóðir.

Í Ariadne á Naxos fór Richard Strauss þá djörfu leið að tefla saman tveimur sögum, hvorri úr sinni áttinni með því að búa til óperu í óperunni. Óperan segir frá óperusýningu, þar sem tvö verk eru sýnd samtímis. Annars vegar er viðfangsefnið grísk goðafræði, sem alla tíð hafði verið vinsæl meðal óperusmiða; - sagt frá Ariadne, frjósemisgyðju frá Krít og hörmum hennar og örlögum á eynni Naxos, en hinsvegar klassískur ítalskur gleðileikur, commedia dell'arte, með tilvísunum í gamalt verk eftir Molière.

Í grísku goðafræðinni er Ariadne sögð dóttir kóngsins á Krít, Mínosar og drottningar hans, Pasífu. Mínos hafði herjað á Aþeninga, en þeir myrt son hans í þeim bardaga. Mínos vildi hefndir, - og krafðist þess að í sjö ár sköffuðu Aþeningar sveina og meyjar til að reyna að vinna á Mínótárnum hræðilega sem öllum stafaði ógn af og bjó í miklu völundarhúsi. Mínos leit á þetta sem hverja aðra mannsfórn. En Aþeningar sendu auðvitað sinn besta mann, Þeseif, og þegar hann kom til Krítar brá svo við að prinsessan Ariadne varð heltekin af ást, og til að bjarga Þeseifi frá þeim örlögum að lenda í kjafti Mínótársins, þá gaf hún honum töfrasverð, og garnhnykilinn sem hún var að spinna, svo Þeiseifur mætti rata aftur út úr völundarhúsinu. Allt gekk þetta eftir og Þeseifur tók Ariadne með sér til Aþenu þar sem haldið skyldi brúðkaup þeirra. En skipið var ekki komið lengra en til Naxos þegar Þeseifi hætti að lítast á ráðahaginn, og þar skildi hann Krítartróðuna eftir, dáleiddi hana til svefns á kletti nokkrum, og þar svaf hún ár og daga.

Grískum sögum ber ekki saman um örlög Ariadne eftir að hún lagðist til svefns á klettinum á Naxos. Hómer segir einfaldlega að Þeseifur hafi ekki haft neina gleði af þessari konu, en aðrar sögur herma að hann hafi komist að því fyrir atbeina Artemis, að Ariadne hafi þá þegar verið gift Dínoýsosi, frjósemis- og ástarguði á Naxos. Um það eru þó engin sammæli. Hesiod segir að eftir að Þeseifur hafi skilið Ariödnu eftir, hafi Dínoýsos einfaldlega fundið gyðjuna sofandi, orðið ástfanginn af henni, vakið hana og kvænst henni með það sama. Þá er líka sagt að hún hafi verið Díonýsosi trú, en hengt sig af harmi, þegar hún uppgötvaði að þrátt fyrir svik og pretti elskaði hún bara Þeseif. En af því að í sögunum er ýmislegt hægt, þá segir líka af ferðum Díonýsosar yfir Akkeronsfljót til Hadesarheima, til að sækja sína látnu ást, Ariadne. Eftir þá frægðarför settust þau að meðal vina sinna, guðanna á Ólympsfjalli.


Hvað er ákjósanlegra fyrir óperusmið en saga, sem er opin í alla enda, saga sem er sorgleg og kómísk í senn og snertir vítt litróf mannlegra kennda? Richard Strauss sá kostina í sögu Ariadne. Þegar ópera hans hefst sjáum við baksviðs í leikhúsi í höll feneysks hefðarmanns, þar sem annars vegar er verið að æfa nýja óperu um Ariadne – Strauss smíðar meir að segja hlutverk tónskálds, og hins vegar ítalska gleiðileikinn, með þau Harlekín og Zerbínettu í aðalhlutverkum. Leikstjórinn kemur inn og segir að svo sé komið, að sýningunum verði báðum að verða lokið fyrir kl. 21, og því sé ekki um annað að ræða en að leika bæði verkin samtímis Tónskáldið í verki Strauss, segir Zerbínettu að Ariadne vilji umfram allt vera í harmi sínum – hún vilji deyja af ást, og hefur miklar áhyggjur af því að trúðslæti gamanleikaranna eigi eftir að skemma fyrir honum nýju ópruna um Ariödnu. Þegar sýning óperunnar hefst – í óperunni, er Ariadne sofandi á klettinum sínum á Naxos, - malar eitthvað uppúr svefni, en tekur ekkert eftir gleðinni í gamaleikurunum fjórum hinum megin á sviðinu sem með öllum ráðum vilja reyna að porra svefnpurkuna upp og koma einhverju lífi í hana. Zerbínetta tekur af skarið og segir hreint út við Ariödnu að eina ráðið við ástarsorg sé að finna sér nýjan karl, og að það skuli hún reyna að gera. Bakkus, öðru nafni Díonýsos kemur auðvitað aðvífandi, - Zerbínetta leyfir Ariödnu að halda að þar sé langþráður dauðinn loks kominn að faðma hana, - en ást guðs víns og ásta er heit, og á endanum finnur Ariadne hamingjuna í örmum hans.


Richard Strauss lifði mjög hversdagslegu lífi og ekki vitað til þess að hann hafi upplifað sjálfur mikilsháttar angist. Það sem var honum kannski erfiðast var að standa í skugga ofurmennisins Wagners. Honum var það líka raun síðarmeir að sjá nasista komast til valda í Þýskalandi, en þeir áttu eftir að leggja Strauss og tónsmíðum hans ýmsar skorður.

Þar sem sorgin og gleðin, erfiðleikar og hamingja, fallast í faðma, er sátt. Ef til vill var óperan um Ariödnu á Naxos viðleitni tónskáldsins til að sætta þá sem grimmast létu eftir frumflutning fyrri verka. Ef til vill var það leið til að kasta af sér byrðinni sem fólst í arfleifð Wagners og finna persónulegri stíl – lausan við þrúgandi samanburð við ofurmennið í Bayreuth. Hvað sem þeim vangaveltum líður er óperan Ariadne á Naxos meistaraverk, þar sem tónskáldið spinnur í ævintýri grískrar goðafræði með sínum eigin persónulegu aðferðum á frumlegan og og afar skemmtilegan máta.


Bergþóra Jónsdóttir

Þessi grein birtist í Morgunblaðinu 11. maí 2006


Mömmurnar mínar á Naxos

Ég spjalla við frú Manolas á hverjum degi.  Þetta væri ekki frásögur færandi nema fyrir það, að við eigum ekkert tungumál sem við getum báðar notað.  Hún talar bara grísku og ekkert annað.  Þessi húsmóðir á gistihúsinu mínu setur sig ekki úr lagi að ræða við mig landsins gagn og nauðsynjar, og af veikum mætti reyni ég að skilja.  Það kom þó að því í gær, að ég skildi hana nokkurn veginn; - hún nefndi orð sem ég skildi - og ég áttaði mig á því að hún var að segja mér frá þeim löndum og borgum sem hún hefur komið til um dagana.  Maður veit þó hvað París er og Germanía, og Helvetika hlýtur að vera Ungverjaland... (það er reyndar Sviss)... þetta eru orðin sem kveiktu á samtali gærdagsins.  Ég held að henni hafi þótt París best, því hún talaði lengi um París og lék fyrir mig Eiffelturninn og sigurbogann og það sem ég held að hafi verið að fara í búð og kaupa kjól.  Það virðist hafa verið mjög skemmtilegt - eins og ég veit sjálf.  Fátt skemmtilegra en að kaupa sér kjól í París. Ég sagði henni á ensku að ég hefði líka komið bæði til Parísar og Helvetiku og reyndi, eins og hún að nota hendurnar til að útlista þetta nánar.

Maður gerir sér ekki alltaf grein fyrir því hvað tungumálið er nauðsynlegt tæki og hvað maður verður hjálparvana að missa það- en samt er það merkilegt hvað fólk finnur sér leiðir til að tjá sig, þrátt fyrir allt.  Frú Manolas er glaðvær, og henni finnst gaman að tala við fólk, - og því ekki að reyna....  .... jú, ég hef alla vega mjög gaman þessum kómísku handapatssamræðum okkar.

Frú Manolas er á besta aldri - sennilega tæplega sjötug.  En hún er ofurskutla, - með þykka ljósa lokka og klæðir sig í þröngar gallabuxur og boli.  Hún er eins og Silvía Nótt - alltaf með tyggjó.  Hún er töffari í sér og hlustar á rokk meðan hún gengur verka sinna á morgnana.  Og þessi verk hennar eru ekkert smáræði.  Hér dugar ekki hreinlæti tvisvar í viku, - því á hverjum morgni þrífur hún allt heila klabbið.  Herbergin tólf eru tekin í gegn, sópuð og skúruð, hún býr alltaf um og skiptir á rúmunum tvisvar í viku og handklæðum jafnvel oftar.  Hún opnar alla glugga, loftar út, tekur rúmteppin, hengir þau út á verönd og dustar þau og bankar.  Hún þurrkar af og þvær glös, diska og hnífa ef hún hefur minnsta grun um að maður hafi andað á það.  Hún þrífur baðherbergið daglega og fer út með ruslið.  Þegar hún er búin að klára herbergin þrjú á minni hæð, tekur hún veröndina í gegn, tínir upp lauf, sópar og skúrar, og tekur púlsinn á gróðrinum sem þar er. Hún er hvíti stormsveipurinn holdi klæddur.

Og þegar frú Manolas hefur lokið dagsverkinu skyldi maður ætla að hún væri til í að hafa það náðugt.  En þá er hún heima hjá sér eitthvað að bauka, og undir kvöldmatarleytið kemur hún aftur.  Það er spurning hvort það verða ávextir sem hún kemur með færandi hendi, smákökur, eða meira rauðvín, eða hvort það verður dunkur fullur af dolmaðes, - þessum unaðslegu laufbögglum sem eru fylltir með krydduðum hrísgrjónum.  Þrátt fyrir að vera dúndurskvísa, er hún líka þessi dæmigerða gríska mamma, sem vill allt fyrir alla gera og er alltaf að hugsa um að koma einhverju ofaní fólk.  Hún er fín og ég kann vel við hana.  Frá nóvember til apríl - þegar gistihúsið er lokað gerir hún það sem henni sýnist, og ég vildi gjarnan sjá hana í þeim ham líka.  En henni finnst hótellífið skemmtilegt, og hún hefur þann hæfileika að geta látið sér þykja vænt um gestina sína.   Það er ekki slæmt að eiga svona gistimóður að hér á Naxos.

Svo er það matmóðir mín, hún Katerína á Scirocco.  Hún er á svipuðum aldri og frú Manolas.  Hún var búin að lifa húsmóðurlífi alla sína tíð, þegar þau komu upp veitingastaðnum, einhvern tíma á níunda áratugnum.  Aþena dóttir hennar sagði mér að mamma hennar hefði í raun eignast nýtt líf þegar hún fór að vinna á veitingahúsinu, á sextugsaldri.  Þá hafi hún lifnað við, losnað úr viðjum heimilisins og að hún elski staðinn.  Hún er snilldarkokkur, og gestirnir á Scirocco láta hana líka óspart heyra það.  Hún kann smá í ensku og hefur gaman af að taka ofan svuntuna og koma fram og spjalla við fólk.  Hún nýtur þess að vera stjarnan á staðnum meðan sá Stratos getur ekki unnið mikið.  Hún er nú myndugleg þegar hún setur honum fyrir að rúlla hnífapörum inn í servíettur og raða á bakka, og hann gerir það brosandi.  Nú er Katerína búin að fá sumarsveininn sinn, - og hann er sá eini sem MÁ snerta pottana hennar. Þetta er hann Hassan, 48 ára Egypti, sem er búinn að búa í Grikklandi í aldarfjórðung.  Þau eru fín saman í eldhúsinu.  Hassan kom hingað á sínum tíma til að hlaupa hið klassíska maraþon, frá Maraþon til Aþenu, en dagaði uppi í guðalandinu.  Hann er enn að hlaupa og vill helst ræða við mig um Björk og Oum Kulthoum, sem hann veit að ég hef mikið dálæti á.  Hann mokar í mig sögum af þessari stórkostlegustu söngdrottningu Araba fyrr og síðar, og rifjar upp hvernig það var þegar hún dó, árið 1975.  Það voru allir svo miður sín - ekki síst stjórnvöld - og það liðu fjórir dagar, þar til fjölmiðlar treystu sér til að segja frá andláti hennar, svo mikill var óttinn við að Egyptar hreinlega bugðust f harmi.  En þeir gerðu það nú samt, og tvær milljónir manna þyrptust að útförinni hennar og þjóðin var lömuð af sorg.  Ein kona var þó sögð hafa tekið andláti dívunnar vel, - en það var eiginkona Sadats forseta, sem aldrei þoldi hvað Oum Kulthoum var ástæl og dáð; - hún var sólgyðjan holdi klædd, og fór víða sem menningarlegur sendiherra þjóðar sinnar og örugglega einn merkasti listamaður tuttugustu aldarinnar.

En aftur að Katerínu.  Hún hlær eins og smástelpa þegar ég segist ætla að taka hana með mér heim og segir "maybe!"

Beggaki


Að temja grjót

Fordyri Apollóhofsins

Grjót, er efniviður þess listaverks sem hefur haft meiri áhrif á mig en mörg önnur. Samt er þetta ekki listaverk í eiginlegum skilningi, þetta er grjóthleðsla Hraunfólksins í Þingvallasveit. Björn Th. Björnsson skrifaði sögu þessa fólks, sem af ótrúlegrum dugnaði byggði sér bú í miðju Þingvallahrauni, fjarri alfaraleiðum. Það er góður göngutúr frá veginum við þjónustuskálann að þessum bæjarrústum eftir troðningum í úfnu hrauninu. En þegar á áfangastað er komið blasir hún við þessi einkennilega “menning” mitt í óhaminni náttúrunni. Það er erfitt að ímynda sér hvað til hefur þurft, að velja sér slíkt bæjarstæði, því hraun er jú hraun. Af natni og óhemju elju tíndi þetta fólk þó grjótið úr jarðveginum, stein fyrir stein, hnullung fyrir hnullung, og lagði í þennan myndarlega vegg umhverfis búið sitt. Um leið og grjótið var numið burt fékk gras og annar gróður svigrúm. Þessi blettur er þó ekki stór, en hefur þó dugað til að fóðra örfáar skepnur.

Frá öndverðu hefur manneskjan glímt við grjót, í þeim tilgangi að temja það að mennskunni, - menningunni.  Grjótið hefur veitt mannskepnunni skjól fyrir veðri og vindum, verið efniviður í verkfæri, og með grjóti kveikti mannskepnan eldinn.  Eftir öll þau ótöldu handtök sem manneskjan hefur beitt á grjótið þykjumst við hafa lært að hemja það býsna vel.

Suður í Grikklandi, á eynni Naxos, býr fólk við þann munað, ef hægt er að kalla það slíku nafni, að ganga dags daglega á grjóti sem sumum þætti “alveg brilliant” að hafa undir fótum sér hversdags. Þetta er granít, kórund, sem leynir á fallegum safírum, og marmari, steintegundir sem fólk borgar háar fjárhæðir fyrir til að prýða húsakynni sín með. Á Naxos er þetta grjót hins vegar óheflað og óbundið, því eyjan sjálf er af náttúrunnar hendi smíðuð úr þessu eðalgrjóti. Frá fornu fari hafa eyjaskeggjar nýtt sér þetta grjót, og á eynni skapaðist hefð fyrir vinnslu þess, - ekki síst á marmara. Það þarf ekki að taka það fram að þar hefur mannshöndin verið öflugasta verkfærið.

Elstu heimildir um þróað menningarsamfélag á Naxos eru frá fjórða árþúsundi fyrir Krist, og þessar heimildir felast einmitt í grjóti; verkfærum, munum og hýbýlarústum. Naxosbúar lærðu fljótt að meta fegurðina í grjótinu undir fótum sér, og við fornleifauppgröft á grafreitum frá þriðja árþúsundi fyrir Krist hafa fundist vatnskönnur úr marmara, og það sem eyjaskeggjum þykir enn meira til koma, - marmarastyttur. Þetta eru fígúrur, - menn, konur og skepnur, og þótt þær séu smáar í samanburði við risavaxin marmaraverk Grikkja sem síðar urðu til, eru þetta elstu marmaralistaverk sem þjóðin á, og það þykir nú ekki lítið merkilegt í landi sem á svo stórkostlega hefð í tamningu grjóts. Naxosbúar eiga merkar minjar úr grjóti frá öllum tímum sögu sinnar. Hróður steinsmiða á Naxos var mikill um allt Grikkland og jafnvel víðar, og þeir voru oft og einatt fengnir til að smíða verk á meginlandinu og á eyjunum. Og oftast lögðu þeir efniviðinn til sjálfir – komu með eðalgrjótið með sér, - marmarann, sem þeir kunnu svo vel á. Á sjöundu öld fyrir Krist var marmari og annað grjót orðin helsta útflutningsvara eyjarinnar. Steinsmiðirnir Byzes og sonur hans Georgos þóttu undraverðir völundar; - urðu fyrstir manna til að reisa stórhýsi úr hreinum marmara og til þeirra er rakin fyrsta framleiðsla sem vitað er um á marmaraflísum til húsagerðar.

Eftir því sem aldirnar liðu urðu listaverk steinsmiðanna á Naxos stærri og fjölbreyttari. Löngunin til að skapa eitthvað ómannlega stórt var mikil, og það voru guðirnir sem áttu að njóta heiðursins. Kúros, eru þau kölluð risavöxnu líkneskin sem gerð voru af guðum í mynd ungra manna. Enn liggja tvö slík á Naxos, hvorugt fullklárað, á þeim stöðum þar sem smíði þeirra fór fram. Í þorpinu Melanes inni í miðju landi liggur ungur Apolló, og í þorpinu Apollonas á norðurströndinni, kúrir sjálfur guð eyjarinnar, Dýonísos.

Naxosbúum þykir það sumum súrt að í dag skuli flest öndvegisverk steinsmiða þeirra, smíðuð úr grjóti frá Naxos, vera staðsett annars staðar en á eynni sjálfri. Aðrir horfa á þá staðreynd stoltir, og finnst mikið til koma. Merkustu fornminjar á eynni helgu, Delos, fæðingarstað sjálfs Apollós, eiga uppruna sinn og tilurð að rekja til Naxos. Stytta af guðinum Artemis er þar á meðal, gjöf frá efnakonu á Naxos og smíðuð 650 fyrir Krist. Styttan er nú vistuð á Þjóðminjasafninu í Aþenu. Önnur stytta, af Apolló er þar einnig, smíðuð 600 fyrir Krist. Risavaxin marmaraljónin sem rísa upp á framlappirnar og horfa opinmynnt á heiminn, tákn eyjarinnar, eiga sömuleiðis uppruna sinn á Naxos. Hýbýli frá 7. öld eru enn aðrar minjar þar smíðaðar úr marmara frá Naxos af smiðum þaðan. Á meginlandi Grikklands er minjar úr grjóti ættaðar frá Naxos víða að finna. Sfinxarnir á Apollóhofinu í Delfí eru þar á meðal, ótrúlega falleg listaverk sem sýna vel færni steinsmiðanna frá Naxos í að höggva jafnvel fíngerðasta flúr í grjót.

Merkasta verkið sem steinsmiðir á Naxos smíðuðu er þó vafalítið hof, sem hafist var handa við að smíða um 530 fyrir Krist, á hæð á litlum tanga þar sem höfuðstaður eyjarinnar í dag, Hora, eða Naxosbær, stendur. Hofhliðið vísar í áttina að Delos, eyju Apollós, og því telja flestir fræðimenn að hofið hafi verið helgað honum. Talið er að hofið hafi aldrei verið fullklárað, en það var stórt í sniðum og fordyrið eitt smíðað úr fjórum marmarablokkum, sem hver um sig var sex metrar að lengd og vóg tuttugu tonn. En saga hofsins er dapurleg. Á fimmtu öld, var það gert að kristinni kirkju og komst í niðurníðslu. Á þrettándu öld, þegar Feneyingar komust til valda á Hringeyjum og gerðu Naxos að höfuðvígi sínu, urðu straumhvörf í sögu hofsins. Foringi Feneyinganna, Marco Sanudo tók sér titilinn “hertogi af Naxos” og lét umsvifalaust reisa mikið borgvirki efst á hæðinni yfir byggðinni, þaðan sem útsýni til hafs var best. En efniviðinn í kastalann tók hann illu heilli úr hofi Apollós. Kastalavirkið reis hratt, og er í dag ein af örfáum heillegum miðaldabyggðum Grikklands. Vegna þess þykir það stórmerkilegt og er afar fallegt, með þröngum litlum götum sem liðast eins og gangar í völundarhúsi að torgi þar sem kirkja og skólar og fleiri falleg mannvirki standa, þar á meðal skólinn sem höfuðskáld Grikkja á síðari tímum, Nikos Kazantzakis, höfundur Grikkjans Zorbas, gekk í á unglingsárum.

En dýrðin var dýru verði keypt. Grjótið úr hofi Apollós var mulið niður í meðfærilegar einingar og lifir nú sem miðaldakastali, en á tanganum þar sem það reis, stendur ekkert annað eftir en húsgrunnurinn og svo risavaxið fordyrið, sem reyndist Feneyingunum of þungt og mikið til að þeim tækist að eyðileggja það. Fordyrið, eða hofhliðið er í dag auðkenni Naxos, þar sem það gnæfir einmana en tignarlegt og tilkomumikið og horfir til hafs á tanganum við hafnarmynni höfuðstaðarins.

Þegar ég horfi á þau menningarverðmæti sem orðið hafa til á Naxos úr þessum frumstæðasta efniviði, grjótinu, verður mér hugsað til hleðslunnar fallegu í Þingvallasveitinni. Það skiptir kannski ekki öllu máli hve grjótburður mannsins hefur tekið á sig stórbrotnar myndir og hvort landið heitir Ísland eða Grikkland. Sennilega er vart til það byggða ból þar sem manneskjan hefur ekki tekst á við grjótið í einhverri mynd. Sú hugsun sem uppúr stendur snýst um handtökin sem kynslóðirnar hafa lagt á sig við að skapa sér menningu með því einu að temja grjót. Þau hljóta að vera fleiri en stjörnurnar í alheiminum.

Bergþóra Jónsdóttir

Greinin birtist í Morgunblaðinu 1. maí 2006.


Fleiri myndir

Loðgrímur og Pornókrates

Grikkland er land Loðmundar og Loðinbarða. Já, elsku vinkonur, hér er hann einmitt kominn pistillinn sem þið hafið beðið eftir, pistillinn um grísku karlmennina. Grikkland er land Loðmundar og Loðinbarða og hér á Naxos eru þeir í mörgum útgáfum og ótal tilbrigðum. Grískir karlmenn eru undantekningarlítið fagurhærðir, með hnausþykka dökka liði. Þeir eru líka velfelstir fagureygðir. Þeir bláeygu, sem eru ekki margir, finna til sín fyrir að vera svona spes, en þeir brúneygðu eru margir sér mjög meðvitandi um að slík augu kunna einmitt að heilla norrænar skvísur. Flest þessara augna eru annað hvort innrömmuð í augnhár á við köngurlóarlappir, eða augabrúnir sem væri örugglega hægt að greiða niður eins og rúllugardínur. Það er þetta endalausa hár, sem gerir þessa menn öðru vísi en íslenska menn – fyrir utan kannski einn. Hárvöxturinn er semsagt þeirra aðalsmerki – við fyrstu sýn.

Sumir Grikkir nota þennan hárvöxt sem nokkurs konar tálbeitu, og virðast telja að það freisti kvenna sérstaklega. Þetta eru þeir sem hafa skyrtuermarnar nægilega vel upp brettar svo að loðnan á handleggjunum verði sýnileg, og fráhneppt að framan – ja bara eins langt og þeir telja nóg til að heilla – og því þykkari sem frumskógurinn er þeim mun færri tölur eru hnepptar. Þessir menn eru upp til hópa indælir og geðþekkir bara rétt eins og vinir mínir heima – það er bara líkamsgróðurinn sem er svona miklu betur úti látinn hér. Grískir karlmenn eru vingjarnlegir og sennilega hlýlegri en þeir íslensku. Þeir yrðu allir hátt skrifaðir í félagsskap Önnu Pálu, félagi snertiþurfalinga, - því hér eru menn ekki búnir að heilsa fyrr en þeir eru búnir að snerta líka – minnsta kosti að klappa manni aðeins á bakið eða strjúka vangann. Þessu er ég auðvitað ekki vön, en kann því bara prýðilega. Konur gera þetta ekki – en ég tek eftir að karlmenn gera þetta líka hver við annann – þeir klappa hverjir öðrum á bakið. En svo er það hárið, lokkanir, brúskarnir, lubbarnir, liðirnir, makkarnir og sveipirnir, - og motturnar. Drottinn minn dýri – grískar mottur eru rosalegar. Hnausþykkari yfirskegg getur varla að sjá nokkurs staðar annars staðar nema ef væri í Tyrklandi. Og hvað er með þessar mottur. Af hverju finnst mönnum ekki nóg um alla aðra líkamsloðnu, - því þurfa þeir að skreyta efri vörina líka með hárum?

En af því að grískir menn eru nú annars svo ósköp venjulegir þá minna þeir mig mjög á menn annars staðar í veröldinni – til dæmis íslenska menn. Hér eru þeir bara ögn loðnari. Ég sé jafnvel íslenska vini mína ljóslifandi í þeim – Loðmund og Loðinbarða, en líka Hárvar, Lokkólf, Mottfreð, Hárald, Brúsknús Loðdór, Liðfinn, Brúskuld, Lubbexander, Hárgeir, Feldmann, Makkapál og Loðgrím - - þeir verða jafnvel enn viðkunnanlegri með þessu íslenska tötsi.

Annars eru líka til frekar óviðkunnanlegir menn hér. Sérstök tegund eru þeir sem límast við mann, verða eins og skuggi manns, góna á mann inni á kaffihúsi, - eru svo allt í einu komnir nokkrum borðum nær og eru svo alveg óvart líka í bókabúðinni sem maður rambar í á leiðinni heim og koma svo alveg upp í flasið á manni á þarnæsta götuhorni. Hvernig fara þeir að þessu – og hvernig nenna þeir þessu? Einn þeirra sló um sig með þeirri óborganlegu pikköpplínu: Horses in Iceland walk very, very beautiful! Er ég fallin? Nei... og hvernig í andskotanum vissi hann að ég væri íslensk?

Fari maður í bæinn að kvöldi til um helgi birtast svo enn aðrar útgáfur af þeim fáu Grikkjum sem eru umdeilanlegir. Sexófílos og Sexófanes eru hér í nokkrum útgáfum og Hóras sömuleiðis – Hórasarnir eru reyndar þónokkrir. Og Pornókrates lifir hér góðu lífi með fráheppt niður á nafla, en kyrfilega gyrtur, svo að illgresið á bringunni hreinlega sullast út, - en er þó hamið af tvemur digrum gullkeðjum sem hann hengir um, jú eimitt, – loðinn hálsinn á sér.

Ég get svarið, að um daginn sá ég einn svo stórkostlega loðinn á ströndinni hér fyrir neðan, að ég ákvað að veiða hann upp á veröndina mína til nánari skoðunar. Það háttar þannig til að á milli hæða í húsinu utanverðu, er risavaxinn rósarunni sem skríður eftir öllum húsgaflinum. Það vildi svo illa til að Loðmundur flæktist og festist í þyrnunum og verður því sennilega að vera þar. Ég veit að mamma Manolas mun vökva hann vel í sumar.


Beggaki


Æ

Harðsperrur að drepa mig.  Ég ætla bara að njóta þess að þjást og gera ekkert annað á meðan.


Göturnar á Naxos

Göturnar í Naxosbæ

Elsti hluti Naxosbæjar liggur í brattri hlíðinni undir kastalanum, Kastró.  Þarna bjó pöpullinn, meðan ráðamenn voru vel varðir innan virkisveggja.  Þessi bæjarhluti kallaðist Bourgos og er nokkur hundruð ára, og enn í fullu fjöri.  Göturnar eru sumar nánast einstigi, og ekki fært öðruvísi en fótgangandi.  Og hver sagði að götur ættu að vera beinar?  Ekki sá sem hannaði þessa byggð.  Maður veit aldrei alveg fyrir víst hvar maður lendir, þótt maður telji sig vera búinn að læra þetta - sumar göturnar enda líka bara á dyratröppunum heima hjá einhverjum.  Hvítir veggir allt um kring og hlaðnir stígar - hver öðrum líkur. Tröppur eru líka margar í Bourgos, enda bratt, - sums staðar eru göturnar barasta tröppur og annars staðar liggja tröppur uppá húsþök og jú, stundum að dyrum - það er ekkert gefið í stigamennskunni hér.  Og hví eru hér svona margir kettir?  Þeir stökkva framúr manni að elta eðlur, eða lúra bara á einhverjum tröppunum í skugga veggja eða trjáa.  Svo safnast göturnar saman í stígamót, og þar er gamli markaður bæjarins með besta ferskmeti eyjarinnar.  En þarna í þessu kræklótta skipulagi eru líka veitingastaðir og handverksfólk hefur komið sér þar fyrir víða í yfirgefnum húsum.  En svo eru þær þarna líka þessar yndislegu snótir sem guð má vita hvað eru gamlar; - svartklæddar og hoknar með skuplur, að hugsa um blómin sín eða eitthvað að dedúa.  Göturnar í gamla bænum eru sannkallað völundarhús, hvíld frá erli hafnargötunnar og skjól þegar sólin eða vindurinn gerast of ágeng.

 Beggaki 


Fleiri myndir

Músmúllapáskar

Páskaborðhald

Það er stemmning að sitja í myrkvaðri kirkju laust fyrir miðnætti á laugardagskvöld fyrir páska og bíða þess að presturinn kveiki fyrsta ljósið.  Þessi páskamessa er sérstæðasta guðsþjónusta sem ég hef sótt, og ekki að undra - ég hef aldrei sótt messu í orþódoxkirkju áður.  Ilmurinn er sterkur og í myrkrinu stirnir samt á gyllinguna í íkonum og öðru kirkjuskrauti.  Tónlistin er sérkennilega forn og minnir mjög á arabískan helgisöng.  Svo kemur ljósið - ein týra, sem verður að tveim, þegar presturinn tendrar kerti næstu manneskju, - og hægt og bítandi gengur ljósið milli manna eftir kirkjubekkjunum, þar til sneisafull kirkjan er full af birtu kertaljósanna.  Presturinn segir loks orðin sem beðið er eftir: Kristur er upprisinn! og fagnaðarlætin brjótast út.  Fólkið þyrpist út á kirkjutorgið með logandi kertin sín. Þar bíða sprengjumennirnir ekki boðanna og hefja flugeldaskothríð og annars konar sprengjuverk.  Gleðin breiðist um bæinn frá kirkjunum þremur í Naxosbæ, og allt ætlar vitlaust að verða í hamagangi.  Þetta tekur þó tiltölulega fljótt af, og fólk fer heim og borðar páskamáltíð sem að þjóðlegum sið er innmatur úr lambi, eldaður á sérstakan máta.  Ég tölti heimáleið og í háttinn, því sunnudagurinn, páskadagur, verður tekinn snemma.

Páskadagur rís bjartur og fagur og ég sit snurfusuð á veröndinni þegar Dimitri kemur og spyr hvort ég sé tilbúin.   Jú, ég er það - held ég, - veit reyndar ekkert hvert ég er að fara, eða við hverju ég á að búast.  Ég trítla niður tröppurnar í mannlausu húsinu og þar bíður Dimitri á svörtum forstjórajeppa.  Ég sest inn, - og hann fussar yfir áströlsku gestunum sem ætluðu að koma með í sveitina en eru týndir.  Einn rúntur niðrá höfn er allt sem þarf - þar sitja þau Rachel og Chris, ungt par frá Brisbane sem er á fimm mánaða heimsreisu áður en hafist verður handa við barneignir og búaleik.  Þá er brunað úr bænum í norðausturátt, og áfangastaðurinn er þorpið Engares, sem aðeins er í um 8 kílómetra fjarlægð frá bænum.  En hér verður ekkert ferðast nema að renna yfir eins og einn fjallgarð með krókóttum vegum, - og ferðin tók lengri tíma en ætla mætti.

Bílnum er lagt við lúið grindverk umvafið fallegustu villiblómum, - og þá hefst göngutúrinn, gegnum mela og móa, árfarveg og grjót, og ég á hælum, í tilefni af páskum.  En ilmurinn af gróðrinum dregur mig áfram og lyktin af grilli einhvers staðar í nálægð.  Loks komum við í lítinn lund, og þar er fjölmenni.  Pabbi Dimitris og mamma, systur hans þrjár, þeirra menn og börn; - kærastan, systir hennar og foreldrar þeirra, og svo aðskiljanlegustu skyldmenni og vinir.  Og við þrír útlendingarnir. 

Það var búið að dekka langborð með appelsínugulum dúk, og hlaða á það mat.  Úff.  Það voru meiri ósköpin.  Ég veit ekki hvort þetta voru tveir skrokkar eða þrír, en alla vega hef ég aldrei séð jafn mikið af grilluðu lambakjöti á einum stað.  Þarna voru líka salöt, kjötbollur sem heita kefteðes, brauð, bæði nýtt og grillað, ólífur, kartöflur, bæði steiktar og grillaðar, kjúklingapæ, sérstakt páskabrauð, möndlukökur, fetaostur, og svo ávexir. Amminamm, - ávextirnir voru tíndir af trjánum, jafnóðum oní gestina, appelsínur, mandarínur, sítrónur, og svo litlir yndislegir og dísætir ávextir sem heita músmúlla en ég hef ekki hugmynd um hvað heita á íslensku.  Já, og blómin á borðinu - þau voru öll tínd í þessum edenslundi - valmúi, krýsur og önnur blóm sem ég kann ekki að nefna.  Heimagert vín í boði húsbóndans var drukkið með kræsingunum - og auðvitað búið til úr berjum af vínviði sem vex á þessum skika þeirra.  En það var líka boðið upp á ouzo, bjór, gos og vatn fyrir þá sem það vildu.   Þarna sátum við í tæpa sjö klukkutíma og sölluðum á okkur, og stöðugt var verið að bera meiri mat af öllum sortum á borðið.  Það var auðvitað farið í páskaleikinn, sem er þannig að allir fá hver sitt egg - harðsoðið, málað í fallegum litum.  Svo halda tveir hvor um sitt egg, og reyna að brjóta egg hins. Sá sem eftir stendur með óbrotið egg, vinnur og reynir þá við egg næstu manneskju, og þannig er farið allan hringinn og sá sem er einn með óbrotið egg í lok leiksins er sigurvegarinn.

Það voru gömlu gömlu mennirnir sem stóðu sig best í dansinum, og kunnu meira en unga fólkið.  Það sem helst háði þeim við fótaburðinn var vínið og ouzoið sem þeir voru búnir að sötra vel þegar að dansinum kom.  Það voru líka fullorðnu mennirnir sem stóðu fyrir kínverjasprenginum þegar borðhaldið var um það bil að verða búið - litlu börnin auðvitað dauðskelkuð, - en karlarnir virtust skemmta sér vel í þessum strákaleik sínum.  Eftir að allir voru orðnir mettir og pakkaðir af mat, var enn borið þrisvar sinnum á borðið af grillinu.  Mamma Dimitris, frú Manolas, sló hvergi af allan tíman í húsmóðurstörfunum, og sá auðvitað til þess að við borðuðum vel - og meir en það, - allir fóru heim með stóra poka fulla af mat og ávöxtum, og blómvönd úr villiblómum.

 Þetta var nú meiri dýrðin, og ég er heppin að fá að taka þátt í svona veislu með heimafólki.  En hér er það bara svo sjálfsagt að allir séu með, og enginn er skilinn eftir þegar á að gleðjast.  Ástralirnir voru líka orðlausir yfir þessari einstöku gestrisni og sögðust hvergi hafa kynnst öðru eins.  Í þessu þorpi, Engares á Manolasfólkið þennan landsskika og þar rækta þau það sem þarf til hótelsins, - bæði ber í vín, ávexti, blóm og fleira, og þar eru þau líka með hænsni og kanínur og héra.  Húsið þarna er varla meira en kofi - gluggalaus og rafmagnslaus kytra með stóru fleti og svo hillum þar sem þau geyma sultur og ber og alls konar góðgæti.  Einn af mágum Dimitris sýndi Íslandi mikinn áhuga og fannst erfitt að trúa því að meðalvetrarhiti á Íslandi væri hærri en í köldustu þorpunum í norður Grikklandi.  Það er líka erfitt fyrir mig að trú því þar sem ég sit hér í hita og sól og les fréttirnar að heiman um hálku og snjó.  

Beggaki


Fleiri myndir

Gleðilega páska

Páskaeggin á Naxos eru flott

Já, gleðilega páska.  Það stefnir í mikla páskagleði hér á Naxos, og allt á fullu í undirbúningi.  Lambsskrokkar í heilu í pokum aftan á vespum og mótorhjólum, og fólk að skiptast á kertum og páskaglaðningi.  Frú Manolas á hótelinu mínu færði mér í morgun bakkelsi og máluð egg í tilefni dagsins. Laugardagurinn er nefninlega mesti hátíðardagurinn - og flest allt lokað - alveg öfugt við það sem er heima.  Í kvöld kl. 23 fer ég í upprisumessu með Aþenu og hennar fólki, og morgun fer ég með Dimitri og hans fólki eitthvert inn í land - til að grilla lamb og gleðjast.  Ég er orðin ær af hávaðanum í sprengjum og kínverjum og ef marka má þessi læti verður flugeldaskothríðin á miðnætti örugglega stórfengleg.

Beggaki


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband