Bloggfærslur mánaðarins, mars 2006
29.3.2006 | 14:16
Kristinn og Heiðinn skulið þið heita
Ég er sannfærð um, að með því að gefa opinberri nefnd vald til að úrskurða um nöfn á þeim grunni hvað gæti hugsanlega valdið einhverjum ama, séu grundvallarmannréttindi brotin.
Manni verður það stundum á að verða þvers án þess að ástæða sé til - gefa sér niðurstöður fyrirfram af fyrri reynslu - niðurstöður sem engin rök reynast svo fyrir. Þannig var það, þegar búið var að rífa niður Íslandsbankamerkið af byggingum bankans úti um alla borg, og spurðist að bankinn hygðist breyta um nafn að það fyrsta sem mér datt í hug var að nú væri einhver fjárans grúpp að fæðast - eitthvert dæmigert íslenskt minnimáttarfyrirbæri, sem þyrði ekki að standa stolt með sínu nafni. Ég get því ekki annað en dáðst að hugrekki Íslandsbankafólks fyrir að þora að láta fyrirtækið bera fallegt íslenskt nafn sem á sér rætur í norrænni goðafræði og langa sögu. Glitnir var bústaður Forseta, framan við Ásgarð, en Forseti miðlaði málum þeirra er deildu. Engir komu ósáttir frá heimsókn sinni í Glitni og hjá Forseta réð réttsýni í allra garð. Lýsingin á Glitni hér að ofan og lesa má í Gylfaginningu ætti að hæfa fyrirtæki sem víxlar með gull og silfur í formi peninga, og vissulega verður það freistandi að kalla bankastjórann sem vildi ekki láta kalla sig bankastjóra, Bjarna Ármannsson, Forseta hér eftir.
Nafngiftinni Glitni fylgir reisn sem er til fyrirmyndar, en þá reisn vantar sorglega í nafngjöfum íslenskra stórfyrirtækja í dag. Af einhverjum óskiljanlegum heimóttarskap er komið í tísku að taka upp alþjóðleg nöfn - Icelandair, til dæmis - er orð sem maður nennir varla að taka sér í munn, það er svo hallærislegt, þegar maður getur sagt Flugleiðir. Rök Bjarna Ármannssonar fyrir nafnbreytingunni sem hann setti fram í Kastljósi á sunnudagskvöld, snerust um það að auðvelt yrði fyrir útlenda viðskiptavini að bera nafnið fram, og eru vissulega réttmæt. Auðveldasta leiðin hefði eflaust verið að taka upp útlent nafn og láta okkur Íslendingsræflana klæmast á því eins og Flugleiðir gera, til þess að misbjóða ekki aumingja útlendingunum. Þeim mun meiri ástæða er til að hrósa Glitni fyrir nafnið.
Ég er ekki frá því að það ætti að breyta hlutverki mannanafnanefndar. Í stað þess að vera úrskurðarvald um hvað fólk "má" heita, ætti nefndin að vera til ráðgjafar um val á nöfnum - ekki bara á fólk, heldur líka - og kannski ekki síður, á fyrirtæki. Mér sýnist ekki veita af í þeirri grein. Enn bendi ég þó á nafn Betrunarhússins sem eins besta nafns á íslensku fyrirtæki. Betrunarhúsið er líkamsræktarstöð - nafnið svo fullkomlega við hæfi, og með sterk tengsl við sögu og hefð. Hvaða snillingur átti hugmyndina að þessari nafngift?
Nöfn fólks hafa svo miklu tilfinningalegra gildi fyrir þá sem gefa það og þá sem bera það en nöfn fyrirtækja - og ástæðurnar fyrir sérkennilegum mannanöfnum geta verið margar. Allir eiga ættingja með skrýtin nöfn, eða bera þau jafnvel sjálfir. Ég hef verið að velta fyrir mér nafninu Satanía, sem fékk ekki náð fyrir augum mannanafnanefndar. Mannanafnanefnd styðst við fimm atriði í úrskurði um nöfn. 1. Þau þurfa að geta tekið íslenskri eignarfallsendingu eða hafa unnið sér hefð í íslensku máli. 2. Þau mega ekki brjóta í bág við íslenskt málkerfi. 3. Þau skulu rituð í samræmi við íslenskar ritvenjur nema hefð sé fyrir öðrum rithætti þess. 4. Þau mega ekki vera þannig að þau geti orðið þeim sem bera þau til ama. 5. Stúlku má aðeins gefa kvenmannsnafn og dreng aðeins karlmannsnafn. Þessar kröfur ætti nafnið Satanía allar að standast, en mig grunar - án þess að muna fyrir víst, að nafninu hafi verið hafnað á forsendu fjórða liðarins: að talið hafi verið að nafnið gæti orðið barninu sem átti að bera það, til ama. Ég er sannfærð um, að með því að gefa opinberri nefnd vald til að úrskurða um nöfn á þeim grunni hvað gæti hugsanlega valdið einhverjum ama, séu grundvallarmannréttindi brotin. Hvernig í ósköpunum á þetta fólk að vera þess umkomið að meta slíka hluti. Fjöldi fólks ber nöfn sem vísast er að einhverjum þætti ami af að bera. Hrappur og Ljótur eru prýðileg nöfn, en hafa neikvæða merkingu í hugum margra, jafnvel þótt ljótur geti líka þýtt bjartur. Yrði karlmannsnafninu Heiðinn hafnað, þótt Kristinn sé leyft? Ekki er víst að aðstandendur Sataníu séu kristnir. Varla er það kvenmyndin af Satan sem vefst fyrir nefndinni, þegar Erlar, Liljar, Annar og Fjólar eru allt gjaldgeng karlmannsnöfn.
Oftar en ekki finnst manni mannanafnanefnd á hálum ís í úrskurði sínum um nöfn sem engin ástæða ætti að vera til að hafna af málfræðilegum ástæðum eða á grundvelli íslensks ritháttar. Nýtt dæmi er Engifer. Hvað er það öðru vísi en Kristófer? Er það kryddjurtin sem fer fyrir brjóstið á mannanafnanefnd? Þarf jurtin að vera falleg, eins og sóley, til að megi nota hana sem mannsnafn? Varla snýst það um hvort plantan er æt, því bæði Hvönn og Fífill eru leyfileg mannanöfn.
Starfræksla mannanafnanefndar í núverandi mynd er á villigötum og reglur þær sem farið er eftir gætu vel stangast á við mannréttindaákvæði stjórnarskrár. Það yrði farsælla ef hún fengi það hlutverk að aðstoða fólk og fyrirtæki, gefa ráð, og sýna frumkvæði og hugmyndaauðgi í nýnefnum í stað þess að úrskurða um nöfn á afar hæpnum grunni.
Bergþóra Jónsdóttir (begga@mbl.is)
Viðhorf, birt í Morgunblaðinu 14. mars, 2006.
Viðhorf | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.3.2006 | 14:13
Kynveran Solla
Telpan er gerð að konu, og glatar þar með æsku sinni, og konan er gerð að glyðru og tapar þar með frelsi sínu til að vera sú kynvera sem hún sjálf kýs.
Í auglýsingunum sjást krakkar lýsa skoðunum sínum á því hvað fullorðið fólk má ekki gera við þá. Þær eru nokkuð áhrifamiklar.
Í Kompási var hins vegar sett upp gildra á einkamálavef, þar sem þrettán ára stúlka kynnti sig og óskaði eftir kynnum við karlmenn. Það stóð heima, að tugir karlmanna settu sig í samband við stúlkuna, þótt ungur aldur hennar dyldist engum. Leikurinn var spunninn áfram og kom í ljós að fjórir karlmenn sem ákveðið var að halda sambandi við, fyrir hönd stúlkunnar, voru meir en fúsir að hitta hana til ástarfunda, þótt hún ítrekaði í samtölum sínum við þá, að hún væri aðeins þrettán ára.
Það þarf ekki að orðlengja þá sögu, svo sorgleg sem hún er.
Í þættinum kom fram að 17 prósent íslenskra barna, fimmta hver stúlka og tíundi hver drengur verða fyrir kynferðislegri misbeitingu fyrir 18 ára aldur. Ekki kom fram hvers vegna tvöfalt fleiri stúlkubörn lenda í slíkum háska, en það er rannsóknarefni út af fyrir sig. Aðeins þrjú prósent tilfella eru kærð til lögreglu, en ekki kom fram í þættinum hve margar kærur leiða til formlegrar ákæru dóms. Það er sorgleg staðreynd að þær eru allt of fáar.
Þau vöktu sérstaka athygli mína í Kompássþættinum, orð sem höfð voru eftir fyrrverandi yfirlækni á neyðarmóttöku vegna nauðgana. Hann sagði að hefðbundið siðgæði og gildi í uppeldi barna ættu undir högg að sækja gagnvart tísku sem væri mjög ágeng og nærgöngul og reyndi að breyta börnum í kynverur áður en þau verða fullþroska.
Þessi ummæli læknisins ríma fullkomlega við frábæra grein eftir Ágústu Johnson sem birtist hér í blaðinu 17. febrúar. Þar talar Ágústa um brenglaða staðalímynd stúlkna og kvenna, og segir hennar gæta allt niður í 7-8 ára aldur.
Ágústa segir: "Hið eftirsótta útlit ungra kvenna snýst ekki aðeins um það að verða ofurmjóar, heldur einnig um það að vera sem mest kynæsandi! Sýna allar línur, brjóstin hálfber, g-strengurinn upp úr, ber magi með gat í nafla o.s.frv." Hún sakar fyrirmyndirnar, þann litla hluta kvenna heims sem lifa og hrærast í heimi tískunnar, um að vera ekki aðeins vondar fyrirmyndir, heldur óraunhæfar. Ágústa spyr hvort foreldrar hafi brugðist í uppeldinu, og hvort almennur skortur sé á sjálfsvirðingu hjá ungum stúlkum í dag.
Ég held að hvort tveggja geti verið rétt, en myndi seint treysta mér til að draga ungar stúlkur einar til ábyrgðar á því sem kann að virðast skortur á sjálfsvirðingu. Meinið er að mínu mati dýpra og rótgrónara en svo.
Það er staðreynd, að í verslunum í Reykjavík, fást nærföt á litlar telpur sem líta út eins og nærföt fullorðinna kvenna. Ullarbolur, bómullarbolur utanyfir og vænar bómullarnærbuxur, eru ekki tíska dagsins í dag fyrir stúlkur, heldur haldlitlar hýjalínsdulur: g-strengur og uppstoppaður brjóstahaldari. Þannig lítur barnið auðvitað út eins og fulltíða kona - með barm þótt enginn vísir að barmi sé fyrir. Og merkilegt nokk, þetta virðist seljast. Eru það ömmur og afar sem kaupa slíkan klæðnað á barnabörnin - eða eru það foreldrar? Varla eru það börnin sjálf. Það er líka staðreynd að í verslunum hér hafa sést flíkur á telpur með áprentunum á borð við: prostitute in training og kiss my ass.
Slík klámvæðing gerir út á konulíkamann - gerir hann að markaðsvöru. Ekki bara með því að hann sé beinlínis sjálfur markaður fyrir milljarðabisness útlitsdýrkunarinnar sem Ágústa nefndi, heldur er hann sjálfur söluvara. Kynþokki er söluvara.
Telpan er gerð að konu, og glatar þar með æsku sinni, og konan er gerð að glyðru og tapar þar með frelsi sínu til að vera sú kynvera sem hún sjálf kýs. Það fallegasta, eðlilegasta og besta í samlífi fólks, kynlífið, er dregið niður í fúlan peningapytt og markaðsmykjuhaug. Og dapurlegt er að við erum að verða ónæm fyrir ósköpunum.
Það er ömurleg staðreynd að Ríkisútvarpið, í eigu okkar allra, og með þátttöku okkar allra, skuli enn ýta undir klámvæðinguna og styrkja hana í sessi, með því að velja árlega kynþokkafyllsta fólk landsins. Allir eru á framboðslistanum, hvort sem þeim líkar betur eða verr. Í fyrra varð fjaðrafok vegna þess að sú sem hlaut titilinn kynþokkafyllsta konan, kærði sig ekkert sérstaklega um að verða þessa tvíræða heiðurs aðnjótandi. Í verðlaun voru hjálpartæki ástarlífsins og fleira.
Enn var þessi keppni haldin á dögunum, og kom sjálfsagt engum á óvart að leikritið Silvía Nótt skyldi sigra. Ber það ekki merki um firrt veruleikaskyn okkar í ljósi þess að Ágústa Eva Erlendsdóttir skyldi svo hreppa fjórða sætið. Ef ekki þá er það örugglega til marks um algeran sofandahátt okkar og andvaraleysi - eða á ég kannski bara að kalla það okkar eigin samsekt, að Solla stirða - ímynd heilbrigðrar og góðrar telpu skyldi valin í áttunda sæti í þessu fáránlega vali, sem er útvarpinu til skammar. Hvaða brenglun er hér í gangi? Hafi það verið börn sem kusu Sollu kynþokkafyllstu konuna er það í sjálfu sér hryllingsfrétt. Hafi fullorðnir gert það, finnst mér þeir ekkert betri en karlarnir fjórir í Kompási.
Bergþóra Jónsdóttir (begga@mbl.is)
Viðhorf, birt í Morgunblaðinu 24. febrúar 2006.
Viðhorf | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.3.2006 | 14:10
Silvía Sökksess
Munurinn á framtíðarhópi Viðskiptaráðs og Silvíu Nótt er sá, að meðan hún er satt leikrit er hann lygilegur raunveruleiki - og það er grundvallaratriði.
Annars get ég sagt ykkur í trúnaði að það er eitt sem ég hef mikla minnimáttarkennd yfir gagnvart Silvíu Nótt. Meðan ég engist um í vel innrættu samviskubiti yfir því hvað ég er farin að slangra og sletta ógeðslega mikið - á ensku, og tala almennt asnalega þegar ég er ekki sérstaklega að vanda mig - þá stendur hún keik, hrein og bein og fullkomlega einlæg, talar eins og henni sýnist og brúkar þann munn sem henni er gefinn. Hún er búin að sjá ljósið! Og þið hneykslist? Óþarfi, - segi ég, því senn líður að því að vel innrættum samviskuþrautum mínum linni, og við Silvía Nótt verðum sem síamstvíburar í hispurslausum talsmáta þar sem slangur og slettur fá ekki bara að njóta sín, heldur öðlast viðurkenningu. Framtíðarhópur Viðskiptaráðs Íslands vill bæta enskukunnáttu mína - og telur brýnt að ég verði jafnvíg á bæði málin. "Hvert í logandi" - hvað? ...þegar "what the fuck" hljómar miklu betur, að ekki sé talað um hagræðinguna sem næst með sparnaði á stöfum og atkvæðum. Hingað og ekki lengra, og afsakið orðbragðið.
Snilld Silvíu Nætur felst í því hvað hún er tær mynd af íslensku þjóðinni. Hún sér í gegnum okkur; er löngu búin að átta sig á að Eurovision er vettvangurinn fyrir hana, - einmitt vegna þess að þar er veruleikinn marflatur, geldur, steindauður, - og enskur! Þar eru engar víddir, engin sérkenni, ekkert sem gæti storkað einsleitninni - nema einmitt hún. Silvía Nótt er perla sannleikans, meðan allt annað er skrum.
Framtíðarhóp Viðskiptaráðs dreymir stóra drauma um frægð og frama, eins og Silvíu Nótt; - dreymir um að íslenska þjóðin verði eins og aðrar þjóðir, - aðrar merkilegar þjóðir, þjóðirnar sem hafa eitthvað að segja, þjóðirnar sem hafa völdin. Þær tala líka ensku. En munurinn á framtíðarhópi Viðskiptaráðs og Silvíu Nótt er sá, að meðan hún er satt leikrit er hann lygilegur raunveruleiki - og það er grundvallaratriði. Þess vegna er Silvía Nótt sökksess, en framtíðarhópurinn ekki.
Hópurinn segir í skýrslu sinni að tvímælalaust eigi að færa enskukennsluna niður í yngstu bekki grunnskólans þegar börnin séu móttækilegust fyrir málörvun, og að sjálfsagt sé að árið 2015 verði ákveðnar námsgreinar í grunn- og framhaldsskólum kenndar á ensku. Og hvað er í húfi ef við gerum þetta ekki? Við gætum ekki notið okkar í alþjóðlegum viðskiptum og samskiptum!
Og bitte nú!
Satt að segja hef ég staðið í þeirri trú að Íslendingar væru þegar þjóða bestir í ensku, - fyrir utan þær sem hafa hana að móðurmáli. Svíar eru kannski betri - ég veit ekki. Hvers konar heimsyfirráð eru það eiginlega sem framtíðarhópurinn sér fyrir sér fyrir okkar hönd? Og hefur einhverjum þótt viðskiptavit Íslendinga í útlöndum naumt skorið? Er þetta ekki þjóðin sem hefur selt útlendingum fisk frá því hún man eftir öðru en mold og töðu, og staðið sig vel í því? Eru Íslendingar ekki að kaupa upp bæði Lundúnir og Kaupmannahöfn? Eigum við ekki banka og verksmiðjur í Austur-Evrópu? Það eru hversdagsfréttir að heyra af landvinningum þjóðarinnar erlendis og ekkert sem bendir til þess að henni séu neinar hömlur settar fyrir kunnáttuleysi í ensku, - þvert á móti. Okkur skortir ekkert þegar að enskunni kemur. Þar erum við seif.
En ég spyr á móti hverslags þröngsýni og hugmyndafátækt það sé hjá framtíðarhópi Viðskiptaráðs að ætla okkur bara að geta talað við enskumælandi fólk, - úr því að á annað borð er verið að sigra heiminn. Varla er það eina fólkið sem stundar "viðskipti og samskipti".
Ég ætla að leggja það til að hverjum og einum skóla í landinu verði skylt að kenna nemendum sínum eitt "framandi" tungumál. Enskukunnátta hefur ekki bjargað þjóðum heims frá stríðum og volæði, og nær að leggja sig eftir tungumálum sem hugsanlega geta bætt samskipti okkar við aðra heimshluta. Hvernig væri ef Rimaskóli yrði úrdú-skólinn, Vesturbæjarskóli yrði portúgölsku-skólinn, Fellaskóli yrði marathi-skólinn, Laugarbakkaskóli yrði quechuaskólinn, Glerárskóli yrði arabískuskólinn, Hvassaleitisskóli yrði japönskuskólinn... þá fyrst færum við að tala bissness - ekki satt? Og bara svo þið vitið það, þá tala 80 milljónir manna marathi, og væri nú virkilega gaman að heyra hvað það fólk hefði að segja af sínum högum - að ég tali nú ekki um að gera við það bissness.
Og svona í framhjáhlaupi í lokin langar mig að nefna það, að það væri líka fínt ef við héldum áfram að tala íslensku. Ég kann hana nefnilega þokkalega. Mér finnst þó ekki nóg, að "mikilvægt sé að slá hvergi af kröfunni um að "viðhalda" íslenskri tungu, eins og það var orðað í fréttinni um skýrslu framtíðarhópsins - viðhald hljómar eins og ill nauðsyn. Íslenskuna á að nota sem skapandi verkfæri orðs og æðis. Silvía Nótt skilur sannleikann í því.
Bergþóra Jónsdóttir (begga@mbl.is)
Viðhorf, birt í Morgunblaðinu 10. febrúar, 2006.
Viðhorf | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.3.2006 | 14:07
Kirkja og kynhneigð
Kirkjan ætti að vera þakklát fyrir að enn skuli vera til fólk sem telur það skipta máli fyrir sig að persónulegir sáttmálar þess í millum skuli helgaðir trúnni.
Í mínum huga er trú eitthvað sem hver og ein manne sk ja á við sitt eigið sjálf. Trú er persónuleg afstaða einstaklingsins til lífsins, heimspeki, siða, hugmynda um tilveruna og hlutverk manneskjunnar í henni. Trú byggist á vilja manneskjunnar til að gangast undir ákveðna hugmynd sem henni er að skapi og samrýmist viðhorfum hennar til lífsins. Í hugtakinu trúfrelsi felst það að hver og einn eigi rétt á því að fylgja þeirri trú sem hann aðhyllist - eða ekki. Manneskjan hlýtur því að eiga jafnan rétt til þess að vera trúlaus, telji hún sig ekki hafa þörfina fyrir að aðhyllast ákveðinn sið.
En mannfólkið er misjafnt - sem betur fer. Við erum ekki öll eins, og sumir lofa einmitt guð sinn fyrir fjölbreytileika sköpunarverksins. En burtséð frá hugmyndum okkar um sköpunarverkið og höfund þess, er staðreyndin sú að við erum mismunandi í öllu tilliti - líkamlega, andlega, félagslega, hugmyndalega, útlitslega, hvort sem það er "af völdum sköpunarverksins" eða af öðrum ástæðum. Vilji er til þess í samfélaginu að sú grundvallarhugmynd sé virt að allir einstaklingar séu jafnréttháir án tillits þess sem greinir þá að. Sumir eru trúaðir, sumir eru samkynhneigðir, sumir hvort tveggja. Trúfrelsi tryggir að sá trúaði hafi rétt á því að rækta sína trú skv. 63. grein stjórnarskrárinnar, og 65. grein stjórnarskrárinnar á að tryggja að þeim gagnkynhneigða sé ekki mismunað á grundvelli kynhneigðar sinnar. Á milli þessara tveggja greina stjórnarskrárinnar er 64. greinin, sem kveður á um að enginn megi missa af borgaralegum og þjóðlegum réttindum fyrir sakir trúarbragða sinna.
Þessi klausa hlýtur að vera meingölluð, því samkvæmt öðru, ætti að vera tekið fram, að enginn megi missa af borgaralegum og þjóðlegum réttindum - ekki bara fyrir sakir trúarbragða sinna, heldur einnig: "...án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti," eins og það er orðað í mannréttindagreininni, þeirri 65. Ef 65. greinin er gild, ætti 64. greinin að fela í sér að engir mættu missa af borgaralegum og þjóðlegum réttindum.
Það efast enginn um að það séu bæði borgaraleg og þjóðleg réttindi hvers og eins að ganga í hjónaband - án tillits til trúarbragða. En hvers vegna eru það ekki réttindi hvers og eins að ganga í hjónaband - "...án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti?" Það þarf að afnema öll tvímæli um þetta.
Þjóðkirkjan er ekki tilbúin til þess að gefa samkynhneigða saman í hjónaband. Þar er kirkjuleg hjónavígsla samkynhneigðra ekki á dagskrá að svo stöddu. Hvað með kirkjulega hjónavígslu tvíkynhneigðra - sem gætu verið af báðum kynjum?
Meðan kristna evangelísk-lútherska kirkjan er þjóðkirkja er vissulega spurning hvort það séu ekki stjórnarskrárbrot að neita að gefa fólk saman á grundvelli kynhneigðar. Þjóðkirkja hlýtur að þurfa að lúta stjórnarskrá þjóðarinnar. Í deilunni um réttindi samkynhneigðra er hjónabandið og "eðli" þess orðið að kjarna umræðunnar.
Steinunn Jóhannesdóttir lýsir þeim áhyggjum í grein sinni hér í blaðinu fyrir skömmu að fyrirhuguð aukin réttindi til handa samkynhneigðum - að fá að ganga í hjónaband að kristnum sið - jafngildi kröfu um að hjónabandið sem hinn forni sáttmáli karls og konu um fjölgun mannkyns verði lagður niður, og vonar að það sé ekki markmið breytinganna. Auðvitað er það ekki markmið breytinganna. Markmið þeirra virðist í raun snúast um það hvort þjóðkirkjunni líðist að virða ekki stjórnarskrárvarinn rétt samkynhneigðra til trúar. Samkynhneigðir eiga sín börn eins og aðrir - og það gera líka einstæðir foreldrar, án þess að þjóðkirkjan amist við. Hugmyndir Steinunnar um hjónaband manns og konu á trúarlegum stalli hljóma ótrúlega forneskjulegar í þeim raunveruleika sem fólk býr við í dag. Ástin lifir, og þar með löngun fólks til að deila lífi sínu með annarri manneskju - eða manneskjum; og hugsanlega að geta afkvæmi. Að kirkjan í nafni trúarinnar ætli sér einhvern eignarrétt á heitum og sáttmálum milli einstaklinga, er öfugsnúið í samfélagi þar sem hjónaband manns og konu hefur ekki lengur neinn sérstakan sess umfram annars konar sambönd og ekki sambönd, sambúð og samvistir. Kirkjan ætti hins vegar að vera þakklát fyrir að enn skuli vera til fólk sem telur það skipta máli fyrir sig, að persónulegir sáttmálar þess í millum skuli helgaðir trúnni.
Flestir samkynhneigðir hafa til þessa verið skírðir til kristinnar trúar - þrátt fyrir samkynhneigð, svo sem skiljanlegt er - og fermdir, og verða jarðsungnir frá kirkjum til eilífs lífs ?? þrátt fyrir samkynhneigð sína. Hvers vegna þá bara hjónabandið? Auðvitað læðist að manni sá grunur að það sé vegna þess kirkjan sjái einhvern "kynferðislegan óhugnað" í ástum samkynhneigðra einstaklinga - eitthvert "óeðli" andspænis göfugu og upphöfnu "eðli hjónabandsins".
Eðlilegast væri auðvitað að skilja að ríki og kirkju, og þar með væri búið að aftengja þessa umræðu í eitt skipti fyrir öll. Umræðan í dag finnst mér knýja á um að svo verði sem fyrst. Kirkjan yrði þá starfrækt eins og hver annar félagsskapur sem fólk gæti sótt í eða hafnað að vild. Kirkjan hefði þá líka fullan rétt á því að vera jafníhaldssöm og forpokuð og hún sjálf kýs.
Bergþóra Jónsdóttir, begga@mbl.is
Viðhorf, birt í Morgunblaðinu 27. janúar 2006.
Viðhorf | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.3.2006 | 14:01
Hið óvænta
Fæst okkar vilja lifa lífinu þannig að það líði hjá án þess að nokkuð markvert gerist, en vonum samt að x-faktorinn færi okkur bara happ, ekkert vesen.
X-faktorinn - þetta óvænta - er í senn það sem skelfir okkur mest og það sem mesta gleði getur veitt. Í mínum huga snúast áramót svolítið um x-faktorinn; að maður leyfi sér að velta honum fyrir sér, eitt augnablik.
Fæst okkar vilja lifa lífinu þannig að það líði hjá án þess að nokkuð markvert gerist - en við vonum samt að x-faktorinn færi okkur bara happ, ekkert vesen. "Svo framarlega sem ekkert óvænt kemur upp á..." í þeim orðum felst vonin um að allt verði slétt og fellt, en um leið ótti við það sem gæti gerst. Og hræðilegir hlutir geta gerst - og gerast. Flestar manneskjur lenda í ýmiss konar hremmingum einhvern tíma á lífsleiðinni. Annarra manna hremmingar eru líka daglega uppi á borðum hjá okkur sjálfum - en okkur er í sjálfsvald sett hvort við lokum augunum fyrir þeim eða ekki. Sumir eru svo næmir að annarra manna hremmingar verða ósjálfrátt þeirra eigin. Við finnum til með meðbræðrum okkar - mismikið þó.
Vinkona mín hefur þann hátt á að vera með eins konar eftirmála í tölvupóstinum sínum. Eina litla setningu til að ígrunda - ef maður tekur eftir henni á annað borð. Ég veit ekkert hvar hún fann setninguna en hún er svona: "Láttu hvaðeina sem mætir þér vekja þér jákvæð og skapandi viðbrögð." Manni þætti það að líkindum viðeigandi að hafa þessa setningu eftir ef x-faktorinn kæmi til manns í formi happdrættisvinnings eða annars álíka happs. En hver yrði raunin ef x-faktorinn væri eitthvað sem virtist óbærilegur harmur? Er hægt að taka á lífsins óvæntu hremmingum með sama hugarfari?
Þegar maður spyr sig að því er maður í raun og veru að spyrja sig þeirrar grundvallarspurningar, hvort viðhorf manns til lífsins taki mið af jákvæðni eða neikvæðni. Það er erfitt að sannfærast um að dýpstu raunir verði nokkurn tíma yfirstíganlegar. Þó er það svo, þegar grannt er skoðað, að höfundur harmsins er gleðin og höfundur sorgarinnar er kærleikurinn. Ég ætlast ekki til að þetta hljómi sem mærðarlegt prestshjal úr stól. En er það ekki einmitt vegna jákvæðu kraftanna sem umlykja okkur sem við upplifum önnur öfl sem neikvæð? Og er þá ekki líka hugsanlegt að í erfiðleikunum, sem stundum sækja okkur heim, finnum við styrkinn og kjarkinn.
Ég held að við getum sjálf ráðið nokkru um það hvernig okkur tekst til í viðureigninni við x-faktorinn, þegar hann knýr dyra. Ég held að besta leiðin sé að láta jákvæðu lífssýnina ráða, njóta þess sem manni finnst gleðilegt í lífinu, lifa í sátt við þá manneskju sem maður er og gleyma því aldrei hvað kærleikurinn er öflugur í atlögunni við x-faktorinn. Hjá flestum okkar er það daglegt viðfangsefni að reyna að skána aðeins, stundum þó nógu erfitt til þess að maður fer að tuða eitthvað í eigin barm. Svo sér maður fólk takast á við svo risavaxin verkefni af svo mikilli reisn að manni fallast algjörlega hendur. Thelma Ásdísardóttir og Anna Pálína Árnadóttir finnst mér dæmi um slíkar hetjur. Með jákvæðu og skapandi hugarfari tókust þær á við x-faktor af illu gerðinni og fundu í honum uppsprettu innri friðar og kærleika sem þær miðluðu til okkar hinna.
John Lennon spurði: "So this is Christmas, and what have you done? Another year over, and a new one just begun." Ætlum við að láta annað ár líða hjá, án þess að gera nokkuð til að bæta sjálf okkur, bæta umhverfi okkar, bæta heiminn? Ég vona að sú kenning mín reynist rétt að með því að takast á við frýjunarorð Lennons verðum við um leið færari til þess að glíma við x-faktorinn, hvort sem hann færir okkur happ eða harma.
Ung stúlka efnir um þessar mundir til tónleika til að styðja fórnarlömb jarðskjálfta úti í heimi; krakkar á Egilsstöðum buðu nágrönnum sínum góðverk fyrr í vetur; maður í Breiðholti býður öldruðum ömmusystrum sínum í kaffi, kona í austurbænum knúsar krakkana sína, maður á Vitastíg hugsar hlýtt til frænku sinnar í Ameríku. Frábært. Samt snýst þetta ekkert endilega um að gera góðverk - þetta snýst fyrst og fremst um jákvæða hugarfarið. Fólk safnar kærleiksprikum með ýmsu móti og hver og einn verður að hafa sinn hátt á. Kærleiksprikin, stór og smá, eru besti viðlagasjóðurinn, og þar eru vextirnir háir. Ég hef trú á því að þokkalega innstæða í þeim sjóði komi sér ekki síður vel, ef x-faktorinn kemur í formi happs. Ég held að happið verði drýgra ef því er fagnað með jákvæðu og skapandi viðhorfi.
Kannski finnst einhverjum það asnalegt að reyna að tjasla eitthvað upp á sjálfa sig og heim sem er fullur af misindi. Og kannski finnst einhverjum jákvætt hugarfar til marks um skoðanaleysi og bitleysi. Dæmin í kringum okkur benda þó miklu frekar til þess að í jákvæðni og kærleika felist styrkur, kjarkur, og sá innri friður sem allir hljóta að þrá.
Bergþóra Jónsdóttir, begga@mbl.is
Viðhorf, birt í Morgunblaðinu 30. desember, 2005.
Viðhorf | Breytt s.d. kl. 14:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.3.2006 | 13:57
Íslendingabók
Það kitlar hégómagirndina að finna frændsemi við Björk og Melkorku Mýrkjartansdóttur; - við þessi venjulegu "nóboddí" erum búin að finna okkur stað meðal stórmennanna.
Það var skuggalega afhjúpandi að finna bæði Sigurð "Íslandströll" og Þorbjörgu "digru" í forfeðratalinu; - varpar ljósi á ýmislegt. Þorbjörg var reyndar gift Vermundi "mjóva" Þorgrímssyni og skýrir það jafn mikið um systur mína. Það er líka rannsóknarefni hvers vegna leiðtogar allra íslenskra stjórmálaflokka standa mér næst gegnum föðurættir mínar, en listamenn og menningarspírur frekar í gegnum móðurættirnar.
Og spurningarnar vakna hver af annarri; - hvernig karakter var hann eiginlega þessi langafi minn sem átti tuttugu og eitt barn, með fjórum konum á þrjátíu og sex ára tímabili? Og hvað með langömmu mína sem missti manninn sinn og tvö börn með stuttu millibili; - hvernig hafði hún það?
Það kitlar hégómagirndina að finna frændsemi við Björk og Melkorku Mýrkjartansdóttur; - það er kannski þess vegna sem allir virðast svo glaðir þessa dagana; - við þessi venjulegu "nóboddí" erum búin að finna okkur stað meðal stórmennanna. Og svo eru það furðurnar; eins og sú að við dóttir mín skulum vera fjórmenningar og hún því skyld sjálfri sér í fjórða og fimmta lið!
Það voru því talsverð vonbrigði að finna í frændgarðinum þá Lyga-Mörð, Natan Ketilsson og Grím Ólafsson, margtugtaðan óþokka norðan frá Kvíabekk í Ólafsfirði, sem vann sér það helst til frægðar að verða fyrsti alvöru glæpamaður Reykjavíkur á ofanverðri átjándu öld. Ekki skánaði líðanin við að finna sig komna af fyrsta alvöru raðmorðingja Íslandssögunnar, Axlar-Birni.
Því verður ekki neitað að grúskið í Íslendingabók er forvitnilegt og fræðandi. Þar lifnar við löngu horfin fortíð sem getur verið óhemju skemmtilegt að grufla í. Vangavelturnar um mann sjálfan í ljósi þessarar fortíðar verða ennþá meira knýjandi en nokkru sinni fyrr, og sé maður á annað borð forvitinn um það hvernig maður er saman settur á líkama og sál, verður forvitnin um forfeðurna enn meiri.
Það má telja víst að með Íslendingabók muni Íslensk erfðagreining skapa sér meiri vinsemd íslensku þjóðarinnar en nokkur auglýsing hefði getað keypt. Þetta var ekki bara þarft og skemmtilegt framtak, - heldur líka klókt bragð í að afla Íslenskri erfðagreiningu viðskiptavildar venjulegs fólks, sem kannski hefur haft uppi efasemdir um þau leyfi sem fyrirtækið hefur fengið til að sýsla með persónulegar upplýsingar um okkur.
Með Íslendingabók verður gildi erfðarannsókna á Íslandi nefnilega svo ótrúlega augljóst. Við erum öll skyld hvert öðru. Frændsemi okkar hvert við annað er ótrúlega auðrakin, og maður ímyndar sér að það sé nánast útilokað að aðrar þjóðir nái nokkurn tíma að skrásetja sig með jafn áhrifaríkum mætti. Þetta sagði Kári strax í upphafi; fyrir daufum eyrum sumra, - en hér er það borðliggjandi. Íslendingar staglast stöðugt á því hve einstök þjóð við erum. Auðvitað erum við ekkert einstakari en aðrar þjóðir, nema kannski fyrir þetta eitt: skrásetningaráráttuna; að hafa tekist að skrá okkur svona vel, og haldið upplýsingunum til haga. Ættfræðingar ættu að gleðjast í stað þess að hrína yfir því að nú sé ekkert lengur fyrir þá að gera. Nú liggja grundvallarupplýsingarnar fyrir, tengslanet Íslendinga fyrr og síðar, og þá einmitt tækifærið fyrir þá að leggjast í raunveruleg fræðistörf um ættir landsins - ættfræði, - í stað þess að telja að ættfræðin felist í því að safna saman rannsóknargögnunum, - vita hver er skyldur hverjum.
En Íslendingabók er ekki bara gaman, - hún er líka gagnlegt gagn. Við erum því miður ekki öll komin af Þorgerði "fögru", Margréti "högu", Þóroddi "spaka" og Oddi "sterka". Ég geri mér grínlaust engar grillur um að holdarfar mitt sé frá Þorbjörgu "digru" komið. En allar ættir hafa enn einhver sérkenni, og það segir sitt að talað er um að fólk sverji sig í ættina. Að hafa "Flekkudalshollningu" er mér vísbending um að í mér búi að líkindum ákveðnir erfðaþættir sem gætu reynst heilsu minni hættulegir. Það sama á við um þá sem eru komnir af Þorsteini "skjálga", Birni "drumbi", Bárði "stirfna", Ingimundi "svera", Bergi "ósvífna", Grími "glömmuði". Við erum sem betur fer hætt að uppnefna hvert annað, - en uppnefnin á þessum löngu dauðu forfeðrum eru fullvissa þess að í okkur leynast alls kyns erfðir sem geta gert okkur rangeyg, þögul, þrjósk, feit, ósvífin og ofvirk.
Þar kemur að vísindunum. Við viljum nefnilega vita hvernig það gerist að við verðum álappaleg eða ofvirk, gigtveik eða grimmlynd. Við viljum útrýma "göllunum" í erfðum okkar og verða heilbrigð. Með Íslendingabók er okkur berlega sýnt hve vel við erum fallin til þeirra rannsókna sem leitt geta til framfara í þá átt.
Eftir Bergþóru Jónsdóttur begga@mbl.is
Viðhorf, birt í Morgunblaðinu 4. febrúar 2003.
Viðhorf | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.3.2006 | 13:54
Stríðsógn
"Nú er komið á daginn að stuðningur Bandaríkjamanna við herforingjana í Chile var hrein hneisa og sá sem þeir komu til valda, liðsforinginn Augusto Pinochet, hreint og klárt ótæti með hundruð mannslífa á samviskunni."
11. september var ráðist á vinaþjóð okkar, sem var fljót að benda á að árás á hana væri líka árás á okkur. Það var líka rétt. Árás á Bandaríkin var árás á alla þá sem enn binda vonir við að þessi vesæli heimur okkar geti skánað og að miskunnarlaus dráp á saklausu fólki séu óþolandi og óréttlætanleg.
En ég er ekki svo gleymin að muna ekki hverjir töldu sig til bestu vina Íraka fyrir fáeinum árum, þegar óvinirnir voru aðrir. Þá sáu Bandaríkjamenn fulla ástæðu til að stofna til vinskapar við Saddam Hussein og skaffa honum þau vopn sem hann þurfti til að verjast Írönum. Því stríði lauk og valdajafnvægið breyttist. Saddam Hussein var ekki lengur vinur, heldur hugsanlegur óvinur. Eftir stendur að Bandaríkjamenn stóðu sannarlega ekki öðrum þjóðum að baki í því að skaffa Saddam Hussein vopn þegar það hentaði.
Fyrir örfáum dögum fullyrti fyrrverandi vopnaeftirlitsmaður Sameinuðu þjóðanna í Írak og fyrrverandi landgönguliði í bandaríska hernum á CNN-fréttastöðinni, að ekkert benti til þess að Írakar hefðu búið til eða væru í þann veginn að búa til gereyðingarvopn. Vel má vera að það sé tómt plat, en það má líka vel vera að það sé satt. Það get ég ekki vitað. En Bandaríkjaforseti heldur þó áfram að hamra á þeirri stríðsógn sem af Írak stafar. Það er nauðsynlegt að ráðast á Írak og koma Saddam Hussein frá völdum. Það dettur varla nokkurri manneskju í hug að Bandaríkjunum geti stafað hernaðarógn af Írak. En með innrás í Írak myndu Bandaríkjamenn eingöngu sanna fyrir umheiminum einu sinni sem oftar, - að sú þjóð sem öðrum stafar mest stríðsógn af eru einmitt Bandaríkjamenn. Þeir hafa verið öðrum örlátari á fé; - og vopn, þegar þeir hafa talið hagsmunum sínum ógnað, og sitja uppi með óleysanlega hnúta fyrir vikið, eins og deilurnar milli Palestínumanna og Ísraela, sem þeir hafa stutt með ráðum og dáð gegnum tíðina. Með því hafa þeir uppskorið hatur og fordæmingu meðal araba, hatur sem maður sannast sagna óttast að geti enn og aftur brotist út í skelfingum á borð við árásirnar á Bandaríkin í fyrra. Hvað myndi innrás í Írak þýða? Það er ljóst að stuðningur við fyrirætlanir Bandaríkjamanna er vægast sagt dræmur meðal þeirra þjóða sem þeir hafa leitað til, þótt eitthvað hafi hann aukist síðustu daga. Þjóðir heims eru augljóslega ekki á því að brýnasta verkefni á jörð sé að koma Saddam Hussein frá, enda hafa þeim ekki verið sýndar sannanir fyrir því að af honum stafi sú ógn sem Bandaríkjamenn vilja vera láta. Og hvað svo? Hvers konar stjórnarfari á að koma á í Írak og ætla Bandaríkjamenn að taka að sér að byggja landið upp eftir langvarandi örbirgð þjóðarinnar í kjölfar viðskiptabanns? Síst myndi ég sakna Saddams Husseins. Hann er óþverrapési sem hefur ekki hikað við að beita vopnum gegn eigin þjóð. En það yrði hreint glapræði með ófyrirsjáanlegum ófriði í heiminum ætluðu Bandaríkjamenn sér að koma honum frá á eigin spýtur. Innrás í Írak yrði ávísun á enn meira hatur í garð Bandaríkjamanna og hryðjuverk sem fyrst og fremst myndu bitna á saklausu fólki. Og hryðjuverkastríð er ófyrirsjáanlegt, og langt í frá það sama og "venjulegt" stríð, og varnir í slíku stríði bæði veikar og vonlitlar. Hættan er auðvitað sú að hryðjuverk myndu fyrst og fremst bitna á Bandaríkjamönnum. Þótt tekist hafi að koma ógnarstjórn talibana í Afganistan frá völdum er stríðsrekstri þar í landi hreint ekki lokið, og ekki útséð um að innrás í landið hafi verið "farsæl". Osama bin Laden gengur enn laus, og gæti vel verið að skipuleggja sitt næsta stríð. Það er heldur ekkert sem bendir til þess að Bandaríkjamenn og stuðningsmenn þeirra í innrásinni hafi uppskorið einhverja sérstaka velvild íbúa í Afganistan fyrir vikið, síður en svo. Það er ótalmargt sem mælir gegn innrás í Írak, ekki síst heill bandarísku þjóðarinnar sjálfrar og orðspor ráðamanna hennar á alþjóðlegum vettvangi. Sú bandaríska þjóð, sem allur heimurinn sýndi samúð og samkennd fyrir ári, þegar hún gekk í gegnum mikla sorg, þarf að vakna af þyrnirósarsvefninum og spyrja hvað hún vill og velta því fyrir sér hvort stöðugar íhlutanir í málefni annarra þjóða séu henni virkilega til heilla.
Í dag er 11. september. Þennan dag fyrir 29 árum studdu Bandaríkjamenn vopnað valdarán í Chile og steyptu lýðræðislega kjörnum forseta landsins, Salvador Allende, af stóli. Nú er komið á daginn að stuðningur Bandaríkjamanna við herforingjastjórnina í Chile var hrein hneisa og sá sem þeir komu til valda, liðsforinginn Augusto Pinochet, hreint og klárt ótæti með hundruð mannslífa á samviskunni.
Ekkert réttlætir stríð og dráp á saklausu fólki, hvort sem það er í Afganistan, Írak, Palestínu, Ísrael, Chile, - eða Bandaríkjunum. Það er hins vegar orðið löngu tímabært að þeir sem valdið hafa og burði til að beita því með vopnum ígrundi afleiðingarnar vandlega áður en lagt er af stað, og gleymi ekki að sök bítur sekan.
Eftir Bergþóru Jónsdóttur begga@mbl.is
Viðhorf, birt í Morgunblaðinu 11. september, 2002.
Viðhorf | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.3.2006 | 13:52
JÁ! í litlum kössum
"Þá kemur atriðið þegar brúðurin sker sér af brúðartertunni og brúðguminn hjálpar til með því að styðja hönd sinni mjúklega yfir hönd hennar meðan hnífsblaðið afmeyjar gúmmelaðið."
Maður spyr sig hvað þetta allt saman eigi að fyrirstilla. Eru það virkilega dætur rauðsokkakynslóðarinnar sem vilja gifta sig á þennan hátt? Undirlægjuháttur þeirrar kvenþjóðar sem tekur þátt í þessu virðist algjör. Þannig brúðkaup er sjónarspil, þar sem gert er út á hégóma sem á ekkert skylt við þá ást og tryggð sem parið er að heita hvort öðru; - það er aukaatriði. Veglegt! ...er lykilorð, - ekkert má til spara til að dagurinn verði eftirminnilegur.
Mér hefur stundum dottið í hug að samband sé á milli þess að allir vilja gera eins og þess að við erum jú, ennþá að minnsta kosti, sauðfjárræktarþjóð. Hjarðareðlið leynir sér í það minnsta ekki í téðum brúðkaupsþætti. Forystusauðurinn er búinn að hanna herlegheitin og hjörðin hermir eftir. Það er einkennilegt hvað þetta er ríkt í íslensku þjóðinni, - þótt hún rembist við að telja sjálfri sér trú um að hún sé svo afskaplega sjálfstæð. Hún trúir því að hér sé einstaklingurin stærð númer eitt og að hver og einn hafi sín sérkenni, sitt lundarfar, sína sérvisku; - og leyfi sér að bera sjálfan sig á torg eins og hann er klæddur. En það er öðru nær.
Ég tók eftir því að presturinn sem vitnað var í hér í upphafi talaði um Hollývúdstíl, en ekki amerískan stíl. Ég held að þar hafi hann átt kollgátuna, því hinn almenni Bandaríkjamaður er langt frá því að vera fastur í hugarfari hjarðarinnar. Hollývúdstíllinn er hins vegar eftiröpun af evrópskri aðalstísku, það er nú einmitt eitthvað sem Íslendingar geta orðið ginnkeyptir fyrir.
Hvers vegna dettur engum í hug að gera brúðkaupsdaginn eftirminnilegan með því að hafa hann persónulegan og einstakan á þann hátt sem fólk ræður við, - bæði andlega og fjárhagslega. Ég vona heitt og innilega að Brúðkaupsþátturinn Já sé að sýna okkur fáar undantekningar, en ekki hið almenna mynstur í hjónavígslum ungs fólks í dag. Ég vil trúa því að Íslendingar eigi þrátt fyrir allt þann snefil af sjálfstæði sem þeir þrá svo heitt, að þeir geti fundið gleðina í því að gera tímamót í lífi sínu að persónulegum viðburði á skapandi og raunverulega eftirminnilegn hátt.
En ég komst að því í Ráðleggingahorninu um daginn, að grjónum skal ekki kastað á brúðhjónin, heldur upp í loft svo þeim rigni yfir þau. Ekki vill maður eiga það á hættu að blinda brúðina eftir allan þann undirbúning sem hún hefur þurft að ganga í gegnum.
Eftir Bergþóru Jónsdóttur begga@mbl.is
Viðhorf, birt í Morgunblaðinu 31. júlí 2002
Viðhorf | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.3.2006 | 13:49
Blær nafna
"Mér fannst alveg sanngjarnt að leyfa ekki að lítil stúlka fengi að heita Satanía, en finnst alveg ómögulegt að önnur skuli ekki fá að heita Blær. Hvað gæti nú verið svo slæmt við það?"
Mér þótti alltaf vænt um nafnið mitt, enda skírð í höfuðið á ömmu minni, Bergþóru, sem ég elskaði afar heitt. Að pabbi minn skyldi heita Jón fannst mér líka gott; einfalt og þjóðlegt og ekki þykir mér minna vænt um hann. Svo var amma mín líka Jónsdóttir eins og ég, þótt Jónarnir væru ekkert skyldir og kæmu hvor úr sínu sjávarplássinu.
Þegar ég var lítil prísaði ég mig alltaf sæla, fyrir að heita hvorki Lofthæna né Freðsvunta, og þegar ég var einhvern tíma að þakka móður minni fyrir það, sagði hún mér, að ég hefði reyndar verið skírð millinafninu Fimmsunntrína, en það hefði bara gleymst að segja mér það. Fimmsunntrína var sem sé sú sem fæddist fimmta sunnudag eftir trínitatis. Ég trúði þessu ekki lengi, en þó fór þessi stríðni í taugarnar á mér; - þetta hefði nefnilega alveg getað verið rétt; það eru jú mörg sérstök nöfn í fjölskyldunni. Langafi minn norður í landi var til að mynda skírður Garibaldi, í höfuðið á ítölsku frelsishetjunni. Ég furða mig oft á því hvernig langalangafi minn og -amma gátu látið sér detta annað eins nafn í hug, og ekki síður hvernig þau höfðu haft spurnir af ítölsku frelsishetjunni lengst norður á hjara Íslands. En mér þykir vænt um þetta nafn, og ég gleðst yfir því að margir ættingja minna hafa látið það lifa í nöfnum barna sinna.
Í ættum mínum að vestan eru sannarlega mörg sérkennileg nöfn, bæði Ebeneser og Efemía, þótt nánustu forfeður mínir þaðan hafi bara heitið Jón og Margrét. Í Kjósarleggnum heita karlarnir Ólafur, Guðmundur og Magnús, en konurnar Kristín og Úlfhildur. Úlfhildarnafnið þótti einhvern tíma frekar ósmart, en mér þótti það alltaf sérstaklega fallegt og kraftmikið og hikaði ekki við að nefna dóttur mína Úlfhildi eftir að við foreldrar hennar höfðum mátað það við hana í nokkrar vikur. Ekki að það væri endilega í höfuðið á einhverri formóðurinni, heldur bara til að halda góðu nafni við.
Mörg íslensk nöfn eru mjög "spes"; - og talandi um spes, - þá finnst mér eiginlega furðulegt að enginn nútímamanneskjan skuli hafa endurlífgað kvenmannsnafnið Spes, komið úr latínu eins og kærleiksnafnið Karítas, og þýðir von. Spes hefur líka þessa tvíræðu merkingu í dag, - Spes er von, en líka sérstök.
Það þykir alltaf tíðindum sæta þegar mannanafnanefnd kveður upp dóma sína um það hvaða nöfn skuli leyfð í íslensku máli og hver ekki. Í það minnsta gína fjölmiðlar yfir þessum fréttum og slá þeim gjarnan upp. Eins og aðrir les ég þessar fréttir af miklum áhuga, og ýmist lofa nefndina fyrir réttvísi og skynsemi, eða verð alveg yfir mig gáttuð á forsjárhyggjunni. Mér fannst alveg sanngjarnt að leyfa ekki að lítil stúlka fengi að heita Satanía, en finnst alveg ómögulegt að önnur skuli ekki fá að heita Blær. Hvað gæti nú verið svo slæmt við það?
Jú, það er karlkyns, að mati nefndarinnar. En hverju skiptir það, þegar fjöldi íslenskra mannanafna ber annað kyn en manneskjan sem ber nafnið? Eitt elsta nafnið þessarar náttúru er Sturla; - sem er kvenkyns, - rétt eins og Erla, en er karlmannsnafn. Svo eru það Sigmar og Dagmar, Auður og Höður. Leyft er að skíra drengi Blæ, og þá tekur það karlkynsfallbeygingu: Blær-Blæ-Blæ-Blæs. Karlmannsnafnið Sturla tekur hins vegar kvenkynsbeyginu: Sturla-Sturlu-Sturlu-Sturlu. Einstöku sinnum heyrir maður fólk eiga í vandræðum með þetta og segja Sturli, en ég held að engum dytti í hug að taka nafnið úr notkun fyrir þau glappaskot. En hvers vegna ekki Blær? Þetta fallega nafn hlýtur að geta þrifist í íslensku máli sem kvenmannsnafn. Það fannst í það minnsta Halldóri Laxness, sem gaf það dularfullu stúlkunni sem spilaði á píanóið í Brekkukotsannál. Þótt nöfnin Sturla og Erla séu hvort tveggja kvenkyns og fallbeygist samkvæmt því, þá taka Sigmar og Dagmar hvort sína beyginguna eftir kyni. Það gæti Blær einfaldlega líka gert og samt fallið vel að íslensku máli. Í bókinni Nöfnum Íslendinga eftir Guðrúnu Kvaran og Sigurð Jónsson frá Arnarvatni er nafnsins getið sem kvenmannsnafns sem beygist Blær-Blæ-Blæ-Blær, en einnig bent á aðra beygingu þágufalls og eignarfalls sem er ljómandi falleg: Blævi-Blævar. Það er óskiljanlegt að mannanafnanefnd skuli ekki ekki geta séð í gegnum fingur sér við þá foreldra sem kjósa að gefa dóttur sinni þetta fallega og fullkomlega eðlilega kvenmannsnafn. Eitt er að banna ónefni eins og Sveinsíníusínu og Sataníu, en annað að hafna góðum og gildum nöfnum á afar hæpnum forsendum. Auðvitað þarf mannanafnanefnd að hlíta ákveðnum reglum en að hengja sig í þær af slíkri óbilgirni verður henni aldrei til farsældar.
Eftir Bergþóru Jónsdóttur begga@mbl.is
Viðhorf, birt í Morgunblaðinu 3. júlí 2002.
Viðhorf | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.3.2006 | 13:48
Listahátíð í tónlistarhúsi 2008?
"Í guðanna bænum, byggið ykkur tónlistarhús, maður heyrir ekkert í sjálfum sér á sviðinu!" sagði söngkonan.
Þannig hefur jú reyndin verið. Fyrstu kynni mín af Listahátíð voru sem laumufarþegi á Led Zeppelin tónleika fyrir guð má vita hvað mörgum árum. Aldrei hafði maður heyrt annað eins. Blöðin full af fréttum um öll tonnin af græjum sem fylgdu þessum eðalrokkurum; en þær mögnuðu lýsingar komust ekki í hálfkvisti við upplifunina af því ótrúlega sándi sem hljómsveitin framkallaði.
Seinna komu Margaret Price, Oscar Peterson, Pavarotti, Benny Goodman, Grace Bumbry, Égveníj Kissin, Þjóðarballett Ghana, Victoria Chaplin, Galina Gorchakova og fleiri og fleiri sem skildu eftir sig yndislegar endurminningar og upplifun sem enn býr í sálinni, löngu seinna. Það er lítilli þjóð ómetanlegt að eiga þess kost, þótt ekki sé nema annað hvert ár að fá tækifæri til að heyra og sjá svo stórkostlega listamenn. Þetta tækifæri hefur Listahátíð gefið okkur. Auðvitað kemur heimsmenningin til okkar á öðrum tímum líka, og maður man líka eftir vondum tónleikum á Listahátíð. En það sem uppúr stendur er þessi veisla, sem maður veit að kemur með vorið annað hvert ár; veisla þar sem maður veit að allra ráða er freistað til að færa okkur ekkert minna en það allra besta.
Ég man eftir því einhvern tíma að hafa heyrt fólk tala um að það væri peningasóun að halda Listahátíð. Nær væri að eyða sjóðum samfélagsins í eitthvað "gagnlegra". Ég hef ekki heyrt þessar raddir lengi. Sennilega hefur það viðhorf orðið ofaná að það sé þjóðinni einmitt gagnlegt að eiga þetta athvarf og þessa hlutdeild í heimsmenningunni; þar sem við getum bæði notið og mælt okkar menningu í ljósi heimsins handan hafsins. Íslenskir listamenn hafa alltaf fengið tækifæri til að koma fram á Listahátíð og það er nauðsynlegt að svo verði áfram. Sú nýlunda að efnt sé til samstarfs íslenskra og erlendra listamanna í samstarfi Listahátíðar í Reykjavík og annarra listahátíða hlýtur að vera íslenskum listamönnum og íslenskri menningu yfirleitt, afar mikilvæg. Þar hefur Listahátíð fundið sér nýtt og verðugt viðfangsefni sem miklar vonir hljóta að verða bundnar við. Enn eitt sem gefur Listahátíð ótvírætt gildi er viðleitnin til að höfða til margra, og bjóða upp á atriði sprottin úr alþýðumenningu og list götunnar, allt frá Els Comediants á fyrstu árum Listahátíðar til Mobile Homme nú.
Eftir tónleika June Anderson í fyrradag fannst mér ég knúin að þakka henni fyrir stórkostlega tónleika; við höfðum talað saman áður, og ég vildi líka þakka henni fyrir þann tíma sem hún gaf sér í það. Það kom mér á óvart og þó ekki að fyrstu athugasemdir hennar um tónleikana skyldu vera þær að hún hefði ekkert heyrt í sjálfri sér. Söngur hennar hafði skilað sér vel út í salinn, allt frá veikasta veiku til þess mikla dramatíska krafts sem í rödd hennar býr. "Í guðanna bænum, byggið ykkur tónlistarhús, maður heyrir ekkert í sjálfum sér á sviðinu!" sagði söngkonan. Hmm, já, það er nú víst á leiðinni, og svo kom æpandi þögn. June Andersson var mjög ánægð með móttökurnar sem hún fékk og viðtökur tónleikagesta sem klöppuðu hana upp með mikilli tilfinningu og bravóhrópum. En hún heyrði illa í sjálfri sér og skal engan undra í húsi sem er ekki hannað með hljómburð í huga. Óneitanlega er það sárt að geta ekki boðið miklum listamönnum upp á það besta, og stundum undrast maður það hreinlega hve þó margir þeirra hafa komið hingað þrátt fyrir afleitan hljómburðinn í Háskólabíói. Erling Blöndal Bengtsson sagði í heimsókn sinni hingað um daginn, að það væru yndislegir hlustendur á Íslandi sem bættu þetta upp.
June Anderson var stórkostleg þrátt fyrir Háskólabíó, og sú hefur líka verið raunin með fjölmarga aðra listamenn íslenska og erlenda sem þar hafa komið fram. Þetta ástand býr Sinfóníuhljómsveit Íslands enn við illu heilli.
Væntingarnar sem bundnar eru nýju tónlistarhúsi eru miklar. Þar verður ekkert til sparað að hljómburður verði eins og hann bestur getur orðið, eins og ráðamenn hafa margítrekað, og aðstaða fyrir listamenn og gesti eins og best verður á kosið. Það á þessi þjóð sem heldur úti jafn öflugu menningarlífi og raun ber vitni sannarlega skilið. Þetta er metnaðarmál sem farið er að snúast um virðingu fyrir sjálfum okkur og öðrum. Meðan Listahátíð í Reykjavík hefur margeflst að kröftum, getur hún enn ekki boðið betur þegar um stærri listviðburði er að ræða. Ákvörðun um tónlistarhús er í höfn, og kominn tími til að bretta upp ermar. Það er bjartsýni að reikna með því að Listahátíð hafi aðgang að tónlistarhúsi vorið 2006, en 2008 er raunhæft ártal. Það er mikið tilhökkunarefni að njóta afreka íslenskra og útlendra listamanna við þær aðstæður sem þar verða.
Eftir Bergþóru Jónsdóttur begga@mbl.is
Viðhorf, birt í Morgunblaðinu 22. maí, 2002
Viðhorf | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Spurt er:
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Febrúar 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- September 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Janúar 2009
- Október 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Mars 2006
Tónlistarspilari
Bloggvinir
- ulfhildur
- hallsson
- blues
- systapista
- birtab
- vitinn
- hoskuldur
- konur
- arnim
- ragnhildur
- eggmann
- kjarvald
- hrafnaspark
- torfusamtokin
- theld
- konukind
- jullibrjans
- hugsadu
- bleikaeldingin
- einherji
- jenni-1001
- annapala
- vglilja
- halla-ksi
- volcanogirl
- kristinast
- daath
- mariakr
- soley
- arnigunn
- aevark
- ragnarfreyr
- ktomm
- hlynurh
- sinfonian
- elvabjork
- raggissimo
- nonniblogg
- vitale
- malacai
- ingolfurasgeirjohannesson
- hannibalskvida
- steinibriem
- jea
- vardi
- hildurhelgas