Færsluflokkur: Bloggar

Naxos 4. apríl - 29. júní 2006

Hér segir af ferðum mínum í Grikklandi vorið 2006.  Ég lagði af stað að heiman 4. apríl og kom ekki heim aftur fyrr en í júnílok.  Markmið ferðarinnar var að slæpast og hafa það gott, en vinna kannski eitthvað smá fyrir blaðið. 
Það sem fólst í því að slæpast var að gera nákvæmlega það sem hugurinn stóð til þá stundina.  Hugmyndirnar að skúffuskrifum hefðu sennilega getað fyllt heila kommóðu, ef öllu því sem um hausinn flaug hefði verið sinnt.  Bloggið var líka ágætis föndur, og svo föndraði ég líka eitt og annað í höndunum eins og mér hefur alltaf þótt gaman. Þess utan fór ég á röltið, kjaftaði við fólk, eignaðist vini, sat á ströndinni, borðaði góðan mat, horfði á stjörnurnar og sólsetrið, las á veröndinni og svo lagði ég mig af og til, til að safna kröftum í meiri slæpingsskap.
Veriði ekkert að öfunda mig....  sendiði bara línu ef ykkur langar að deila Grikklandssögum með mér:  bergthorajons@hotmail.com
Ást í poka,
Begga

 

ps. og að sjálfsögðu birtist þetta hér fyrir neðan í öfugri tímaröð


Saharavindurinn

Hvað er hægt að gera þegar Saharavindurinn næðir um Naxos?  Jú, það er hægt að fá sér að drekka, fara í sturtu, synda í sjónum, drekka meira og fara aftur inn í sturtu.  Er hægt að klæða sig? Nei, - því fötin límast strax við mann af rakamollunni.  Maður gerir það nú samt, því ekki getur maður hangið í rúminu allan daginn.  Úff hvað þetta er erfitt, - ég er alein, - Sigga farin, og ekki einu sinni hægt að striplast á veröndinni, því marmaragólfið er svo heitt, - og plaststólarnir - æ!  Ég rölti niðrí bæ til að kaupa mér miða í bátinn á morgun, sest inn á Rendez-Vous og fæ mér ískalt gos.  Eftir tíu skref til baka er mér orðið svo ómótt að ég á engan kost annan en að fleygja mér inn á norræna barinn Prime, - sem nú státar af íslensku flaggi - var áður bara með hin Norðurlöndin.  Panta mér Strawberry Daquiri - og enski strákurinn sem afgreiðir er svo dasaður að hann setur óvart helmingi meira romm í drykkinn en á að vera - - bætir við jarðarberjum og meira ískrapi, - og ég sit uppi með tvo Daquiri..... gott, gott, - ekki veitir af að svala þorstanum.  Kemst þrekuð uppá torg, sest inn á Scirocco og bið um það kaldasta sem til er.  Nú treysti ég mér ekki út aftur í bráð.  Hvað getur maður treint sér drykkinn lengi?  Ég hjálpa Strato gamla að rúlla hnífapörum inn í servíettur og kjafta við Hassan snillikokk um Oum Kulthoum og Nagib Mahfuz.  Robert kemur og hjálpar mér með texta við serbneskt lag - ég var búin að gleyma einni ljóðlínunni.  Það er ládautt, þrátt fyrir tilraunir til gáfulegra umræðna.  Sá eini sem hoppar um í trylltri lífshamingju er Ervis, albanski strákurinn sem er alltaf eins og stjörnuljós.  Hvað svo?  Ég ætti að drífa mig á ströndina - Plaka - get ekki farið í strætó, því hann er ekki loftkældur og örugglega fullur af fólki - ætti kannski að ná mér í vespu og verða mér þannig út um náttúrulega loftkælingu.  Nei, - ég nenni ekki einu sinni á ströndina, - er orðin alveg meir en nógu brún og ég get alveg eins farið í sjóinn heima við húsið mitt.  Enda hér á netkaffinu og þar er mér boðið upp á súkkulaðibakkelsi úr Rendez-Vous.  Nei takk, ómögulega, - það er ekki hægt að borða neitt í svona hita.  Tilhugsunin veldur mér klígju.  Bara drekka, drekka og drekka.

Frá því að Sigga fór, hef ég verið að gera mér dælt við heimafólkið.  Fór á þvæling með gestgjafa mínum, Dimitri sætalingi á Hotel Saint George.  Nú veit ég allar helstu kjaftasögur bæjarins - hvaða fjölskyldur eru vinir og hvaða fjölskyldur eru óvinir og hverjir hafa svikið hverja ýmist í tryggðum eða af hreinni illmennsku.  Veit núna af hverju Kostas á barnum við hliðina á Scirocco er alltaf að bjóða mér út, og af hverju hann skrökvaði því í mig að hann ætti staðinn, - sem hann á í raun ekki baun í.  Þetta er sko ekki einfalt mál.  Ég veit líka hverjir eru dílerar, hverjir eru rónar, og hverjir halda framhjá með hverjum.  Þetta eru gagnlegar upplýsingar á svona stað.  Allt fær aðeins annan svip, og ég ætla til dæmis aldrei að borða á Popi's Grill, því það er meiriháttar svikarasjoppa.  Erfðaprinsinn þar var kvæntur systur Dimitris, en dó svo bráðungur frá tveimur börnum - það þriðja þá á leiðinni.  Popi fjölskyldan afneitaði þá tengdadótturinni og barnabörnunum með það sama - og svoleiðis fólk er ekki hægt að púkka neitt upp á.  Ég veit núna að Takis, sem ég sagði ykkur frá, má aldrei kalla Takis.  Hann ber það virðulega nafn Kapitano, enda útskrifaður úr ítölskum skipstjóraskóla og sigldi stórum skipum árum saman áður en hann fór á Jólasveininn.  Amma hans Akkilesar var rænd í Aþenu og netkaffivinur minn, Þeofilis gefur öllum peninga sem biðja hann og Dimitri segir að engin kona vilji giftast slíkum manni.  Þá veit ég það. 

Og nú er búið að kveikja á gosbrunninum á torginu mínu.  Þetta eru svolitlar sprænur, lýstar upp á kvöldin, þar með er sumarið væntanlega komið á Naxos.  Kannski ég setjist við hann á leiðinni heim, í von um að vatnið sjái aumur á mér.  Á morgun verð ég á sjónum, og á sunnudaginn líka. Það verður nú meiri hamingjan. Ég tala nú ekki um að hitta dóttlu eftir tveggja mánaða aðskilnað.

Beggaki


Lordilord

Úff hvað það er gaman í Aþenu - halelúja!

Beggaki


Að temja grjót

Fordyri Apollóhofsins

Grjót, er efniviður þess listaverks sem hefur haft meiri áhrif á mig en mörg önnur. Samt er þetta ekki listaverk í eiginlegum skilningi, þetta er grjóthleðsla Hraunfólksins í Þingvallasveit. Björn Th. Björnsson skrifaði sögu þessa fólks, sem af ótrúlegrum dugnaði byggði sér bú í miðju Þingvallahrauni, fjarri alfaraleiðum. Það er góður göngutúr frá veginum við þjónustuskálann að þessum bæjarrústum eftir troðningum í úfnu hrauninu. En þegar á áfangastað er komið blasir hún við þessi einkennilega “menning” mitt í óhaminni náttúrunni. Það er erfitt að ímynda sér hvað til hefur þurft, að velja sér slíkt bæjarstæði, því hraun er jú hraun. Af natni og óhemju elju tíndi þetta fólk þó grjótið úr jarðveginum, stein fyrir stein, hnullung fyrir hnullung, og lagði í þennan myndarlega vegg umhverfis búið sitt. Um leið og grjótið var numið burt fékk gras og annar gróður svigrúm. Þessi blettur er þó ekki stór, en hefur þó dugað til að fóðra örfáar skepnur.

Frá öndverðu hefur manneskjan glímt við grjót, í þeim tilgangi að temja það að mennskunni, - menningunni.  Grjótið hefur veitt mannskepnunni skjól fyrir veðri og vindum, verið efniviður í verkfæri, og með grjóti kveikti mannskepnan eldinn.  Eftir öll þau ótöldu handtök sem manneskjan hefur beitt á grjótið þykjumst við hafa lært að hemja það býsna vel.

Suður í Grikklandi, á eynni Naxos, býr fólk við þann munað, ef hægt er að kalla það slíku nafni, að ganga dags daglega á grjóti sem sumum þætti “alveg brilliant” að hafa undir fótum sér hversdags. Þetta er granít, kórund, sem leynir á fallegum safírum, og marmari, steintegundir sem fólk borgar háar fjárhæðir fyrir til að prýða húsakynni sín með. Á Naxos er þetta grjót hins vegar óheflað og óbundið, því eyjan sjálf er af náttúrunnar hendi smíðuð úr þessu eðalgrjóti. Frá fornu fari hafa eyjaskeggjar nýtt sér þetta grjót, og á eynni skapaðist hefð fyrir vinnslu þess, - ekki síst á marmara. Það þarf ekki að taka það fram að þar hefur mannshöndin verið öflugasta verkfærið.

Elstu heimildir um þróað menningarsamfélag á Naxos eru frá fjórða árþúsundi fyrir Krist, og þessar heimildir felast einmitt í grjóti; verkfærum, munum og hýbýlarústum. Naxosbúar lærðu fljótt að meta fegurðina í grjótinu undir fótum sér, og við fornleifauppgröft á grafreitum frá þriðja árþúsundi fyrir Krist hafa fundist vatnskönnur úr marmara, og það sem eyjaskeggjum þykir enn meira til koma, - marmarastyttur. Þetta eru fígúrur, - menn, konur og skepnur, og þótt þær séu smáar í samanburði við risavaxin marmaraverk Grikkja sem síðar urðu til, eru þetta elstu marmaralistaverk sem þjóðin á, og það þykir nú ekki lítið merkilegt í landi sem á svo stórkostlega hefð í tamningu grjóts. Naxosbúar eiga merkar minjar úr grjóti frá öllum tímum sögu sinnar. Hróður steinsmiða á Naxos var mikill um allt Grikkland og jafnvel víðar, og þeir voru oft og einatt fengnir til að smíða verk á meginlandinu og á eyjunum. Og oftast lögðu þeir efniviðinn til sjálfir – komu með eðalgrjótið með sér, - marmarann, sem þeir kunnu svo vel á. Á sjöundu öld fyrir Krist var marmari og annað grjót orðin helsta útflutningsvara eyjarinnar. Steinsmiðirnir Byzes og sonur hans Georgos þóttu undraverðir völundar; - urðu fyrstir manna til að reisa stórhýsi úr hreinum marmara og til þeirra er rakin fyrsta framleiðsla sem vitað er um á marmaraflísum til húsagerðar.

Eftir því sem aldirnar liðu urðu listaverk steinsmiðanna á Naxos stærri og fjölbreyttari. Löngunin til að skapa eitthvað ómannlega stórt var mikil, og það voru guðirnir sem áttu að njóta heiðursins. Kúros, eru þau kölluð risavöxnu líkneskin sem gerð voru af guðum í mynd ungra manna. Enn liggja tvö slík á Naxos, hvorugt fullklárað, á þeim stöðum þar sem smíði þeirra fór fram. Í þorpinu Melanes inni í miðju landi liggur ungur Apolló, og í þorpinu Apollonas á norðurströndinni, kúrir sjálfur guð eyjarinnar, Dýonísos.

Naxosbúum þykir það sumum súrt að í dag skuli flest öndvegisverk steinsmiða þeirra, smíðuð úr grjóti frá Naxos, vera staðsett annars staðar en á eynni sjálfri. Aðrir horfa á þá staðreynd stoltir, og finnst mikið til koma. Merkustu fornminjar á eynni helgu, Delos, fæðingarstað sjálfs Apollós, eiga uppruna sinn og tilurð að rekja til Naxos. Stytta af guðinum Artemis er þar á meðal, gjöf frá efnakonu á Naxos og smíðuð 650 fyrir Krist. Styttan er nú vistuð á Þjóðminjasafninu í Aþenu. Önnur stytta, af Apolló er þar einnig, smíðuð 600 fyrir Krist. Risavaxin marmaraljónin sem rísa upp á framlappirnar og horfa opinmynnt á heiminn, tákn eyjarinnar, eiga sömuleiðis uppruna sinn á Naxos. Hýbýli frá 7. öld eru enn aðrar minjar þar smíðaðar úr marmara frá Naxos af smiðum þaðan. Á meginlandi Grikklands er minjar úr grjóti ættaðar frá Naxos víða að finna. Sfinxarnir á Apollóhofinu í Delfí eru þar á meðal, ótrúlega falleg listaverk sem sýna vel færni steinsmiðanna frá Naxos í að höggva jafnvel fíngerðasta flúr í grjót.

Merkasta verkið sem steinsmiðir á Naxos smíðuðu er þó vafalítið hof, sem hafist var handa við að smíða um 530 fyrir Krist, á hæð á litlum tanga þar sem höfuðstaður eyjarinnar í dag, Hora, eða Naxosbær, stendur. Hofhliðið vísar í áttina að Delos, eyju Apollós, og því telja flestir fræðimenn að hofið hafi verið helgað honum. Talið er að hofið hafi aldrei verið fullklárað, en það var stórt í sniðum og fordyrið eitt smíðað úr fjórum marmarablokkum, sem hver um sig var sex metrar að lengd og vóg tuttugu tonn. En saga hofsins er dapurleg. Á fimmtu öld, var það gert að kristinni kirkju og komst í niðurníðslu. Á þrettándu öld, þegar Feneyingar komust til valda á Hringeyjum og gerðu Naxos að höfuðvígi sínu, urðu straumhvörf í sögu hofsins. Foringi Feneyinganna, Marco Sanudo tók sér titilinn “hertogi af Naxos” og lét umsvifalaust reisa mikið borgvirki efst á hæðinni yfir byggðinni, þaðan sem útsýni til hafs var best. En efniviðinn í kastalann tók hann illu heilli úr hofi Apollós. Kastalavirkið reis hratt, og er í dag ein af örfáum heillegum miðaldabyggðum Grikklands. Vegna þess þykir það stórmerkilegt og er afar fallegt, með þröngum litlum götum sem liðast eins og gangar í völundarhúsi að torgi þar sem kirkja og skólar og fleiri falleg mannvirki standa, þar á meðal skólinn sem höfuðskáld Grikkja á síðari tímum, Nikos Kazantzakis, höfundur Grikkjans Zorbas, gekk í á unglingsárum.

En dýrðin var dýru verði keypt. Grjótið úr hofi Apollós var mulið niður í meðfærilegar einingar og lifir nú sem miðaldakastali, en á tanganum þar sem það reis, stendur ekkert annað eftir en húsgrunnurinn og svo risavaxið fordyrið, sem reyndist Feneyingunum of þungt og mikið til að þeim tækist að eyðileggja það. Fordyrið, eða hofhliðið er í dag auðkenni Naxos, þar sem það gnæfir einmana en tignarlegt og tilkomumikið og horfir til hafs á tanganum við hafnarmynni höfuðstaðarins.

Þegar ég horfi á þau menningarverðmæti sem orðið hafa til á Naxos úr þessum frumstæðasta efniviði, grjótinu, verður mér hugsað til hleðslunnar fallegu í Þingvallasveitinni. Það skiptir kannski ekki öllu máli hve grjótburður mannsins hefur tekið á sig stórbrotnar myndir og hvort landið heitir Ísland eða Grikkland. Sennilega er vart til það byggða ból þar sem manneskjan hefur ekki tekst á við grjótið í einhverri mynd. Sú hugsun sem uppúr stendur snýst um handtökin sem kynslóðirnar hafa lagt á sig við að skapa sér menningu með því einu að temja grjót. Þau hljóta að vera fleiri en stjörnurnar í alheiminum.

Bergþóra Jónsdóttir

Greinin birtist í Morgunblaðinu 1. maí 2006.


Fleiri myndir

Göturnar á Naxos

Göturnar í Naxosbæ

Elsti hluti Naxosbæjar liggur í brattri hlíðinni undir kastalanum, Kastró.  Þarna bjó pöpullinn, meðan ráðamenn voru vel varðir innan virkisveggja.  Þessi bæjarhluti kallaðist Bourgos og er nokkur hundruð ára, og enn í fullu fjöri.  Göturnar eru sumar nánast einstigi, og ekki fært öðruvísi en fótgangandi.  Og hver sagði að götur ættu að vera beinar?  Ekki sá sem hannaði þessa byggð.  Maður veit aldrei alveg fyrir víst hvar maður lendir, þótt maður telji sig vera búinn að læra þetta - sumar göturnar enda líka bara á dyratröppunum heima hjá einhverjum.  Hvítir veggir allt um kring og hlaðnir stígar - hver öðrum líkur. Tröppur eru líka margar í Bourgos, enda bratt, - sums staðar eru göturnar barasta tröppur og annars staðar liggja tröppur uppá húsþök og jú, stundum að dyrum - það er ekkert gefið í stigamennskunni hér.  Og hví eru hér svona margir kettir?  Þeir stökkva framúr manni að elta eðlur, eða lúra bara á einhverjum tröppunum í skugga veggja eða trjáa.  Svo safnast göturnar saman í stígamót, og þar er gamli markaður bæjarins með besta ferskmeti eyjarinnar.  En þarna í þessu kræklótta skipulagi eru líka veitingastaðir og handverksfólk hefur komið sér þar fyrir víða í yfirgefnum húsum.  En svo eru þær þarna líka þessar yndislegu snótir sem guð má vita hvað eru gamlar; - svartklæddar og hoknar með skuplur, að hugsa um blómin sín eða eitthvað að dedúa.  Göturnar í gamla bænum eru sannkallað völundarhús, hvíld frá erli hafnargötunnar og skjól þegar sólin eða vindurinn gerast of ágeng.

 Beggaki 


Fleiri myndir

Músmúllapáskar

Páskaborðhald

Það er stemmning að sitja í myrkvaðri kirkju laust fyrir miðnætti á laugardagskvöld fyrir páska og bíða þess að presturinn kveiki fyrsta ljósið.  Þessi páskamessa er sérstæðasta guðsþjónusta sem ég hef sótt, og ekki að undra - ég hef aldrei sótt messu í orþódoxkirkju áður.  Ilmurinn er sterkur og í myrkrinu stirnir samt á gyllinguna í íkonum og öðru kirkjuskrauti.  Tónlistin er sérkennilega forn og minnir mjög á arabískan helgisöng.  Svo kemur ljósið - ein týra, sem verður að tveim, þegar presturinn tendrar kerti næstu manneskju, - og hægt og bítandi gengur ljósið milli manna eftir kirkjubekkjunum, þar til sneisafull kirkjan er full af birtu kertaljósanna.  Presturinn segir loks orðin sem beðið er eftir: Kristur er upprisinn! og fagnaðarlætin brjótast út.  Fólkið þyrpist út á kirkjutorgið með logandi kertin sín. Þar bíða sprengjumennirnir ekki boðanna og hefja flugeldaskothríð og annars konar sprengjuverk.  Gleðin breiðist um bæinn frá kirkjunum þremur í Naxosbæ, og allt ætlar vitlaust að verða í hamagangi.  Þetta tekur þó tiltölulega fljótt af, og fólk fer heim og borðar páskamáltíð sem að þjóðlegum sið er innmatur úr lambi, eldaður á sérstakan máta.  Ég tölti heimáleið og í háttinn, því sunnudagurinn, páskadagur, verður tekinn snemma.

Páskadagur rís bjartur og fagur og ég sit snurfusuð á veröndinni þegar Dimitri kemur og spyr hvort ég sé tilbúin.   Jú, ég er það - held ég, - veit reyndar ekkert hvert ég er að fara, eða við hverju ég á að búast.  Ég trítla niður tröppurnar í mannlausu húsinu og þar bíður Dimitri á svörtum forstjórajeppa.  Ég sest inn, - og hann fussar yfir áströlsku gestunum sem ætluðu að koma með í sveitina en eru týndir.  Einn rúntur niðrá höfn er allt sem þarf - þar sitja þau Rachel og Chris, ungt par frá Brisbane sem er á fimm mánaða heimsreisu áður en hafist verður handa við barneignir og búaleik.  Þá er brunað úr bænum í norðausturátt, og áfangastaðurinn er þorpið Engares, sem aðeins er í um 8 kílómetra fjarlægð frá bænum.  En hér verður ekkert ferðast nema að renna yfir eins og einn fjallgarð með krókóttum vegum, - og ferðin tók lengri tíma en ætla mætti.

Bílnum er lagt við lúið grindverk umvafið fallegustu villiblómum, - og þá hefst göngutúrinn, gegnum mela og móa, árfarveg og grjót, og ég á hælum, í tilefni af páskum.  En ilmurinn af gróðrinum dregur mig áfram og lyktin af grilli einhvers staðar í nálægð.  Loks komum við í lítinn lund, og þar er fjölmenni.  Pabbi Dimitris og mamma, systur hans þrjár, þeirra menn og börn; - kærastan, systir hennar og foreldrar þeirra, og svo aðskiljanlegustu skyldmenni og vinir.  Og við þrír útlendingarnir. 

Það var búið að dekka langborð með appelsínugulum dúk, og hlaða á það mat.  Úff.  Það voru meiri ósköpin.  Ég veit ekki hvort þetta voru tveir skrokkar eða þrír, en alla vega hef ég aldrei séð jafn mikið af grilluðu lambakjöti á einum stað.  Þarna voru líka salöt, kjötbollur sem heita kefteðes, brauð, bæði nýtt og grillað, ólífur, kartöflur, bæði steiktar og grillaðar, kjúklingapæ, sérstakt páskabrauð, möndlukökur, fetaostur, og svo ávexir. Amminamm, - ávextirnir voru tíndir af trjánum, jafnóðum oní gestina, appelsínur, mandarínur, sítrónur, og svo litlir yndislegir og dísætir ávextir sem heita músmúlla en ég hef ekki hugmynd um hvað heita á íslensku.  Já, og blómin á borðinu - þau voru öll tínd í þessum edenslundi - valmúi, krýsur og önnur blóm sem ég kann ekki að nefna.  Heimagert vín í boði húsbóndans var drukkið með kræsingunum - og auðvitað búið til úr berjum af vínviði sem vex á þessum skika þeirra.  En það var líka boðið upp á ouzo, bjór, gos og vatn fyrir þá sem það vildu.   Þarna sátum við í tæpa sjö klukkutíma og sölluðum á okkur, og stöðugt var verið að bera meiri mat af öllum sortum á borðið.  Það var auðvitað farið í páskaleikinn, sem er þannig að allir fá hver sitt egg - harðsoðið, málað í fallegum litum.  Svo halda tveir hvor um sitt egg, og reyna að brjóta egg hins. Sá sem eftir stendur með óbrotið egg, vinnur og reynir þá við egg næstu manneskju, og þannig er farið allan hringinn og sá sem er einn með óbrotið egg í lok leiksins er sigurvegarinn.

Það voru gömlu gömlu mennirnir sem stóðu sig best í dansinum, og kunnu meira en unga fólkið.  Það sem helst háði þeim við fótaburðinn var vínið og ouzoið sem þeir voru búnir að sötra vel þegar að dansinum kom.  Það voru líka fullorðnu mennirnir sem stóðu fyrir kínverjasprenginum þegar borðhaldið var um það bil að verða búið - litlu börnin auðvitað dauðskelkuð, - en karlarnir virtust skemmta sér vel í þessum strákaleik sínum.  Eftir að allir voru orðnir mettir og pakkaðir af mat, var enn borið þrisvar sinnum á borðið af grillinu.  Mamma Dimitris, frú Manolas, sló hvergi af allan tíman í húsmóðurstörfunum, og sá auðvitað til þess að við borðuðum vel - og meir en það, - allir fóru heim með stóra poka fulla af mat og ávöxtum, og blómvönd úr villiblómum.

 Þetta var nú meiri dýrðin, og ég er heppin að fá að taka þátt í svona veislu með heimafólki.  En hér er það bara svo sjálfsagt að allir séu með, og enginn er skilinn eftir þegar á að gleðjast.  Ástralirnir voru líka orðlausir yfir þessari einstöku gestrisni og sögðust hvergi hafa kynnst öðru eins.  Í þessu þorpi, Engares á Manolasfólkið þennan landsskika og þar rækta þau það sem þarf til hótelsins, - bæði ber í vín, ávexti, blóm og fleira, og þar eru þau líka með hænsni og kanínur og héra.  Húsið þarna er varla meira en kofi - gluggalaus og rafmagnslaus kytra með stóru fleti og svo hillum þar sem þau geyma sultur og ber og alls konar góðgæti.  Einn af mágum Dimitris sýndi Íslandi mikinn áhuga og fannst erfitt að trúa því að meðalvetrarhiti á Íslandi væri hærri en í köldustu þorpunum í norður Grikklandi.  Það er líka erfitt fyrir mig að trú því þar sem ég sit hér í hita og sól og les fréttirnar að heiman um hálku og snjó.  

Beggaki


Fleiri myndir

Gleðilega páska

Páskaeggin á Naxos eru flott

Já, gleðilega páska.  Það stefnir í mikla páskagleði hér á Naxos, og allt á fullu í undirbúningi.  Lambsskrokkar í heilu í pokum aftan á vespum og mótorhjólum, og fólk að skiptast á kertum og páskaglaðningi.  Frú Manolas á hótelinu mínu færði mér í morgun bakkelsi og máluð egg í tilefni dagsins. Laugardagurinn er nefninlega mesti hátíðardagurinn - og flest allt lokað - alveg öfugt við það sem er heima.  Í kvöld kl. 23 fer ég í upprisumessu með Aþenu og hennar fólki, og morgun fer ég með Dimitri og hans fólki eitthvert inn í land - til að grilla lamb og gleðjast.  Ég er orðin ær af hávaðanum í sprengjum og kínverjum og ef marka má þessi læti verður flugeldaskothríðin á miðnætti örugglega stórfengleg.

Beggaki


Kastró

Kastró

Það má segja að toppurinn á tilverunni hér á Naxos sé Kastró.  Kastró, er heilmikið borgvirki, sem trónir á efstu hæð byggðarinnar, og rís hátt, nokkur hundruð metra yfir sjávarmáli.  Kastró þýðir kastali og í þennan kastala er sko ekki auðhlaupið.  Það tók mig reyndar nokkra daga að safna í mig kjarki og þreki til að ráðast til uppgöngu, enda er mannvirkið hannað í þeim tilgangi að heimsóknin þangað sé bæði svínslega erfið og ógreiðfær.  Þetta er semsagt alvöru virki. Það var Feneyingurinn Marco Sanudo sem byggði Kastró árið 1206, en Feneyingar komust til valda á eynni, undir hans stjórn, eftir fjórðu krossferðina.  Í þrjúhundruð ár, var Hringeyjum öllum stýrt úr þessum himinháa kastala, og Naxos var höfuðstaður eyjanna.  Það er eiginlega hræðilega sorglegt, að kastalinn var að hluta til byggður úr efniviði sem tekinn var úr hofinu fallega sem byrjað var að reisa þar sem nú er hafnarmynni bæjarins, árið 522 fyrir Krist.  Það hof var aldrei fullklárað, og nú stendur þar aðeins risavaxið hofhliðið, helsta kennileiti eyjarinnar.

En aftur að Kastró.  Kastalinn var byggður að feneyskri hefð, og göturnar þröngir rangalar, með fallegum torgum inn á milli.  Í suðvesturhluta virkisins, er hús Barozzi fjölskyldunnar, en einhverjir af því sauðahúsi stofnuðu Feneyjar á sínum tíma. Barozzifólkið réði ríkjum á eynni Santorini á þrettándu öld.  Annað flott mannvirki í kastalanum er Della Rokka húsið, eins og Grikkirnir kalla það, en það tilheyrði franskættaðri fjölskyldu, De la Roche.  Í þeirra híbýlum er nú feneyskt safn sem gaman er að skoða.

En það er líka fleira fallegt innan múrsins.  Þarna er kaþólsk kirkja, og tveir skólar, meðal annars jesúítaskóli, sem státar af ekki aumingjalegri fyrrum nemum en sjálfum Nikosi Kazantzakis, sem skrifaði Alexis Zorbas og fleiri góðar sögur.  Þar er nú aðal minjasafn eyjarinnar.

Ég ætla ekki að lýsa í smáatriðum þeirri mæðu að komast upp í Kastró, eða angistinni við að finna inngang í herlegheitin.  Ég kom austanmegin að, og þar er inngangan í gegnum lítil bogagöng sem eru eiginlega falin bak við trjágróður.  Þegar inn er komið tóku við rangalar og stígar og tröppur - allt uppávið auðvitað, en loks er komið að fyrstu byggingunum, sem eru byggðar inn í múrinn sjálfan.  Friðurinn og kyrrðin, eldsnemma morguns, gerðu þennan stað nánast helgan.  Ég var ein á ferli, og umsvifalaust var mér kippt inn í horfnar aldir.  Það er engin leið að lýsa stemmningunni og hughrifunum sem ég varð fyrir þarna.  Forneskja - er allt of ljótt orð, - fyrnd, er skárra, - eilífð, kannski skást.  Fyrir konutetur af Fróni, sem hefur fátt annað en heimóttann í vegarnesti útí heiminn, er þetta mikilfenglegt.  Tíminn hvarf meðan ég ranglaði um þröngar traðirnar - allar úr skjannahvítum marmara, og eina merkið um lífverur, aðrar en þær fljúgandi, - var köttur sem kúrði við vegg, og gömul kona, sem býr þarna enn, en íbúum kastalans fækkar nú óðum.

Ég rambaði loks á annan útgang - aðalhlið Kastró, í suðvesturendanum, og tölti niður hallann, gegnum gamla bæinn á Naxos, þar sem göturnar eru örmjóar og liggja víða undir húsasund og tröppur.  Ein og ein mannvera á stangli, - og þeim fjölgaði eftir því sem neðar dró.  Neðst í gamla bænum, rétt ofan við hafnargötuna hafa einyrkjar sest að í litlum kytrum, og þar föndra þeir við að smíða alls konar glingur og skart til að selja ferðamönnum, og margir hafa séð tækifæri í að opna þarna litla sæta veitingastaði með grískum mat.  Þarna er líka lítil djassbúlla, og svo gamli markaðurinn, þar sem ægir saman öllu besta ferskmeti eyjarinnar, ávöxtum, ólívum, hunangi, og grænmeti í stórum trogum.  Þessi bæjarhluti er hrífandi í fallegri elli sinni, og hingað er gott að koma til að upplifa það á eigin skinni hvað tíminn er í raun og veru afstæður.

 Beggaki


Fleiri myndir

Frændi minn

Drengurinn fíni

Það var ekki löng bið eftir því að litla krílið hennar Siggu systur kæmi í heiminn.  Þetta gerðist hratt og örugglega og stór og pattaralegur snáði heilsaði foreldrum sínum fyrir miðnætti 18. apríl.   Ég samgleðst henni systur minni svo innilega, og nú finnst mér erfitt að vera ekki heima.  Kannski að ég sé bara búin að þrá þetta barn hennar meira en hún sjálf.  Varla - en víst er að það verður baðað í ást og umhyggju alla sína daga, og faðirinn, minn elskulegi mágur, Þórir Bragason, er efni í súperpabba.  Nú bíð ég bara eftir mynd af kútnum, - býst fastlega við því að hann sé nauðalíkur mér.

Begga


Fólkið á Scirocco

Scirocco

Þau eru búin að taka mig að sér, elskulega fjölskyldan á Scirocco.  Pabbi Stratos, mamma Ekaterina, bræðurnir Nikos og Mikhalis og systirin Aþena.  Þau reka saman indælasta veitingahúsið á torginu mínu, og hjá þeim borða ég oft.  En Scirocco er ekki bara staður til að borða á, - þar hittir maður alla sem vert er að hitta og nenna að eyða tíma í þá göfugu list að tala saman, þar er hægt að sitja tímunum saman og lesa í bók, þar er hægt að hangsa yfir vínglasi; - þar er hægt að eyða heitum dögum í skugga undir laufþaki ef maður hefur ekkert annað að sýsla.  Maturinn hennar Ekaterinu er óhemju góður.  Og hún hlær og verður feimin þegar maður segir það við hana. Hún stendur vaktina í eldhúsinu alla daga, en fær vinkonu sína til að hjálpa sér þegar mikið er að gera. Stratos átti sér þann draum, að koma upp þessum veitingastað, og það tókst.  Skömmu síðar fékk hann heilablóðfall og varð að fara í uppskurð, og getur lítið unnið.  Hann situr og spjallar við gesti, drekkur kaffi, sveiflar perlubandinu sínu, og spilar kotru við hina karlana.  Nikos er elstur, 38 ára, og Mikhalis er 34 ára.  Þeir hafa báðir skoðað heiminn og bjuggu um tíma í Svíþjóð.  Þeir eru alltaf kátir og hlýlegir og elska þennan stað og vinnuna sína. Flestir grísku gestirnir knúsa þá og kyssa þegar þeir koma, og það segir manni ýmislegt um virktir þeirra í bænum.  Þeir hafa óhemju gaman af að reyna að tala sænsku við mig, en nota líka hvert tækifæri til að kenna mér grísku. Aþena er áhugaverð stelpa, 28 ára.  Hún elskar staðinn líka, en segir að sig langi samt burtu.  Hana langar að ferðast og skoða heiminn og kannski að mennta sig meira.  Hún getur ekki hugsað sér líf sitt á Naxos um aldur og ævi.  Þótt Aþena elski fjölskyldu sína, þá segir hún þetta líka fjötra.  Mamma hennar reikni með því að hún sé til staðar fyrir þau. Katerina reiðir sig á hana, þótt strákarnir hafi sýnt að þeir spjari sig prýðilega í fjölskyldurekstrinum.  Það eru hefðirnar og sagan sem Aþena hefur illan bifur á.   Hún segir fólk á Naxos líta sig hornauga fyrir að vera orðin 28 ára, og ekki búna að festa ráð sitt og eiga börn.  Henni finnst landar hennar öfundsjúkir, tala illa um nágrannann og ekki hugsa um neitt nema peninga og efnisleg gæði.  Hún er búin að vera með strák í sjö ár, en er ekki lengur viss um hvort hún vilji bindast honum, því hann sé alveg hættur að segja nokkuð fallegt við hana og taki hana sem gefinn hlut.  Hún er ekki viss um að þetta sé lífið sem hana langaði til að lifa.

Svona er Aþena opin og einlæg.  Hún sest hjá mér þegar færi gefst, þegar hún er búin að loka bókhaldsskruddunum, - því bókhaldið er hennar verk.  Hún er með svo stór falleg brún augu, - spurul augu, - og hún spyr mig og spyr hvað ég hafi gert um dagana.  Ekki það að mitt líf hafi verið neitt sérstaklega óvenjulegt eða merkilegt, - en hún er sjúk í sögur af fólki, og finnur þar kannski farvegi fyrir sína eigin drauma.  Hún vill vita hvernig er á Íslandi, hvernig er í Ameríku, og á þeim stöðum sem ég hef þvælst til, - og hún spyr hvort það sé ekki dásamlegt að eiga yngri systur, og til hvers foreldrar mínir hafi ætlast af mér.

 Það er gaman að tala við unga konu sem er svona full af þrá og löngun, og langar til að slíta af sér viðjar hefðarinnar, og horfa keik framan í heiminn.  Hvað get ég annað en stappað í hana stálinu, og sagt henni að bræður hennar séu fullfærir um að passa pabba og mömmu og sjá um staðinn, og að eins og þau haldi mikið uppá hana, muni hún alltaf eiga athvarf hjá þeim, þegar hana langar að snúa til baka.  Þetta veit hún auðvitað, en skrefin eru þung og buddan létt.   Hún nær í skot handa okkur, - kahlúa með rjóma, og segir mér sögu af vinkonu sinni sem langaði að skíra barn sitt nafni út í bláinn, - en það er ekki venjan hér.  Hér er ákveðin regla á því, hvaða afa er byrjað á, þar til búið er að dekka afa og ömmunöfnin fjögur, - og þá fyrst má skíra barn útí bláinn - fimmta barn.  Vinkonan uppskar það að amma hennar hefur ekki tala við hana frá því að barnið fæddist, og það hvín í Aþenu þegar hún segir þetta.  "Ég vil ekki lifa svona," segir hún hneyksluð á því að eitt barnsnafn skuli getað valdið slíkum þjáningum í einni fjölskyldu.     

 Aþena vill að heimurinn verði betri - og sérstaklega við fátækt fólk og konur.  Hún hefur líka ákveðnar skoðanir á uppeldi og menntun.  Hún talar um hörmungarnar í heiminum, og er búin að gera það upp við sig, að þegar hún kemst til valda, þá verði bannað að kenna mannkynssögu.  "Nú?" spyr ég hissa.  Jú, það er vegna þess að í mannkynssögunni er stöðugt verið að minna fólk á gömul stríð, gamalt hatur, gamla heift, eins og fólk "megi" ekki gleyma því.  Í staðinn vill hún að börnum verði kennt að hugsa um framtíðina, og hvað þau geta gert til að gera heiminn betri og þykja vænt um náungann. 

Mér finnst gaman að sitja í þessu landi heimspekinganna og hlusta á eldmóðinn í heimspekilegum vangaveltum Aþenu, og ég veit að hún hefur nokkuð til síns máls, - kannski bara heilmikið.  Við kveikjum okkur í sígó, og þegjum smá stund, og svo spyr hún skellihlæjandi hvort það sé ekki gaman að vera með svona blá augu, og hvort ég vilji skipta.  Síminn hringir, og Sigga systir segir mér þau tíðindi að barnið hennar vilji fara að komast í heiminn - ég segi Aþenu það, og hún rífur af mér símann, til að óska Siggu til hamingju.   Nú finnst Mikhalis greinilega komið nóg af hangsi systur sinnar og kallar á hana að koma að hjálpa sér.  Sjálfur notar hann hvert tækifæri til að setjast niður með gestum sínum og spjalla.  Meir að segja mamma Katerina hefur gaman af spjalli og kann nógu mikið í ensku til að geta rætt um daginn og veginn.  Hér er ég Beggaki, - Begga litla, - það er hlýleg kveðja, og þótt matarvistin hjá þessu væna fólki sé óskaplega góð, þá er eiginlega enn betra bara að vita af þeim í tilveru minni hér og geta sest niður og verið eins og heima hjá mér og eiga von á skemmtilegu spjalli - og kannski ouzo eða raki með því.

Beggaki


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband