Leita í fréttum mbl.is

Jón og Jón Moody

Mig langar að vekja athygli ykkar á snilldargrein eftir Jonas Moody í Mogganum í dag.  Lesið það sem þessi piltur hefur að segja:

 

Það er ekkert óeðlilegt við pólitíska spillingu

Jonas Moody skrifar um veitingu íslensks ríkisfangs til kærustu sonar Jónínu Bjartmarz  

AFTUR og aftur hafa Jónína Bjartmarz, Bjarni Benediktsson, og Guðrún Ögmundsdóttir komið með sömu málsvörn vegna veitingar íslensks ríkisfangs til kærustu sonar Jónínu eftir aðeins 15 mánaða dvöl með dvalarleyfi vegna námsvistar: „það var ekkert óeðlilegt við afgreiðslu þessa máls“.

Ég vildi að ég hefði vitað að það væri svo einfalt að redda ríkisborgararétti.Sem útlendingur búsettur á Íslandi hafa síðustu fjögur og hálft ár tilveru minnar verið tileinkuð því að læra hvað það sé að vera meðlimur íslensks samfélags, með það lokamarkmið að öðlast íslenskt ríkisfang. Það tók mig þrjú ár í Háskóla Íslands að vinna fyrir gráðunni minni í íslensku fyrir erlenda stúdenta. Ég hef byggt upp vinahóp af Íslendingum sem styðja mig í mínu lífi og virða mig sem jafninga.

Á Íslandi hef ég unnið sem lítillátur húsvörður í Austurveri og sem þýðandi á glæsilegri skrifstofu forstjóra Kaupþings. Eins og Lucia Celeste Molina Sierra hef ég orðið svo lánsamur að verða ástfanginn af Íslendingi og byggja upp framtíð á Íslandi. Ég hef lesið bækur Halldórs Laxness og ljóð Jónasar Hallgrímssonar. Ég veit líka að hræra skal uppstúf fyrir plokkfisk stanslaust svo að hann verði ekki kekkjóttur, að besti tíminn til að fara í útilegu er fyrsta helgin í júlí og að íslenska þjóðin er meðal réttlátasta fólks í heimi, eða svo hélt ég að minnsta kosti.

Ég hafna þessari hálfvolgu afsökun stjórnmálamanna að „það var ekkert óeðlilegt við afgreiðslu þessa máls“. Ástæða þess að umsóknum um ríkisborgararétt sem synjað hefur verið af Útlendingastofnun er vísað til Alþingis er einmitt að eitthvað óeðlilegt sé við umsóknina. Slík meðferð á við þegar aðstæður réttlæta einhvers konar málsbætur. Vegna sérstakra aðstæðna þykir Alþingi, í óendanlegum vísdómi sínum, við hæfi að veita æðsta heiður sem útlendingi getur hlotnast — að fá að heyra: þú ert einn okkar.

En augljóslega var eitthvað sérstakt við þessa umsókn: tengdamóðir umsækjandans var Jónína Bjartmarz, og málsbætur eru pólitísk spilling og misnotkun valds. Ef einhver ástæða er til sem réttlætir að Lucia Celeste Molina Sierra var gerð að Íslendingi eftir aðeins 15 mánaða dvöl í landinu þá á þjóðin og einnig við hin, fíflin sem kappkostum að fá rétt ríkisborgara, almennilega útskýringu skilið.

En auðvitað gæti þetta mál bæst við sem enn önnur lexía um lífið á Íslandi: Þar sem tengdamóðir mín er útivinnandi kona frá Ísafirði sem sendir mér fiskibollur, prjónar trefla handa mér og reynir sitt besta til að láta mér líða eins og ég eigi heima hér —  þar sem hún er ekki háttsettur alþingismaður og ráðherra — þá er ég ekki svo maklegur að verða hluti þessarar þjóðar. Ég læt mér þetta að kenningu verða. 

Jonas Moody

Höfundur er útlendur blaðamaður,búsettur á Íslandi.


Slava

Sit og hlusta á Söngva og dansa dauðans eftir Mússorgskíj, með Galínu og Slava við píanóið. Þar var hann ekki síður snillingur en á sellóið.  Mstislav Rostropovitsj var gegnheill listmaður sem gerði heiminn betri.

Einkennilegt að í frétt Reuters á mbl.is, af útför listamannsins skyldi nafn konu hans, Galínu Vishnévskaju ekki nefnt á nafn, hvað þá að hún væri sömuleiðis einn af mestu listamönnum okkar tíma.  Einkennilegt.

Ævisaga Galínu er skyldulesning.  Hún heitir einfaldlega Galína og kom út í íslenskri þýðingu á níunda áratugnum.  Þar segir hún frá stórbrotinni ævi, hvernig hún þraukaði umsátrið um Leningrad með ömmu sinni, nær hungurmorða; frá Stalín og öðrum stjórnmálamönnum sem ýmist elskuðu hana eða hötuðu; frá ástinni á Slava; frá Prokoffijev, Sjostakovitsj og Solzhenitzyn; flóttanum frá Rússlandi og svo mörgu öðru.

Fáar ævisögur ef nokkur, hafa hrifið mig líkt og þessi.     


mbl.is Rostropovítsj látinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hópsálir og hugsjónir

Er þetta pólitíska fyrirkomulag okkar að vera með þessa hundleiðinlegu stjórnmálaflokka ekki löngu úrelt? 

Er eitthvað spennandi í þessu?  Eitthvað virkilega krassandi, sem talar til mín?

Jú, kannski sumt sums staðar, en ekkert nógu bitastætt til þess að mér finnist það þess virði að hengja mig í gálgann.

Semsagt:  Nei

Flokkur með eina skoðun, allir saman nú, einn tveir þrír - hópsál - æ það er svo þreytt.

Svo hefur maður alltaf á tilfinningunni að þeir sem djöflast mest innan flokkanna séu fyrst og fremst að baða egóið, langi í völd, og að koma sjálfum sér áfram.

Og að því sögðu, af hverju er alltaf þessi rosalega skítalykt af öllu sem snertir Framsóknarflokkinn? Af hverju liggur hann alltaf undur grun um eitthvert óþolandi valdabrask?  Og hvað með Pál Magnússon í Landsvirkjun?  Það hljómar eins og hvert annað strákagrín.  Er þessi maður einhver sérfræðingur í orku- og virkjanamálum?  Varla, þótt hann kunni að hafa lesið sig til um eitthvað í einhverjum ráðuneytisskýrslum.

Og hvað er Árni Johnsen að gera í pólitík?  Það er nú ekki einu sinni hægt að kalla það strákagrín - maður verður bara dapur við tilhugsunina um að hann komist í valdastöðu aftur.

Hvers vegna í ósköpunum er verið að gera kostnaðarsama samninga um varnir landsins á friðartímum?  Væri ekki nær að gera samninga um varnir landsins á striðstímum?   

Ég vil sjá þetta breytast - í grundvallaratriðum.

Ég er hundleið á þessu liði sem hefur engan eld í hjarta og hefur aldrei haft - eða hefur leyft honum að slokkna í baráttunni um völdin.  Það eru engir ástríðupólitíkusar til lengur.  Jú kannski, en þeir eru fáir, allt of fáir.

Ég vil fá að velja mér fólk sem ég treysti til að ráða ráðum mínum, ekki flokka.

Ég vil sjá ráðamenn sem ég veit að eru það af löngun sinni til umbóta, en ekki til að pota sjálfum sér áfram á nákvæmlega engum verðleikum. Skipta svo um flokka þegar þeir rekast á veggi.  Zero Verðleikar, kosningaslagorðið í ár.

Hvar er fólkið sem talar á mannamáli og af einhverri sannfæringu um þau gildi sem sem mér finnst skipta máli?

Eða er ég einhvers konar eintrjáningur hér á þessu landi?

Ég styð að sjálfsögðu framfarir á öllum sviðum, en af hverju talar enginn um nægjusemi?

Mér finnst allsherjargræðgi á öllum sviðum samfélagsins stærra vandamál en flest annað. Græðgin birtist reyndar í öllum okkar stærstu vandamálum.  Af hverju talar enginn um græðgina?

Hvaða endalausa bull er þetta um mjúkar eða harðar lendingar í efnahagskerfinu? Við hvaða fólk eru stjórnmálamenn að tala?

Af hverju tala svo fáir um umburðarlyndi, mannúð og kærleika?  Eða er kannski til nóg af því til hér?

Er ég eina manneskjan sem finnst þetta pólitíska þras fyrir kosningar algjörlega óþolandi? Tek það fram að ég tel mig rammpólitíska, og legg mig fram um að hlusta á þetta fólk, þótt það sé mér nánast óbærilegt.

Ómar Ragnarsson talaði gegn norskum heræfingum á Íslandi í Kastljósi í kvöld, hann fær prik fyrir það, og hann hefur sýnt að hann hefur kjark til að standa með sjálfum sér og skoðunum sínum.

Katrín Fjeldsted hefur alltaf verið í mínum huga rödd mannúðar og skynsemi og hún hefur sannarlega eld í hjarta og þorir að standa og falla með hugsjónum sínum.  Hún setur þær ofar eiginhagsmunum í flokknum sínum. Ég myndi kjósa hana til allra góðra verka. 

Pétur Tyrfingsson talar fyrir umburðarlyndi og mannkærleik á blogginu sínu  Hann er ekki ókunnugur pólitík, og ég myndi kjósa hann.

Edda Kjartansdóttir kennari og vinkona mín er líka efni í heimsins besta ráðamann, því hún er eldklár, skynsöm og er búin að komast að því hvað það er sem er mikilvægt í lífinu.  Edda hefur verið í sveitarstjórnarpólitíkinni. Ég vil hana sem forsætisráðherra, - ef ekki bara drottningu Íslands.  Ef menntað einveldi væri hér, væri Edda eina manneskjan sem ég gæti hugsað mér í djobbið.

Kolbrún Halldórsdóttir færi líka í liðið mitt, því hún er baráttukona og fylgin sér, á sér hugsjónir og hefur eld í hjarta.

Guðrún Pétursdóttir varð illu heilli ekki forseti. Bölvað vesen það.  Úr því ég fékk ekki að kjósa hana á Bessastaði, myndi ég vilja hafa hana í mínu ráðaliði.  Hún er skörungur með ráð undir rifi hverju.

Jú, svei mér þá, ég held að mér myndi takast að fylla stjórnrráð Íslands af góðu fólki ef ég hefði eitthvað um það að segja.

Mér er nákvæmlega sama hvort þetta fólk kallast hægri eitthvað eða vinstri eitthvað í dag, mér finnst þær skilgreiningar algjörlega steinrunnar og ekki í takt við tímann frekar en þjóðkirkjan.

Vel á minnst, - ég myndi setja Hörpu Njáls yfir þjóðkirkjuna.  Þar hefur hún starfað, auk þess sem hún er baráttukona fyrir réttindum samkynhneigðra.  Að sjálfsögðu yrði fátækt og örbirgð útrýmt í þessu landi með hana innanborðs.

Atkvæðið mitt er mér verðmætt.  En enn nálgast kosningar og mér dettur hreinlega ekkert betra í hug en prívatatkvæðið mitt - þetta auða, ef ekkert breytist.  Það er jú atkvæði líka.

Vildi nú samt óska þess að ég gæti nýtt það betur. 


Plön, plön, plön

Við erum búnar að ákveða að sunnudeginum ætlum við að eyða saman í Köben.  Fá okkur smörrebröd á Sorgenfri í hádeginu og horfa á flugeldana í Tívolí um kvöldið.  Þess á milli rölta um, fá okkur kaffi í Nýhöfn, labba strikið, kíkja í dýragarðinn og hafa það gott.  Ætlum svo að feta í fótspor Einars Ben. og Marilyn Monroe og sofa úr okkur þreytuna í Palace hótelinu við Ráðhústorgið.  Sennilega heilsum við líka upp á Margréti Þórhildi, því hún á afmæli þennan dag.

Gekk ég yfir sjó og land

Úlfhildur á LitlabeltisbrúnniAfrek dagsins var að ganga frá meginlandi Evrópu til dönsku eyjarinnar Fjóns.  Þetta gerðum við mæðgur í þeim tilgangi einum að fá okkur ís í bestu ísbúð Danmerkur.  Þetta var auðvitað heljarinnar labbitúr fyrir vinnudýr nýskriðið úr vetrardvala, en markmið ferðalagsins var auðvitað það göfugt að ekki kom til greina að gefast upp.  Það er ekkert smá gaman að vera aftur á flandri með krílinu sínu nýorðnu nítján ára, kjafta og borða ís.  Við erum góðar í því.

Hér er hún á brúnni og skólinn í Snoghøj í bakgrunni vinstra megin.


Á Jótlandi

Mikið er hún Danmörk dejlig. Ég er búin að komast að því hvað það er sem er rotið hér í ríki Margrétar Þórhildar. Það er gróðurinn frá í fyrra sem nú á í vök að verjast fyrir nýja lífinu sem vill upp - upp úr moldinni, upp úr iðrum gaiu, skríða upp trén, búa til laufþök, búa til knúppa, skrifa ilm í andrúmsloftið.  Fortíðin liggur hér út um allt úldin og rotin, lufsast um í vorgolunni í formi löngu dauðra laufblaða og gránaðs spreks.  Þetta var tvísýnt í gær, en ég held að nýja sumarið hafi náð vinningnum í dag.  Út um allt er ilmur af liljum og gardeníum, nýbrumuðum grátvíði og litlu hvítu blómunum á sumum trjánum hérna.  Þetta ER dejligt. 

Ég er ekki eins ánægð með fuglana hérna. Sumir eru jú prýðilegustu söngfuglar, sérstaklega finkan sem er eins og dvergvaxin maríuerla í útliti og býr í trénu fyrir utan gluggann hennar dóttlu minnar.  En það eru þessir sem eru eins og bilaðar blokkflautur í óðs barns höndum, sem eru skelfilegir.  Einn þeirra býr í sama tré og maríuerlingurinn og kæfir hans fagra söng með skerandi þríund sem hann endurtekur í sífellu í hroðalegu offorsi.  Það getur ekki verið að Schubert hafi nokkurn tíma heyrt í þessum furðufugli eins og hann elskaði þetta tónbil.  Það hljóta að hafa verið einhverjr saxneskir fagurgalar og gullingaukar sem kveiktu á þríundum Schuberts.

Ég á Jótlandi

Ég er í gulum kastala, ekki langt frá Frederecia, sem er dejligt þorp.  Sennilega bær.  Fredericia stærir sig af því að þangað séu allir velkomnir og að svo hafi verið lengi.  Það er meir að segja greypt í stétt aðalgötunnar í bænum á ótal tungumálum að þar eigi allir sér skjól, hvernig sem þér séu.  En ekki var þeim þó hlýtt til Saxanna sem ætluðu að taka borgina einhvern tíma á sautjándu öld, og Svíanna, sem vildu þangað líka, og byggðu sér virki til að verjast.  Virkið í Fredericia stendur enn í allri sinni dýrð, þótt bærinn hafi reyndar vaxið langt út fyrir virkisveggina.

Það sem heillar mig við Fredericia er hversu menning þar virðist standa með miklum blóma.  Það fyrsta sem maður rekur augun í þegar komið er í miðbæinn, er stór bókabúð, með góðu úrvali af bókum, - og líka bókum á erlendum tungumálum.  Þar er líka hægt að kaupa íslenskar bókmenntir þýddar á dönsku.  Á ská handan götunnar er önnur ekki síður glæsileg bókabúð.  Þær voru báðar fullar af fólki í gær.  Í dag skoðaði ég hins vegar bókasafnið í Fredericia, og það kom borgarbarninu úr heimsborginni Reykjavík auðvitað á óvart að sjá að Fredereciubókasafnið er miklu stærra og flottara en söfnin heima.  Barnadeildin er heil hæð, og þangað koma listamenn til að leika sér með krökkunum og skemmta þeim.  Tónlistardeildin var rosalega flott, og ótrúlegt úrval af tónlist, sérstaklega í klassík, djassi, blús og etnískri tónlist.  Ég sá ekki mikið af poppi, en fann loks í kvikmyndatónlistarrekkanum, gamla góða lagið úr dönsku myndinni Tango frá 1933 - En dag er ikke levet uden kærlighed. Boj ó boj, hvað ég hef leitað mikið að þessu lagi og í langan tíma.  Á þessu safni í sveitaþorpi í Danmörku er meira úrval af blúsplötum óg klassík en í stærstu plötubúð montborgarinnar Reykjavík.  Það var gaman að skoða þetta safn.  Annars var nú erindi mitt þangað að hafa upp á upplýsingum um spinderiet sem Ólafur afi minn lærði iðn sína við á árunum fyrir 1930.  Ég fann svosem ekkert merkilegt, en þykist vita hvaða spinnerí það var sem hann hlýtur að hafa lært við.  Það var Bloch & Andresen Spinderiet sem var hér allt í öllu þá.  Annars er líka erftirtektarvert í Fredercia hvað það eru margir skólar þar - alls konar sérskólar. Ég þarf að kanna betur með ferðir hans afa míns hér.

 

 


Ég skora á ykkur að svara!

Hvað er svona háðskt í þessari grein?  Að einhverjum vitleysingi úti í Ameríku finnist það fyndið að skjóta frekar okkur í tætlur en þjóðina sem stjórnmálaforingjar hans eru nú að undirbúa stríð gegn?

Ég skora á ykkur öll að svara þessari dellu og krefja ritstjóra Daily Princetonian um afsökunarbeiðni.  Það er hægt að gera með því að smella í "Respond to this article" fyrir neðan greinina sjálfa.

Hér er mitt litla letter til ritstjórans:

Regarding 'Bomb Iceland instead of Iran' (Monday, April 9, 2007):

Dear edtior of DailyPrincetonian.com

Could you explain to us little targets up here on which merits Mr. Uwe E. Reinhardt was appointed a James Madison Professor at the Wilson School?

You should seriously consider an apology to the Icelandic people for publishing such rubbish.  Or better yet, consider sending mr. Reinhardt to Iceland, for at least here we have hospitals for the mentally disturbed.

No wonder why the world has mixed feelings for the US foreign policy.  When will you learn that war is NOT fun and games? I thought you might have after 9/11, but I seriously wonder when a professor of political economy at a respected university so bluntly displays his twisted an perverse views on the world.

Bergthora Jonsdottir
Reykjavik,
Iceland

 


mbl.is Nær að sprengja Ísland en Íran
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jón Bragi

jón bragiLaugardagskvöldi og ég er að passa litla snáðann hann Jón Braga systurson minn sem verður ársgamall í apríl.  Að vanda setti hann upp skeifu þegar ég kom.  Hann tók gleði sína þegar ég fór að mata hann, en þurfti reglulega að taka sér hlé frá borðhaldinu  til að fylgjast með auglýsingum í sjónvarpinu.  Hann verður sérfræðingur í auglýsingum þegar hann verður stór.

Jóni Braga finnst ég fyndin þegar ég bulla, og þess vegna bulla ég mikið þegar ég er með honum.  Hittarinn í kvöld var að syngja Afi minn og amma mín.... með nýjum texta:

Afi, afi, afi, af

amma, amma, amma,

Ólöf, Ólöf, Ólöf, ól,

Íma, Íma, Íma,

 Næsta erindi var í sama dúr, en með nöfnum annarra fjölskyldumeðlima sem hann þekkir.  Litlu verður Vöggur feginn... segir í sögunni, og litli vöggurinn í Hjaltabakka 8 barðist við að halda sér vakandi til að geta hlustað á fleiri erindi af þessum kjarnyrta skáldskap. 


Sinfó túrar

Nú er Sinfóníuhljómsveit Íslands lögð upp í ferðalag til Þýskalands, Króatíu og Austurríkis.  Sinfó er auðvitað á vinalistanum mínum hér til hægri, en minni enn frekar á lifandi ferðasöguna sem verður hér á Moggablogginu daglega.

http://sinfonian.blog.is/blog/sinfonian/


Sólskin á Suðurlandi

Fundurinn í Árnesi ætti að vera yfirvöldum / Landsvirkjun ágætis ráðning og áminning um að umboð þeirra til áframhaldandi skemmdarverka á náttúrunni  er ekkert.  Það verður ekki meira tekið af þessu landi til að þóknast ógrundari græðgi, sem hefur ekkert í för með sér þegar til lengri tíma er litið annað en eyðileggingu, mengun og ljótleika, fyrir utan allt raskið á högum fólks sem á svæðinu býr.

Ég rakst á áhugavert innleg jarðfræðings nokkurs, Sigurðar Ásbjörnssonar, sem sagði frá fundinum og lýsti sínum sjónarmiðum.  Mér finnst að allir sem láta sig þessi mál varða - hinir líka - ættu að lesa pistil hans:

http://sas.blog.is/blog/sas/entry/120772/


mbl.is Troðfullt í Árnesi á fundi gegn virkjunum neðri hluta Þjórsár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kæra Siv og þið hin

  • Hvernig þætti þér að vakna  við það að í stað hægri handleggs þíns værirðu kominn með handlegg mannsins í næsta húsi, og þyrftir að vera þannig það sem eftir er?

 

  • Hvernig þætti þér að að komast ekki í klippingu nema gegn því að skila vottorði frá geðlækni um að þú þurfir á klippingunni að halda til að rjúfa félagslega einangrun þína? 

 

  • Hvernig þætti þér ef þú misstir framtönn, að fá bleika plasttönn, af því að þú ert ekki nægilega félagslega einangruð manneskja til að mega fá tönnina sem passar við þínar tennur?

 

  • Hvernig þætti þér ef þú misstir útlim, að þurfa að koma með vottorð árlega til Tryggingastofnunar til sönnunar þess að örorka þín hafi ekki breyst - með öðrum orðum að ekki hafi vaxið á þig nýr útlimur?

Er að undra að viðhorf til öryrkja séu blendin, þegar heilbrigðisyfirvöld ganga á undan með slíkri niðurlægingu í garð fólks sem þarf á hjálp að halda?

Ég hvet ykkur til að lesa viðtal við Sigríði systur mína á miðopnu Morgunblaðsins í dag, sem er tilefni forsíðufréttar blaðsins, og hugsa málið


Ég elska...

Ég elska svona daga, gráskjöldótta, safaríka, heita, myrka og mystíska.  Maður stígur í svörðinn, veit ekki hvort hann heldur eða maður sekkur niður í gráðug iður jarðarinnar, blaut og klístruð.  Vatnssollinn svörður, þokumettaður himinn, beinaber tré.  Allt getur gerst.  Í svona degi býr sprengikrafturinn, sem getur leyszt úr læðingi algjörlega fyrirvaralaust. 

Það er eitthvað á seiði.

Eitthvað magnað.

Eitthvað gott.  

 

B


Eigi leið þú oss í freistni

Ég álpaðist til að horfa á Kompássþáttinn á stöð 2 sem verið hefur á hvers manns vörum síðan um helgi. Þvílík skelfing það sem þar kom fram.

Hins vegar settust að í mér einhver ónot yfir því sem þarna fór fram af hálfu fjölmiðilsins.

Hvaða rétt hefur fjömiðill – eða hver sem er, ef út í það er farið, til að egna fólk til freistinga? Amma mín hefði sagt að það væri ljótur leikur og vísað í faðirvorið: Eigi leið þú oss í freistni..." Í sjálfu sér finnst mér það líka ákaflega vafasamur gjörningur, sem kveikir margar siðferðisspurningar. Hvar liggja mörk þess að tilgangurinn helgi meðalið? Og hver á að meta það hvar þau mörk liggja? Það bendir allt til þess að gerandinn í málinu sem um var rætt, sé mjög sjúkur, og ég hefði haldið það mál heilbrigðiskerfisins að tækla hans vanda, eftir að lögreglu hefði verið gert viðvart og meðferð dómskerfis. Líklega hafa þeir aðilar brugðist. Ég sé samt ekki alveg tilganginn með að bera þetta á torg, nema ætlunin sé að gefa fólki eitthvað að smjatta á. Með þessu er ég ekki að bera í bætifláka fyrir manninn, hans hryggilegu fíkn, eða gera lítið úr hörmum fórnarlamba hans. Mér finnst hins vegar ekki sjálfsagt að fjölmiðill taki sér vandmeðfarið vald til að gera sér mat úr ógæfu annarra.

 

Bergþóra Jónsdóttir

Ljósvaki, Morgunblaðinu, 25. janúar 2007


L - fyrir lúsera?

Æi, æi, æi

 

Á þetta framboð aldraðra og öryrkja ekki að vera alvöru?  Og nú eru þau orðin tvö?  Og hryggilegast er að bæði virðast þau ætla að spreða atvinnukverúlöntum og eilífðarframbjóðendum í öndvegi.  Þetta líst mér EKKI á. 

Plís, sjáið að ykkur!

Ef þetta framboð á að verða marktækt og raunverulegur valkostur fyrir brýn málefni, þá þarf eitthvað trúverðugra og betra en þetta.

B


L - fyrir lífið

Frábært!

Nú ætla ég bara að vona að undirbúningsnefndin sýni þá skynsemi að stilla EKKI upp í framboð fólki sem hefur verið á listum pólitísku flokkanna.  Það yrði dauðadómur yfir þessu tiltæki.  Svo geri ég að sjálfsögðu kröfu um að konur verði vel sýnilegar í á listum flokksins.  Það vantar ferskt blóð og nýjar raddir til að tala máli þessara hópa.  Það þarf að sýna fram á fjölbreytileika þeirra og styrk og margvíslegt gildi fyrir samfélagið. Krafan um mannsæmandi kjör og líf aldraðra og öryrkja verður á oddinum og tími kominn til.

 

Hér er loksins að verða til framboð sem í raun og sann hefur málefni að berjast fyrir, EKKI hagsmunapot einstaklinga.  Svo má ekki vanmeta það að hér skapast líka verðugt tækifæri og góður valkostur fyrir alla þá sem eru búnir að fá sig fullsadda af íslenskri flokkapólitík sem er full af inngrónum meinum.

L - fyrir ellismelli!

L - fyrir lítilmagnann!

L - fyrir lífið!

 

Baráttukveðjur!

Bergþóra Jónsdóttir


mbl.is Aldraðir og öryrkjar stofna til framboðs fyrir næstu Alþingiskosningar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Saddam og pabbi

Það verður fróðlegt að fylgjast því sem skrifað verður um Saddam Hussein næstu daga og vikur, og því sem spyrst út um líf hans.  Hvers konar maður myrðir eigin þjóð?  Það sem gerir þetta afar forvitnilegt í mínum huga er þetta:

  • Hann elskaði dætur sínar
  • Hann gaf smáfuglunum
  • Hann hafði gaman af að lesa

Ef ég væri ekki að vitna í fréttir, þá hefði þessi upptalning alveg eins getað átt við pabba minn, - þetta er skuggalega líkt honum  - alveg eins "so far"- og pabbi er hvorki harðstjóri né eitthvað þaðan af verra. 

Kannski að þetta segi manni að engum sé alls varnað og að biskupinn hafi haft á réttu að standa þegar hann talaði um iðrunina.    Einhvers staðar er sá strengur sem gerir okkur öll að manneskjum, og þótt iðrun þurrki ekki burt voðaverk og glæpi, þá er hún til marks um obbolítinn guð í sálinni, og eitt er víst að öll vorum við einu sinni litlu krúttin hennar mömmu sín...

...en einhvers staðar á leiðinni skildi á milli pabba og Saddams


mbl.is Saddam gaf fuglunum og las í fangelsinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kristileg samviska

Ofboðslega er ég ánægð með að biskupinn og fleiri kirkjunnar menn skuli segja skoðun sína á aftöku Saddams umbúðalaust.  Heyrði í Þorbirni Hlyni í RÚV um daginn, og hann talaði jafn tæpitungulaust og séra Karl.  Hefndir og hatur munu lifa góðu lífi meðan stjórnmálamenn og dómstólar í nafni heilu þjóðanna telja sig þess umkomna að taka mannslíf.  

Eitthvað mjög pervert við fögnuð Bush og talið um að aftakan sé hornsteinn í þróun Íraks í átt til lýðræðis.  Ætli Bush trúi því sjálfur að við trúum því að hann hafi trúað því að stríðið í Írak snúist um Saddam? 


mbl.is Biskup Íslands gagnrýnir aftöku Saddams
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég er mát

Hélt einhver einhvern tíma eitthvað annað?  En auðvitað er merkilegra að vera súnní klerkur en simple simon...
mbl.is Súnní-klerkar segja Bandaríkin standa að baki aftöku Saddams Hussein
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eigið þið ólífur?

Ég er að velta því fyrir mér hvort ég hafi afbrigðilega lágan gleðiþröskuld.  Það hlýtur að vera miðað við það hvað mörgum stökk ekki bros yfir áramótaskaupinu.  Ég hló og hló. Ég á til dæmis eftir að gleðjast í hvert sinn sem einhver býður mér ólífur.

Smekklaus aðventa Alcan

Ég þarf að hafa mig alla við að missa mig ekki í meiri háttar pirring þegar "jólaauglýsing" Alcoa birtist á skjánum.  Á þetta að vera eitthvert ímyndarpepp?  Furðulegt háttarlag að nota aðventusálm í henni  og keyra auglýsinguna svo af mestum þunga þegar aðventan er liðin.  Hátíð fer að höndum ein...  Smekkleysan er svo toppuð með því að leyfa ekki sálminum að lifa til enda heldur klippa aftan af honum síðasta vísuorðið, þannig að manni líður eins manni sé snúið við niður á leið þegar maður á einn metra eftir upp á Everest.  Ef ég man rétt er sálmurinn svona:

Hátíð fer að höndum ein

hana vér allir prýðum.

Lýðurinn tendri ljósin hrein,

líður að tíðum,

líður að helgum tíðum.

 

Þegar botninn vantar, vantar eitthvað mikið, ekki síður í lagið en ljóðið.  Þetta er ótrúlega ljótt, og furðuleg smekkleysa hjá þeim sem búa auglýsinguna til.  Það er ekkert hægt að líkja þessu við það þegar brot úr lögum eru notuð í auglýsingar, hér er greinilega gert út á lagið sjálft, kórinn, einsönginn og kórstjórann.  Þetta er heldur ekkert venjulegt gling-gló, þetta er einn elsti og hátíðlegasti aðventusálmur okkar.  Uppstrílað og samkvæmisklætt söngfólk stingur líka skelfilega í stúf við látleysi lagsins. Þessi vinnugalli hefði hentað fyrir óperettukvöld - ekki þetta lag.  Þessi auglýsing fer á toppinn yfir þær tíu verstu á árinu, - með Orkuveituauglýsingunni.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Bergþóra Jónsdóttir
Bergþóra Jónsdóttir

Spurt er:

Á að aðskilja ríki og kirkju?
Er flokkakerfið úrelt?

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband