Færsluflokkur: Ferðalög
Miðvikudagur, 12. apríl 2006
Ævintýri á fjöllum
Fyrirheit mánudagsins voru að taka strætó upp í fjöll og skoða þorpið Apiranþos. Ég vaknaði eldsnemma til að ná í fyrsta strætó, dreif mig niður að höfn, þar sem strætóstoppistöð bæjarins er. Þar var fólk farið að safnast saman, aðallega gamalmenni og konur með börn, og svo örfáir ferðamenn. Við vorum varla sest inn í óhrjálegan fararskjótann, þegar maður á miðjum aldri, valdsmannslegur í fasi rekur alla út, og inn í annan vagn, eldgamla rútu.
Það var þröng á þingi, flestallir með einhvern farangur í úttroðnum plastpokum, og hávaðinn eftir því. Það talar enginn lágt í Grikklandi. En það var líka mikill hlátur, upphrópanir, hagræðingar og tilfærslur, og á endanum settist hjá mér gamall maður með eina framtönn. Ungur bílstjóri snaraði sér inn og ók af stað, en sá mynduglegi tók að rukka fyrir farið. Sá gamli við hliðina á mér var greinilega spenntur að sjá jafn skrýtinn fugl og mig, og hóf að hnykkja olnboganum í síðuna á mér, og segja eitthvað, og lítið sem ég gat gert annað en að kinka kolli og brosa. En hann lét það ekki duga. Hélt áfram að ræða og spjalla og spyrja, og í hvert skipti sem hann opnaði munninn fékk ég ýmist olnboga í síðuna eða að hann smellti læri sínu utan í mitt. Þess á milli benti hann út um gluggan, og sagði mér eitthvað greinilega mjög fallegt um staði og staðhætti á Naxos. Satt best að segja kunni ég þessari þvermóðsku og innilegu bjartsýni nokkuð vel. Hann var ekkert að setja það fyrir sig að ég skildi ekki orð, en hafði greinilega mjög gaman af því að segja mér frá. Ég gat ekki annað en glaðst yfir því - uppákoman hlýtur í það minnsta að hafa verið mjög kómísk fyrir þá sem sátu nálægt. Þegar hann fór úr vagninum, nokkrum þorpum á undan mínum áfangastað, kvaddi hann innilega og með virktum. Ég gat þó kvatt á móti: Yasú, yasú, kalimera!
Landslagið á Naxos er fallegt. Hæðir og dalir, og gróðursæld og hrjósturblettir á víxl. Síðasta þorp fyrir Apiranþos var Filoti, sem lítur út fyrir að vera mjög fallegt. Þaðan var ekið uppí móti, uppí fjöll, sem virtust ekkert sérstaklega há úr fjarlægð, en voru það svo sannarlega þegar rútan hossaðist á þröngum kræklóttum veginum - bílstjórinn sló hvergi af, en flautaði svo um munaði í hverri beygju.
Svo komum við í Apiranþos, og ég varð hissa. Þetta leit út eins og stórt bílastæði fyrir neðan háa hlíð þakta hvítum húsum, og þarna var rok. Jú, þarna var kirkja, og hlið. Ég gekk inn um hliðið, og inn eftir þröngum hlöðnum stíg, og smám saman opinberaðist þetta dásamlega þorp mér. Og rokið varð eftir á bílastæðinu - dúnalogn fyrir innan. Ég áttaði mig á því að bílastæðið við þorpshliðið, var ætlað öllum íbúum þess, því innfyrir hliðið fer ekkert vélknúið farartæki, ekki einu sinni vespa. Göturnar liðu þarna hver þvert á aðra upp og niður í tröppum og sundum, undir hús og milli húsa, allt eins og í einhverri dúkkuveröld. Ég vissi svosem ekkert hvert ég var að fara, ég var bara að rölta um, en önnur hver gata endaði á litlum húsatröppum, og þá var bara að snúa við og velja sér einhvern annan rangala. Þarna voru krakkar að leika sér og unglingsstrákar röltu um með asnana sína. Hnakktöskurnar þeirra voru stórir bláir kókflöskukassar, og þar í einhver varningur. Það er erfitt að lýsa þeim áhrifum sem þetta fallega þorp hafði á mig. Hvernig væri að búa á svona stað? Næsti húsagluggi í mesta lagi í tveggja metra fjarlægð frá þínum, og svalirnar þínar næstum kyssa svalirnar á húsinu andspænis þér. En húsin voru falleg, - og sumar svalirnar þaktar blómum. Þarna voru líka veitingahús, og þar inni - eins og alls staðar, - karlar að spila kotru og drekka ouzo eða raki.
Ég rölti mér inn á safnið sem er bæjarstoltið, en þar er varðveittur þjóðlegur vefnaður frá fyrri tíð. Það var nú aldeilis góss sem þar er varðveitt, og augljóst að þær hannyrðakonur sem þar hafa setið við, hafa ekki hangsað yfir kotru og rakidrykkju.
Klukkustundirnar þutu hjá, meðan ég var í þessari sérkennilegu skoðunarferð, og senn kominn tími á síðasta strætó í Naxosbæ. Í strætópésanum sagði að síðasti vagn færi 16.30, en valdsmannskarlinn um morguninn hafði sagt mér 16.15. Þegar ég spurði hverju þetta sætti, sagði hann að hann segði alltaf að strætó færi korteri fyrr en hann ætti að fara, til að allir væru örugglega mættir á stoppistöðina þegar vagninn kæmi. Þetta væri nú svosem í lagi ef vagninn hefði komið kl. 16.30. En hann kom ekki fyrr en 16.45 og þessar fjórar hræður sem biðu með mér orðnar svolítið spenntar. En svo kom strætó - tómur - bara við fimm ferðamennirnir. Ferðin til baka var falleg og vandræðalaus. Í Filoti var hópur af skólakrökkum tekinn um borð og kennari. Skömmu eftir að við ókum af stað þaðan, - og rétt komin út í óbreytta og hreinræktaða sveit, stöðvaði bílstjórinn bílinn, smalaði okkur útlendingunum saman og sagði bara "caput! caput! caput! another bus! caput!" Við skildum þetta sem svo að bíllinn væri bilaður og að annar vagn kæmi innan skamms að sækja okkur. En merkilegt var að bílstjórinn ók til baka með skólakrakkana en skildi okkur útlendingana eftir þarna á þjóðveginum. Við fórum auðvitað að spjalla og spekúlera; tveir stæðilegir finnskir strákar og bresk hjón, og okkur fannst þetta sérkennileg uppákoma. Ekki lét næsti strætó á sér kræla og við vorum farin að velta því fyrir okkur hvort við þyrftum að húkka far í bæinn. Kom þá ekki leigubíll brunandi og skransaði eins og bíómyndarbíll við hælana á okkur. "No bus, only taxi, bus caput!" Ekki vandræði að skilja það, - en hvernig ætlaði hann að koma okkur fyrir í litlum leigubíl. Breski karlinn bauðst til að bíða, en mér fannst eðlilegast að ég biði, þar sem ég var hvort eð er ein. En bílstjórinn hlustaði ekki á svoleiðis kurteisismúður, og byrjaði að raða í bílinn. Finnarnir tveir fyrst, aftur í, þá breski maðurinn, sem var ansi hávaxinn, ég frammí með farangur allra á hnjánum og sætið eins framarlega og hægt var, og breska frúin, lekker dama, var svo lögð til hvílu á lærum herramannanna afturí. Þetta var semsagt röggsamur bílstjóri og tók hlutverk sitt alvarlega að koma okkur heilum í bæinn aftur. Ég sá ekkert út fyrir finnskum bakpokum, en núna var bara hægt að hlæja, og við hlógum öll. Þetta var óvænt ævintýri og ég held að meir að segja bresku frúnni hafi þótt þetta mjög skemmtilegt. Bílstjórinn kom okkur á áfangastað og rukkaði bara sem nam strætófargjaldinu sem strætóbílstjóranum hafði ekki enn gefist tími til að rukka. Mér fanst 2.30 evrur ekki mikið fyrir svona ævintýri.
Beggaki
Ferðalög | Breytt 14.4.2006 kl. 15:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Þriðjudagur, 11. apríl 2006
Aldrei á sunnudögum
Ég er búin að verða mér út um alla helstu reisupésa eyjarinnar, strætóbók og fleira, en það er alveg ótrúlegt að upplýsingar um ferjuferðir milli eyja fást hvergi á prenti. Það er nefninlega þannig hér að meðan sumarið er ekki alveg komið, þá er þetta svolítið losaralegt, og fer helst eftir því hvað skipstjórum og ferjumönnum líst á að gera. Einu ferjurnar sem komnar eru á fastan rúnt er ferjan til Pireus og Krítarferjan. En ég ætla ekki strax í heimsókn til Yanna, og því verður Krít að bíða. Mig langar hins vegar að kíkja á Folegandros sem mér er sagt að sé yndisleg, og Sifnos er líka á bráðaplaninu.
Ég ætlaði hins vegar að eyða þessum sunnudegi í strandgöngu, suður með eynni, og reyna að komast til Agios Anna. En nú ber svo við að hér er hávaðabrim, og enn nýtt leikhús að horfa á það frá veröndinni minni. Ég ætla því að láta strandgönguna bíða og taka daginn rólega. Strætóferð inn á eyju er heldur ekki inni í myndinni í dag, því Dimitri segir að í þorpunum inni í landi, sofi allt á sunnudögum.
Það þurfti ekki meira til en þessa setningu "sofi allt á sunnudögum" - ég er búin að vera með á heilanum síðan lagið sem Melina Mercouri söng í myndinni um Börnin í Pireus Never on Sundays. Ég held að þessi lagarofi í hausnum á mér sé geðsjúkdómur. Það má enginn segja neitt þá dettur mér í hug lag um eitthvað tengt því. En hvað um það, dagurinn fer sjálfsagt í einhver rólegtheit, og fyrsta vers verður að kanna ástandið uppá torgi, og hvernig gengur að þrífa og gera huggulegt þar. Þar er líka besta netkaffið, og eigandi þess er besti vinur Dimitris. Í gær kom hann askvaðandi meðan ég var að spjalla við Úlfhildi, sagðist vera á leið út í búð, og hvort hann gæti fær mér eitthvað. Jú, mig langaði smá í kók, og fyrr en varði kom hann færandi hendi með kókdós og rör. "On the house", sagði vinurinn, "I want you to feel at home here". Þannig er stemmningin hérna, og mér finnst ég stálheppin að hafa álpast hingað á undan öðrum ferðamönnum, - hér eru allir vinalegir og hlýir við hjarðlausan sauð frá Íslandi.
En nú ætla ég að skvera mér í sturtu og búa mig undir að kanna hvernig sunnudagur á Naxos lítur út. Best að kveikja aftur á Junior Wells, - Messin with the Kid kemur mér í góða skapið, sem svosem enginn hörgull er á hér á þessum unaðsreiti.
Beggaki
Ferðalög | Breytt 14.4.2006 kl. 15:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Þriðjudagur, 11. apríl 2006
Nostalgía í 16 fermetrum
Það er skrýtin tilfinning að lifa lífi sínu allt í einu á 16 fermetrum, þegar maður er vanur 100m2 í týpísku reykvísku fjölbýlishúsi. Mér líður eins og ég sé aftur orðin unglingur í herberginu mínu í H7. Hér er svo auðvelt að búa til stemmningu, rútta til og breyta, hengja upp myndir kveikja á kertum og reykelsi og hafa það verulega notalegt, og úr því að Dimitri segir að ég megi gera hér hvað sem ég vilji, þá hika ég ekkert við að haga mínu lífi hér á Agios Giorgos eins og mér sýnist.
Í gærkvöldi hafði ég ráðgert að fara á grískt danskvöld á stað hér rétt hjá, en fyrr um daginn hafði ég rambað á hannyrðaverslun, og stóðst ekki mátið þegar ég sá himneskt úrval af steinum og perlum, leðurreimum og öllu því sem þarf til að búa til skart. Þegar ég var komin heim úr þeim leiðangri, varð föndrið svo spennandi að gríski dansinn gleymdist. Þetta varð einhvern veginn alveg eins og í gamla daga þegar ég sat kvöld eftir kvöld að teikna, vantslita, sauma, vefa eða prjóna í herberginu mínu heima hjá pabba og mömmu ég komst í djúp tengsl við gamalt sjálf. Og merkilegt ég fann mig knúna til að slökkva á Bill Wyman og Junior Wells í græjunum mínum og kveikja á útvarpinu. Það skipti engu máli þótt þar væru einhverjir vellulegir grískir Loðmundar að kyrja eitthvað sem ég skildi ekkert í, - þegar maður situr og dútlar eitthvað í höndunum, þá hlustar maður bara á útvarp, - skiptir ekki máli hvaða útvarp.
Þetta var því frábært kvöld og afraksturinn allra fallegasta hálsfesti úr grískum stein- og messingperlum. Lagðist svo í fletið mitt og las meira í Grikklandsgaldri Sigurðar A. Magnússonar og vaknaði kófsveitt við drauma um funheitan grískan dans.
Beggaki
Ferðalög | Breytt 14.4.2006 kl. 15:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Þriðjudagur, 11. apríl 2006
Vinkonan á Platia
Það er búið að opna veitingahúsið Platia við aðaltorgið í Naxosbæ. Það sker sig frá öðrum fyrir það að þar eru borð og stólar í grænum lit, en ekki þeim bláa og grænbláa sem er svo víða. Nú er komið að því að smakka gríska matinn ég hef ákveðnar væntingar ef hann er ekki verri en grískur matur í Ameríku, þá er hann góður. Þarna sitja nokkrir karlar tveir þeirra að spila kotru í makindum undir hávaðanum frá torginu, en á móti mér á veröndinni situr falleg gömul kona í kjól, og goltreyju, á inniskóm og með svarta skuplu.
Morgunverður samanstendur af grísku kaffi, appelsínusafa, grísku brauði með hunangi, og jógúrti með ferskum ávöxtum. Mér líst vel á þetta. Elskulegur þjónninn tekur niður pöntunina en þá upphefst eitthvert vesen. Gamla konan er ræst á fætur og þjónninn spyr mig hvers konar ávextir mér þyki bestir. "Allir ávextir eru góðir," segi ég brosandi. Hann víkur sér að ömmu, réttir hennir litla buddu, bendir á mig, kyssir hana á kinnina, og fyrr en varir fer hún að hlæja feimnislega, lítur á mig og stekkur svo af stað, jafn léttfætt og Fía frænka. Fyrr en varir kemur hún til baka með poka fullan af ávöxtum og sýnir mér oní hann með spurn í augum. Þetta var þá málið það þurfti að senda ömmu út í búð eftir ávöxtunum í jógúrtið og appelsínum í safann minn, og nú stendur hún hróðug andspænis mér þessi aldna Afródíta og hlær þegar ég kinka kolli og segi "efcharistó" - takk. Við erum orðnar vinkonur.
Morgunverðurinn var hrein dásemd, og safinn eins og að fá appelsínu í æð þetta er ljúft; - ekki síst fyrir tilverknað ömmu, sem horfði með sínu feimnislega brosi á mig allan tíman, - svona rétt til að fylgjast með því hvort mér líkaði trakteringarnar hjá niðjum hennar í eldhúsinu.
Hingað á ég eftir að koma oft.
Beggaki
Ferðalög | Breytt 14.4.2006 kl. 15:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 11. apríl 2006
Næturkuldi og vorverk
En sá kuldi ég var víst búin að gleyma því að hér er fólk ekkert að hafa fyrir því að kynda á næturnar; - þetta bara hefur sinn gang. Vaknaði margoft ísköld og skjálfandi fyrstu nóttina, en um leið og fyrstu sólargeislarnir smugu inn um gluggahlerana sofnaði ég vært og svaf framundir hádegi. Ekkert lífsmark í húsinu, og ég dreif mig út í göngutúr. Hér er ekki erfitt að villast, húsasundin örmjó og göturnar hver annarri lík með litlum hvítum húsum með bláum dyrum og gluggapóstum. Rambaði samt fljótlega upp á aðaltorgið í bænum og settist þar niður við gosbrunninn sem enn er ekki farinn að láta til sín taka. Ótrúleg mannmergð á svo litlu torgi. Torgið sjálft er nú varla meira en eitt stórt tré og þessi andvana gosbrunnur, gatan í kring er mjó, og þar þjóta litlir bílar og vespur eins og um eins og þeir haldi að þetta sé stórborg, en það er nú öðru nær.
Hér er eitthvað stórkostlegt í gangi sem útskýrir erilinn. Það er alls staðar verið að taka til, mála, skrúbba, þrífa, dytta að, spúla og bera inn varning. Það er ekki bara hótelið hans Dimitris sem er að opna eftir vetrardvala, heldur bærinn allur, og sennilega eyjan öll. Þetta útskýrir líka það að ég taldi um þrjátíu vörutrukka inn í ferjuna á höfninni í Aþenu. Það er verið að tappa á eyna, búa hana undir sumarið og vertíðina sem því fylgir. Konur eru alls staðar í óða önn að sópa og setja niður blóm og lauka og koma fyrir á svölum og í öllum mögulegum skotum meðan karlarnir eru að drösla varningi inn í búðirnar og veitingahúsin, sem raða sér eins og maurar í herfylkingu þétt í kringum torgið. Hér er líf að fæðast og ég sit hér eins og vitni að fæðingunni. Það rifjast upp fyrir mér að Grikkir eru háværir, og hljóma eins og þeir séu stöðugt að þrasa, þegar þeir eru bara að tala saman. Mannamál er líka aðaltónlistin á þessu torgi, hróp og köll, en gegnum hávaðann fossar óbeisluð gleði og tilhlökkun. Það er eins hjá mér. Ég bíð spennt að sjá hvað úr þessum fæðingarhríðum verður.
Beggaki
Ferðalög | Breytt 14.4.2006 kl. 15:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 10. apríl 2006
Lending á Naxos
Ég er lent á Naxos eftir langt, langt ferðalag. Flugið var óttalega leiðinlegt, en bátsferðin frá Aþenu til Naxos var besti parturinn, þótt lengstur væri, rúmir fimm tímar. Það var ótrúleg fegurð að sigla út á Eyjahafið í glampandi sól til móts við sólarlagið og Naxos. Þvílíkur blámi! Dimitris Manolas, gestgjafi minn á Agios Giorgos tók á móti mér á hafnarbakkanum og fór með mig í smá rúnt um bæinn til að sýna mér helstu kennileiti. Hann ræður ríkjum hér, eftir að pabbi hans og mamma skiluðu gistihúsinu í hendurnar á honum.
Það kom á daginn að herbergið mitt er talsvert minna en ég hafði ímyndað mér, en mjög notalegt. Ég er á þriðju (efstu) hæð, og með besta útsýnið á staðnum, og nú, þegar ég sit hér við opinn gluggann, heyri ég gjálfrið í öldunum á ströndinni, um það bil 10 metra frá húsveggnum. Ég er fyrsti gestur vorsins, hótelið er opnað fyrsta apríl ár hvert og er starfrækt út október. Það er saggalykt í herberginu mínu, en hún verður farin eftir morgundaginn, því ég ætla að byrja á því á morgun að fá mér reykelsi til að gera góða lykt. Þótt húsið sé eldgamalt, er allt hér hvítskúrað og skrúbbað, og greinilega vel hugsað um staðinn. Besti parturinn af herberginu er veröndin, sem er mun stærri en herbergið sjálft, með borði, stólum, sólhlíf, og aragrúa af fallegum blómum sem pabbi hans Dimitris sér um. Meðn ég var að koma mér fyrir fór Dimitri niður, og kom upp með stóra flösku af vatni, karöflu með víninu hans pabba síns, og skál fulla af appelsínum. Yndislegt! Þegar hann sá mig á hafnarbakkanum kallaði hann Bergþóra! .....rétt eins og hann væri Íslendingur enginn vandræði með þennan framburð gríska og íslenska hljóma ótrúlega líkar, áherslurnar eru svipaðar, og svo fossa þorn og eð út um allt hjá þeim og errið þeirra er alíslenskt.
Þetta er Grikkland, þetta er Naxos, og eftir því sem ég heyri Grikkina tala meira, rifjast ýmislegt upp fyrir mér frá því í Ameríku, og ég skil þónokkur orð. Get alla vega boðið góða nótt og góðan dag, heilsað, þakkað fyrir mig og sagt: Ekkert að þakka. Ég byrjaði á að pakka öllu hafurtaskinu upp og koma því fyrir í litla blágræna fataskápnum, sem er alveg eins og skápurinn hennar Báru, í Benna og Báru, - og í skúffunum undir litla blágræna borðinu mínu. Ég er með vænan ísskáp, hraðsuðukönnu, öryggishólf, gervihnattasjónvarp, gott baðherbergi með sturtu, tvö blágræn náttborð og blágrænt rúm. Ég réðst líka strax á rúmið og náttborðin og færði allt til, til þess að skapa betra gólfpláss og gera enn meira kósí. Dimitri fannst það sniðugt og hljóp niður og náði í heklaða tuskumottu sem mamma hans bjó til. Allir veggir eru skjannahvítir, en loftið er viðarloft úr brúnum viði með þverbitum, eins og vera ber í svona húsi. Á náttborðunum tveimur og litla sæta skrifborðinu eru glerplötur, og undir þeim skjannahvítir heklaðir dúkar. Þetta er mjög grískt, auðvitað, - eins og ég vonaðist til. Ég finn að hér á mér eftir að líða mjög vel. Þegar Úlfhildur kemur ætlar Dimitri að setja mig í stærra herbergi með tveimur rúmum, svo við mæðgur höfum aðeins rýmra um okkur. Móttökurnar hérna eru mjög hlýjar og viðkunnanlegar, og Dimitri er kátur og hlýr og það kjaftar á honum hver tuska.
Glugginn minn vísar út á veröndina og hafið, og ég hlakka til að vakna í fyrramálið og opna út á verönd og teyga að mér gríska eyjaloftið.
Beggaki
Ferðalög | Breytt 26.4.2006 kl. 17:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)