Leita í fréttum mbl.is

Íslendingabók

Það kitlar hégómagirndina að finna frændsemi við Björk og Melkorku Mýrkjartansdóttur; - við þessi venjulegu "nóboddí" erum búin að finna okkur stað meðal stórmennanna.

Óskaplega var nú gaman að fá lykilinn að Íslendingabók loks í hendur, og vikan löng og erfið meðan beðið var eftir honum. Allir farnir að ræða um nýuppgötvaðar frænkur og frændur, og viðmótið á vinnustaðum allt annað og vinsamlegra. "Heyrðu, við erum víst náskyld eftir allt!" "Hvers son var aftur hann pabbi þinn?" Allt í þessum þægilega og vinalega tón sem afsannar alveg þá kenningu að frændur séu frændum verstir. Spennan og forvitnin hvað biði mín handan þess sem ég þegar vissi um forfeður mína og frændur var að verða óbærileg, þegar lykillinn datt loks inn um bréfalúguna seint á mánudegi. Leiðin var greið og bein í bókina góðu sem var lokið upp með mikilli eftirvæntingu.

Það var skuggalega afhjúpandi að finna bæði Sigurð "Íslandströll" og Þorbjörgu "digru" í forfeðratalinu; - varpar ljósi á ýmislegt. Þorbjörg var reyndar gift Vermundi "mjóva" Þorgrímssyni og skýrir það jafn mikið um systur mína. Það er líka rannsóknarefni hvers vegna leiðtogar allra íslenskra stjórmálaflokka standa mér næst gegnum föðurættir mínar, en listamenn og menningarspírur frekar í gegnum móðurættirnar.

Og spurningarnar vakna hver af annarri; - hvernig karakter var hann eiginlega þessi langafi minn sem átti tuttugu og eitt barn, með fjórum konum á þrjátíu og sex ára tímabili? Og hvað með langömmu mína sem missti manninn sinn og tvö börn með stuttu millibili; - hvernig hafði hún það?

Það kitlar hégómagirndina að finna frændsemi við Björk og Melkorku Mýrkjartansdóttur; - það er kannski þess vegna sem allir virðast svo glaðir þessa dagana; - við þessi venjulegu "nóboddí" erum búin að finna okkur stað meðal stórmennanna. Og svo eru það furðurnar; eins og sú að við dóttir mín skulum vera fjórmenningar og hún því skyld sjálfri sér í fjórða og fimmta lið!

Það voru því talsverð vonbrigði að finna í frændgarðinum þá Lyga-Mörð, Natan Ketilsson og Grím Ólafsson, margtugtaðan óþokka norðan frá Kvíabekk í Ólafsfirði, sem vann sér það helst til frægðar að verða fyrsti alvöru glæpamaður Reykjavíkur á ofanverðri átjándu öld. Ekki skánaði líðanin við að finna sig komna af fyrsta alvöru raðmorðingja Íslandssögunnar, Axlar-Birni.

Því verður ekki neitað að grúskið í Íslendingabók er forvitnilegt og fræðandi. Þar lifnar við löngu horfin fortíð sem getur verið óhemju skemmtilegt að grufla í. Vangavelturnar um mann sjálfan í ljósi þessarar fortíðar verða ennþá meira knýjandi en nokkru sinni fyrr, og sé maður á annað borð forvitinn um það hvernig maður er saman settur á líkama og sál, verður forvitnin um forfeðurna enn meiri.

Það má telja víst að með Íslendingabók muni Íslensk erfðagreining skapa sér meiri vinsemd íslensku þjóðarinnar en nokkur auglýsing hefði getað keypt. Þetta var ekki bara þarft og skemmtilegt framtak, - heldur líka klókt bragð í að afla Íslenskri erfðagreiningu viðskiptavildar venjulegs fólks, sem kannski hefur haft uppi efasemdir um þau leyfi sem fyrirtækið hefur fengið til að sýsla með persónulegar upplýsingar um okkur.

Með Íslendingabók verður gildi erfðarannsókna á Íslandi nefnilega svo ótrúlega augljóst. Við erum öll skyld hvert öðru. Frændsemi okkar hvert við annað er ótrúlega auðrakin, og maður ímyndar sér að það sé nánast útilokað að aðrar þjóðir nái nokkurn tíma að skrásetja sig með jafn áhrifaríkum mætti. Þetta sagði Kári strax í upphafi; fyrir daufum eyrum sumra, - en hér er það borðliggjandi. Íslendingar staglast stöðugt á því hve einstök þjóð við erum. Auðvitað erum við ekkert einstakari en aðrar þjóðir, nema kannski fyrir þetta eitt: skrásetningaráráttuna; að hafa tekist að skrá okkur svona vel, og haldið upplýsingunum til haga. Ættfræðingar ættu að gleðjast í stað þess að hrína yfir því að nú sé ekkert lengur fyrir þá að gera. Nú liggja grundvallarupplýsingarnar fyrir, tengslanet Íslendinga fyrr og síðar, og þá einmitt tækifærið fyrir þá að leggjast í raunveruleg fræðistörf um ættir landsins - ættfræði, - í stað þess að telja að ættfræðin felist í því að safna saman rannsóknargögnunum, - vita hver er skyldur hverjum.

En Íslendingabók er ekki bara gaman, - hún er líka gagnlegt gagn. Við erum því miður ekki öll komin af Þorgerði "fögru", Margréti "högu", Þóroddi "spaka" og Oddi "sterka". Ég geri mér grínlaust engar grillur um að holdarfar mitt sé frá Þorbjörgu "digru" komið. En allar ættir hafa enn einhver sérkenni, og það segir sitt að talað er um að fólk sverji sig í ættina. Að hafa "Flekkudalshollningu" er mér vísbending um að í mér búi að líkindum ákveðnir erfðaþættir sem gætu reynst heilsu minni hættulegir. Það sama á við um þá sem eru komnir af Þorsteini "skjálga", Birni "drumbi", Bárði "stirfna", Ingimundi "svera", Bergi "ósvífna", Grími "glömmuði". Við erum sem betur fer hætt að uppnefna hvert annað, - en uppnefnin á þessum löngu dauðu forfeðrum eru fullvissa þess að í okkur leynast alls kyns erfðir sem geta gert okkur rangeyg, þögul, þrjósk, feit, ósvífin og ofvirk.

Þar kemur að vísindunum. Við viljum nefnilega vita hvernig það gerist að við verðum álappaleg eða ofvirk, gigtveik eða grimmlynd. Við viljum útrýma "göllunum" í erfðum okkar og verða heilbrigð. Með Íslendingabók er okkur berlega sýnt hve vel við erum fallin til þeirra rannsókna sem leitt geta til framfara í þá átt.

Eftir Bergþóru Jónsdóttur begga@mbl.is

Viðhorf, birt í Morgunblaðinu 4. febrúar 2003.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Bergþóra Jónsdóttir
Bergþóra Jónsdóttir

Spurt er:

Á að aðskilja ríki og kirkju?
Er flokkakerfið úrelt?

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband